Á aðventunni hefur ég verið með umfjöllun um aðventu- og jólasálma og siði frá ýmsum löndum. Þættirnir voru upphaflega á útvarpsstöðinni Lindinni á aðventu og um jól 2020.
Fyrsti þátturinn er um þá jólasálma sem mér finnst fallegastir hjá okkur Íslendingum og velti fegurðinni í þeim fyrir mér. Sálmurinn Sjá himins opnast hlið eftir Björn Halldórsson í Laufási er einn af þeim, Bjart er yfir Betlhem eftir Ingólf Jónsson frá Prestsbakka, Nóttin var sú ágæt ein eftir Einar Sigurðsson frá Heydölum, Hin fegursta rósin er fundin eftir Brorson í þýðingu Helgi Hálfdanarson forstöðumanns prestaskólans, Heims um ból eftir Sveinbjörn Egilsson.
Fegurð jólasálmanna. Það kemur fyrir þegar við prestarnir erum fengnir til að tala á jólafundum að það er nefnt við okkur að segja eitthvað fallegt um jólin. Mér datt í huga að taka þeirri áskorun að segja eitthvað fallegt. Fegurð er eðlilega smekksatriði svo að hér tala ég út frá mínum bæjardyrum séð.
Fegurð jólanna er ekki í ljósaskreytingum fyrst og fremst að mínu mati þó gangast sumir upp í því að klifra upp undir þakskegg í frosti og funa og hæstu tré til að lýsa upp skammdegið. Þökk sé þeim þá birtir aðeins í skammdegismyrkrinu. Fegurðin er ekki heldur í því fólgin fyrst og fremst að prýða heimilin né heldur í glæsilegum veisluborðum með krásum svo miklum að borðin svigna undan þeim. Óneitanlega er þetta allt heillandi og bragðgott er jólahaldið. En frá mínum bæjardyrum séð er fegurð jólanna í kirkjum og heimilum þegar klukknahringingarnar óma og jólasálmarnir hljóma. Þá grípur mig og hríslast um mig fegurðartilfinning.
Þess vegna tók ég mér það fyrir hendur í morgun að lesa jólasálmana og ryfja þá upp og finna fellegustu versin að mínu viti. Hvað er það sem hreyfir við fegurðartilfinningunni í jólasálmunum?
Ég má til með að byrja á jólasálmi Björns Halldórssonar (1823-1882) í Laufási: Sjá, himins opnast hlið. (Sb. 88). Þar birtist Guðs englalið. Ef ég ætti að myndskreyta annað versið þá myndi ég gera það með mynd af norðurljósunum dansandi frá Vaðlaheiðinni yfir á Súlur og Hlíðarfjall. Mér finnst eins og Björn hafi haft þau í huga. Meistaralega meitlaði hann út orðin, vandlátur eins og hann var með kveðskap sinn, sem er ekki mikill af vöxtum, en því betri:
1. Sjá, himins opnast hlið,
heilagt englalið,
fylking sú hin fríða
úr fagnaðarins sal,
fer með boðun blíða
og blessun lýsa skal
:,: yfir eymdadal. :,:2. Í heimi’ er dimmt og hljótt,
Sb. 88 – Björn Halldórsson
hjarðmenn sjá um nótt
ljós í lofti glæðast,
það ljós Guðs dýrðar er,
hjörtu þeirra hræðast,
en Herrans engill tér:
:,: „Óttist ekki þér.“ :,:

Þau heilla mann sálmaskáld rómantísku stefnunnar, tilfinningarík, samúðarfull með samferðafólki sínu. Það er mannleg reisn yfir þeim, togstreytur og andstæður takast á hjá þeim, ljós og myrkur, himinn og jörð. Alþýðuhöfðinginn Björn Halldórsson sá himininn opinn yfir sveitinni í fjarðarminninu, landinu og þjóðinni. Hann hvetur alla að taka undir lofsönginn til Guðs. En englaliðið er ekki fegurðin mesta í jólasálminum.
Áður en við höldum áfram með þessar vangaveltur um fegurstu jólaversin skulum við hlusta á þennan fallega sálm í fluttningi Maríu Másdóttur á jólatónleikum Gospelkórs Hvítastunnukirkjunnar.
Sjá himins opnast hlið
Kannski finnst einhverjum ég ganga of langt og vera farinn að spila jólasálma sem við ættum ekki að syngja fyrr en á jólum. En mér finnst það gott að nota aðventuna sem undirbúning fyrir jólahátíðina. Og hvers vegna ekki að æfa jólasálmana svo við séum tilbúin þegar jólahátíðin gengur í garð og hugleiða þá svo að þetta undur jólanna opnist okkur svo þegar jólin koma með fegurð sína.
Ég sagði að englaliðið er ekki fegurðin mesta í jólasálmunum. Og fegurðin mesta er ekki heldur að finna í ævintýraljóma jólaguðspjallanna eins og hann endurómar í jólasálmunum. Englunum fylgir ljósið um miðja nótt. Stjarnan skín á næturhimninum og leiðir vitringana til Betlehem. Við eigum ekki marga jólasálma um ferð þeirra, líklega vegna þess að sú frásaga tilheyrir þrettánda degi jóla hjá okkur, þá erum við búin að fá nóg af jólahaldi alla aðventuna og jóladagana þrettán. Ég vek athygli á því að þeir eru þrettán svo það er á annan mánuð að við erum að standa í þessu jólahaldi. Bjart er yfir Betlehem (Sb. 80) eftir Ingólf Jónsson (1918-1993) frá Prestsbakka er fagur í barnslegri trú sinni. Hann hvetur okkur að fylgja stjörnunni:
1. Bjart er yfir Betlehem,
Sb. 80 – Ingólfur Jónsson
blikar jólastjarna.
Stjarnan mín og stjarnan þín,
stjarnan allra barna.
Var hún áður vitringum
vegaljósið skæra.
Barn í jötu borið var,
barnið ljúfa, kæra.
Hann endar sálminn eins og hann byrjar með endurómun af upphafinu:
3. Bjart er yfir Betlehem,
Sb. 80 – Ingólfur Jónsson
blikar jólastjarna.
Stjarnan mín og stjarnan þín,
stjarnan allra barna.
Við skulum hlusta á þenna sálm. Það er synfoníuhljómsveit og barnakór sem flytja.
Þetta er orðin aðventusálmurinn og gott að þetta óræða guðspjall og dularfulla á sér samastað hjá okkur í þessum sálmi. En þessi ævintýralega mynd af konungunum þremur á úlföldum upplýstir af stjörnunni á næturhimninum með helgisagnablæ er falleg en þó ekki fegurðin mesta í jólasálmunum.
Báðir þessir sálmar sem við höfum hlutað á leiða okkur að aðal atriðinu og þar er fegurðin mesta. Ingólfur Jónsson orðar það svo „Barn í jötu borið var“ og Björn Halldórsson umorðar ræðu engilsins:
3. Með fegins fregn ég kem:
Sb. 88 – Björn Halldórsson
„Fæðst í Betlehem
blessað barn það hefur,
er birtir Guð á jörð,
frið og frelsi gefur
og fallna reisir hjörð.
:,: Þökk sé Guði gjörð.“ :,:
Þar er fegurðin mesta í jólasálmunum og aðal mið og inntak þeirra allra. Þriðji sálmurinn sem ég vil nefna er Nóttin var sú ágæt ein (Sb. 72). Þar gælir skáldið Einar Sigurðsson (1538-1626) frá Heydölum við þessa gleðilegustu og fegurstu hugsun mannlífsins. Hann yrkir vögguvísu, þar sem jólaboðskapurinn er sunginn fyrir barnið sem er að sofna, en breytist í myndhverfingu þegar líður á sálminn. Hann gælir við hugsunina sem er endurtekin í viðlaginu „ég vögguna þína hræri“ og fer svo að tala við Jesúbarnið, biðja hann. Maður getur ímyndað sér að mannsbarnið sé sofnað og skáldið leiðir hugann til Guðs síns meðan hann dáist að barninu sínu. Er ég nokkuð orðin of kvenlegur? Sálmaskáldið er það! Við skulum kannast við þessar djúpu tilfinningar í hjarta okkar, yndislegustu stundir lífsins að biðja með barninu sínu, blessa það og biðja fyrir því og með því. Þar er Guð, fegurð lífsins. Í þessum sálmi falla saman fegurð himins og jarðar, svo að jarðlífið verður himneskt. Þetta er himneskt erindi, sem birtir fegurðina mestu, mögnuð dulúð, samsemd mannheims og Guðs, við vögguna – við jötuna:
5. Þér gjöri’ eg ei rúm með grjót né tré,
Sb. 72 – Einar Sigurðsson
gjarnan læt ég hitt í té,
vil ég mitt hjartað vaggan sé,
vertu nú hér, minn kæri.
:,: Með vísnasöng ég vögguna þína hræri. :,:
Við skulum nú hlusta á þennan fallega sálm fluttann á jólatónleikum Fíladelfíu.
Jólasálmarnir snúast hvorki um himnagláp né stjörnuspeki heldur leiða okkur að lífinu eins og það er, birta okkur barnið, sem við höfum í höndum okkar, hjarta, svo nálægur er Guð, að hann óx upp af mannkyni eins og blóm. Einn fallegasti titill sem Jesú var eignaður er nafnið: Immanúel. Margir sálmarnir dvelja við það nafn sem þýðir: Guð er með okkur, hjá okkur, nálægur.

Myndmálið um blómið sem sprettur upp um miðja vetrarnótt dregur fram þessi sannindi. Helgi Hálfdanarson (1826-1894) forstöðumaður prestaskólans þýddi sálm Brorsons: Hin fegursta rósin er fundin (Sb. 76). Þar er þetta erindi:
3. Þá skaparinn himinrós hreina
Sb. 76 – Brorson í þýðingu Helga Hálfdanarsonar
í heiminum spretta lét eina,
vorn gjörspilltan gróður að bæta
og gjöra hans beiskjuna sæta.
Í þessu erindi kemur fram kærleikur að kristnum skilningi og þar birtist okkur fegurðin í raunveruleikanum. Þar er kærleikurinn, hann forðast ekki þjáninguna heldur skuldbindur sig barninu, hinum smæstu, þeim sem líða og þjást, þeim minnstu okkar á meðal. Það er sönn mannúð sem varir að eilífu.
Hin fegursta rósin er fundin
Sveinbjörn Egilsson (1791-1852), rektor og skáld, slær að sjálfsögðu smiðshöggið á verkið með Heims um ból (Sb. 82). Orðsnildin og fegurð málsins leiðir okkur fyrir sjónir lávarð heims í tilbeiðslu jólanna. Hlustum á fegurð orðanna í síðasta erindinu:
3. Heyra má himnum í frá
Sb. 82 – Sveinbjörn Egilsson
englasöng: „Allelújá.„
Friður á jörðu, því faðirinn er
fús þeim að líkna, sem tilreiðir sér
:,: samastað syninum hjá. :,:
Fegurð jólasálmanna er fegurð hins sanna lífs sem bjargar okkur í erfiðustu vandamálum líðandi stundar, kærleiksleysinu, tómleikanum og sinnuleysinu, gefur von og trú, sem varir, hvað sem gengur á.
Ég er nú þeirrar skoðunar að Heims um ból syngjum við ekki fyrr en jólin ganga í garð og þess vegna geymum við okkur þann sálm og bíða með það, vegna þess að undirbúningur jólanna felst í því að bíða og vænta. Ef maður kann það ekki þá nær maður varla að lifa gleði jólanna á sem bestan hátt. En í staðan hlustum við á sálminn Þú borgin litla Betlehem og það er frá jólatónleikum Fíladelfíu.
Þar með ljúkum við þessari umfjöllun um fegurð jólasálmanna en í næsta þætti ætla ég að bregða mér í annað land. Við förum til Þýskalands og skoða venjur þar og söngva sem sungnir eru á aðventu og um jól. En þá heyrum við sálminn: Þú borgin litla Betlhem.