Aðventu og jólasálmar frá Þýskalandi

Í 2. þætti um um aðventu og jól er fjallað um aðventu og jólasálma frá Þýskalandi. Hvaðan kemur aðventukransinn? Ég veltir fyrir mér góðum helgisiðum og heimilisguðrækni um aðventu og jól. Sálmarnir sem hann skoðaðir eru: Við kveikjum einu kertiá í þýðingu Lilju Kirstjánsdóttur. Hér leggur skip að landi eftir Sigurbjörn Einarsson með hliðsjón af þýskum texta. Það aldin út er sprungið í þýðingu Matthíasar Jochumssonar. Af himni ofan boðskap ber og Heiðra skulum við Herrann Krist sem eru eftir siðbótarmanninn þýska Martein Lúther í þýðingu Stefáns Thorarensen.

Aðventa, jól og áramót. 2. þáttur

Í dag ætla ég að líta til Þýskalands og aðventusiða þar sem við könnumst vel við vegna þess að þeir hafa orðið mjög útbreiddir hjá okkur á Íslandi. Það er aðventukransinn. Í þjóðkirkjunni hefur þessi siður eða venja orðið þáttur í helgisiðum aðventunnar bæði í söfnuðunum en líka á heimilunum. 

Nokkur orð um helgisiði. Kirkjudeildirnar hafa mjög ólíka sýn á þá. Í kaþólsku kirkjunni virðast þeir vera uppistaðan í trúarlífinu en í hvítasunnukirkjunni er lögð áhersla á frjálst samkomuform. Þjóðkirkjan eða evanglisk lútherska kirkjan er einhvers staðar mitt á milli. En þessi siður að kveikja á aðventukerti er dæmi um helgisið. Vita ekki flestir að annað kertið heitir Betlhemskertið? Hlutverk helgisiðanna í trúarlífinu er að þeir miðla þekkingu eða trúararfinum milli kynslóða. Þeir eru sterkir þar sem þeir tengjast samfélaginu eða  söfnuðunum sem við tilheyrum. Þeir vari við jafnvel lengur en hugsunin sem við þá eru tengdir, þeir fela í sér arf, sem getur auðgað okkur. En það er rétt að vera á varðbergi gagnvart þeim því við menn eigum það til að setja hefðirnar okkar í stað Guðs og við höfum varnaðarorð Jesú að við eigum ekki að taka venjur og siðir fram yfir samfélagið við Guð og kærleikann. Engu að síður komumst við ekki hjá því að lifa við ákveðnar venjur. Þannig erum við gerð úr garði af Guði, held ég. Þátttaka mín í samkirkjulegu starfi hefur kennt mér að skilja ólík sjónarmið kristinna manna m.a. varðandi helgisiði. Aðventukransinn er ágætt dæmi um málefnið sem hér um ræðir. 

Aðventukransinn

Nú hef ég verið á þeysireið um héraðið að taka upp aðventustundir í söfnuðum þjóðkirkjunnar. Alltaf er aðventukransinn mikilvægur þáttur í þeim stundum. Það hríslast um mann einhver notaleg jólatilfinning þ.e.a.s. maður áttar sig á því jólin eru að koma, undirbúningurinn er hafinn, við fáum forsmekk að því sem koma skal. Það er aðventa, orðið aðventa er latína og merkir koma eða nákvæmar tilkoma og vekur eftirvæntingu. Það er þá líka gamla venjan að íhuga og lesa í mörgum kirkjudeildum um komu Jesú, fyrst innreið hans inn í Jerúsalem á fyrsta sunnudegi í aðventu, þá undirbúning Jóhannesar skírara fyrir komu Jesú, og að lokum á fjórða sunnudegi er lesið um endurkoma Jesú í mætti og dýrð. 

Aðvetnukrans í Grenjaðarstaðarkirkju

Hlustum nú á aðventusálminn: Við kveikjum einu kerti á, sem ég held að vel flestir kannist við. Það er þýðing Lilju Kristjánsdóttur á þýskum sálmi sem hefur verið sunginn meðan kveikt er á kertunum á aðventustjakanum. Lilja er svo barnslega einlæg í ljóðum sínum og höfðar svo vel til barna. Sá siður dreifðst fyrst um Norðurlöndin og svo til okkar um 1940. Þó að það sé bara kominn annar sunnudagur í aðventu skulum við hlusta á öll erindin. Við erum að hugsa um aðventu og jólasálma og merkingu þeirra til að undirbúa okkur fyrir komu jólanna. 

Það er Ellen Kristjánsdóttir og KK sem flytja þennan sálm:

Við kveikjum einu kerti á.
Hans koma nálgast fer,
sem fyrstu jól í jötu lá
og Jesúbarnið er.

Við kveikjum tveimur kertum á
og komu bíðum hans,
því Drottinn sjálfur soninn þá
mun senda’ í líking manns.

Við kveikjum þremur kertum á,
því konungs beðið er,
þótt Jesús sjálfur jötu og strá
á jólum kysi sér.

Við kveikjum fjórum kertum á.
Brátt kemur gesturinn,
og allar þjóðir þurfa að sjá,
að það er frelsarinn.

Sb. 560 – Muri – Lilja S. Kristjánsdóttir

Ég get ekki státað af mikilli heimilisguðrækni en á aðventunni höfum við heima fylgt bænabók Karls Sigurbjörnssonar biskups. Mæli ég með því. Þar setur hann upp stutta helgistund fyrir heimilin. Þannig verðum við líklega að hafa það núna að leggja rækt við heimilisguðrækni þar sem við megum ekki koma saman fleiri en tíu í söfnuðunum. Á hverjum aðventusunnudegi er íhuguð Ritningarvers sem tengjast nöfnum kertanna fjögurra. Þau hafa hvert sitt nafn. Um leið og kveikt er á kerti er viðeigandi vers sungið af þessum sálmi samkvæmt deginum. Ég á dálítið bágt með að muna röðina á kertunum svo það er ágætt að hafa það á bók: Spádómskertið kemur fyrst, svo Betlehems kertið, þá Hirða kertið og síðast engla kertið. Þá kemur stutt bæn og fyrirbæn og söngur. Og má ég að segja, rúsínan í pylsuendanum: Smákökur og mjólk. Það er reyndar ekki nefnt í bænabókinni en er góð viðbót. Borðsamfélag er mikilvægur þáttur í kristninna. Það var gamall siður í frum kristninni eftir að söfnuðurnir hafði neytt heilagrar kvöldmáltíðar sem var gjarnan á heimilum til að byrja með þá var haldin kærleiksmáltíð. Svo má æfa sig að syngja jólasöngvana og njóta þess að vera saman í birtunni af kertunum. 

Það má gjarnan slá á léttari strengi. Það er til ótal, eigum við að kalla það, jóla-gamanvísur, rugl kveðskapur, eins og “upp á stól stendur mín kanna”, og engin botnar í þessu. Síðast sagði ég að jólahaldið væri bragðgott en það á náttúrlega líka að vera skemmtilegt með hátíðleikanum. Víða er þessi kveðskapur leikur að orðum. Þessi þýski söngur sem við ætlum að heyra næst er aðventusöngur, er reyndar nokkuð djúpur en hefur skemmtilegt myndmál: Hér leggur skip að landi (Sb. nr. 559). Þar kemur Jesús siglandi á skipi til okkar og velt er vöngum yfir myndinni í öllum erindunum. Auðvitað er það vísun í undrin við vatnið (Finna staðinn). Það er skemmtileg taktskipti í laginu eins og við Íslendingar erum þekktir fyrir. Því miður hefur trillutakur nútímans gert okkur ónæm fyrir fjörugum takti miðaldatónlistarinnar sem fylgdi fjölbreyttum dönsum. Við megum til með að átta okkur á þessum skemmtilega danstakti miðaldanna, jafnvel þegar spilað er á orgel. Fyrst við erum að fjalla um þýskar aðventuhefðir skulum við hlusta á þýska útgáfu. Sigurbjörn Einarsson biskup hefur þýtt sálminn eða haft hliðstjón af þýska textanum. Heyrum fyrsta erindið á þýsku svo les ég þýðingu Sigurbjörns.

Es Kommt Ein Schiff á þýsku

Hér leggur skip að landi,
sem langt af öllum ber,
en mest ber frá um farminn,
sem fluttur með því er.

Þar kemur sæll af sævi
Guðs son með dýran auð:
Síns föður náð og frelsi,
hans frið og lífsins brauð.

Hann braust í gegnum brimið
við bjargarlausa strönd
að seðja, líkna, lækna
og leysa dauðans bönd.

Sinn auð hann fús vill færa
þeim fátæku á jörð,
og endurgjaldið eina
er ást og þakkargjörð.

Sb. 559 – Sigurbjörn Einarsson, með hliðsjón af þýskum texta

Aðventukransinn á þannig að undirbúa okkur fyrir komu jólanna, sem er ekki bara hátíð, heldur koma Guðs sonar til okkar. Það er í tilbeiðslu og bæn sem við tökum á móti honum. Og þess vegna eigum við að taka aðventuna frá til bæna og íhugunar, taka okkur stundir, eða öllu heldur að gefa Guði tímann aftur sem hann gaf okkur. Það er upplagður tími til þess á þessari aðventu þegar margir verða að halda sig heima með fjölskyldu sinni og börnum.

Þessi þýska saga um aðventukransinn er ágæt áminning.

Þýsk saga um aðventukertin

En um aðventukertin er líka til þýsk saga, er ber heitið „Fjögur kerti“. Höfundur hennar er ókunnur en þýðinguna gerði Pétur Björgvin Þorsteinsson, djákni og kær vinur minn. Sagan er á þessa leið: 

Það var búið að kveikja á öllum fjórum kertunum á aðventukransinum. Í kringum þau ríkti þögn. Ef einhver hefði verið nálægur þá hefði hann heyrt kertin tala saman.

Fyrsta kertið andvarpaði og sagði: „Ég er friðarkerti. Ljós mitt lýsir en fólkið býr ekki í friði hvert við annað. Fólkinu er alveg sama um mig!“ Ljósið á fyrsta kertinu varð minna og minna þangað til það slokknaði alveg.

Annað kertið flökti og sagði: „Ég heiti trú. En ég er alveg óþarfi. Fólkinu er alveg sama um Guð, það vill ekkert af honum vita. Það hefur engan tilgang að það sé ljós á mér.“ Krafturinn í kertinu sem nefndi sig trú var þrotinn. Lítill trekkur dugði til. Ljósið slokknaði.

Með lágri, dapurri röddu tók þriðja kertið til máls: „Ég heiti kærleikur. En ég hef enga orku til þess að láta ljós mitt skína. Fólkið er búið að ýta mér til hliðar. Það sér bara sig sjálft og ekki náungann sem þarf á kærleikanum að halda.“ Að þessum orðum mæltum slokknaði á þriðja kertinu.

Lítið barn kom inn í herbergið þar sem aðventukransinn stóð á borðinu. Með tárin í augunum sagði það: „Mér finnst ekki gaman þegar það er slökkt á ykkur.“

Þá svaraði fjórða kertið: „Ekki vera hrætt, kæra barn. Meðan ljós er á mér getum við kveikt á hinum kertunum. Ég heiti von.“ Það var gleðisvipur á andliti barnsins þegar það notaði ljósið af vonarkertinu til þess að kveikja á kærleikskertinu, trúarkertinu og friðarkertinu. Að því loknu sagði barnið eins og við sjálft sig: „Nú geta jólin komið í alvöru.“

Þýsk aðventusaga í þýðingu Pétur Björgvins Þorsteinssonar

Þessi saga gefur okkur tilefni til að íhuga þessi fjögur þemu aðventunnar: Trú, von og kærleikur er kristnu dyggðirnar þrjár. Friður er það sem við þráum og biðjum um sérstaklega um jól. Friðarjól tölum við um. Ég hef heyrt frásagnir af því að hermenn lögðu niður vopn um jól, menn af ólíkum skoðunum og þjóðerni en áttu sameiginlega trú sitt hvoru megin við víglínuna. Mér finnst þetta skrýtið en birtir okkar djúpu þrá eftir friði sem jólin boða okkur. 

Von, kærleikur, trú, friður

Fjögur kerti og fjögur íhugunarefni. Mér fannst einhver tíman þegar ég las þýðingu Lilju að það vantaði nöfnin á kertin fjögur: Spádóms kertið, Betlehems kertið, hirða kertið og engla kertið. Samdi þá þessar vísur með þessi íhugunarefni í huga von, kærleikur, trú og friður. Og það féll saman við nöfnin á kertunum í öfugri röð fannst mér eftir að vonarkertið breiddi út ljósið meðal okkar eins og segir í sögunni sem ég las áðan. Kveðskapur gerist bara en nöfnin á kertunum fundi sitt orð sem þau tengdust. Vona ég að myndirnar sem brugðið er upp festi þessar hugsanir í hug og hjarta þínu. Það er gott að íhuga það á aðventu og um jól.

Við kveikjum einu kerti á,
svo kvikni vonarglóð
af spádómum um soninn Guðs,
hann signir börnin góð.

Við kveikjum öðru kerti á,
svo kærleiksljósið skín
við móðurbarm í Betlehem,
hann breiðir faðm til mín.

Við kveikjum þremur kertum á,
það kallast trúin tær,
með hirðum krjúpum, heiðrum Krist,
hann heillaóskir fær.

Við kveikjum fjórum kertum á,
svo komist friður á
að boði engla á bjartri nótt,
hann blessar himni frá.

Guðm. G
Aðventustund frá Grenjaðarstaðarkirkju 2020

Við skulum nú hlusta á þekktan jólasálm frá Þýskalandi: Það aldinn út er sprungið, frá siðbótartímanum. Enn er brugðið upp myndmál jólanna. Það er liljurósin sem lífgar og kveikir kærleiksljósin. Lagið er eftir óþekktan höfund frá 16. öld. Matthías Jochumsson þýddi það meistaralega á íslensku. Ég tók það upp í Gernjaðarstaðarkirkju í síðustu viku. Þeir söngfélagarnir Arnþór Þortsteinsson og Jónas Þór Viðarsson settu saman aðventudagskrá sem er aðgengileg á vefnum. Dásamlegur tvísöngur þó ekki dæmigerður íslenskur. Vel á minnst þannig getum við auðgað jólahald okkar að þessu sinni með því að taka upp heimilisguðrækni í kringum aðventukransinn til dæmis og að kveikja á sjónvarpi og finna eitthvað af þeim fjölda helgistund sem er að finna á vefnum. Þannig verður líklega jólahaldið hjá okkur að þessu sinni. Það hefur verið eitt af meginhlutverkum mínum síðustu vikur að koma helgihaldi þannig til fólks. Nú skulum við hlusta á þennan fallega sálm: Það aldin út er sprungið.

Það aldin út er sprungið með Arnþóri Þorsteinssyni og Jónasi Þór Viðarssyni

Það aldin út er sprungið
og ilmar sólu mót,
sem fyrr var fagurt sungið
af fríðri Jesse rót.
Og blómstrið það á þrótt
að veita vor og yndi
um vetrar miðja nótt.

Þú ljúfa liljurósin,
sem lífgar helið kalt
og kveikir kærleiksljósin
og krýnir lífið allt.
Ó, Guð og maður, greið
oss veg frá öllu illu
svo yfirvinnum deyð.

Sb. 90 – Þýskur höfundur ókunnur frá 16. öld Matthías Jochumsson

Guðfræði vonarinnar um komu Krists

Lúther að spila og syngja með fjölskyldu sinni og vini

Eins og þið vitið sem hafið hlustað á mig þá finnst mér guðfræði ekki leiðinleg. Miklu frekar er hún bæði skemmtileg og eflandi. Því má ég til með að draga upp mynd af einum mesta guðfræðingi Þýskalands. Martein Lúther eða meistara Lúther eins og hann var kallaður líka hér á landi og allir vissu hver hann var. Og við getum lært heilmikið af honum varðandi heimilisguðrækni. Hann breytti nafninu sínu til að það minnti á ljós, vegna þess að hann vildi vera ljós og var það. Og lífsglaður var hann, því miður hafa kristnir menn stundum orðið allt of  alvörugefnir og hafa því týnt gleði trúarinnar. Það verður ekki sagt um Lúther. Hann spilaði á lútu, einhvers konar gítar eða strengjahljóðfæri. Og hann var söngmaður góður. Það eru til myndverk þar sem hann situr með fjölskyldu sinni að músíserar.  Og allir eru syngjandi glaðir og spila á hljóðfæri. Tónlist og guðfræði eiga nefnilega samleið eins og ég hef nú eiginlega verið að benda á. Hann samdi bæði lög og texta. Í jólasálmunum hans er ein hugleiðing gegnum gangandi sem ég vil vekja athygli á. Hann hugsaði um barnið sem fæddist á jólum en hafði alheim í höndum sér, lítil barnshönd, fíngerð og viðkvæm, og alheimurinn. Það er dálítið stór hugsun. Og lagið er hans eins og hann sagði þá liggur tónlistin í talinu þannig útskýrði hann fyri frægu tónskáld sem spurði hann um tónlistarhæfileika hans. Bið ég þig að hlusta til enda því að lag og texta falla dásamlega saman í eina heild í þessum sálmi, sem er 10 erindi en ég tek fram stutt erindi. Hann orðar það svona:

Og oss til merkis er það sagt:
Í aumum reifum finnum lagt
það barn í jötu’, er hefur heim
í hendi sér og ljóssins geim.

Sb. 85, 3er. – Lúther – Stefán Thorarensen

Það er sálmurinn Af himni ofan boðskap ber. Það er í fluttni Eyþórs Inga Jónssonar, orgnista, og sungið af Jóni Þorsteinssyni, óperusöngvara, af plötunni þeirra Inn er helgi sunginn.

Af himnum ofan í flutningi Jóns Þorsteinssonar og Eyþórs Inga Jónssonar

Annar sálmur eftir Lúther sem er oftar sunginn Heiðra skulum vér Herrann Krist, geymir þessa sömu íhugun. Það er í þýðingu Stefáns Thorarensen. Hann vann við Sálmabækurnar 1871 og 1886 sem er að stofni til ennþá kjarninn í sálmbók þjóðkirkjunnar. Seinni bókin var íslenska sálmaskáldabókin, eins og ég hef kallað hana. Þannig orðar Lúther þessa hugsun í jólasálminum.

Móðurfaðmurinn felur hann,
felur veröld sem öll ei kann.
Hann er nú orðinn ungur sveinn,
öllum sem hlutum ræður einn.
Sé Drottni dýrð.

Sb. 86 – Lúther – Stefán Thorarensen

Við skulum enda hugleiðingar okkar í dag með því að hlusta á þennan jólasálm Lúthers. Láttu þessa hugsun dvelja með þér nú á aðventunni þegar þú horfir á stjörnuhimininn eða norðurljósin leika sér á himni. Láttu það verða þér havtning til að biðja í einrúmi og halda hátíð með fólkinu þínu.

Næsti þáttur er af sálmum og siðum á Norðurlöndum. Guð blessi ykkur aðventuna.

Lagið í flutningi Langholtskirkjukórsins.

Heiðra skulum við Herrann Krist

Published
Categorized as Erindi Tagged

Eftir Guðmundur Guðmundsson

Héraðsprestur í Eyjafjarðar- og Þingeyjarprófastsdæmi

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

%d bloggurum líkar þetta: