Aðventu og jólasálmar frá Norðurlöndum

Hvaðan kemur Lúsíuhátíðin? Hvað með jólatréð? Þekking á táknum jólanna hjálpar okkur að meðtaka jólaboðskapinn: Ljósið, lífsins tré, bljómi, pílagrímaganga, stjarnan sem vegvísir. Sálmar sem er skoðaðir í þessum þætti eru Lúsíusöngurinn frá Svíþjóð, Jesús þú ert vort jólaljós eftir Valdimar Briem, Hin fegursta rósin er fundin eftir Brorson, Fögur er foldin eftir eftir Ingemann, Ó, hve dýrlegt er að sjá eftir Grundtvig.

Aðventa, jól og áramót. 3. þáttur

Í þessum þætti ætlum við að líta til Norðulandanna varðandi aðventu og jólasálma, venjur og siði. Ein af dýrmætustu æskuminningum mínum á ég frá Svíþjóð. Þangað flutti ég með fjölskyldu minni tveggja ára. Pabbi fór í framhaldsnám í læknisfræði eins og svo margir á þessum árum um 1960. Þetta er svo langt síðan að við sigldum með Gullfossi flaggskipi íslenska flotans. Ekki man ég hvað ég var gamall, en einn morgun í desember, nánar til tekið 13. desember, vorum við vakin upp með söng. Í barnshugann grópaðist minningin. Fremst í flokki gekk ung stúlka með ljósakórónu á höfði með lifandi ljósum og eftir fylgdi hópur af hvítklæddu söngfólki með grænar kórónur fléttaðar úr greni eða gylltar, það man ég ekki svo vel. Öll voru þau með lifandi ljós svo birtans breiddist út um svefnherbergið. Og þau komu færandi hendi með djús og smákökur á bakka og buðu mér og mínum. Aldrei hafði maður upplifað neitt þessu líkt. Það var lúsuhátíð. Hún hafði fest sig í sessi í sænsku samfélagi og er enn við líði það best ég veit. Það var reyndar ítalskur lag sem þau sungu eins og margir jólasöngvarnir okkar. Það hafði verið staðfært af stúdentum í Svíðþjóð til að koma með birtu inn í svartasta skammdegið. Á þessum degi streyma svona flokkar og ganga hús úr húsi í helgigöngu og jafnvel á götum úti. Textinn er til í nokkrum útgáfum á sænsku en er um það að Lúsía, sem merkir ljós eða ljósberi, kemur með ljósið inn í myrkrið. Við skulum hlusta á lúsusönginn á sænsku. Það er er disknum Christmas in Sweden

1. Sankta Lucia, ljusklara hägring,
sprid i vår vinternatt glans av din fägring.
||: Drömmar med vingesus, undret oss sia,
tänd dina vita ljus, Sankta Lucia. :||

2. Kom i din vita skrud, huld med din maning.
Skänk oss, du julens brud, julfröjders aning.
||: Drömmar med vingesus, undret oss sia,
tänd dina vita ljus, Sankta Lucia. :||

3. Trollsejd och mörkermakt ljust du betvingar,
signade lågors vakt skydd åt oss bringar.
||: Drömmar med vingesus, undret oss sia,
tänd dina vita ljus, Sankta Lucia. :||

4. Stjärnor som leda oss, vägen att finna,
bli dina klara bloss, fagra prästinna.
||: Drömmar med vingesus, undret oss sia,
tänd dina vita ljus, Sankta Lucia. :||

Eftir Sigrid Elmblad (1860–1926). Kom fyrst út 1924.
Sænskt jólakort

Lúsíuhátíð 13. des – ljósið í vetrarmyrkrinu

Í síðasta þætti talaði ég um helgisiði og heimilisguðrækni. Þessi aðventusiður var upphaflega uppfinning stúdenta í Uppsala í Svíþjóð, sem hafði það að markmiði að lýsa aðeins upp skammdegið mesta, eins og ég sagði. Lagið og upphaflegi textinn er um stað á Sikiley sem er nefndur eftir einum af kvenndýrlingi og píslarvotti kaþólsku kirkjunnar, Sankta Lúcía. Hún á minningardaginn 13. desember í dagatali þeirra. Ítalski textinn er náttúrlýsing á þessum fallega stað en sænski textinn blandar saman við það minningardegi dýrlingsins en nafn hennar merkir ljós eða ljósberi. Nafnið eitt minnir á að vetrarmyrkrið er að víkja um þetta leyti. Ég er ekki að ruglast á dögum, stysti dagur ársins er 21. desember, en menn höfðu reiknað eitthvað vitlaust, vísindi síns tíma, og lengi vel var 13. desember talinn vera dagurinn stysti eftir það tók sól að rísa. Kann að vera að þar á bakvið sé forn hugsun um sólarhátíð. Til dæmis halda Svíar “mittsommarafton” eða jónsmessu, þá er lengsti sólargangur ársins. Það var forn frjósemishátíð, þá er reist stöng sem er skreytt með grænum greinum og blómum með hringlaga krönsum. Fyrsta erindið af sænski textanum er svona í þýðingu Niels Óskarssonar:

Vindur og veður kalt, 
vetur á glugga.
Ljós kvikna út um allt;
enginn í skugga.
:,: En hver kom inn til mín
áðan með ljósin sín?
Sankta Lúsía!
Sankta Lúsía! :,:

Þýðing: Niels Óskarssonar

Síðan hefur þetta uppátæki orðið að venju og helgisið þar sem hann hefur verið innleiddur sem þáttur í hátíðleika aðventunnar í kirkjunum. Ég hef séð helgigöngu með Lúcíu fremsta í flokki inn kirkjugólf í stórkostlegum dómkirkjum Svíþjóðar. Í Uppsala var gamla dómkirkjan reist þar sem áður stóð heiðið hof og rétt hjá kirkjunni eru gamlir grafhaugar frá Víkingatímanum. Það má líka segja um jólahátíðina sjálfa sem var sigur sólarinnar yfir myrkrinu í fornum trúarbrögðum sem fékk nýja merkingu, þ. e. a. s. að heiðnar hátíðir voru „kristnaðar“, gefið inntak kristinnar trúar og helgihalds. Lúcía píslarvottur bar vott um staðfestu við Krist ljósið eilífa og varð að lærdómssögu eða fyrirmynd þeirra sem vilja ganga þann ljóssins veg að vera trú Drottni til dauðans. Þannig ber hún þá ljósið áfram ef við komu auga á þá vídd í tilfinningavímu hátíðleikans.

Jesús lífsins jólatré

Næst skulum við líta á jólatréð. Það er til sálmur eftir Valdimar Briem. Hann var eitt af þessum miklu sálmaskáldum sem á mikin heiður af sálmaskáldabókinni 1886 sem ég kalla svo. Hann samdi t.d. Biblíuljóð út frá helstu prédikunartextum Nýja testamentisins, einnig Gamla testamentisins. Svo samdi hann upp Davíðssálma á íslensku ljóðamáli, annar af tveimur Íslendingum sem það hafa gert. Þessi sálmur kemur eflaust dálítið á óvart. Hann er ein þrjú erindi en það er aðeins eitt eftir í núverandi Sálmabók þjóðkirkjunnar. Hann byrjar svona: Jesús þú ert vort jólaljós. Ég held að það hafi ekki þótt viðeigandi að syngja í öðru erindinu: Jesús þú ert vort jólatré. Þess vegna hafa það verið fellt niður. Við sjáum það ekki fyrir okkur, jólatré fullt af glingri og rafmagnsljósum sem táknmynd fyrir Jesú. En við skulum hlusta á þenna fallega sálm og sérstaklega á orðin. Það er Kór Akureyrarkirkju sem syngur hann undir stjórn Eyþórs Ingi Jónssonar organgista og kórstjóra af plötunni Ó, þú hljóða tíð. Hann lét náttúrlega kórinn syngja öll erindin. Lagið er eftir þekkt danskt tónskáld Weyse (skv. Sb. 1997 nr. 94). 

Jesús, þú ert vort jólaljós,
um jólin ljómar þín stjarna.
Þér englarnir kveða himneskt hrós,
það hljómar og raust Guðs barna.
Skammdegismyrkrið skyggir svart,
ei skugga sjáum þó tóma.
Þú ljósið af hæðum, blítt og bjart,
þú ber oss svo fagran ljóma.

Jesús þú ert vort jólatré,
á jörðu plantaður varstu.
Þú ljómandi ávöxt lést í té
og lifandi greinar barstu.
Vetrarins frost þó hér sé hart
og hneppi lífið í dróma
þú kemur með vorsins skrúð og skart
og skrýðir allt nýjum blóma.

Jesús, þú ert vor jólagjöf,
sem jafnan besta vér fáum.
Þú gefinn ert oss við ystu höf,
en einkum þó börnum smáum.
Brestur oss alla býsna margt.
Heyr barnavarirnar óma.
Þú gefur oss lífsins gullið bjart
því gleðinnar raddir hljóma.

Sb. 94 – Fyrst í Sb 1945 – Valdimar Briem

Ég á aðra aðventuminningu, þá kominn á lærdómsárin. Konan mín á sömu minningu. Það var æskulýðsfulltrúi hér á Akureyri og síðar prestur í Skagafirði, Stína Gísladóttir, sem gaf okkur þessa dýrmætu upplifun. Hún bauð okkur í foreldrahús sín í Mosfellsbæ. Hún á að hluta danskan uppruna. Þá lét hún syngja þennan sálm. Við minnumst þess með hlýhug vegna þess  að við sátum við jólatré nokkur ungmenni sem hún hafði boðið til sín. Jólatréð var skreytt með lifandi ljósum eins og tíðkaðist í Danmörku og víðar. Þá fengu orðin, Jesús þú ert vort jólatré, nýja þýðingu. Allt í einu sá maður það sem lífsins tré, táknmál, sem víða er notað í Biblíunni. Það er notað sígrænt tré til að minna á sigur lífsins, ljósin minna okkur á að við eigum að vera ljós, epli og annað skraut á að minna á gjafir Guðs og stærstu gjöfina sem er Guðs sonur sjálfur, eins og Valdimar Briem orðar svo vel í sínum sálmi. Efst er svo stjarna. 

Jólatré með lifandi ljósum

Ég má nu til að segja ykkur gamansögu af sjálfum mér. Við hjónin fórum í brúðkaupsferð til Kaupmannahafnar í níu mánuði, ég var við nám, en hún vann fyrir okkur. Ég fékk reyndar námsstyrk. Okkar fyrstu jól saman voru í Kaupmannahöfn. Við borðuðum náttúrlega purusteik og fengum okkur örlítið jólatré og að sjálfsögu höfðum við lifandi ljós og stjörnu efst, gyllt hjörtu og epli. Tákmál jólatrésins sem lífsins tré er augljóst þannig séð. Síðan höfum við haldið þessum sið að hafa lifandi kerti á trénu og er það sannkölluð helgistund þegar kveikt er á trénu og það sannkölluð helgistund og flöktandi kertaljósin slá hlýlegri birtu sinni yfir heimilið. Auðvitað höfum við allan vara á. Ég er dálítið veikur fyrir gylltu. Ástvinir mínir og fjölskylda hafa fundið það út svo þau gefa mér og mínum endalaust Georg Jensen skraut svo jólatréð er orðið dálítið hlaðið. Í einni utlandsferð í Edenborgar sá ég þessi fínu jólastjörn frá Georg Jensen í fríhöfninni á leiðinni utan. Hana varð ég að kaupa. En það fór í verra á leiðinni heim þá var ég grunaður um vopnasmigl þar sem geislarnir á störnunni litu út eins og  vopn í gegnumlýsingunni. Sem betur fer slapp ég í gegn með stjörnuna sem hefur veitt mér ótal margar gleðistundir en fyrst og fremst hefur tréð og stjarnan lyft huganum mínum yfir það sem séð verður og í æðri veruleika, trúarinnar. Lífsins tré blasir við mér, stjarnan á himni, ávextir trúarinnar og vitnisburður í ljósunum mörgu. Ég sé Guðs kristni í heimi í jólatrénu heima.

Fegursta rós mannkynsins

Við skulum nú hlusta á danskan jólasálm eftir danska sálmaskáldið Brorson Hin fegursta rósin er fundinn. Þar er grósku kristninnar lýst og mér finnst þessi sálmur eins danskur og nokkuð getur orðið. Það er Módettukórinn sem syngur sálminn sem er á diskinum Jól í Hallgrímskirkju.

Hin fegursta rósin er fundin
og fagnaðarsæl komin stundin.
Er frelsarinn fæddist á jörðu,
hún fannst meðal þyrnanna hörðu.

Upp frá því oss saurgaði syndin
og svívirt var Guðs orðin myndin,
var heimur að hjálpræði snauður
og hver einn í ranglæti dauður.

Þá skaparinn himinrós hreina
í heiminum spretta lét eina,
vorn gjörspilltan gróður að bæta
og gjöra hans beiskjuna sæta.

Þú, rós mín, ert ró mínu geði,
þú, rós mín, ert skart mitt og gleði,
þú harmanna beiskju mér bætir,
þú banvænar girndir upprætir.

Þótt heimur mig hamingju sneyði,
þótt harðir mig þyrnarnir meiði,
þótt hjartanu’ af hrellingu svíði,
ég held þér, mín rós – og ei kvíði.

Sb. 76 – Brorson – Sb. 1886 – Helgi Hálfdánarson

Þegar nálgaðist jól varð Kaupmannahöfn jólalegri. Jólamarkaðarnir í miðbænum og jólaljósin lífguðu upp skammdegið. Hvergi hefur mér reyndar orðið eins og kallt og í gustinum á strætum Kaupmannahafnar. Ég hjólaði á konunglega bókasafnið í gegnum bæinn frá Borups Allé þar sem við bjuggum. Á leiðinni hjólaði ég framhjá Brorsons kirkjunni sem kend er við þetta ágæta sálmaskáld og Betlehemskirkjunni. Svo þaut maður framhjá styttu af H. C. Andersen, sem er gengt Tívolí skemmtigarðinum. Hann nefndi eitt ævintýrið sitt Fegursta rósin. Ætli sálmur Brorson Hin fegursta rósin er fundin sé ekki kveikjan að því. Í ævintýrinu er verið að leita að rós lífsins í móðurástinni, trúarglóðinni, en finnst svo í Jesú, hann er rósin fegursta. Hugsun sálmsins er sú að af jurtinni smáðu þ.e. mannkyninu spratt fram rósin sem túlkar mannlega tilveru og sársauka þannig að við sjáum og þekkjum kærleika Guðs þrátt fyrir þyrnana sáru. Er hægt að orða það mikið betur:

Þá skaparinn heiminrós hreina
í heiminum spretta lét eina,
vorn gjörspillta gróður að bæta
og gjöra hans beiskjuna sæta.

Brorson. Þýðing Helgi Hálfdanarson

Meistaraleg þýðing Helga Hálfdanarsonar! Hann var einn af sálmaskáldahópnum 1886. Hann átti stóran þátt í þeirri sálmabók.

Pílagrímagangan

Þá skulum við hlusta á einn danskan sálm í viðbót. Það er sálmur Ingemann í þýðingu Matthíasta Jochumssonar: Fögur er foldin. Lagið frá Schlesíu. Þýsk-danski arfurinn okkar er mikill um jólin. En trúin þekkir ekki annað þjóðerni en að vera Guðs. Við erum á pílagrímagöngu í veröldinni með markmið að ná til himins, í Paradís, vegna þess að við þekkjum rósina einu, höfum öðlast þekkingu á Guði og æðri veruleika sem gefur okkur nýja sýn. Skyldi fögnurinn vera fólgin í því að vera á ferð með það háleita markmið? Það er Gospelkór Fíladelfíu sem syngur sálminn fyrir okkur.

(Hér má hlusta á flutning Karlakórs Reykjavíkur – Á aðventu með Karlakór Reykjavíkur)

Fögur er foldin,
heiður er Guðs himinn,
indæl pílagríms ævigöng.
Fram, fram um víða
veröld og gistum
í Paradís með sigursöng.

Kynslóðir koma,
kynslóðir fara,
allar sömu ævigöng.
Gleymist þó aldrei
eilífa lagið
við pílagrímsins gleðisöng.

Fjárhirðum fluttu
fyrst þann söng Guðs englar,
unaðssöng, er aldrei þver:
Friður á foldu,
fagna þú, maður,
frelsari heimsins fæddur er.

Sb. 96 – Ingemann – Fyrst í Sb. 1945 
– Matthías Jochumsson

Stjarnan sem vísar veginn

Að lokum skulum við líta ljósið, stjörnuna á himni, sem vísar veginn. Það er sálmur Grundtvigs: Ó, hver dýrlegt er að sjá. Við erum að tala um miklu meira en kvöldstjörnuna, sem við getum svo sem ávarpað, en hún svavar okkur ekki. En Guð getum við ávarpað og stjarnan hans, Jesús, hefur talað til okkar. Hún lýsir okkur. Aftur erum við á ferð með vitringunum sem fylgja þeirri stjörnu sem okkur bendir upp til sín.

Ég sagði í fyrsta þættinum að jólahaldið er bragðgott og í öðrum þætti að það ætti að vera skemmtilegt og þessir sálmar sem við höfum hlustað á veita okkur þekkingu á Guði. Jólahaldið er lærdómsríkt. Sálmaskáldið Grundtvig samdi sálminn sem barnasálm og var einn fyrsti sálmurinn hans saminn um 1810 en ekki sá síðasti. Hann fékk meir að segja konunglegan styrk til að semja sálma, enda margir sálmarnir sem hann hefur skrifað. En þegar hann skrifaði þennann sálm  var hann í mikilli sálarglímu en þessi sálmur varð eins og leiðarstef í sálmakveðskap hans. 

Taktu þessi tákn með þér út í daginn og jólahaldið, ljósið, lífsins tré og stjörnuna himnesku. Það eru þeir Eyþór Ingi Jónsson, organisti, og Jón Þorsteinsson, óperusöngvari, sem flytja lagið, af diskinum: Inn er helgi hringd.

Ó, hve dýrlegt er að sjá með Jón Þorsteinssyni og Eyþóri Ingi Jónssyni

Í næsta þætti förum við til Englands og upplifum jólasöngva þeirra þar, Christmass Carols. Guð blessi þig og þína.

Ó, hve dýrleg er að sjá
alstirnd himinfesting blá,
þar sem ljósin gullnu glitra,
glöðu leika brosi’ og titra
:,: og oss benda upp til sín. :,:

Nóttin helga hálfnuð var,
huldust nærfellt stjörnurnar,
þá frá himinboga’ að bragði
birti’ af stjörnu’, um jörðu lagði
:,: ljómann hennar sem af sól. :,:

Þegar stjarna’ á himni hátt
hauður lýsir miðja’ um nátt,
sögðu fornar sagnir víða,
sá mun fæðast meðal lýða,
:,: konunga sem æðstur er. :,:

Vitringar úr austurátt
ei því dvöldu’, en fóru brátt
þess hins komna kóngs að leita,
kóngi lotning þeim að veita,
:,: mestur sem að alinn er. :,:

Stjarnan skær þeim lýsti leið,
leiðin þannig varð þeim greið,
uns þeir sveininn fundu fríða.
Fátæk móðir vafði’ hinn blíða
:,: helgri’ í sælu’ að hjarta sér. :,:

Stjarnan veitt oss einnig er,
og ef henni fylgjum vér,
hennar leiðarljósið bjarta
leiða’ um jarðar húmið svarta
:,: oss mun loks til lausnarans. :,:

Villustig sú aldrei á
undrastjarnan leiðir há,
orðið Guðs hún er hið skæra,
oss er Drottinn virtist færa,
:,: svo hún væri’ oss leiðarljós. :,:

Grundtvig – Sb. 1886 – Stefán Thorarensen

Sb. 108 – Grundtvig – Fyrst í Sb. 1886 – Stefán Thorarensen
Published
Categorized as Erindi Tagged

Eftir Guðmundur Guðmundsson

Héraðsprestur í Eyjafjarðar- og Þingeyjarprófastsdæmi

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

%d bloggurum líkar þetta: