Jólasöngvar á Englandi og Lestrarnir níu

Jólasöngvar frá Englandi og Níu lestrarnir. Ensku jólasöngvarnir eru margskonar sumir með skemmtilegheit, jólasögunni eða djúpri trúarlegri hugsun. Spiluð eru þrjú dæmi: Litli trymbillinn, Einu sinni í ættborg Davíðs og God Rest Ye Merry Gentlemen. Þá eru fluttar þrjár þýðingar mínar eða samið með hliðsjón af þremur sálmum sem oft eru fluttir við jólasöngva: We three kings, The Hills are Bare in Bethlehem og Of the Father’s Love Begotten.

Aðenta, jól og áramót – 4. þáttur

Í þessum þætti mun ég segja ykkur frá reynslu minni af jólasöngvum á Englandi eða Christmass Carols. Eitt haust, 1989, var ég við nám í London á fræðslumiðstöð sem John R. W. Stott hafði komið á fót. En hann var hvatamaðurinn að stofnun Lausanne hreyfingarinnar. Í miðborg London hafði hann þjónað í All Sauls kirkjunni (ekki All Saints mismæli í þættinum). Ég var svo heppinn að fara í kór kirkjunnar og þegar nálgaðist jól var farið að undirbúa jólasöngvana. Þeir heilluðu mig og þegar kom að flutningi þeirra var stór hljómsveit á pallinum að æfa með okkar og mikill kór. Svo möguleikarnir voru miklir að skapa stemningu. En það sem var eiginlega skemmtilegast við þetta var að þetta var ekki bara tónleikar heldur fjöldasöngur inn á milli þegar kirkjan fylltist   söng og gleði þegar allur söfnuðurinn söng fullum háls. 

Eflaust er þessi venja sprottinn af þeirri vakningu sem varð í kórsöng með rómantísku stefnunni á 19. öld. Þá fór almenningur að taka þátt í stórkostlegum uppsetningum á tónverkum, fékk leiðsögn í söng, mynduðu svo mikla kóra, með undirleik symfóníuhljómsveita. Messías eftir Händel var settur upp með þessum hætti. Hingað til lands náði þessi stefna með stofnun kirkjukóra í lok 19. aldar og er það stórkostlegt starf sem hefur auðgað íslenska menningu svo um munar. Við hér í Eyjafirði söfnuðum saman öllum kirkjukórunum við kristnihátíðina 1999 með Symfóníuhljómsveit Norðurlands. Það var mögnuð tónlistarupplifun. Þessi reynsla mín af jólasöngvunum sem ég er að segja ykkur frá var eitthvað í þá veru svo þið getið rétt ímyndað ykkur hvað þessi stund er mér minnisstæð.

Jólasöngvarnir eru merkileg blanda af skemmtitextum eins og Litli trymbillinn í aðra röndina, hálfgerðir bull og skemmtitextar, og svo frásagnasálmar jólasögunnar, allt upp í háguðfræðilegar hugleiðingar. Ótrúleg blanda. Öll tilfinningaflóra jólanna fær rödd og allir syngja fullum hálsi. Þessi hefð er mjög rótgróin í menningu þeirra Englendinga og er iðkuð í mörgum kirkjudeildum. Sum staðar eru þetta  aðventutónleikar en eiginlegur staður jólasöngvanna og lestranna er á aðfangadegi jóla. Hjá þeim er aðfangadagur, aðfangadagur, lokadagur jólaundirbúningsins. Við tölum um aftansöng á aðfangadegi en það er kvöldbænin kölluð kl. 6 í tíðarbænum kirkjunnar sem voru sex eða allt upp í níu sinnum á sólahring hjá reglufólkinu. Við lifum enn við þá venju að nýr dagur byrjar klukkan 6 að kvöldi þá hófst hátíð gjarnan með bængjörð og máltíð, eins og við gerum á jólum.

Við skulum hlusta á fyrsta lagið í dag. Það er Litli trymbillinn sem er flutt af Pentatonix. Það eru fimm frábærir söngvarar sem flytja lagið með röddunum einum og slá með því inn taktinn. (Hlusta á lagið hér)

Kom, þeir sögðu, parampapampam
oss kóngur fæddur er, parampapampapam.
Hann hylla allir hér, parampapampam
með heiðurs gjöf frá sér, parampapampam  
rampapampam, rampapampam.
Oss það öllum ber, parampapampam,
einnig þér.

Litli kóngur, parampapampam
ég gjafir engar á, parampapampam
en ljúft er mér ef má, parampapampam
ég mína trommu slá, parampapampam  
rampapampam, rampapampam.
þér til heiðurs þá, parampapampam,
hlusta á.  

Papampam, papampam,

Heilög móðir, parampapampam
hann sér á armi bar, parampapampam
og blíð og brosljúf var, parampapampam
hann brosti sjálfur þar, parampapam
pamrampapampam, rampapampam.
Ég hélt það samþykkt svar, parampapampam
og svo það var.

Lagið er eftir Katherine Davis í þýðingu Stefáns Jónssonar

Hluti af jólasöngvunum eru víða Lestrarnir níu sem eru vel valdir Ritningartextar. Á milli lestranna eru valdir sálmar sem passa við þá. Inngangurinn er á þessa leið: 

Kæru Krists vinir, hlýðið enn á ný með gleði og fögnuði á boðun engilsins nú á aðfangadegi jóla (aðventu). Gangið áleiðis til Betlehem í huga og hjarta til þess að sjá þá atburði sem þar hafa gjörst – barnið í jötunni.

Lesum því og hugleiðum frásagnir Heilagrar Ritningar um elskulegan ásetning Guðs frá fyrsta degi óhlýðni (okkar) vorrar til dýrlegrar endurlausnar sem barnið helga hefur komið til leiðar.

Mín þýðing á lestrunum Níu má nálgast hér á Pdf-formi. Eldri biblíuþýðing.

Ég gerði þýðingu á þessu helgihaldi sem við reyndum við jólasöngva í Akureyrarkirkju um nokkurra ára skeið. Þetta eru miklir lestrar en sýna virðingu Englendinga fyrir Biblíunni. Við megum gjarnan muna það að Breska og erlenda Biblíufélagið var stofnað í London og hefur unnið að því að breiða út Guðs orð um víða veröld í rúmar tvær aldir. Ég þekki ungan mann frá Bretlandi sem fannst lestrarnir dálítið langir þegar hann var drengur en það var hluti af jólahelgihaldi fjölskyldunnar hans eins og svo margra annarra. 

Fyrsti lesturinn er af syndafallinu í Paradís, þá er lesið um Abraham, sem hélt af stað eftir boði Guðs, spádómar Jesaja um Messías og Míka um borgina Betlehem, frásaga Matteusar og Lúkasar af fæðingu Jesú, um komu vitringanna og endað á jólaljóðinu fyrsta, sem ég hef kallað svo, jólaguðspjall Jóhannesar um orðið sem varð hold og bjó með okkur. Það er hápunktur jólasöngvanna. Það er sönn upplyfting að heyra svo dásamlega jólasálma flutta og sungna af kór og hljómsveit og almennum gleðisöng milli lestranna. Ég hef ekki rannsakað það en margir jólasálmarnir ensku hafa vafalítið verið samdir til að vera fluttir á jólasöngvum. Enda koma þessi þemu fyrir í þeim eins og þeim hafi verið hugsaður staðar eftir ákveðna lestra.

Við skulum nú hlusta á kór Akureyrarkirkju syngja einn af þessum ensku jólasálmum: Einu sinni í ættborg Davíðs. Eins og ég hef gert í þessum þáttum mínum vil ég leggja áherslu á að hlusta á textana, hugsa um þýðingu jólanna fyrir okkur, það erum við að íhuga og leitast við að skilja. Jólasagan eða frásagan setur okkur á hreyfingu, úr kyrrstöðu og stöðnun, til að halda af stað, í göngu til Guðs, eftir leiðsögn hans, til ljóssins eilífa. Þá sögu segja frásagnarsöngvarnir eins og þessi. Einu sinni í ættborg Davíðs. Textinn er eftir skáldkonuna Celisti F. Alexander úr flokki barnasálma þar sem hún útskýrði trúarjátninguna. Við eigum hann í frábærri þýðingu æskulýðsleiðtogans séra Friðriks Friðrikssonar. Organistinn og doktor í kirkjutólist Henry John Gauntlett samdi lagið og hefur það verið eitt af klassísku sálmum jólasöngvanna frá miðri 19. öld. (Það var einn fyrsti jólasöngurinn sem sló í gegn í Bandaríkjum Norður-Ameríku sem vann sér sess). 

Það er á jóladiski Kórs Akureyrarkirkju, undir stjórn Eyþórs Inga Jónssonar, organista og kórstjóra. (11:33 mín. í hljóðskrá)

Einu sinni’ í ættborg Davíðs
ofur hrörlegt fjárhús var,
fátæk móðir litverp lagði
lítið barn í jötu þar,
móðir sú var meyjan hrein,
mjúkhent reifum vafði svein.

Kom frá hæðum hingað niður
hann, sem Guð og Drottinn er,
jatan varð hans vaggan fyrsta,
vesælt skýli kaus hann sér.
Snauðra gekk hann meðal manna,
myrkrið þekkti’ ei ljósið sanna.

Móður blíðri barnið helga
bernsku sinnar dögum á
hlýðni sýndi’ og virðing veitti,
vann það starf, er fyrir lá.
Kristin börn í berskurann
breyta vilja eins og hann.

Æska hans var æsku vorrar
æðst og sönnust fyrirmynd,
hann var lítill, óx með aldri,
átti bros og táralind.
Hann því skilur hryggð í geði,
hann er með í leik og gleði.

Loks vér sjá hann fáum frelsuð,
fyrir’ hans blóð og sáttargjörð,
því það barn, svo blítt og hlýðið,
ver nú allt á himni’ og jörð,
börn sín leiðir áfram öll
upp til sín í dýrðarhöll.

Ei á jörðu í jötu lágri
jólabarnið sjáum þá.
Við Guðs hægri hönd hann situr
hann þar fáum vér að sjá,
er við stól Guðs standa glöð,
stjörnum lík, hans börn í röð.

Alexander – Friðrik Friðriksson

Annar jólasálmur sem á fastann sess á jólasöngvum er: We three kings. Þar segja vitringarnir frá ferð sinni til Betlhem. Þeir fylgja stjörnunni. Hugsun lestranna níu er að leiða okkur í gegnum hjálpræðissöguna með þessu vandaða vali á textum. Þannig verður merking jólanna ljós fyrir okkur. Við í anda sláumst í för með Adam og Evu, Abraham, spámönnunum, Maríu og Jósef, hirðunum og vitringunum til að sjá Jesú-barnið í jötunni. Allt sagt og gert til að vekja undrun okkar og þakklæti. 

Heyrum dómkirkjukór Guildford syngja þetta laga á hefðbundinn hátt. Tignarlega og tilbiðjandi. (Hér fylgir 1. erindið á ensku, sjá allan textann)

We three kings of Orient are
Bearing gifts we traverse afar
Field and fountain,
moor and mountain

Following yonder star

Kór: Star of Wonder, Star of Night,
Star with Royal Beauty bright,
Westward leading,
Still proceeding,
Guide us to Thy perfect Light.

Lag og texti: John H. Hopkin

Einu sinni fékk ég þá hugdettu eða kannski var það andi Guðs sem snerti við mér, að setja mig í spor Maríu, sem tók á móti vitringunum í gripahúsinu. María er fulltrúi kirkjunnar í þessari sögu og við saman ættum að lifa okkur inn í hennar stöðu og tilfinningar. Lagið og texti er eftir John. H. Hopkin. Þetta er ekki eiginleg þýðing enda er ég þeirra skoðunar að betra er að ná anda ljóðanna en að þýði orð fyrir orð. Enda íslensku bragreglurnar strangari en víða annars staðar. Það er líka aðeins gefið góðum þýðendum að þýða þannig en þann aga kann ég ekki almennilega. Sjónarhornið er annað en í upphaflega textanum, út frá sjónarmiði Maríu móður Guðs sonar. Ég fékk Ragnhildi Ásgeirsdóttur og Írisi Rós Ragnhildardóttir til að syngja lagið. Stundum eru jólasöngvarnir miklir tónleikar eins og við heyrðum áðan en það þarf ekki að vera þannig, einfaldleikinn, þar sem textarnir fá að tala sínu máli, er ekki síðri. Hlustum á þær mæðgur syngja þennan stórkostlega sálm við gítarundirleik. 

Maríuljós sungið af Ragnhildi Ásgeirsdóttur og Írisi Rós Ragnhildardóttur

Komu’ úr austri konungar þrír,
krupu fyrir barninu djúpt.
Undrun mín var mikil, vinir,
Að mennirnir hylltu ljúft
barnið mitt og báru gjafir fram.
Blessuð var sú stund og góð.
Stjörnubjört var náðug nóttin,
nærstödd stóðum við þar hljóð.

Krupu hjá mér konungar þrír.
Komst ég við og faðmaði hann,
soninn minn, þeim sýndi barnið,
ásjón þeirra lýsti, brann.
Leiðin hafði löng og ströng þeim reynst,
loksins sáu þeir ljós sitt,
eilíft ljós í augum barnsins,
elsku Guðs við brjóstið mitt.

Kristi lutu konungar þrír,
komu þeir að tilbiðja hann,
sem að vísum vonar stjarnan
þeim vísaði á hann, þann
eina, sem að getur Guð vorn birt,
gæskuríkan frelsarann,
Jesú, geisla Guðs í heimi,
Guð þú sérð og sannan mann.

Guðm. Guðmundsson með hliðsjón af enska textanum: We three kings.

Það rennur vonandi upp fyrir þér að við erum að tala um andlegt ferðalag, pílagrímagöngu, eftir leiðsögn Guðs í orði hans, í ljósi hans, þar birtist okkur barnið. Við færum því gjafir okkar eins og vitringarnir, gullin okkar, sem er svo sem ekki annað en að þakka Guði lífið, gafara alls. Í þessu andlega ferðalagi, sem er að ganga í gegnum lífið í bæn og íhugun, lærist okkur að gefa af okkur. Hvers vegna kom Guð til okkar sem barn? Hefði hann komið sem almáttugur drottnari hefðum við mannfólkið vafalaust staðið gegn honum. En hann kemur í mesta veikleika sem hugsast getur í mannlegri tilveru, ósjálfbjarga barn. Þannig komst hann að okkur, snertir okkur, þar sem það skiptir mestu máli í lífinu. Nær að vekja kærleika okkar til sín. Það gerði Jesús með því að stíga niður til okkar, í mesta veikleika, ekki til að drottna eins og leiðtogar stórvelda með vopnum og harðstjórn, heldur með kærleika, og beina okkur á friðarveg, innra með okkur og í samskiptum okkar, og í stjórnarháttum og réttlæti. Einn af jólasöngvunum er í þessum anda í minni þýðingu: Á leið til Betlehem. Fékk ég samstarfsfólk mitt í Glerárkirkju til að syngja sálminn. Það eru þau Margrét Árnadóttir sem syngur og Valmar Väljaots leikur  á orgelið. 

Mín þýðing: Á leið til Betlehem. Lagið er eftir W. Walker (Southern Harmony, 1835) Textinn á frummálinu: The Hills are Bare in Bethlehem, texti eftir Royce J. Scherf. Amerískur uppruni en hefur fundið sér sess í jólasöngvunum. 

Á leið til Betlehem með Margréti Árnadóttur og Valmari Väljaots

Það birtir yfir Betlehem,
í björtu stjörnuskini er,
þótt smá af öðrum borgum ber,
því barn er fætt, – ég kem, ég kem.

Ég sé í ljósi sáttargjörð,
ég sé í augum brosið blítt,
ég sé að barnið signir þýtt
sinn söfnuð, þar í þakkargjörð.

Ég geng að jötu glaður við
að Guðs son sjálfan líta má
Ég ber fram gjafir, gull með þrá
að gefast þér og eignast frið.

Þú ljósið bjart í Betlehem
slærð birtu yfir alla jörð.
Ég tilbið þig við tíðargjörð,
ég til þín, Jesú, kem, ég kem.

Guðm. Guðmundsson með hliðsjón af enska textanum

Jólaboðskapurinn er annars vegar einfaldur og skýr og hins vegar djúpur og margslunginn, svo einfaldur að hvert barn skilur og svo djúpur að enginn vitringur fær skilið eða útskýrt hans til fulls. Og ekki ætla ég mér í þessu stutta innleggi að útskýra hann. Það væri hrokafullt. Hvers vegna varð Guð að gerast maður? Þannig spurði erkibiskup af Kantaraborg á Englandi sig í lok 10. aldar. Hann skrifaði samtal milli sín og Boso, nemanda síns, þar sem hann glímdi við þessa spurningu holdtekjunnar. Þessi leyndardómur og sannindi að „Orðið varð hold“, eins og Jóhannes skrifaði í fyrsta jólaljóðinu (Jh 1.1-12). Eða Guð á meðal okkar, eins og heitið Immanúel merkir sem tileinkað var Jesú af guðspjallamanninum Matteusi (Mt 2.1-10). Þessi nær tvö þúsund ára gamla hugleiðing um Guðs son sem gerðist maður kemur fram í jólasöngvum í anglíkönsku kirkjunnar. Ég hef reynt að tjá mínar hugleiðingar um jólaboðskapinn í ljóði með því að túlka anda sálmsins Of the father’s love begotten á minni tungu. Í öðrum þætti benti ég á hugleiðing Lúthers um Guð í mynd barnsins og það er úr eldgömlum arfi kirkjunnar. Þessi sálmur tjáir gömlu trúarjátninguna að sonurinn er fæddur frá eilífð. Hvað þýðir það? Það eru hugsanir úr Hebreabréfinu, sem er jólabréf með jólaboðskap (Heb 1-2). Það þýðir að tilvera okkar byggist á því að sonurinn er orðið sem allt er skapað fyrir og allt stefnir til. Í stuttu máli: Hann er vitið í tilveru okkar. Jólaboðskapurinn er að Jesús birtir okkur Guð, eins og hann er. Sonur föðurins birtist í mannheimi. Guð stígur niður, hreyfingin er þessi, Guð stígur niður til að lyfta okkur upp til sín, úr duftinu, úr bara mannlegri tilveru til að við getum séð ljósið eilífa. Og hvað blasir þá við okkur? Jú, að líf okkur snýst um kærleika, kærleika Guðs, sem gefur af sér, þjónar og elskar, vegna þess að í grunni tilveru okkar er Guð sem elskar. Guð sem elskar kemur því inn í mannheim, elskan gerist aðeins í raunheimum, barnið var í raun og veru í faðmi Maríu.

Við skulum hlusta á þennan fallega sálm. Textinn er frá 4. öld og sálmurinn er sléttsöngur eins og var sungið í tíðargjörð kirkjunnar öld eftir öld í klaustrum og kirkjum. Lagið er talið vera frá 13. öld en hefur verið útsett fyrir kór og hljómsveit síðar meir. Svo það má með sanni segja að jólasöngvarnir spanna söguna alla. Aftur eru það Margrét Árnadóttir og Valmar Väljaots sem flytja okkur þetta jólaljóð. Textinn eftir Marcus Aurulius C. Prudentius frá 4. öld, ensk þýðing e John M. Nealsen (1818-1866).

Kristur af föðurnum fæddur með Margréti Árnadóttur og Valmari Väljaots

Kristur af föðurnum fæddur
frá eilífð er, dimmt var þar
djúpið tóma – dögun heimsins –
Drottinn lífsins ljósið var,
orð, sem skóp og allt upplýsti.
Öll sólkerfi’ í hendi bar
frá eilífð til eilífðar.

Streyma geislar guðdómlegir
gegnum alla heima enn.
Óravídd og öreind geyma
undur lífs og leynd í senn,
ljúkast upp er lífsins Drottinn
litið fá dauðlegir menn
frá eilífð til eilífðar.

Hann, sem var og verður alltaf,
vitjar heims, er barn við brjóst
móður sinnar, lítill lófi
leitar hennar, eftir ást.
Gjafari alls opnar arma,
öllum má það vera ljóst,
frá eilífð til eilífðar.

Drottinn Jesús, dýrðar ljós Guðs
dögunar í heimi hér,
birtist ástúðlegur lífsins
Lausnara vor, mér og þér.
Barnið litla bar uppi’ heiminn.
Barnarétt hann gaf með sér
frá eilífð til eilífðar.

Streyma enn um æðar heimsins
ást Guðs föður gegnum hann
sem að fæddist, barnið blessað,
birtir öllum sannleikann,
krafta lífsins, kærleiksgeisla,
Krist tilbiðjum, Guð og mann,
frá eilífð til eilífðar. Amen.

Guðm Guðmundsson með hliðsjón af enska textanum: Of the Father´s love Begotten.

Jólasöngvarnir eru þannig ljóðamál, frásagnir og dálítill leikur, samvera fyrir börn og fullorðna sem birta okkur boðskap jólanna um kærleika Guðs á einfaldan og djúpan hátt.

Í næsta þætti ætla ég að fjalla jól- og áramót með lögum frá ýmsum þjóðum. Ég óska ykkur gleðilegra jóla og vona að þessir þættir hafi gefið ykkur aðeins dýpri skilning á boðskap jólanna um fæðingu frelsarans.

Við skulum enda á léttari nótum og hlusta á Pentatonix flytja dæmigerðan jólasöng í þessari hefð God Rest Ye Merry Gentlemen. Hér með fylgir þýðing Hinriks Bjarnasonar.

1. erindið á ensku og svo þýðing á íslensku:

God rest ye merry gentlemen
Let nothing you dismay
Remember Christ our Savior
Was born on Christmas Day
To save us all from Satan’s pow’r
When we were gone astray
Oh tidings of comfort and joy
Comfort and joyOh tidings of comfort and joy

Frá borg er nefnist Betlehem
kom boðskapur svo hljótt,
er fátæk móðir ferðamædd
í fjárhúsi tók sótt.
Hún fæddi þar sinn fyrsta son
þá fyrstu jólanótt.

Vér boðum þér fögnuð og frið,

fögnuð og firð.
Vér boðum þér fögnuð og frið.

Á hæðum gættu hirðar fjár
og heyrðu fögur hljóð,
er herskaranna himnakór
söng hallelújaóð.
Með fögnuði hin fyrstu jól
þeir fluttu sigurljóð.

Vér boðum þér fögnuð…

Nú hátíð ljóssins höldum við
og hefjum enn þann söng,
er áður fyrr sá englakór
lét óma´ um skógargöng.
Á ný hann hljómar. Nú um jól
er nóttin ekki löng.

Vér boðum þér fögnuð…

Þýðing Hinriks Bjarnasonar
Published
Categorized as Erindi Tagged

Eftir Guðmundur Guðmundsson

Héraðsprestur í Eyjafjarðar- og Þingeyjarprófastsdæmi

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

%d bloggurum líkar þetta: