Ræða flutt á sunnudegi milli uppstigningardags og hvítasunnu í Akureyrarkirkju 16. maí 2021. Upphafssálmur var: „Dýrlegt kemur sumar“. Og einsöngur Draumalandið eftir Sigfús Einarsson. Það var kveikjan ásamt guðspjalli eftir textaröð A.
Guðspjall:
Joh. 15.26-16.4
Þegar hjálparinn kemur, sem ég sendi yður frá föðurnum, sannleiksandinn,er út gengur frá föðurnum, mun hann vitna um mig. Þér skuluð einnig vitni bera því þér hafið verið með mér frá upphafi.
Þetta hef ég talað til yðar svo að þér fallið ekki frá. Þeir munu gera yður samkunduræk. Já, sú stund kemur að hver sem líflætur yður þykist veita Guði þjónustu. Þetta munu þeir gera af því þeir þekkja hvorki föðurinn né mig. Þetta hef ég talað til yðar til þess að þér minnist þess að ég sagði yður það þegar stund þeirra kemur.
Við eigum okkur draum um betri tíð með blóm í haga.
Sr. Friðrik Friðriksson, æskulýðsleiðtoginn, var á því þegar hann samdi sálminn sinn: „Dýrlegt kemur sumar“. Hann lýsir sumarkomunni með magnaðri lífsgleði og krafti: „Gróðurmagnað lífsaflið leysast skjótt“. Um leið og hann fagnaði þar sumarsólinni og kraftinum í fræinu smáa bað hann að andans kraftur gæfi sálunum sumar nýtt með hvatningarorðum: „Vakna þú sem sefur því sumar skjótt sigrað kuldann hefur og vetrarnótt“.
Við lifum á þeirri breiddargráðu að árstíðirnar eru eiginlega tvær, vetur og sumar. Kuldinn undanfarið minnir sterklega á það. Náttúran á sitt eigið myndmál sem blasir við okkur á þessum tíma eins og sr. Friðrik bregður upp í sumarkomu sálminum. Á sama tíma íhugum við í kirkjunni andlega grósku, fyrst gleðidagana fjörutíu frá páskum til uppstigningardags og svo núna með bæn um andans kraft fyrir hvítasunnu.
Í dag skulum við íhuga lífskraft og gleði trúarinnar sem felast í hugsunum eins og um eilíft sumar og sólin sem aldrei sest.
I.
Við látum okkur dreyma um sumar og sól í vetrarkuldanum.
Hvað er eðlilegra? Það að vera manneskja er að horfa fram á við og upp á við, homo sapiens, eins og tegundin heitir upp á latínu, merkir vitri maðurinn. Ætli við getum ekki talið að það sé sérkenni okkar að við stöndum upprétt og hugsum, getum ályktað.
Það var vel til fundið að hlusta á Draumalandið sungið og takk fyrir það. Við eigum öll okkar draumaland. Við getum ekki annað af einhverjum völdum. Það eigum við erfitt með að útskýra. Ég tala um okkur en auðvitað veit ég ekki hvað þú hugsar. Guð veit það. Og mér finnst það gott að Guð veit. Ef þú staldrar við og hugsar aðeins með mér, erum við ekki öll í svipuðum sporum? Lengi hafa menn skrifað um land eða eyju með draumkenndum frásögnum, fyrirmyndaríki, paradís, himnaríki og bjarta framtíð. Ástæðan er einhver djúp þrá sem gerir okkur að leitandi einstaklingum.
Ekki þarf ég að hugsa svo háfleygt. Þegar ég leiði hugann að samskiptum mínum við mína nánustu finn ég að þau mættu vera betri, meira gefandi, örlátari. Sárast af öllu finnst mér þegar ég særi þau, með ónærgætni, vegna þess að ég elska þau. Mig dreymir um að verða betri. Þannig hugsum við, viturlega. Er því ekki eins farið með þig?
Þráinn verður enn sterkari þegar horft er á mannfélagið. Hvers vegna er stríð? Við látum okkur dreyma um friðartíma og helst aldir. Samt heyrum við um hernað, jafnvel í landinu helga. Það er merkilegt að fólk sem er af sömu tegund skuli hatast svo mikið að það er tilbúið að drepa hvert annað. (Auðvitað er auðvelt að tala svona fyrir mig, en ef að þorpari hefði drepið einhvern mér nákominn ætti ég erfitt með að fyrirgefa, svo vel þekki ég sjálfan mig.) Við þurfum svo sem ekki að taka svona gróf dæmi í hugleiðingum okkar en þau blasa oft við í fréttum, rangindi, ofbeldi og þvingun, þó að við byggjum samfélag okkar á frelsi einstaklingsins og ábyrgð gagnvart hvert öðru.
Jafnvel náttúran eins falleg og hún sýnist á góðum degi getur ógnað lífi. Fyrir nokkrum árum var fjárfellir að vori vegna fannfergis. Ég heyrði af því hjá Hjálparstarfi kirkjunnar að bændur í Eþíópíu væru margir ráðalausir vegna þess að regnið kom ekki á venjulegum tíma svo þeir vissu ekki lengur hvenær væri heppilegast að undirbúa jarðveginn. Drepsóttinn er nærtækasta dæmið sem hefur plagað heimsbyggðina undanfarið ár og ekki sér fyrir endann þó að við öll vonum að þessu linni brátt.
Allt ber þetta að sama brunni. Við þráum betri tíð. Djúpt innra með okkur er þrá eftir endurlausn, lausn úr erfiðleikum og þjáningum, sem lífinu fylgja. Allt það virðist þó vera óaðskiljanlegur hluti af lífinu, eins og við þekkjum það. Þess vegna látum við okkur dreyma, verðum að sjá eitthvað betra, til þess að við missum ekki móðinn. Ætli þetta sé ekki viskan sem við búum yfir?
II.
Ætli það geti verið að við ályktum svona vegna þess að við erum að glíma við okkar eigin ranghugmyndir um Guð? Viska okkar dregur upp dimma mynd af veröldinni okkar, vegna þess að hún er ekki upplýst af ljósi Guðs. Þannig er því farið með mig í það minnsta að hugmyndir mínar um Guð trufla mig oft í lifandi sambandi mínu við Guð sem ég rækta í bæn og íhugun.
- Stundum hugsum við sem svo að náttúran sé það eina sem er til. Himininn er þá afskrifaður nema sem nær óendanlega stór og tómur geimur, þar ríkir eilíf þögn í óteljandi sólkerfum, sem við höfum ekki einu sinni komið auga á. Við menn verðum þá agnarsmáir í óravíddum himingeimsins. Þá bögglast auðveldlega fyrir okkur sú heimsmynd að Jesús hafi stígið upp til himna og sitji þar til hægri handar Guði. Það er einfaldlega ekki pláss fyrir Guðs ríki þar. Svo geta menn þrætt út í hið óendanlega út af þessari ranghugmynd um Guð og uppstigningu Jesú til himna. Nýja testamentið er að segja eitthvað allt annað. Himininn er handan við rúm og tíma, efni og orku. Spurningin er vitlaus og þess vegna líka svarið. Það er rökfræðigátan en tilvistarraunin er erfiðari.
- Það er önnur ranghugmynd um Guð, þegar við festum okkur við þjáninguna og ályktum að hún sé óumflýjanlegt hlutskipti okkar. Þannig er bara lífið, er þá sagt. Við freistumst þá til að hugsa sem svo að Guð skaparinn geti ekki verið góður sem leyfir þjáninguna, ef hann er þá til yfir höfuð. Kastar hann teningum og velur þannig menn til að farast á hörmulegan hátt og aðra til að auðgast og njóta hamingju? Hvað er þá orðið af Guði? Sumir álíta þá best að forðast þjáningar með því að bindast ekki öðrum nánum böndum, vegna þess að fyrr eða seinna leiðir það til sársauka. Hálfkæringurinn verður lífsstíll, sinnuleysi um aðra og svo að reyna að njóta þess sem lífið býður upp á undir sólinni með tækifæri er til.
Kristin trú andmælir þessum ranghugmyndum um Guð, en þær eru báðar mjög náttúrlegar og eðlilegar út frá þeirri forsendu að það eitt sem blasir við sé til. Játning kristninnar er að Guð er, eilífur Guð, ljós af ljósi.
III.
Hver eða hvað er þá Guð?
Hugsaðu um það sem þú setur traust þitt á í lífinu. Er það vinátta, fjölskylda, þjóðin, samfélagið, stefnur, hugmyndakerfi, auður, völd, áhrif, heiður? Margt af því ágætt. En Jesús fer fram á að við sitjum traust okkar á Guð sem hann kenndi okkur að þekkja.
Þegar hann steig upp til himna, það er út fyrir það sem séð verður, því hann er ekki þarna uppi, heldur handan við tíma og rúm. Reyndu að hugsa þér það. Okkar hugsun er einfaldlega háð þeim skorðum sem okkur eru settar en þó erum við sköpuð til samfélags við Guð, við getum átt í raunverulegu sambandi við Guð í bæn fyrir Jesú Krist, sem hefur gefið okkur þekkingu á honum.
- Þegar hann steig upp til himna á uppstigningardag þá yfirgaf Guð ekki tilveruna. Ég verð að játa að ég er að tala um torskilda hluti en ekki óskiljanlega ef við gefum okkur að Guð sé annað en sköpunin sem við sjáum. Þannig fyllir hann allt með veru sinni þegar hann steig upp til himna, afli, lífskraftinum sjálfum, sem við köllum eilíft líf. Ekki svo að það sé endalaust heldur LÍF. Þá erum við farin að tala um kraftinn góða sem sigrar, ljósið. Kristur er þannig allt í öllu, ljósið sem skín okkur.
- Þannig talaði hann. Hann er meira en draumur okkar. Hann er Drottinn sem við treystum á vegna orðanna sem hann hefur talað og þess sem hann gerði. Drottinn Jesús Kristur er einn verður tilbeiðslu okkar og einn með föðurnum og andanum gjafari lífsins eilífa. Hann er með hverju einu okkar og segir við þig: Þú ert barnið mitt, ég yfirgef þig aldrei. Þú ert minn, þú ert mín.
Hjálparinn sem talað er um í guðspjalli dagsins er andi sannleikans. Hann tekur sér bústað í hjarta þínu, verður andblærinn í lífi þínu. Kannski ber ekki mikið á honum vegna þess að hann bendir frá sér og vitnar um föðurinn, þannig að við tengjumst honum eins og Jesús kenndi okkur. Það verður kannski ekkert afgerandi, meira eins og ljósbjarmi eða blær vorsins, þó nægilegur til að við sjáum Guð og áræðum að biðja til hans. Þá reynist hann nálægur í lífinu eins og það kemur fyrir.
Þannig mótast samskipti okkar af þeirri visku og ljósi Guðs að ég vil annað og meira en það sem einhver þróunarhyggja kennir og eigingjarnar hvatir. Ég vil bæta mig í samskiptum við samferðafólk mitt. Mér finnst ástæða að stilla til friðar frekar en að berjast út af einhverjum þjóðernisrembingi og þykjast betri en aðrir menn, vegna þess að ég hef séð kærleika Guðs í sögunni um Jesú.
Það er niðurstaða mín eftir nokkurra ára guðfræði iðkun að tilveran eins og við þekkjum hana er aðeins tímabundin. Guð einn er eilífu, Guð er frá eilífð til eilífðar, ljósið sem skín í myrkrinu. Ég hef séð mynd af alheimi, eins og vísindamenn hafa teiknað hana upp, veröld sem er að þenjast út. Þá datt mér í hug, þannig sér Guð sköpun sína, utan frá. Guð er hinn mikli myndasmiður, leirkerasmiðurinn, sem tekur alla þess sköpun sína og hnoðar hana upp á nýtt, til að skapa það sem hann ætlaði sér, eins og listamaður, sem hættir ekki fyrr en verkið er fullkomnað, það sem hann hafði í huga. Þar verður ekki lengur ósætti og stríð, ekkert sem andstætt er Guðs vilja, Guð þerrar sérhvert tár, þjáningin verður ekki lengur. Þar megum við þessar agnarsmáu mannverur vera hluti af raunverulegum draumi Guðs samkvæmt orðum Jesú.
Dýrð sé Guði.
Bæn – Kom þú, kom skapandi andi
Kom þú, kom skapandi andi,
að við öðlumst nýja sýn,
eftir orði Guðs framgöngum,
eins og guðleg náðin þín.
Snertu jörð til þrautar þjökuð,
heim, sem þjáist æ á ný,
Reis upp fólkið beygt og brotið,
er þú blæst lífsanda í.
Kom með líf kærleikans andi,
renni lækir þínir vítt,
ávöxt beri tré við bakka,
auðnin blómstri, landið frítt.
Lífsins vatn þú öllum veitir,
sem því vilja taka við,
fólki þyrstu lindin þú ert,
svalar þrá og gefur frið.
Kom með ljós sannleikans andi,
okkur lýstu réttan veg,
að við getum heimi’ til heilla
áfram haldið gleðileg.
Frelsa okkur frá því illa,
sem að ógnar lífi’ á jörð,
Já, við biðjum þig að blessa,
öll þín börn við þakkargjörð.
Guðm. G. (1. er. þýðing á sálmi Simei Monteiro, 2. og 3. erindi frumsamið)