Brauð fyrir eilífðina

Málverk af Blaise Pascal eftir François II Quesnel 1691.

Ræðan var flutt við guðsþjónustu í Akureyrarkirkju 18. mars 2007 sem var 4. sunnudagur í föstu. Textinn var Jh. 6. 47-5, samkvæmt B textaröð. Ef manni væri boðið brauð sem sagt væri að gæfi eilíft líf myndi maður kaupa það? Hugleiðing um orð Jesú að brauðið sem hann gefur sé þannig.

Náð sé með yður og friður frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Kristi.

1. Ef ég væri sölumaður og hefði hér með mér allskyns auglýsingaspjöld til að kynna vöru mína og ég myndi bjóða ykkur brauð sem gerði ykkur eilíf, myndir þú kaupa af mér? Ég botna ekki í því af hverju sölumenn samtímans fara ekki á námskeið sem byggir á söluaðferð Jesú til að læra sölutækni því að þetta bauð hann áheyrendum sínum. En einhver er nú munurinn á mér og honum. Og ég hef ekki meiri trú á mér en svo að orð mín gera varla nokkurn eilífan en Jesús var ekki nokkrum vafa um að orð hans gerðu menn eilífa. „Sá sem etur af því deyr ekki“, sagði hann.

a. Jesús er ekki með eitthvað auglýsingaskrum í þessum orðum sínum heldur svarar hann dýpstu þörfum okkar fyrir Guð. Reyndar breytir afstaða okkar engu í því mál, en það má ekki segja upphátt í nútímanum. Jesús tekur sér stöðu sem milligöngumaður milli okkar og Guðs. Hann svarar því hungri sem býr innra með mönnum, hungri sálarinnar, eftir einhverju meiru. Einn af þekktustu dálkahöfundum nútímans, maður að nafni Bernard Levin, ritaði eitt sinn grein, sem hann nefndi Lífsgátan mikla sem enginn tími vinnst til að ráða. Það er lýsandi dæmi fyrir það tómarúm sem ég er að vísa til. Hann skrifar:

Í löndum eins og okkar er margt fólk sem nýtur allra þeirra efnislegu þæginda sem hugurinn girnist auk þeirrar blessunar að eiga hamingjusama fjölskyldu. Þó býr með því leynd eða ljós örvænting, og það skilur ekki en veit að það er tóm hið innra með því, og sama hvernig það reynir að fylla það með mat og drykk, fjölda bíla, sjónvörpum, börnum sem eru í góðu jafnvægi og tryggum vinum, sem ganga með þeim í kringum tómið, þá er sársaukinn ævinlega til staðar. (N. Gumbel. Spurningar lífsins. Salt ehf, Reykjavík, 2006. S. 10)

Er því svo farið að við höfum andlegt hungur sem ekkert í veröldinni fær fullnægt? Höfundur orðanna telur sig ekki vera kristinn. Og auðvitað mætti tilfæri mörg fleiri dæmi og ef við horfum í eigin barm þekkjum við eflaust þessa tilfinningu flest fyrir tómarúmi í hjartanu.

Jesús vísar í hungursneyð Ísraelsmanna í eyðimörkinni og umkvörtun þeirra. Móses ræddi það við Guð og Guð gaf þeim lynghænsn að morgni og manna að kvöldi. Þeir sem átu lifðu af í eyðimörkinni en dóu áður en yfir lauk, jafnvel Móses var grafinn, en Jesús fullyrðir að þeir sem eta brauðið sem hann gefur lifi að eilífu. Hann er að segja að hann seðji þetta hungur hjartans.

b. Þetta eru stór orð. Hvernig getur maður sem var uppi fyrir tvö þúsund árum satt andlegt hungur allra manna? Það gerir hann ekki með orði sínu og verkum heldur með því hver hann er. Fullyrðing hans er þessi: „Ég er brauð lífsins“.

Vaninn hefur gert það að verkum að við mörg hver erum hætt að heyra það sem Jesús segir. C. S. Lewis hefur á eftirminnilegan hátt bent á muninum á Jesú og öllum öðrum mönnum og tekur dæmið um það að hann fyrirgaf fólki syndir sem það hafði drýgt gegn öðrum en honum. Og Lewis ályktar réttilega að það getur aðeins Guð gert. Þannig hugsuðu einnig kennimenn samtíma Jesú og gagnrýndu hann fyrir að tala svona óvarlega:

Hluti fullyrðingarinnar hefur tilhneigingu til að fara framhjá okkur vegna þess að við höfum heyrt hana svo oft og við sjáum ekki lengur hvað í henni felst. Ég á við þá fullyrðingu að geta fyrirgefið syndir: allar syndir. Ef sá sem talar er ekki Guð eru þessi orð svo fáránleg að það verður hlægilegt. Við skiljum vel þegar manneskja fyrirgefur þegar einhver gerir á hlut hennar. Þú treður mér um tær og ég fyrirgef þér, þú stelur peningum frá mér og ég fyrirgef þér. En hvað eigum við að halda um mann, sem enginn hefur troðið um tær né rænt sem lýsir því yfir að hann fyrirgefi þér að hafa troðið öðrum um tær og stolið peningum annars fólks? Hvað annað en að hann hljóti að vera, vægt til orða tekið, heimskur hrokagikkur? Samt var það einmitt þetta sem Jesús gerði. Hann sagði fólki að hann fyrirgæfi því syndir þess, án þess svo mikið sem spyrja alla þá sem ótvírætt hafði verið syndgað gegn. Hann lét, án þess að blikna, eins og hann ætti mestan hlut að máli og væri aðalþolandinn. Þetta fær ekki staðist nema því aðeins að Jesús sé Guð og fólk brjóti lögmál hans og særi kærleikann í hvert sinn sem synd er drýgð. Í munni annars en Guðs bæru orð þessi ekki vott um annað en óviðjafnanlegan kjánaskap og sjálfbirgingshátt. (N. Gumbel. Spurningar lífsins. Salt ehf, Reykjavík, 2006. S. 10)

Í guðspjalli Jóhannesar eru nokkur orð Jesú sem byrja: „Ég er…“ Á hebresku er þetta sama og segja ég er Guð, Guð er sá sem er, grunnur tilverunnar, skaparinn eilífi, sem heldur öllu uppi, hvert andartak, hvern hjartslátt, gefur hann. Jesús er að segja: „Ég er Guð þinn sem get satt hungur þitt eftir mér. Ekkert í veröldinni getur það, nema ég, sem er til þín kominn“.

3. Það skiptir miklu máli fyrir þann sem hungrar á þennan hátt að öðlast þessa næringu sálarinnar. Hvernig gerist það? Jesús svarar því afdráttarlaust: „Sá sem trúir, hefur eilíft líf“. Hann líkir trúnni við það að eta brauð.

a. Flestir borða án nokkurra erfiðleika. Við eigum frekar í vandræðum með að borða of mikið í allsnægtasamfélaginu. Það gleðilega við guðspjall dagsins er að Guð gefur okkur það sem við þurfum af andlegri fæðu af himni. Það þýðir að við getum ekki búið það til eða framleitt neitt það sem svarar þörf okkar fyrir Guð. Það er Guð einn sem getur svalað hungri andans. Líking Jesú að hann er eins og manna af himni segir okkur þetta að brauðið sem við þurfum fyrir sálina kemur að ofan. Þetta er endurtekið í gegnum allt guðspjallið. Jesús birtir okkur Guð, opinberar dýrð hans, er sendur frá honum, sá sem sér Jesús sér Föðurinn o.s.frv.

b. En ekki nóg með það að Jesús birtir okkur Guð. Það er gengið lengra. Í upphafi guðspjallsins höfum við það sem ég hef kallað fyrsti jólasálmurinn. Guðspjall jóladags: „Orðið varð hold og hann bjó á meðal okkar fullur náðar og sannleika“.

Eins og fullyrðingar Jesús eru einstakar er þetta ljóð það sömuleiðis. Það styðst ekki við skynsamleg rök. Þó að við getum ályktað og leitt rökum út frá þessari forsendu, sem er nákvæmlega sú, að vitið í tilveru okkar, Guð, er holdi klætt í manninum Jesú Kristi. Og það stóð ekki á viðbrögðunum þegar Jesús hélt þessu fram um sig: „Brauðið sem ég mun gefa er hold mitt heiminum til lífs“.

Það voru margir lærisveinar sem yfirgáfu hann vegna þessara orða. Það var kurr meðal lærisveinanna og fræðingarnir þá snéru út úr orðunum sem hefur svo sem viðgengist síðan. „Hvernig getur þessi maður gefið oss hold sitt að eta?“, sögðu þeir.

c. Það hefur engin trúarbragðahöfundur tekið annað eins upp í sig. Jesús ætlaði sér einstaka stöðu milli Guðs og manna. Samband okkar við Guð snýst allt um hann. Hann er brauð lífsins, sem okkur er gefið og gagnast okkur til eilífðar.

Málverk af Blaise Pascal eftir François II Quesnel 1691.

En hvað er svona galið við að trúa orðum Jesú um sjálfan sig? Sér í lagi ef það reynist nú vera vitið í tilveru okkar. Það er ágætt að geta verið í skjóli sér vitrar manna í þessu tilliti. Heimspekingurinn, guðfræðingurinn og stærðfræðingurinn Blaise Pascal skildi eftir sig Hugleiðingar sínar. Þar færir hann rök fyrir því að það sé skynsamlegra að trú en að trúa ekki vegna þess að maður taki minni áhættu með trúnni ef það skyldi nú vera satt það sem trúin boðar. Við höfum engu að tapa! Þó var það ekki það sem réð úrslitum hjá honum heldur reynsla hans. Eflaust var það frásagan af Móses og runnanum sem stóð í ljósum logum en brann ekki. Guð Abrahams, Ísaks og Jakobs, Guð, Jesús Krists opinberaðist honum. Við höfum þetta ljóð frá honum eða trúarjátningu: „Eldur, eldur, Jesús, Jesús, ekki Guð heimspekinganna heldur Guð Abrahams, Ísaks og Jakobs, Guð Jesú Krists“.

4. Pascal bendir á að rök hjartans eru önnur en rök skynseminnar. Guð talar til hjartans. Samband við Guð er því ekki draumórar eða óskhyggja heldur staðreyndin fyrir hjartanu, það sem ég lifi og hrærist í, það, sem gefur lífi mínu tilgang og merkingu, Guð.

a. Trúin er um samskipti okkar við Guð og menn og sköpun alla. Út frá orðum Jesú, verkum og persónu, lifum við í sambandi við Guð. Það er kostur sem okkur er gefin af Guði sjálfum með því að hann kom til okkar. Við erum sköpuð til þessa samfélags og erum ekki í „sambandi“ án þess við dýpsta og hinsta tilgang okkar, lífið sjálft, Guð. Þess vegna svalar og seður ekkert hungur hjartans eftir Guð nema Guð einn.

b. Við erum kölluð að vera með sama hugarfari og Jesús. Hann kom til að þjóna og gefa af sér. Við erum kölluð til þess af Guði sjálfum, kölluð til að lifa Guði, honum, sem er kærleikur. Það er í samfélagi manna að við lifum samfélagið við Guð. Þar fá orðin merkingu í heilagri Ritningu þar sem Guð talar við þig: „Ég nefni þig með nafni, þú ert minn, þú ert mín.“ – í því er eilífðin fólgin.

Dýrð sé Guði föður, syni og heilögum anda, svo sem var í upphafi er enn og verða mun um aldir alda. Amen.

Published
Categorized as Ræður

Eftir Guðmundur Guðmundsson

Héraðsprestur í Eyjafjarðar- og Þingeyjarprófastsdæmi

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

%d bloggurum líkar þetta: