
Ræða flutt 2. mars 1997 á 3. sunnudegi í föstu. Texti: Jóh. 8:42-51, textaröð B. Sálmar: Sb. 133: Jesús eymd vora alla sá. Sb. 284: Vor Guð er borg á bjargi traust. Sb. 42: Vér stöndum á bjargi, sem bifast ei má. Sb. 56: Son Guðs ertu með sanni.
Bæn:
Guð, þú sem gefur veikum styrk og ljós þeim sem í myrkri eru. Hjálpa oss að þekkja son þinn, Jesú Krist, svo að vér lærum að þekkja þig í honum. Hjálpa oss að hneykslast ekki á krossi hans og pínu, heldur sjá þar dýrð sonar þíns, sem er fullur náðar og sannleika. Gef að vér í veikleika vorum íklæðumst krafti hans og ljós hans rými burt myrkri voru. Hjálpa oss að rísa ekki gegn vilja þínum. Fyrir Jesú Krist, Drottin vorn. Amen.
Stólvers:
Þitt orð er, Guð, vort erfðarfé,
þann arf vér bestan fengum.
Oss liðnum veit til lofs það sé,
að ljós við þess vér gengum.
Það hreystir hug í neyð,
það huggar sál í deyð.
Lát börn vor eftir oss
það erfa blessað hnoss.
Ó, gef það glatist engum.
(Grundtvig – þýð. Helgi Hálfdanarson)
1. Inngangur
„Guð er borg á bjargi traust“, sungum við. Jesús sagði einu sinni dæmisögu um tvo menn sem byggðu hús annar á sandi en hinn á bjargi. Þannig endaði hann fjallræðuna. Það var ekki von á því að það færi vel fyrir þeim sem byggði á sandi. Það kom rigning og stormur. Það grófst undan húsinu og það hrundi. En hinn sem byggði á bjargi reyndi það að húsið hans stóð af sér regnið og storminn. Jesús útskýrir svo dæmið að sá sem fer eftir orði hans er eins og sá sem byggði á bjarginu. Guðspjall dagsins og guðspjallið yfirleitt gengur út frá þessu, ekki því sem við látum okkur detta í hug, né því sem okkur finnst, né skoðunum okkar, heldur eftir breytni okkar fer eilíf velferð okkar. Sá mælikvarði sem er settur okkur er Guð sjálfur, kærleiki hans og ást, þannig á líf okkar manna að vera. Á þriðja sunnudegi í föstu erum við minnt á þessa staðreynd. Boðorðin tíu eru lesin upp. Farðu eftir þeim og þú ert á Guðs vegi, endurspeglar kærleika Guðs og ást til manna. Fjallið á Sínaí, þar sem Guð lét þjóð sína fá boðorðin, var og er bjarg til að byggja á líf sitt og breytni. Biblían kennir það afdráttarlaust að það sé gæfuleið að vanda líf sitt í samræmi við vilja Guðs sem birtist okkar þar. Guðspjall dagsins greinir frá umræðum milli Jesú og gyðinganna sem enduðu í deilum, átökum og Jesús komst undan naumlega. Oft gleymum við því hve átakanleg saga Jesú var og raunveruleg. Eins og saga gyðingaþjóðarinnar í dag er átakanleg var hún það á dögum Jesú. Á föstunnu rifjum við upp þessa átakanlegu píslarsögu, ekki til þess að dveja við píslirnar, það væri öfugsnúið, heldur til þess að standa frammi fyrir Guði eins og við erum, þá sjáum við og skiljum að Guð var í Jesú Kristi. Hann fullyrti að það var Guð sem sendi hann. Þjáning Jesú og dauði stafaði af því að það er himin og jörð milli Guðs og manna.
2. Útlegging
a) Antitesis: Jesús var vændur um það að gera sig jafnan Guði, fyrir guðlast var hann að lokum dæmdur. Þessi hluti guðspallsins endar með því að gyðingarnir takast á við hann og segja: „Þú ert ekki enn orðinn fimmtugur, og hefur séð Abraham.“ Þá svarar Jesús: „Sannlega, sannlega segi ég yður: Áður en Abraham fæddist, er ég.“ Þessi setning hljómar undarlega á íslensku enda erfitt að þýða, meira þarf til, því hér er þörf á útskýringu. Gyðingar álitu nafn Guðs svo háheilagt að þeir tóku það sér ekki í munn. Guð var fyrir þeim sá sem er frá eilífð til eilífðar. Guðsnafnið „Jahve“ felur þessa merkingu í sér. Í stað þess að lesa „Jahve“ lásu þeir „adonai“ sem merkir herra eða drottinn. Þeim hefur sortnað fyrir augum þegar Jesús sagði: „ég er“, hér eins og hann hafði áður sagt: „Ég er ljós heimsins“. Auðvitað eru í þessum orðum margra ára íhugun um Jesú sem Guð, engu að síðu hlýtur þetta að vera ástæðan fyrir því að Jesús var tekinn höndum, dæmdur og krossfestur. Eftir þessi orð Jesú taka gyðingarnir í vandlæti sínu upp grjót til að grýta hann. Fyrir okkur nútímamönnum lítur þetta út sem frumstætt villimannaþjóðfélag og má nokkuð til sanns vegar færa. Aftökur eru liðin tíð hjá okkur en raunveruleikinn er þó sá að í nútímanum eru margir myrtir fyrir skoðanir sínar.

b) Concessio. Í mannlegum augum er það of gott til þess að vera satt að Guð sendi son sinn til þess að kenna okkur að þekkja sig. Í guðspjallinu fær vantrúin á sig átakanlega mynd. Gyðingarnir telja sig trygga með það að vera afkomendur Abrahams. Þeir þurftu ekki þess með að Guð sendi þeim son sinn til að uppfræða þá. Sumum finnst þetta orðaval Meistarans einum of „þér eigið djöfulinn að föður … hann var manndrápari frá upphafi og aldrei í sannleikanum“ (v. 44). Um það snýst málið að Jesús vissi að þessi andstaða átti eftir að leiða hann til dauða, að uppgjörið mesta, valið stærsta í lífi þjóða og einstaklinga snýst um hann, um Krist. Því komumst við ekki framhjá ef við viljum hlusta eftir Guðs orði og vera í sannleikanum. Það er alvarleg staða sem viðmælendur Jesú koma sér í. Jesús segir við þá: „Af því að ég segi sannleikann, trúið þér mér ekki. Hver yðar getur sannað á mig synd? Ef ég segi sannleikann, hví trúið þér mér ekki? Sá sem er af Guði, heyrir Guðs orð. Þér heyrið ekki, vegna þess að þér eruð ekki af Guði.“ (v. 45-47). Spurningin sem allt veltur á varðandi eilífa velferð okkar er þessi: Er Jesús Kristur frá Guði? Hverju svörum við því? Það hlaut að fara á þennan hátt þegar Guð kom með eins afdráttarlausum hætti til manna eins og gerist í guðspallinu, andsnúin vilja mannkynsins við vilja Guðs birtist í píslarsögu kærleikans, þegar Guð réttir fram sína hönd slá fulltrúar manna á útrétta hönd Guðs, festa hana á kross. Eftir á að hyggja gat það ekki farið öðru vísi þegar Guð mætti mannkyni öllu, það hlaut að enda í píslarsögunni sem við rifjum upp á hverri föstu. Þannig var og er staða manna gagnvart Guði.
c) Refutatio. Þegar dýpst er skoðað þolum við verst að þiggja hjálpina sem Guð réttir að okkur. Við skiljum svo illa að við þurfum ekki lengur að halda allt lögmálið, bæta okkur og breyta til þess að eiga velþóknun Guðs. Í Jesú nafni, fyrir hann, eigum við Guð sem elskar okkur. Við eigum það sammerkt með gyðingunum í guðspjalli dagsins að vilja treysta á okkur sjálf, hafa eitthvað fram að færi. Það er okkur miklu eðlislægara að afsaka okkur frekar en að játa syndir okkar. Þegar við loksins komumst til botns í spurningunni um Guð stendur valið um það að treysta á eitthvað annað en Guð eða að treysta á Guð einan og gefa honum dýrðina. Guðspjallið kennir okkur að Jesús er Guð kominn til okkar, svo elskaði Guð, í Jesú sjáum við Guð eins og hann er. Í þessum manni sérðu Guð þinn, mætir honum, átt Guð, Guð sem er frá eilífð til eilífðar, Guð þinn.
d) Prepositio: Í þessu vali er allt undir því komið að við hættum að treysta á okkur sjálf, ekki svo að við gerum lítið úr okkur, heldur að við treystum á Guð, felum okkur honum á vald. Það var okkar upphaflegi tilgangur í þessari veröld að vera Guðs. Gyðingarnir ætluðu að þeir væru öruggir með sig þar sem þeir höfðu lögmálið og voru afkomendur Abrahams. Það er engin trygging. Það er engin trygging til önnur en Jesús Kristur. Orð hans standa óhagganleg eins og bjarg, vegna þess að hann segir sannleikann. Í því tilliti er aðeins einn sannleikur, sannleikur Guðs, sem birtist okkur í einum af okkur, í manni sem talaði skiljanlegt mál, talaði til okkar í eitt skipti fyrir öll, til þess svo að vera alltaf með okkur, hjá okkur, til þess að styrkja okkur á lífsgöngunni með orði sínu.
e) Declarartio: Fagnaðarerindið er saga Jesú frá Nasaret. Það er sannleikurinn, eins og hann sagði sjálfur: „Ég er sannleikurinn og lífið“. Þegar Guð gengur inn á sögusviðið fæðist hann ekki í höll konunga heldur af fátækri konu í gripahúsi. Hann velur sér ekki hámenntaða guðfræðinga og spekinga síns tíma sem lærisveina heldur fiskimenn og almúgafólk. Trúarjátnig kristinna manna er eins og á skjön við mannlega skynsemi við fyrstu sýn en þegar betur er að gætt er hún um kærleikann sem sigrar, fjallar um vorið og sólina sem lýsir við gröf, fjallar um sigur lífsins. Kærleikur Guðs er að hann kemur sjálfur til okkar í syni sínum, í honum sjáum við ljós, ást, sem drottnar ekki yfir heldur þjónar, gefur sjálfan sig. Gengur í gegnum píslir og þjáningar með mönnum til þess að reisa þá niðurbeygðu upp, gefa von, þar sem engin von virðist vera. Það er lífskraftur Guðs ríkis.
f) Confirmatio: Ég hlustaði einu sinni á erindi G. Guteretz frá Suður Ameríku. Hann er frelsunarguðfræðingur svo kallaður. Hann hefur skrifað trúfræði sem útskýrir hvað þeir stefna að til að bæta kjör þeirra verst settu í fátækrahverfum stórborganna og varnarlausra bænda gagnvart ofurefli fjársterkra auðjöfra. Það kom mér á óvart hvað hugmyndir hans voru einfaldar en verkefnið stórt. Hann sagðist vera á leið heim eftir fyrirlestraferð. Það sem biði hans heima var að sannfæra vini sína sem lifðu í örbyrgð um það að Guð elskar fátæklingana en ekki aðeins ríka fólkið. Hann mótaði hugtakið „núll-persóna“ eða „ekki-persóna“ um þá sem ekki er reiknað með í þessum þjóðfélögum. Með fagnaðarerindið um Jesú sem kom til að boða fátækum gleðilegan boðskap vildi hann gefa þessu fólki sjálfsvirðingu, segja því að í Guðs augum eru þeir dýrmætir, gefa þeim þekkingargrundvöll til þess að berjast fyrir rétti sínum, standa með þeim í frelsisbaráttu þeirra, sem snýst um að lifa við mannsæmandi lífskjör.
Þegar maður heyrir slíkar ræður rennur upp fyrir manni að Guðs orð er ekki úrelt ævintýrabók sem geymist upp í hyllu heldur sú bók sem kennir okkur að horfast í augu við raunveruleikan eins og hann er. Hún er sá kraftur sem dugar til þess að leysa menn úr fjötrum, gefa þeim gildi, móta samfélög og menningar til góðs. Hún hefur að geyma þann sannleika sem skiptir mestu að Guð varð hold og bjó á meðal okkar. Í Jesú sjáum við Guð hvernig hann hugsar um okkur, hvað hann vill okkur.
g) Doctrina: Guðs orð er Jesús Kristur sem var áður en Abraham fæddist, sá sem var frá upphafi, er og verða mun um eilífð. Það var hann sem ræddi við gyðingana og endaði líf sitt á krossi.
3. Heimfærsla – Niðurstaða
Orð Guðs er ekki lokuð bók. Orðið er lifandi orð sem kemur til okkar í daglegu lífi, í hinum þurfandi og fátæka. Guðs orð er það sem skiptir mestu máli í lífinu. Okkur hættir til að setja annað því ofar, tímanlega hluti sem líða undir lok, þekkingu sem við höldum að dugi okkur betur, en þegar að leiðarlokum kemur, þegar við stöndum með spurningarnar stóru, þá er það sagan um Jesú sem dugar okkur best, um dauða hans á krossi og upprisu, um að lífið hafi sigrað dauðann, ljósið skín í myrkrinu. Það er sannleikurinn, Guðs orð. Sú trú er rótgróin í íslenskri menningu eins og Passíusálmar Hallgríms Péturssonar sanna.
Biðjum góðan Guð að hjálpa okkur að lifa í Guðs orði, í orði og verki, þannig að við fáum að reyna hið fagra, góða og fullkomna, reyna ást Guðs, sem gerir alla hluti nýja. Í Jesú Kristi kom Guð sjálfur til okkar, sá sem er, var og mun ríkja um eilífð í ríki kærleika síns.
Dýrð sé Guði, föður og syni og heilögum anda, svo sem var í upphafi, er og verður um aldir alda. Amen.