Fyrsti jólasálmurinn

gluggiglerarkirkjuUpphaflega flutti ég þessa jólaræða í Glerárkirkju á jóladag 1999 og svo 2010 í Munkaþverárkirkju og 2016 í Ólafsfjarðarkirkju. Ég las ljóðið í ræðunni vers fyrir vers eins og R. E. Brown setur það upp og reyndi fyrir mér að útskýra textann í heild með einhvers konar prósaljóði. Aðkoma mín og krækja var, að eins og jólaguðspjallið er jólasagan fyrsta sem allar jólasögur spretta af, svo er jólaljóðið hjá Jóhannesi fyrsti jólasálmurinn.

Gleðileg jól!

Jólaguðspjallið vekur merkilegar kenndir. Um leið og klukkurnar slá inn hátíðina og lesið er við aftansönginn: „En það bar til um þessar mundir, að boð kom frá Ágústus keisara, að skrásetja skyldi alla heimsbyggðina…“ (Lúk. 2:1), finnst flestum að jólin eru loksins komin. Það er jólasagan, hátíðartextinn, sem er efstur í huga á jólum.

En á jóladag er textinn annar. Það er lesið ljóð úr guðspjalli Jóhannesar, jólaljóðið, sem nefna má jólasálminn fyrsta, hann varð til áður en jólin urðu kristin hátíð, mörgum öldum fyrir „Heims um ból“. Af jólaljóðinu eru allir jólasálmar sprottnir. Þar eru stef og hugsanir svo ríkar af jólaboðskapnum að enginn spekingur hefur séð til botns í því leyndardóma djúpi þó að hvert barn geti tekið á móti þeirri gleðifrétt sem þar er að finna.

Við skulum staldra við þessi fáeinu orð ljóðsins í kyrrlátri íhugun eins og lesa ber ljóð. Elstu kennimenn kirkjunnar hugsuðu sem svo að það væri ekki í mannlegu valdi að tala eins og gert er í fyrsta jólasálminum, hann hlyti að eiga sér himneskan uppruna.

1. erindi – Um Orðið hjá guði

Í upphafi var Orðið,
og Orðið var hjá Guði,
og Orðið var Guð.
Hann var í upphafi hjá Guði.

Orðið var hjá Guði. Hvaða orð? Við erum minnt á upphafið, sköpunina, Guð talaði og það varð sem hann sagði. Þannig er Guðs orð. Í öðru ljóði Biblíunnar er sagt að um þessar mundir hafi Guð talað til okkar í syni sínum: „Fyrir hann hefur hann (Guð) líka heimana gjört.“

Áður en nokkuð varð til í veröld okkar (sem okkur finnst flestum harla góður íverustaður) var sonurinn, orðið, hjá Guði. Jóhannes postuli sem skrifar þessar hendingar útskýrir með myndmáli við hvað hann á svo að hvert barn getur skilið: „Sonurinn eini … er í faðmi föðurins“. Við getum bætt við frá eilífð til eilífðar. Tilvera okkar var sköpuð fyrir Krist og með hans tilstilli. Hann er orðið sem heimarnir eru skapaðir með, fyrir hann var þetta allt gert. Þannig byrjar fyrsti jólasálmurinn lofsönginn um Krist.

Þú átt alla tilveru þína undir honum. Guð heldur öllu uppi með orði sínu. Þér finnst það kannski ógnvekjandi. Lífið er það, lífið er í hendi Guðs, allt er í hendi hans, hið óvænta og gæfulega. En það gleðilega við þessa lífsafstöðu er að sonurinn eini sem er í faðmi föðurins hefur birt okkur Guð eins og hann er, Guð, sem hefur allt í hendi sér.

2. erindi – Um Orðið og sköpunin

Allir hlutir urðu fyrir hann,
án hans varð ekki neitt,
sem til er. Í honum var líf,
og lífið var ljós mannanna.
Ljósið skín í myrkrinu,
og myrkrið tók ekki á móti því.

Orðið og sköpunin eiga saman frá upphafi. Þetta orð, vitið í tilveru okkar, stígur fram í jólasálminum fyrsta, sem HANN. Hann var í upphafi hjá Guði. Allir hlutir urðu til fyrir hann. Hvað segir það okkur? Jú, að orðið er persóna. Guð er ekki óskiljanleg stærð handan himingeimsins, óskiljanlegt djúp, heldur persóna eins og við eða við erum persónur, manneskjur, einstaklingar, óendanlega mikilvæg vegna hans, sem var í upphafi. Í grunni tilveru okkar er kærleiksríkt faðmlag föður og sonar eða foreldris, móður og barns þess vegna, eins og jólasagan segir okkur frá.

Þessi tvö fyrstu erindi minna okkur á sköpunina í upphafi. Guð skapaði allra fyrst ljósið, sagði: „Verði ljós og það varð ljós“. Þetta ljóð eins og sköpunarljóð Biblíunnar segir okkur að Guð er gjafari lífsins. Hann er okkur lífið og ljósið, allt á upphaf sitt í honum.

Á einni af hátíðum gyðinga sem átti rætur að rekja til uppskeru og lífsins voru kveiktir eldar fyrir utan musterið í Jerúsalem svo að musterissvæðið var sem um hábjartan dag. Á laufskálahátíðinni kom Jesús fram og kallaði: „Ég er ljós heimsins. Sá sem fylgir mér, mun ekki ganga í myrkri, heldur hafa ljós lífsins“ (Jóh. 8:12). Þvílíkt og annað eins hafði ekki heyrst fyrr né síðar þó að margur spámaðurinn hefði talað þar um slóðir. Þvílík sjálfsvitund – „ljós heimsins“. Það fer ekkert á milli mála að Jóhannes skilur það þannig að maðurinn sem kom fram við Jórdan og Jóhannes skírari benti á og sagði: „Sjá, Guðs lamb, sem ber synd heimsins“. var þetta eilífa ljós Guðs í heiminn komið í manni sem stóð þarna meðal manna og sagði um sjálfan sig: „Ég er ljós heimsins“.

3. erindi – Um Orðið í heiminum

Hann var í heiminum,
og heimurinn var orðinn til fyrir hann,
en heimurinn þekkti hann ekki.
Hann kom til eignar sinnar,
en hans eigin menn tóku ekki við honum.
En öllum þeim, sem tóku við honum,
gaf hann rétt til að verða Guðs börn.

Með þessum orðum flytur skáldið okkur jólaboðskapinn: „HANN var í heiminum“. Er hann að segja okkur að Guð hafi verið í okkar heimi? Já, hinn óendanlega mikli og máttugi Guð sem við getum enga hugmyndir gert okkur um án þess að það verði einhver skrípamynd af honum, erum eins og barnið sem teiknar Guð eins og jólasvein á skýji, hann birtist í okkar þröngu tilveru sem mannsbarn, sem menn sáu og heyrðu tala.

Í jólasálmi eftir Lúther veltir hann fyrir sér hvernig þetta má vera að Jesús er bróðir okkar. Hann sér fyrir sér litla barnshendi. Ekkert er eins smátt og varnarlaust eins og fingur ungabarns sem fálmar eftir móðurbrjósti, nýlega þrýst inn í þennan heim, eins og hvert fætt mannsbarn, öll komum við sömu leið. Þannig kom Guð til okkar:

Og oss til merkis er það sagt:
Í aumum reifum finnum lagt
það barn í jötu’, er hefur heim
í hendi sér og ljóssins geim.

Þeim var svo sem vorkunn sem stóðu frammi fyrir þessari hugarraun að vera augliti til auglitis við Guð í mannsbarni, vitandi það að lífið allt og ljósið var í hendi hans. Þeir þekktu hann ekki vegna þess að þeirra hjákátlegu hugmyndir um Guð hindraði þá í því og þeir settu hugmyndir sínar ofar því sem þeir sáu, vegna þess að þeir þóttust vita hvernig ætti að þóknast Guði og þjóna.

Í fáeinum hendingum er efni alls guðspjallsins dregið upp fyrir okkur sem fylgir á eftir. Fyrri hluti guðspjallsins hefur verið nefnd bók táknanna og fjallar um kraftaverk Jesú og hvernig hann mætti fólki augliti til auglitis, sumir sáu og trúðu, aðrir snérust öndverðir, vegna þess að þeir vildu ekki sleppa ranghugmyndum sínum um Guð, ljósið varð þeim of bjart, sannleikurinn of afdráttarlaus. Með mikilli sorg og undrun eru þessi orð skrifuð: „Hann kom til eignar sinnar en hans eigin menn tóku ekki við honum“.

Hér er Guð kominn! Þú sérð mynd hans, skælandi nýfætt barn með titrandi tár og hönd, sem á yfir sér ógnir allrar veraldar og myrkur mannsálnanna, leitandi að brjósti móður sinnar, eins og við öll, til að lifa og berjast fyrir lífi sínu fyrstu stundir sínar. Leiðtogar þjóðar hans ákváðu að taka hann af lífi þegar hann kallaði á hátíðinni síðar: “Ég er ljós heimsins”. Þeir trúðu ekki því sem þeir sáu og heyrðu.

Í seinni hluta guðspjallsins er Jesús að tala við lærisveina sína. Það hefst með því að nokkrir Grikkir koma og vilja sjá hann. Þá kemst Jesú við og segir að stundinn sé kominn að Guð geri hann dýrlegan. Hann sá það mikla hlutverk sitt í þessu atviki að fagnaðarerindið væri fyrir alla menn ekki aðeins þjóð hans. Sá hluti er gjarnan nefndur bók dýrðarinnar. Hún segir okkur frá frelsaranum. Hann gekk píslargönguna til enda fyrir okkur, honum var þrýst út úr þessari veröld með ógeðfeldum hætti og pindingum.

Þar sjáum við niður í heldýpi mannsálna sem elska myrkrið. Eins og þú heyrir er fyrsti jólasálmurinn engin væminn tepruskapur heldur slær á strengi andstæðna sem er að finna í lífi okkar og ráða eilífum örlögum okkar. Hann fjallar um hólmgöngu sjálfs Guðs við myrkrið í okkur, í veröld okkar, og ljósið sigrar, myrkrið verður að víkja fyrir því. Það er runnið upp eilíft ljós. Þess vegna á það svo vel við að halda jólahátíð þegar sólinn er aftur að sigrast á myrkrinu. En sigur frelsarans færir okkur gjöfina mestu og bestu: „En öllum þeim, sem tóku við honum, gaf hann rétt til að verða Guðs börn“. Sú gjöf er ekki háð þjóðerni, stétt eða stöðu, öllum er gefinn sá réttur að verða Guðs börn fyrir Jesú Krist.

4. erindi – Um samfélagið um orðið sem varð hold

Og Orðið varð hold,
hann bjó með oss,
og vér sáum dýrð hans,
dýrð, sem sonurinn eini á frá föðurnum,
fullur náðar og sannleika.

Hann sem kom gaf okkur, þér og mér, hlut í því sem var hans. Hann leiðir þig inn í opinn faðm Guðs og kallar þig systur eða bróður, nefnir þig Guðs barn. Það skilur hvert mannsbarn sem heyrir. Það sáu þeir sem fylgdu honum. Jóhannes postuli, sem ég hef kallað skáldið, reyndi það að halla höfði sínu að brjósti Jesú síðasta kvöldið í veislunni þeirra á páskahátíðinni í Jerúsalem, hann hlustaði á kveðjuræðuna hans og blessunarbænir þeim til handa. „Við sáum dýrð hans“, skrifar hann. Seinna í guðspjallinu skrifar hann niður orð Jesú: „Sá sem hefur séð mig hefur séð föðurinn“ (Jóh. 14:9). Það var ekki dýrð mannsbarns sem Jóhannes sá og snerti heldur var það dýrð Guðs sem ljómaði í lífi þessa manns sem hann var samferða um stund og um alla eilífð vegna þess að hann mætti Guði í þessari lífssögu.

Fyrsti jólasálmur veraldarinnar segir þér og mér þetta að HANN, orðið sem var í upphafi, sem við erum gerð fyrir og sköpuð með, hefur gefið okkur með sér af dýrð sinni, að þekkja Guð, eins og hann er. Í grunni tilveru okkar er ást og kærleikur, opinn faðmur og náð. Þannig var hann þegar hann dvaldi á meðal okkar og þannig er Guð okkar.

Dýrð sé Guði föður og syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi, er og verður um aldir alda. Amen.

Eftir Guðmundur Guðmundsson

Héraðsprestur í Eyjafjarðar- og Þingeyjarprófastsdæmi

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

%d bloggurum líkar þetta: