Sendi hér jólakveðju til vina og vandamanna með þessum jólasálmi sem ég var að þýða fyrir jól. Hann er frá 6. öld og ber þess merki við sléttsöng en ég þýddi eða samdi með breytingum eftir írsk hjón og tónlistarfólk Kristyn og Keith Getty. Upphaflega lagið er í kirkjutóntegund heldur erfitt en þau aðlöguðu lagið Nú kemur heimsins hjálparráð að textanum. Þá útgáfu má hlusta á hér: https://www.youtube.com/watch?v=aQZfavrBBPI. Lag: O Savior of Our Fallen Race. Ensk þýðing á latneskum texta Gilbert E. Doan.
Frelsari heims

Frelsari heims, þitt ljós skín skært,
skaparans auglit birtir kært,
sonur Guðs við hans hægri hönd,
heimsljós fyrst er gaf lífsins önd.
Jesús, ljós af ljósi, um nótt
lýsandi stjarna, birtir skjótt,
bæn allra barna heyr þú nú,
bar þá svo við er fæddist þú.
Minnstu vor Drottinn miskunnar,
mannkyn fallið einn þú frelsar,
komst með traust og kærleik og von,
komst til vor sem Maríuson.
Dagur sá birtu baðar heim,
brotlegir heyra söng um geim.
Sannleikur dýr skín sólu meir:
Sá sem að trúir aldrei deyr.

Því að þú komst að frelsa oss
fjötrum úr með blóði á kross
börnin þín, lofum líf og ást,
ljósið eilífa aldrei brást.
Við gleðjumst þennan dýrðardag,
dásömum þig, syngjum þér lag,
því þú elskar alla svo heitt
að þú hefur nótt í dag breytt.
Frelsari heims, þitt ljós skín skært,
skaparans auglit birtir kært,
mannssonur við Guðs hægri hönd
hinsta ljós ertu hverri önd.
Kristur, frelsari, konungur,
áköllum nafn þitt Guðs sonur,
heiðrum þig með himna Föður
og helgum Anda, þinn söfnuður.
Enskur texti Gilbert E. Doan. Ísl. texti Guðm. G.