Orðin mörgu, sannleikurinn og Guð

Ræða flutt í Akureyrarkirkju 23. ágúst á 12. sunnudegi eftir þrettánda. Textarnir voru Davíðssálmur 40, 2-6, Jakobsbréf 3, 8-12 og guðspjallið Matt. 12, 31-37. Þetta eru kröftugir textar sem krefjast samræmis milli orða og verka, um sannleika og að lifa frammi fyrir Guði í öllu. Guð er meira en hugmynd. Guð hefur með sannleikann að gera, er sannur í orði sínu og verki. Byggt er á íhugunum Sigurbjörns Einarssonar biskups í ræðunni og vitnað til sálma eftir hann sem sungnir voru af félögum úr kirkjukórnum.

Náð sé með yður og friður frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Kristi.

Hver hefur ekki lent í því að segja meiðandi orð við einhvern? Og hver man ekki eftir sneið eða hnút sem sveið undan? Kannski ekki illa meint en engu að síður vond orð.

Bræðurnir Jakob og Jesú gera orðin að umtalsefni í pistli og guðspjalli dagsins.

Í nútímanum flæða orðin í útvarpi og sjónvarpi, netheimum og bloggi, blöðum og bókum, ræðu og riti. Hver hefur stjórn á þeim öllum. Bloggarinn situr við tölvuna sína, horfir í skjáinn, en sér ekki augun, lætur vaða, einhver fær það óþvegið og óvægið. Segir sannleikann eða hvað? Öll þessi orð eru ólgandi haf. Það er hægt að stýra skipi með litlu stýri en hver hefur stjórn á tungunni? Hún kveikir í öllu, eitruð er hún. Þeir bræður eru harðorðir um misnotkun tungunnar. Þeir fara fram á samræmi milli orða og verka. Þeir kenna okkur að sannleikurinn er fólginn í samræminu milli hugsunar og raunveruleika.

En þeir blanda Guði inn í dæmið. Við eigum að standa skil á hverju ónytjuorði af vörum okkar! Það er gagnlegt að prófa sig öðru hvoru í þessu, rifja upp liðinn dag, skoða hvernig hefur tekist til. Hvenær hraut orð af vörum sem meiddi? Hvenær skrifaði ég bloggfærslu sem átti að vera svo áhrifarík að viðmælandinn myndi aldrei nokkurn tímann þora í aðalbloggarann aftur? Það er ekki frjálsræði skjásins sem gildir í því samhengi heldur auga Guðs, sem yfir okkur vakir. Þegar ég horfist í augu við aðra manneskju horfist ég í augu við Guð sem skapaði augun og lífið sem á mig horfir. Það er hin guðleg vídd tilverunnar, að horfast í augu við lífið eins og það er.

Þá förum við líka að vakna til lífsins að morgni eins og Björn Halldórsson, prófastur í Laufási og athafnamaður, sem samdi þennan gullfallega morgunsálm sem við sungum í upphafi messunnar. Hann festir huga sinn við Guð að morgni að vilji Guðs sé honum í huga allan daginn:

Því vil ég vegsemd nýja
þér vanda, Drottinn minn,
með trausti til þín flýja
og tigna vilja þinn.
Það veri’ í dag mitt verk og mið,
æ, veit mér til þess kraft og lið.

Kristin trú er nefnilega æfing og mannrækt í góðmennsku og umhyggju.  Því skil ég ekki hvers vegna sumir eru svona gagnrýnir út í trúna. Maður fær það á tilfinninguna að þeir líti á okkur trúað fólk eins og meinsemd í þjóðarlíkamanum en það sem við kennum er gæska og góðvild, sem góður Guð kemur til leiðar meðal manna. Og orðin eru þar ofarlega á baugi eins og verkin.

1.

Sigurbjörn Einarsson, biskup, var einn þeirra sem kenndi í þessum anda. Íhuganir hans eru einstakar leiðbeiningar um að lifa í trú. Sjálfsprófun af þessu tagi eru þar í grunninn. Þegar hann var sjötugur var gefið út ritsafn hans og fékk það heitið Coram Deo, sem þýðir Frammi fyrir Guði – Fyrir augliti Guðs. Það er fyrsta skrefið í þessari mannrækt kristninnar.

Ég valdi eina þrjá sálma eftir hann til að syngja í dag. Einn frumsaminn. Þeir eru allir ávarp, þar sem Guð er ávarpaður: „Þú, Guð, sem veist og gefur allt…“ (Sb. 356) Og:

Þú, mikli Guð, er með oss á jörðu,
miskunn þín, nær en geisli á kinn.
Eins og vér finnum andvara morguns,
eins skynjar hjartað kærleika þinn.“ (Sb. 22)

Hvaða þýðingu hefur það fyrir mann að lifa nærri Guði? Í fyrsta lagi horfist maður í augu við sjálfan sig eins og maður er. Í dag er í tísku að tala um að vera maður sjálfur, eins og maður geti verið einhver annar, án þess að þykjast. Fyrirgefið útúrsnúninginn. En að horfast í augu við sjálfan sig er að vera sá sem maður er án þess að flýja en mikið af tíma okkar og kröftum er ég hræddur um að fari í það. Flóttanum líkur þegar þú speglar sjálfan þig í augum Guðs, þá sérðu hver þú ert, þá fyrst verður þú, þú sjálfur. Það getur verið óþægilegt, vont og sársaukafullt.

Sigurbjörn orðar það svona í frumsamda sálminum sínum:

Þú, Guð, sem veist og gefur allt,
mitt geð er hvikult, blint og valt
og hugur snauður, hjartað kalt,
þó vil ég vera þinn.
Og þú ert ríkur, þitt er allt,
og þú ert faðir minn.

Og þá kemur annað atriðið sem ég vil nefna. Þegar við viðurkennum sannleikann um sjálf okkur þá birtist Guð okkur sem sá sem hann er. Sannleikur lífsins sem við erum algjörlega háð vegna þess að allt er hans, hann er faðir okkur, upphaf, mið og líf. Kristinn mannrækt er algjörlega óhugsandi nema að tekin séu þessi tvö fyrstu skref, inn í sig og opnum til Guðs.

Það felur náttúrulega í sig ákveðna gagnrýni á alla sjálfhverfa, mannmiðlæga, hugsun og líferni. Út frá þeirri forsendu skilur maður andstöðu við kristna trú og það er rétt að reikna með henni. Anda trúarinnar var, er og verður andmælt. Að reyna að friðmælast og slá af þessum sannindum væri að svíkja grundvöll trúarinnar, sjálfan sig og Guð. Það get ég ekki gert.

Þá komum við að þriðja atriðinu sem ég vil nefna um þýðingu þess að lifa nærri Guði. Við höfum Guð ekki í okkar hendi. Það væri að snúa hlutunum á hvolf. Það er Guð sem hefur allt í sinni hendi. Þó að ég sé vinur hans og lifi í nálægð hans þýðir það ekki að ég sé alvaldur túlkandi hans í tilverunni. Við erum ekki að tala um skoðun, lífsskoðun, heldur trú.

Ég hef útskýrt það þannig að Guð er persóna en ekki nokkrar fullyrðingar sem eru óyggjandi sannar. Þar greinir á milli trúar og lífsskoðunar. Það þýðir að trúin er sveigjanlegri og mildari en lífsskoðanir sem hafa tilhneigingu til að verða afdráttarlausar og hörkulegar. Það er þó engin afsláttur á sannleika trúarinnar vegna þess að hún bindur sig algjörlega við Guð, eins og Sigurbjörn gerir í þessu erindi:

Drottinn Guð, þitt dýra nafnið skæra
dýrka ber og veita lotning tæra.
Hver tunga, vera skal vitni bera,
að voldug eru þín ráð
og þér þakkir færa.

Við trúað fólk stöndum því ekki á markaðstorgi hugmyndanna að selja okkar snilld heldur trúum við á Guð sem hefur litið til okkar í náð sinni. Auðvitað má segja að það sé hugmynd meðal annarra, ekki rétthærri eða lægri en aðrar hugmyndir, en fyrir trúuðum manni er ekki um hugmynd að ræða heldur Guð trúaðs manns, sem hann er tengdur og nefnir föður sinn.

2.

En snúum okkur aftur að mannræktinni.

Jakob veltir fyrir sér samræminu milli trúar og lífs eða ósamræminu. Hann er að tala við söfnuðinn þegar hann skrifar: „Með henni (tungunni) vegsömum við Drottin okkar og föður og með henni formælum við mönnum sem skapaðir eru í líkingu Guðs.“ Þannig má það ekki vera segir hann. En ósamræmið er staðreynd í söfnuðinum meðal trúaðra. Og það er náttúrlega helsta afsönnun trúarinnar og gagnsemi hennar að söfnuðurinn er uppfullur af hræsnurum sem þykjast vera betri en annað fólk.

Það sem við höfum er svo sem ekkert annað en það að við þorum að játa syndir okkar eins og við gerum í hverri messu áður en við göngum til altaris og prófum hug okkar og hjörtu frammi fyrir Guði. Svo það er ósannindi að kristið fólk heldur því fram að það sé betra en aðrir en ásetningurinn og stefnan er Guðs góði vilji engu að síður. Það er ekki vandalaust að vera í þessum sporum. Það væri miklu auðveldara að slá af fullkomnunarkröfunum og gera bara eins vel og maður getur. En fyrst maður lifir nærri Guði þá kemst maður ekki upp með það.

Orð Jesú er mikil huggun og styrkur í þessu samhengi: „Annaðhvort er tréð gott og ávöxturinn góður eða tréð vont og ávöxturinn vondur. Því af ávextinum þekkist tréð.“ Því höldum við fram að gott líf er „ávöxtur“ af samfélaginu við Guð. Það kemur af lífinu nærri Guði að við berum honum ávöxt með betra lífi, mannúð og manngæsku. Við höldum því fram að fyrirgefning syndanna sem boðuð er við altarisgönguna er forsenda fyrir góðu lífi, af því sprettur ávöxtur trúarinnar sem er kærleikur. Það er nokkuð sem Guð kemur til leiðar og auðvitað er það trú.

Þær víddir sem við erum að ræða hér verða okkur ljósar í frumsömdum sálmi Sigurbjörns þegar hann segir við Guð sinn:

Þú þekkir allan heimsins harm,
hvert hjarta grætur þér við barm,
þú vegur á þinn ástararm
hvert afbrot manns og böl.
Við krossins djúpa, hreina harm
þú helgar alla kvöl.

Allt mannlegt böl, þjáning, sársauki lífsins, tengist í þessu erindi Guði, eins og hann birtist okkur í Kristi, í þjáningu hans á krossinum. Guð er faðir okkar í þeirri merking að hann elskar á þennan hátt að hann gengur inn í kjör okkar, sonur hans, tekur hvert afbrot manns og böl, það verður okkur ekki tortímandi endalok, heldur eigum við lífið í honum.

3.

Það má segja að okkur sé lesinn pistillinn í dag um orðin mörgu. Við erum minnt á að segja sannleikann, að vera í samræmi við kjarnann í lífi okkar. Trúuðum manni er Guð kjarni lífsins, inntak og mið. Þessi þrjú atriði sem ég nefndi um kristna mannrækt, að lifa nærri Guði, varðandi sjálfan sig og sannindin sem Guð birtir um sig og okkur og að við erum í tengslum við Guð í lífinu eins og það er, leggja grunn að því veigamesta að Guð birtist okkur í Kristi til að hjálpa okkur að bera lífin ávöxt en ekki til að berjast um einhver hugmyndir. Aftur á móti eigum við að bera Kristi vitni í lífi og starfi.

Kristur gengur með okkur, þannig er Guð nálægur okkur í lífinu eins og það er, en ekki eins og við hugsum okkur að lífið ætti að vera. Þverstæðurnar í hugsun okkar og lífi, erfiðleikarnir, þjáningin og bölið, verður annað í augum Guðs, þar sem krossinn speglast með lífi okkar. Þessi íhugun er meira en vangaveltur trúuðum manni, hún er inntak lífsins, merking þess og mið.

Við eigum ekki að láta segja okkur það að þetta sé bara einhverjar hugmyndir eins og hverjar aðrar hugmyndir þá erum við að svíkja okkar eigin lífsgrundvöll. Við eigum að ganga fram á völl hugmyndanna og halda þessu fram. Einhver sátt um að allt er satt og rétt, hver hefur sinn sannleika, fær ekki staðist frammi fyrir Guði, þá heldur orðgjálfrið áfram, við missum fótanna á bjarginu sem við stöndum á. Og að vísa því á eitthvað alfarið persónulegt svið lífsins dugar ekki heldur vegna þess að orðin sönnu standast ein þegar upp er staðið og við verðum dæmd eftir því. Því verðum við að leita sannleikans frammi fyrir augliti Guðs í lífinu eins og það mætir okkur. Guð gefi okkur náð til þess.

Dýrð sé Guði, föður og syni og heilögum anda. Amen.

Published
Categorized as Ræður

Eftir Guðmundur Guðmundsson

Héraðsprestur í Eyjafjarðar- og Þingeyjarprófastsdæmi

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

%d bloggurum líkar þetta: