Kyrrðarstarf kirkjunnar á myndböndum

Kyrrðarstarf hefur undanfarin ár notið mikilla vinsælda. Það á einnig við um kyrrðarstarf í Þjóðkirkjunni.  Nokkrar kristnar hefðir eru til og hafa sumar þeirra verið iðkaðar hér á landi. Sennilega þekkja margir kyrrðardaga í Skálholti en þeir eru með ólíku sniði eða styðjast við ólíkar hefðir. Kyrrðarstarf í kirkjum landins er einnig víða og hefur aukist á síðustu árum.

Ráðstefna var haldin í Neskirkju í Reykjavík 18. október 2014 þar sem fjallað var um nokkrar leiðir til kyrrðar, íhugunar og betri líðanar. Gerð var samantekt á fyrirlestrunum og þeir teknir upp á myndband sem sjá má hér. 

Kyrrðarstarf kirkjunnar er fjölbreytt og vaxandi innan hennar. Markmið ráðstefnunnar um kyrrðarstarfið 18. október 2014 í Neskirkju var að draga fram þessa ólíku þætti og mikilvægi þeirra fyrir kirkju og kristið fólk. Í eðli sínu er kyrrðarstarf að vera hljóður frammi fyrir Guði í bæn, íhugun og hugleiðslu. Það snýst um samband við Guð í þeirri trú að Guð hafi samband við okkur. Sigurbjörn Einarsson, biskup, talar um í íhugunum sínum að sammælast Guði. Mótið við Guð er kjarninn þó að leiðirnar séu margar og mismunandi.

Á ráðstefnunni voru kynntar átta leiðir sem vaxið hafa fram í kristninni. Sumar aldagamlar en aðrar nýrri. Innleggin voru stutt, 10-15 mínútur. Þau eru aðgengileg á YouTube og á vef Eyjafjarðar- og Þingeyjarprófastsdæmis (kirkjan.is/naust), innri vef kirkjunnar og með tengli á kirkjan.is. Þá eru slóðir á erindin á vefjum sem fjalla um kyrrðarstarf: kyrrðarstarf.istolfspor.isskalhot.is. Hugsunin með því að birta erindin með þessum hætti er að einstaklingar, hópar og söfnuðir geti kynnt sér þennan veigamikla starfsþátt, ef verða mætti til þess að fleiri fari að iðka íhugun og bæn með því að taka frá tíma og stundir fyrir Guð. Rétt eins og menn ná litlum árangri í íþróttum ef menn mæta lítið sem ekkert á æfingar á það við um bænlíf. Þó er árangur ekki markmið í sjálfu sér heldur lífið með Guði í öllum sínum fjölbreytileika.

Fyrirlesarar á ráðstefnunni lýstu sig fúsa til að veita frekar upplýsingar og leiðbeina þeim sem hefðu hug á að koma á kyrrðarstarfi í sínum söfnuðum.

Kyrrðarstarf í Skálholti

Sr. Þorvaldur Karl Helgason fjallaði um kyrrðarstarf í Skálholti þar sem það hefur átt sér samastað í 28 ár eða frá 1986. Hann setti kyrrðarstarfið í samhengi stórra hugtaka: Guð, ég, náungi minn og umhverfi. Hann kom inn á hvíld og þrá eftir að uppgötva nærveru Guðs í lífinu og lagði áherslu á að taka frá tíma til þess. Þá var hann með ágætar leiðbeiningar um framkvæmd á kyrrðardögum. Hann vísaði í yfirlitsgrein eftir Rannveigu Sigurbjörnsdóttur: „Kyrrðardagar á Íslandi“ í Tímariti kristilegs félags heilbrigðisstétta 2006. Frá fyrstu tíð átti Sigurbjörn Einarsson stóran þátt í þessu starfi og leiddi kyrrðardaga um árabil í Skálholti í dymbilviku og síðar einnig á aðventunni allt til 1999 og svo aftur síðar. Hann nefndi einnig Systradaga og ýmsa sérsniðna kyrrðardaga fyrir ólíka hópa. Í erindinu skilgreinir hann íhugun og markmið kyrrðardaga. Hann lauk máli sínu með tilvitnun í Sigurbjörn í einni af Morgunblaðsgreinum hans: „… til hans (Guðs) er allt að sækja. En sjálfur er hann meira en allt sem hann gefur og gerir“.

Skóli orðsins – biblíuleg íhugun

Sr. María Ágústsdóttir fjallaði um skóla orðsins (Lectio Divina) sem hún hefur kosið að kalla biblíulega íhugun. Hún þýddi bæklinginn Skóli orðsins fyrir fræðsludeild kirkjunnar árið 2002. Bæklingurinn var hugsaður fyrir ungt fólk en gefur góða hugmynd um þessa aðferð við íhugun orðsins. Hún benti á að rekja má þessa aðferð aftur til gyðingdóms og eyðimerkurfeðranna. Bæklingurinn er hugsaður sem hópastarf og María hefur talsverða reynslu af slíku starfi. Markmiðið er að efla biblíuþekkingu með innlifun í textana, um leið styrkir það trúna á Jesú Krist og trú í daglegu lífi. Hún fór í gegnum aðferðina sem á sér hliðstæður í öðru sem kynnt var á ráðstefnunni en hjartað í henni er kyrrðin og íhugunin. Benti hún á að það gerist eitthvað þegar Guðs orð er lesið upphátt og hvatti til þess bæði í hópi og einslega. Hún nefndi fimm þrep: 1. Undirbúningur. 2. Lestur. 3. Kyrrð – íhugun. 4. Bæn. 5. Athöfn. Mikið hefur verið skrifað um biblíulega íhugun. Hún kynnti nokkrar bækur í því sambandi í lokin. Þá fagnaði hún mjög að tilheyra kyrrðarhreyfingu kirkjunnar og sjá hana vaxa.

 • María Ágústsdóttir (þýddi og staðfærði), Skóli orðsins, Fræðsludeild þjóðkirkjunnar 2000.
 • Um Lectio Divina á íslenskri vefsíðu um kristna íhugun: http://kristinihugun.is/um-kristna-ihugun/bibliuleg-ihugun-lectio-divina/
 • Vefsíða um rit í anda Lectio Divina: www.osb.org/lectio
 • Vikulegar hugleiðingar og bænir í anda Lectio Divina: www.clubi.ie/lectio/week.html
 • Lectio í náttúrunni og í tónlist: Painter, Christine Valters (2012) Lectio Divina. The Sacred Act. London: SPCK.
 • Lectio út frá kirkjuárinu hugsað fyrir presta og prédikar: de Verteuil, Michel (2005) Lectio Divina with the Sunday Gospels. Dublin: The Columba Press.
 • Hall, Thelma (1988) Too deep for words. Rediscovering Lectio Divina. New York: Paulist Press.  og þetta ágæta smárit:
 • Khoury, Jean (2006) Lectio Divina. Spiritual Reading of the Bible. London: Catholic Truth Society.

Kyrrðarbænin

Sr. Guðrún Eggertsdóttir fjallaði um kyrrðarbænina (e. Centering Prayer). Í erindinu gerði hún grein fyrir kyrrðarbæninni og uppruna hennar. Hún rekur sig aftur til 14. aldar í bókina The Cloud of Unknowing. En í seinni tíð hefur hún verið heimfærð til nútímans og eftir annað Vatikanþingið var stefnt að því að gera trúararf klaustranna aðgengilegan fyrir almenning. Aðferðin er einföld en engan veginn auðveld, það er að mæla sér mót við Guð og það eina sem getur farið úrskeiðis er eiginlega að mæta ekki til fundarins við Guð. Guðrún fór yfir helstu atriði eins og bæn án orða, bænarorðið, að hvíla í bæninni, að ljúka hugleiðslustund. Þá talaði hún um umbreytingarferli í bæninni og nauðsyn þess að iðka hana reglulega. Svo kynnti hún það sem er verið að gera í kirkjunum og vefsíðuna www.kristinihugun.is þar sem eru upplýsingar um bænahópa víða um land ofl.

 • Erindi sr. Guðrúnar Eggertsdóttur á YouTube: http://youtu.be/EJ9xc8RHBdE
 • Ítarlegra erindi hennar á fræðslukvöldi í Glerárkirkju 26. febrúar 2014 á YouTube: http://youtu.be/L2MdmhDd8hI
 • Íslensk vefsíða um kyrrðarbænina með ítarlegum upplýsingum: www.kristinihugun.is
 • Johnston, W. The Cloud of Unknowing & the Book of Privy Counseling, New York, 2005.
 • Keating, T. Vakandi hugur – vökult hjarta : Um Kyrrðarbænina Centering Prayer, Skálholtsútgáfan, Reykjavík 2013.
 • Guðrún Eggertsdóttir. (2010). „Gengið á fund Guðs“. Kirkjuritið, 76(1), 45-49.

Hefðin frá Ignatíusi Loyola – Andlegar æfingar – Andleg fylgd

Sr. Vigfús Ingvar Ingvarsson fjallaði um andlega fylgd. Í fyrri hluta erindisins greindi hann frá hefðinni frá Ignatíusi Loyola, sögu hans og tilurð bókarinnar Andlegar æfingar. Hann benti á að á 20. öldinni hefði orðið endurnýjun varðandi þessa hefð, hún hefði verið þáttur í starfi kyrrðarsetra og orðið samkirkjulegri en í upphafi. Hann greindi áherslurnar frá Loyola og taldi þær vera: (1) Sérleika hvers einstaklings, (2) Sérstöðu hvers tíma í lífinu, (3) Mikilvægi djúprar hlustunar, (4) Láta fólk uppgötva sjálft en ráðskast ekki með það. Þá sagði hann frá kyrrðardvölum og einstaklingsbundnum leiðbeiningum sem einkennir andlega fylgd. Markmiðið er að fólk skilja betur stöðu sína á andlegri vegferð sinni, átti sig á innstu þrám sínum og öðlist dýpra guðssamfélag, að það komi auga á og skilji þroska-hindranir og sjái betur „köllun“ sína í ýmsum aðstæðum. Þá greindi hann frá því sem hefur verið boðið upp á varðandi andlega fylgd hér á landi og að tveir aðilar hafa fengið þjálfun til að veita hana.

Immanúel – meðferðarúrræði

Sigríður Hrönn Sigurðardóttir fjallaði um Immanúel sem er meðferðarúrræði sem hún hefur notað um þriggja ára skeið við starf á meðferðarheimili. Hún nefndi aðferðina einnig læknandi íhugun. Hún rakti í erindinu hvernig í trú á nærveru Jesú er unnið með minningar (Immanúel merkir Guð með okkur). Gengið er út frá jákvæðri minningu en farið svo á dýptina inn í sáru minningarnar með Jesú. Það reynist læknandi máttur í því að sjá hann og upplifa hann með sér í myrkrinu og erfiðleikunum. Sú reynsla leysir fólk undan fíkn og fyllir upp tómarúmið sem áður var. Aðferðina þróaði geðlæknirinn Karl Lehman og Patricia A. Velotta en hún kynnti bækur sem þau hafa skrifað um þessa aðferð.

 • Erindi Hrannar Sigurðardóttur á YouTube: https://youtu.be/Mg12h2RL7iA
 • Patricia A. Velotta, A Practicum Immanuel, The Joy Books.
 •  Karl Lehman, Outsmarting Yourself, Catching your past invading, The Precsent and What to Do about It.

Pílagrímastarf kirkjunnar

Sr. Elínborg Sturludóttir, sóknarprestur í Stafholti og „pílagrímaprestur” úr Borgarfirði, fjallaði um pílagrímagöngur og endurvakningu þeirra. Á síðustu árum hefur orðið til hreyfing í kringum pílagrímaferðir. Hún benti á að pílagrímagöngur hafa fylgt trúarbrögðum frá örrofi alda. Þá sagði hún frá bakgrunni þeirra og afstöðu siðbótarmanna til þeirra og gagnrýni. Endurvakningin er bæði trúarleg en einnig menningarleg. Þá sagði hún frá því hvernig pílagrímagöngurnar hófust í kringum Skálholt og þær sem hún hefur staðið fyrir í Borgarfirði. Hún vakti athygli á Norrænni ráðstefnu sem verður næsta sumar 2015 um mánaðarmótin ágúst – september.

Tólf spora starf – andlegt ferðalag

Margrét Eggertsdóttir fjallaði um Tólf spora starf – andlegt ferðalag. Það hefur náð að festa rætur í nokkrum söfnuðum sem fastur liður í starfi þeirri. Andlegt ferðalag byggir á Tólf sporum AA samtakanna en þau eiga rætur í iðrunarferli kristninnar. Margrét fór í gegnum sporin til að gefa yfirlit um vegferðina. Hún staldraði sérstaklega við ellefta sporið en þar er vísað á íhugun sem leið til að viðhalda vegferðinni. Vinir í bata, eins og þeir nefna sig gjarnan sem farið hafa í þessa vegferð, halda úti vefsíðunni: www.viniribata.is

Kyrrðardagur í borg

Sr. Sigurður Árni Þórðarson fjallaði um kyrrðardag eins og hann hefur verið þróaður í þéttbýli í Neskirkju. Það hefur gefið ágæta raun. Hann sagði frá reynslu sinni í Sviss og upphafi kyrrðardaga í Skálholti þegar hann var rektor skólans 1986. Hann lýsti framkvæmdinni á kyrrðardögunum í Neskirkju. Það gat verið nokkuð skondið að ganga þegjandi um göturnar og mæta fólki en þá hefði hann útskýrt ástæðuna. Hann lét áheyrendur hafa auglýsingar og tékklista til að auðvelda fólki að koma þessu á í sínum söfnuðum. Hann sagðist boðinn og búinn að leiðbeina þeim sem vildu koma þessu á eins og allir fyrirlesararnir á ráðstefnunni um það sem að þeim snéri.

Eftir Guðmundur Guðmundsson

Héraðsprestur í Eyjafjarðar- og Þingeyjarprófastsdæmi

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

%d bloggurum líkar þetta: