Hjartans mál – Páskaræða

Ræðan var flutt upphaflega á páskadag í Möðruvallklausturskirkju 2014. Í ræðunni leitaðist ég við að svara spurningunni: Hvað er upprisan? Þó að maður vilji reynast skynsamur í anda tímans þá er rök hjartans sem birtast í upprisunni grundvöllur fyrir mannlegri reisn ekki síður en mannréttindayfirlýsingar og það sem meira er að hinn upprisni Kristur birtir okkur persónu Guðs.

Náð sé með yður og friður frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Kristi.

Hvað er upprisan?

Sumt í kristindóminum er erfitt, eiginlega algjörlega óviðráðanlegt. Upprisan er eitt af því. Stundum kvarta ég við Guð minn í bæninni yfir því að trúin eins og hún kemur til mín er óskynsamleg. Af hverju gerir þú mér þetta að birtast með þessum hætti, mér, sem vil vera skynsamur, raunsær og rökvís?

Svo renna upp páskar. Og öll mín skynsemi hverfur eins og dögg fyrir sólu. Ég rétti úr mér, breiði faðminn á móti rísandi sól, nýt ilmsins af vorinu og vitnisburði kvennanna og lærisveinanna af upprisu. Frásagnirnar verða ljóslifandi fyrir mér. Ég játa að þær eru mér hjartans mál: Drottinn minn, Jesús minn, ég er þinn. Þú er Drottinn minn og Guð minn. Þá renna upp gleðilegir páskar eins og vorsólin.

I.

Á föstudaginn langa hlustum við á sjö orð Krists á krossinum. Við hugleiðum með Hallgrími Péturssyni lærdóm Passíusálmanna, áminningu og huggun. Við njótum þess að heyra kóra og söngvara flytja okkur ljóð trúarskáldsins. Innileiki trúar hans verður ljóslifandi þó í nokkuð fornum búningi, „eilíft samtal sálarinnar við Guð“. Það er í íhugun okkar og bæn að Guð snertir okkur persónulega með upprisunni. Passíusálmarnir eru svo sannarlega hjartans mál.

Það er merkilegt hvernig „Jesús minn“ getur verið algjörlega minn og mitt innsta leyndarmál og um leið þinn og þitt hjartans mál. Við öll getum átt hann með okkar hætti, samt á hann enginn, ekki út af fyrir sig, heldur á hann okkur, því veldur upprisan. Jesús er ekki einkamál kristinnar kirkju einu sinni af orðum hans að dæmi þá er hann allra, fyrir alla og með öllum. Það er illskiljanlegt hvernig það má vera.

Upprisan sprengir alla okkar föstu ramma og vanahugsun. Hún er út yfir það venjulega, óneitanlega! Það er ástæðan fyrir því að skynsemi mín blygðast sín fyrir hana, en því fastar heldur trú mín við þessar sögur, upprisufrásagnirnar, vitnisburð kvennanna, sem fóru árla morguns að veita ástvini sínum og Meistari virðingu. Allt gekk svo hratt fyrir sig þegar hvíldardagurinn var að ganga í garð á föstudeginum langa. Nú vildu þær fara með ilmsmyrsl og búa um líkama hans með tilhlýðilegri virðingu. Við færum með blóm. Hjartans mál er það, að minnast ásvina sinna, sem farnir eru frá okkur.

II.

Það er merkilegt að mannsandinn hefur alla tíð sagt sögur þegar sannindi lífsins eru tjáð. Það er gömul og ný saga.

Bhagavad-Gita, ein helgasta frásaga Hindúismans, er samtal prins og fylgdarmanns hans, enginn annar en guðinn Kristna er þar með í för, á leið í stríð á hestvagni. Búddisminn byggir á reynslu Búdda undir trénu þar sem hann hugleiddi uns upplýsingin kom til hans. Jónas, sem lenti í hvalnum, sat líka undir tré fyrir utan borgina Nínive, með ólund því að Guð var miskunnsamur við borgarbúa, en Jónas vildi eld og brennistein yfir borgina. Ein af kjarnasögum Gyðingdómsins og fylgir okkur kristnum mönnum eins og skuggi. Lao Tze gengur á veginum ennþá og alla leið til Íslands í Brekkukot. Stundum dett ég ofan í þá hugsun að ég sé meiri bókmenntafræðingur en guðfræðingur og prédikari. Ástæðan er þessi að frásagnirnar geyma sannindi og speki lífsins.

Í seinni tíð hafa menn reyndar farið aðra leiðir að orða grundvallarsannindi. Ég verð reyndar að viðurkenna að það sé af mikilli snilld og af gömlu bergi brotið. Allt frá tíma Hammúrabíts Assíríukonungs, var mannleg speki í lögum, sem talin hafa ratað að einhverju leyti inn í boðorðin tíu, sem sumir kannast ennþá við. Mannréttindi hafa verið orðuð í yfirlýsingum og stjórnarskrám. Það er vel og við eigum að standa vörð um þau, ekki aðeins á hátíðlegum stundum og í sparitextum, heldur mest í lífi og starfi. En skynsamur lagatexti um mannlegt líf breytir ekki hjarta mannsins og breytni. Samanborið við frásagnir trúarbragðanna eru stjórnarskrár og mannréttindayfirlýsingar frekar leiðinlegir textar. Engu að síður grunnhugsun nútímasamfélags. Eina hugsun þaðan vil ég draga hér fram og við kristnir menn eigum að kannast við hana og halda henni fram. Það er hugsunin um „mannlega reisn“ – „að hver maður er fæddur frjáls“.

III.

Hjartans frásögn kristninnar um upprisu Jesú frá dauðum gefur hverri einustu manneskju reisn og barnarétt hjá Guði. Þannig að þegar ég horfist í augu við aðra manneskju, horfist ég í augu við Guð sjálfan, vegna þess að þar stendur Guðs barn. Hann hefur skapað og gert manninn, fætt og nært af lífi sínu, fórnað sér fyrir, staðið með í ystu myrkrum, veitt vonarríka framtíð, eilíft líf, ávarpað elskulega, talað í sálinni. Guð er alltaf nálægur öllum fyrir Jesú Krist.

Konurnar voru ekki taldar traust vitni í þá daga enda varla fullveðja manneskjur kannski ögn ofar börnum eftir tímanum. Þær voru fyrstar út að gröfinni, knúnar áfram af ástúð og umhyggju fyrir ástvini sínum. Þeim mætti þessi sannindi trúarinnar, upprisunnar, að Guð þinn er ekki lagabókstafur heldur persóna, sem stendur með þér, hvað sem gengur á í lífi þínu. Tilvera okkar á grunn í kærleika, en ekki óttalegu Ginnungagapi, ótta og ógn, skynseminni einni. Kærleikur Krists hefur sigrað og ljósið hans skín í gegnum allt myrkur.

IV.

Kristin trú er lífsjátning, sem hafnar óttanum, neitar því að lifa í ógnandi samfélagi, breytir því til samræmis við Drottinn sinn og frelsara, sem hefur jafnvel sigrað dauðann. Kristið fólk á eins að taka sér stöðu með þeim sem er ógnað og þrýst niður, til að reisa þau upp, styðja og lækna, elska eins og Kristur gerði, eins og sagt er frá honum. Vegna þess að „Kristur er upprisinn“, „JÁ. Hann er sannarlega upprisinn“. Þannig hafa kristnir menn heilsast á páskum í gegnum aldirnar.

Dýrð sé Guði.

Published
Categorized as Ræður

Eftir Guðmundur Guðmundsson

Héraðsprestur í Eyjafjarðar- og Þingeyjarprófastsdæmi

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

%d bloggurum líkar þetta: