
Fyrir ári síðan flutti ég erindi í tilefni af 400 ára ártíð Hallgríms Péturssonar og setti saman dagskrá með Sigrúnu Mögnu Þórsteinsdóttur með Kirkjukór Möðruvallaklausturskirkju. Félagar úr leikfélagi Hörgdæla lása sálma Hallgríms út frá sjö orðum Krists á krossinum en kórinn söng nokkur erindi eða aðra passíusálma milli lestranna. Þetta á vel við sem helgihald og íhugunarstund á föstudeginum langa og læt því lestrana fylgja eins og þeir voru settir upp til glöggvunar.
400 ára ártíð Hallgríms Péturssonar og passíusálmarnir
Hugleiðing á föstudaginn langa 2014 í Möðruvallaklausturskirkju
Margrét Eggertsdóttir, einn helsti sérfræðingur okkar um Passíusálmana, segir í kynningu á erindi sem hún hélt fyrir skömmu:
Eins og alþjóð veit stendur yfir mikið afmælisár en 400 ár eru liðin frá fæðingu skáldsins. Þekktasta verk Hallgríms er Passíusálmarnir. Þeir eru í samtalsformi, innilegt samtal manns við sál sína og við Guð. Á sama hátt hefur íslensk þjóð, kynslóð eftir kynslóð, átt samtal við Hallgrím. Hann er einskonar miðja og tengipunktur íslenskrar menningar.
Stór orð en sönn og viðeigandi á þessu afmælisári. Ekki er vitað um fæðingardag skáldsins. Mér fannst það því viðeigandi nú á föstudaginn langa að íhuga passíusálmana sérstaklega og með umfjöllun um Hallgrím Pétursson og meistaraverk hans í tali og tónum að heiðra hann, trúarskáldið mesta á íslenskri tungu.
Skáld og fræðimenn hafa fjallað um Hallgrím í gegnum árin í ræðu og riti. Það yrði löng upptalning en vekur þar helst athygli að menn með ólíkar skoðanir og sannfæringu minnast hans vegna einmitt þessa sem Margrét nefnir sem „samtal við Hallgrím“ og „einskonar miðju og tengipunkt íslenskrar menningar“.
Tökum Matthías Jochumsson sem dæmi, sá mikli andi, kveður í minningu skáldsins magnað ljóð sem byrjar með lýsingu á dánarbeði líkþrás manns, skáldið er yfirgefið og þjáð: „Atburð sé í anda mínum nær…“ Og hvað metur Matthías mest við ljóð Hallgríms? Jú, ljósið í kveðskap hans:
Hér er guðlegt skáld, er svo vel söng,
að sólin skein í gegnum dauðans göng;
hér er ljós, er lýsti aldir tvær. –
Ljós! hví ertu þessum manni fjær?
Hann spyr sig hvort enginn muni lengur ljóðin hans? En veit þó að þau lifa í guðrækni þjóðarinnar. Hann segir þau djúp og blíð svo að „heljar-húmið svart … verður engilbjart“. Við vitum að enn hundrað árum síðar lifa ljóðin hans á vörum þjóðar. Það er eins með versið Vertu Guð faðir, faðir minn og Faðir vorið að söfnuðurinn tekur ósjálfrátt undir bænarorðin upphátt. Við megum vel láta þetta erindi Matthíasar um Hallgríms ljóð fylgja okkur til framtíðar:
Frá því barnið biður fyrsta sinn
blítt og rótt við sinnar móður kinn,
til þess gamall sofnar síðstu stund,
svala ljóð þau hverri hjartans und.
Enn er til fólk sem kann Passíusálmana meir og minna utan bókar. En sú var tíð að sálmarnir voru sungnir á kvöldvökum á löngu föstu alla daga nema sunnudag. En á sunnudögum var postillan lesin. Ég átti afa sem vandist þessu í Vestur-Skaftafellssýslu. Þeim fækkar óðum sem kunna að syngja Passíusálmana við gömlu lögin. Svo við fáum á tilfinninguna um hvað ræðir heyrum við sum af þessum gömlu lögum í dag.
Passíusálmarnir voru hluti af heimilisguðrækni Íslendinga, sem var skylda kristinna húsbænda að halda uppi. En ekki hef ég trú á að það hafi verið skyldan ein heldur einnig hluti af menningu að lesa sálmana á löngu föstu eða syngja við gömlu lögin sem Hallgrímur hafði fyrirskrifað mörg hver. Þau breyttust nokkuð í meðförum Íslendinga sem sungu eftir kirkjutóntegundunum gömlu og fimmundarsöngurinn viðhélst hér þó ekki þótti hann við hæfi annars staðar enda kórrangt samkvæmt tónfræðinni. Þannig urðu Hallgrímssálmar þjóðlegir eða hluti af menningararfi Íslendinga og bænahefð.
Hallgrímur verður okkar siðbótarmaður sem gerir guðspjallið að almenningseign, leggur þjóðinni orðin á varir, á meistaralegan hátt. Það er óumdeilt, þó að orðfærið sé okkur framandi á köflum, þá er það á kjarnyrtri íslensku og stórkostlegt þegar ljóðin rísa sem hæst, eins og við fáum að heyra í þessum sjö sálmum sem verða fluttir hér á eftir.
Sjö orð Krists á krossinum. Þau mynda ákveðið ris í Passíusálmunum. Þau helgustu orð sem nefnd hafa verið á jörð. Og það er hin hliðin að Hallgrímur tekur þau af vörum Jesú og íhugar þau, dregur lærdóm af þeim. Sálmarnir byrja: „Upp, upp mín sál“ þannig hefst „innilegt samtal manns við sál sína og Guð sinn“ eða eins og Hallgrímur segir sjálfur:
Ég segi á móti: „Ég er hann,
Jesú, sem þér af hjarta ann,
orð þitt lát vera eins við mig“;
„elska ég“, seg þú, „líka þig“;)
eilíft það samtal okkar sé
uppbyrjað hér á jörðunne.
Amen, ég bið svo skyldi ske. (Pass. 5: 10))
Þessi innileiki og samtal sálarinnar við sjálfa sig og Guð sinn er megineinkenni Passíusálmanna og hefur verið rakið til guðræknisbóka á tíma Hallgríms. Nefndist ein þeirra: „Eintal sálarinnar“. Með þeim eindurnýjast íhugunar og bænahefð siðbótarinnar en Hallgrímur gerir það með sérstökum hætti sem nær til menningar hans og tímans, snertir um leið við taug, sem binst menningu Íslendinga með sterkum böndum eins og Margrét bendir á.
Hafið það í huga þegar þið hlustið á sálmana, hlustið eftir þeim anda.
Hallgrímur setur eftirfarandi yfirskrift yfir sálmana: „Historia pínunnar og dauðans Drottins vors Jesú Kristí, með hennar sérlegustu lærdóms-, áminningar- og huggunargreinum…“ Það er einmitt þetta sem sálmarnir gera. Svo dæmi sé tekið úr sálmnunum sem verða fluttir í dag þá tekur Hallgrímur eitt orð Jesús á krossinum, hann umorðar það með íslensku ljóðamáli, er ótrúlega trúr orðanna hljóðan í píslarsögunni. Eins og listamaður dregur upp þá drætti sem skipta máli við útlegginguna sem fylgir. Eins og í 1 sálminum sem við heyrðum kórinn syngja hér í upphafi segir hann við sál sína: „Fögnuður er að hugsa um það“. Þannig fylgir hann útskýringum samtíma síns en gerir það á sínu máli, ljóðamáli, en um leið liggur líf hans og trúarreynsla í orðunum, eins og hann segir sjálfur að lengi hafa hann hugleitt píslarsöguna.
Hallgrímur er meistari myndmálsins. Síðasta orð Jesú á krossinum er: „Í þínar hendur fel ég anda manni“. Hallgrímur útleggur þessa mynd í Passíusálmi 44 svo unun er á að hlýða. Eins og svo víða í sálmunum ávarpar hann sál sína:
8. Hvar hún finnur sinn hvíldarstað
herrann sýnir þér líka.
Hönd Guðs þíns föður heitir það.
Hugsa um ræðu slíka.10. Láttu Guðs hönd þig leiða hér,
lífsreglu halt þá bestu.
Blessuð hans orð sem boðast þér
í brjósti og hjarta festu.12. Hér þegar mannleg hjálpin dvín,
holdið þó kveini og sýti,
upp á hönd drottins augun þín
ætíð með trúnni líti. (Ps. 44:8-12)
Svo er það áminningin og fagurkeranum kann að finnast þær heldur lítið andlegar enda snúa þær að breytninni. Þar kemur kristindómsskilningur Hallgríms fram að hann boðar trú og góð verk eins og Lúther siðbótarmaðurinn, sem mönnum yfirsést á stundum. Innileiki trúarinnar kemur fram í þjónustu og lífi í eftirfylgd við Krist – krossferli að fylgja þínum – er raunveruleiki lífsins, þar birtist okkur andlega viska og speki, ekki stóisk ró, heldur friður Guðs í hjarta þess sem biður. Þolinmæðin, að láta Guð um hefndina, að sinna skyldum sínum, fara með bænirnar við burtför af heimili, lengi má telja. Þetta erindi um það fyrsta orð Kristí á krossinum ágætt dæmi: Faðir fyrirgef þeim:
Lausnara þínum lærðu af
lunderni þitt að stilla.
Hógværðardæmið gott hann gaf,
nær gjöra menn þér til illa.
Blót og formæling varast vel,
á vald Guðs allar hefndir fel,
heift lát ei hug þinn villa. (Ps. 34:4)
Leyndardómur Passíusálmanna er huggunin sem þeir flytja hrelldri sál. Og þar mætir okkur djúp speki og viska. Það er fagnaðarerindið sem siðbótarmaðurinn Lúther sett fram í sínum ritum en rétttrúnaðurinn viltist frá með ofuráherslu á kenningar og framsetningu trúarinnar í stað þess að halda sér í heimi bænarinnar og reynslunnar. Þannig vil ég meta Hallgrím sem siðbótarmann Íslendinga, ekki aðeins að hann lagði þessi orð okkur á varir, heldur einnig gaf hann okkur trú í hjarta sem stendst hverja eldraun sem á okkur kanna að dynja. Þar stendur Hallgrímur með sína Passíusálma, óhagganlegur, eilífðarsamtalið er byrjað og kynslóðirnar taka undir og enn í dag er þar huggun að finna. Á þeirri hugsun endar hann sálm 44, þar sem hann útleggur andlátsorð Drottins:
21. Dauðans stríð af þín heilög hönd
hjálpi mér vel að þreyja.
Meðtak þá, faðir, mína önd,
mun ég svo glaður deyja.22. Minn Jesú, andlátsorðið þitt
í mínu hjarta ég geymi.
Sé það og líka síðast mitt
þá sofna ég burt úr heimi. (Ps. 44:21-22)
Þannig er kristinn trú Hallgríms ögrun við það sem blasir við, dauðinn, bölið, myrkrið, í fullvissu um þá von sem Kristur gaf börnum sínum, von úr yfir gröf og dauða. Þannig er rauði þráður Passíusálmanna, píslarganga Jesú með lærisveinum sínum, sem ganga í gegnum marga þjáningu, sorg og að lokum dauða, það er íhugunarefni föstudagsins langa, en í gegnum alla sálmana er gylltur þráður guðspjallanna. „Víst ertu, Jesús, kongur klár, konungur almættis tignar stór“. Jesús er ljósið sem Hallgrímur færði okkur Íslendingum í eilífðar samtali við Guð. Fyrir það erum við í eilífri þakkarskuld. Og Hallgrímur gefur Guði dýrðina. Heyrum nú kórinn syngja lokavers Passíusálmanna: Dýrð, vald, virðing…
—
Nú verða flutt sjö orð Krists á krossinum. Félagar úr Leikfélagi Hörgdæla flytja þessa sjö sálma. Það er Kirkjukór Möðruvallaklaustursprestakalls, kvartett og einsöngvari, Helga Kolbeinsdóttir, sem flytja nokkra af sálmum Hallgríms. Organistin okkar Sigrún Magna Þórsteinsdóttir stjórnar kórnum og leikur á orgelið. Eftir hvern sálm verður slökkt á einu kerti á sjö arma stjakanum á altarinu þangað til að síðasta ljósið slokknar. Jesús deyr fyrir mannkyn allt og birtir með því kærleika Guðs, sem gefst okkur. Engin orð ná að skýra það sem gerðist engin kenning, aðeins hjartað tekur við því í trú. Á altarinu er aðeins kross og stjakinn sem minnir okkur á orðin sjö af vörum Meistarans. Við skulum svo ganga hljóð héðan í kyrrðinni þegar síðasta sálmurinn hljóðnar.
Það er föstudagurinn langi.
Sjö orð Kristí á krossinum
Kirkjukór: (Mynd – Sólarlagsmynd við Eyjafjörð)
Lag: Gefðu að móðurmálið mitt, Gefðu að móðurmálið mitt,
Gefðu að móðurmálið mitt,
minn Jesú, þess ég beiði,
frá allri villu klárt og kvitt
krossins orð þitt útbreiði
um landið hér
til heiðurs þér,
helst mun það blessun valda,
meðan þín náð
lætur vort láð
lýði og byggðum halda.
Lestur 1: (Mynd – Altaristaflan á Draflastöðum)
34. sálmur
Það fyrsta orð Kristí á krossinum
Með lag: Lifandi Guð, þú lít þar á.
1.
Þegar kvalarar krossinn á
keyra vorn herra gjörðu,
flatur með trénu lagður lá
lausnarinn niður á jörðu.
Andlitið horfði í þeim stað
og augun hans blessuð himnum að.
Hann stundi af angri hörðu.2.
Sinn faðm allt eins og barnið blítt
breiddi mót föðurnum kæra.
Blóðið dundi og tárin títt,
titraði holdið skæra.
Hér skoða, maður, huga þinn,
hvað kunni meira nokkurt sinn
drottin til hefndar hræra.3.
Óvinum friðar blíður bað
brunnur miskunnarinnar.
Hann vill þeir njóti einnig að
ávaxtar pínu sinnar,
sagði: Faðir, þeim fyrirgef þú,
forblindaðir ei vita nú
sjálfir hvað vont þeir vinna.4.
Lausnara þínum lærðu af
lunderni þitt að stilla.
Hógværðardæmið gott hann gaf,
nær gjöra menn þér til illa.
Blót og formæling varast vel,
á vald Guðs allar hefndir fel,
heift lát ei hug þinn villa.5.
Þótt þú við aðra saklaus sért
sannlega skalt þess gæta,
samt fyrir Guði sekur ert,
sá á frjálst þig að græta.
Illir menn eru í hendi hans
hirtingarvöndur syndugs manns.
Enginn kann þess að þræta.6.
Óvinum ills þó óskir hér,
ei minnkar heiftin þeirra,
óþolinmæði eykur þér,
afrækir boð þíns herra.
Þú styggir Guð með svoddan sið,
samviskan mjög þar sturlast við.
Böl þitt verður því verra.7.
Upplýstu hug og hjarta mitt,
herra minn, Jesú sæti,
svo að ég dýrðardæmið þitt
daglega stundað gæti.
Þeir sem óforþént angra mig
óska ég helst að betri sig
svo hjá þér miskunn mæti.8.
Heimsins og djöfuls hrekkjavél
holdið þrálega villa,
þess vegna ekki þekki ég vel
þó nú margt gjöri illa.
Beri svo til ég blindist hér,
bið þú þá, Jesú, fyrir mér.
Það mun hefnd harða stilla.9.
Ég má vel reikna auman mig
einn í flokk þeirra manna
sem í kvölinni þjáðu þig,
það voru gjöld syndanna.
En þú sem bættir brot mín hér,
bið þú nú líka fyrir mér
svo fái ég frelsun sanna.10.
Fyrst þú baðst friðar fyrir þá
er forsmán þér sýndu mesta,
vissulega ég vita má,
viltu mér allt hið besta,
því ég er Guðs barn og bróðir þinn,
blessaði Jesú, herra minn.
Náð kann mig nú ei bresta.11.
Allra síðast þá á ég hér
andláti mínu að gegna,
sé þá, minn Guð, fyrir sjónum þér
sonar þíns pínan megna,
þegar hann lagður lágt á tré
leit til þín augum grátandi.
Vægðu mér því hans vegna.Amen
Einsöngur: (Mynd – Krossfestingin eftir Grünewald)
37. sálmur
Annað orð Kristí á krossinum
Með lag: Ef Guð er oss ei sjálfur hjá.
1.
Uppreistum krossi herrans hjá
hans móðir standa náði.
Sverðið, sem fyrr nam Símeon spá,
sál og líf hennar þjáði.
Jóhannes einnig, Jesú kær,
jafnt var þar líka staddur nær.
Glöggt sá að öllu gáði.2.
Sinni móður hann segja réð:
Son þinn líttu þar, kvinna.
Við lærisveininn líka með
lausnarinn blítt nam inna:
Sjá þú og móður þína þar.
Þaðan í frá, sem skyldugt var,
sá tók hana til sinna.
Lestur 2:
3.
Sá sem hlýðninnar setti boð
sinni blessun réð heita
þeim er foreldrum styrk og stoð
stunda með elsku að veita.
Svoddan dyggðanna dæmið hér
drottinn vor sjálfur gaf af sér
börnunum eftir að breyta.4.
Girnist þú, barn mitt, blessun fá,
björg lífs og gæfu fína,
foreldrum skaltu þínum þá
þóknun og hlýðni sýna.
Ungdómsþverlyndið oftast nær
ólukku og slys að launum fær.
Hrekkvísa hefndir pína.5.
Ekkjurnar hafa einnig hér
ágætis huggun blíða.
Jesús allt þeirra angur sér,
aðstoð þeim veitir fríða,
ef þær með hreinum hug og sið
halda sig drottins pínu við
og hans hjálpræðis bíða.6.
María, drottins móðir kær,
merkir Guðs kristni sanna,
undir krossinum oftast nær
angur og sorg má kanna.
Til hennar lítur þar herrann hýrt,
huggunarorðið sendir dýrt
og forsjón frómra manna.7.
Það reynist oft í heimi hér
hlutfall drottins ástvina,
hörmungarsverðið sárt þá sker,
sæld lífsins gleður hina,
hverjir þó Kristum hæða mest.
Hefur svo löngum viðgengist,
lítt vill því angri lina.8.
Enn þeir sem Jesúm elska af rót
undir krossinum standa,
herrans blóðfaðmi horfa á mót,
hvern þeir líta í anda.
Trúar og vonar sjónin sett
sár hans og benjar skoðar rétt,
það mýkir mein og vanda.9.
Jesús einnig með ást og náð
aftur til þeirra lítur,
gefur hugsvölun, hjálp og ráð,
harmabönd af þeim slítur.
Aðgætin föðuraugun klár
öll reikna sinna barna tár,
aðstoð þau aldrei þrýtur.10.
Ég lít beint á þig, Jesú minn,
jafnan þá hryggðin særir.
Í mínum krossi krossinn þinn
kröftuglega mig nærir.
Sérhvert einasta sárið þitt
sannlega græðir hjartað mitt
og nýjan fögnuð færir.11.
Þá ég andvarpa, óska og bið,
augunum trúar minnar
lít ég hvert einast orðið við
upp til krosspínu þinnar.
Strax sýna mér þín signuð sár,
syndugum manni opinn stár
brunnur blessunarinnar.12.
Gleðistund holds þá gefur mér
Guð minn að vilja sínum,
upp á þig, Jesú, horfi ég hér
hjartans augunum mínum.
Auðlegðargæðin líkamleg
láttu þó aldrei villa mig
frá krossins faðmi þínum.13.
Jónas sat undir einum lund,
engra meina því kenndi,
hádegissólar hitastund
hann ei til skaða brenndi.
Jesú krossskugga skjólið hér
skýlir þó langtum betur mér
fyrir Guðs heiftarhendi.14.
Hvort ég sef, vaki, sit eður stá
í sælu og hættum nauða,
krossi þínum ég held mig hjá,
horfandi á blóð þitt rauða.
Lát mig einnig þá ævin þverr
út af sofna á fótum þér,
svo kvíði ég síst við dauða.Amen
Kirkjukór: (Mynd – Uppsakristur)
(9) Víst ertu, Jesú, kóngur klár,
kóngur dýrðar um eilíf ár,
kóngur englanna, kóngur vor,
kóngur almættis tignarstór.(11) Ó Jesú, það er játning mín:
Ég mun um síðir njóta þín
þegar þú, dýrðar drottinn minn,
dómstól í skýjum setur þinn.(15) Jesú, þín kristni kýs þig nú.
Kóngur hennar einn heitir þú.
Stjórn þín henni svo haldi við,
himneskum nái dýrðarfrið.
Lestur 3:
40. sálmur
Þriðja orð Kristí á krossinum
Með lag: Skaparinn stjarna, Herra hreinn.
1.
Upp á ræningjans orð og bón
ansaði Guðs hinn kæri son:
Þú skalt, sannlega segi ég þér,
sæluvist hafa í dýrð hjá mér.2.
Sjáðu með gætni, sál mín kær,
sönn iðrun hverju kraftað fær.
Upp á það dæmið er hér rétt
öllum til lærdóms fyrir sett.
3.
Reiði drottins þá upp egnd er
yfir ranglæti mannsins hér,
iðranin blíðkar aftur Guð,
ei verður syndin tilreiknuð.4.
Þó komi höstug hefndin bráð
hrein iðran jafnan finnur náð.
Mitt í standandi straffi því
stillist Guðs reiði upp á ný.5.
Samviskuorma sárin verst
sönn iðran jafnan græðir best,
hugsvalar sál og huggar geð,
heilaga engla gleður með.6.
Bæn af iðrandi hjarta hýr,
hún er fyrir Guði metin dýr,
herrann Jesús á hverri tíð
henni gaf jafnan andsvör blíð.7.
Sem Móises með sínum staf
sætt vatn dró forðum steini af,
eins fær iðrandi andvarp heitt
út af Guðs hjarta miskunn leitt.8.
Játning mín er sú, Jesú minn,
ég er sem þessi spillvirkinn,
já, engu betri fyrir augsýn þín,
ef þú vilt reikna brotin mín.9.
Kem ég nú þínum krossi að,
kannastu, Jesú minn, við það.
Syndanna þunginn þjakar mér,
þreyttur ég nú að mestu er.10.
Alnakinn þig á einu tré,
út þínar hendur breiðandi,
sárin og blóðið signað þitt
sér nú og skoðar hjartað mitt.
11.
Þar við huggar mín sála sig,
svoddan allt leiðstu fyrir mig.
Þíns hjartadreyra heilög lind
hreinsar mig vel af allri synd.12.
Krossins burtnuminn kvölum frá
kóngur ríkir þú himnum á.
Herra, þá hér mig hrellir pín
hugsaðu í þinni dýrð til mín.13.
Segðu hvern morgun svo við mig,
sæti Jesú, þess beiði ég þig:
Í dag þitt hold í heimi er,
hjartað skal vera þó hjá mér.14.
Í dag, hvern morgun ég svo bið,
aldrei lát mig þig skiljast við.
Sálin, hugur og hjartað mitt
hugsi og stundi á ríkið þitt.15.
Eins þá kemur mín andlátstíð
orðin lát mig þau heyra blíð:
Í dag, seg þú, skal sálin þín
sannlega koma í dýrð til mín.16.
Herra minn, þú varst hulinn Guð
þá hæðni leiðst og krossins nauð.
Þó hafðir þú með hæstri dáð
á himnaríki vald og ráð.17.
Dauðanum mót mér djörfung ný
daglega vex af orði því.
Í dag þá líður ei langt um það
leidd verður önd í sælustað.18.
Ó Jesú, séu orðin þín
andláts síðasta huggun mín,
sál minni verði þá sælan vís
með sjálfum þér í Paradís.Amen
Kvartet: (Mynd – Krossfestingarmynd og myrkur)
41. sálmur
Það fjórða orð Kristí á krossinum
Með lag: Af djúpri hryggð.
1.
Um land gjörvallt varð yfrið myrkt
allt nær frá sjöttu stundu,
sólin því ljóma sinn fékk byrgt
senn til hinnar níundu.
Guð minn, Jesús svo hrópar hátt,
hvar fyrir gleymdir þú mér brátt?
Svoddan, mín sál, vel mundu.2.
Enginn skal hugsa að herrann þá
hafi með efa og bræði
hrópað þannig né horfið frá
heilagri þolinmæði.
Syndanna kraft og kvalanna stærð
kynnir hann oss svo verði hrærð
hjörtun frá hrekkjaæði.3.
Sólin blygðast að skína skær
þá skapara sinn sá líða.
Hún hafði ei skuld, það vitum vér,
þess voðameinsins stríða.
Ó, hvað skyldi þá skammast sín
skepnan sem drottni jók þá pín
með hryggð og hjartans kvíða.
Lestur 4:
4.
Aví, hvað má ég, aumur þræll,
angraður niður drúpa
þá ég heyri, minn herra sæll,
sú harmabylgjan djúpa
gekk yfir þig þá galstu mín.
Gjarnan vil ég að fótum þín
feginn fram flatur krjúpa.5.
Í ystu myrkrum um eilífð er
óp og gnístran tannanna.
Hefndarstraff það var maklegt mér
fyrir margfjöldann glæpanna.
Frá því, Jesú, þú frelstir mig.
Frekt gengu myrkrin yfir þig,
svo skyldi ég þá kvöl ei kanna.6.
Í svörtu myrkri það sama sinn
sorgarraust léstu hljóma,
þá hrópaðir þú mig, herra, inn
í himneskan dýrðarljóma.
Í því ljósi um eilíf ár
úthrópa skal mín röddin klár
lof þinna leyndardóma.7.
Synda, sorga og mótgangs með
myrkrin svo oft mig pína
að glöggt fær ekki sálin séð
sælugeislana þína.
Jesú, réttlætissólin sæt,
syrgjandi ég það fyrir þér græt.
Harmaraust heyr þú mína.8.
Guð minn, segi ég gjarnan hér,
geyst þó mig sorgin mæði,
Jesú, ég læri nú það af þér,
þau skulu mín úrræði.
Gjörvöll þá heimsins gleðin dvín,
Guð minn, ég hrópa vil til þín,
Guð minn, allt böl mitt græði.
9.
Yfirgefinn kvað son Guðs sig
þá særði hann kvölin megna.
Yfirgefur því aldrei mig
eilífur Guð hans vegna.
Fyrir þá herrans hryggðarraust
hæstur drottinn mun efalaust
grátbeiðni minni gegna.10.
Þá sólarbirtunni ég sviptur er,
sjón og heyrn tekur að dvína,
raust og málfæri minnkar mér,
myrkur dauðans sig sýna,
í minni þér, drottinn sæll, þá sé
sonar þíns hróp á krossins tré.
Leið sál til ljóssins mína.Amen
Orgelleikur:
Lestur 5: (Mynd: Guðs lamb í Akureyrarkirkju eða Altarisbríkin á Hólum)
42. sálmur
Það fimmta orð Kristí á krossinum
Tón: Eins og sitt barn.
1.
Í sárri neyð | sem Jesús leið
sagði hann glöggt: Mig þyrstir.
Svo ritning hrein | í hverri grein
uppfylltist ein.
Um það mig ræða lystir.2.
Strax hljóp einn að | sem heyrði það,
hitta njarðarvött kunni,
lét á reyrprik, | drap í edik
með ill tilvik
og bar Jesú að munni.3.
Forundrast má, | mín sál, þar á
maðurinn, hver þess gætir,
að hann sem ráð | hefur með dáð
á himni og láð,
hörmung þvílíkri mætir.4.
Hann, sá sem vín | af valdi sín
úr vatni sætt tilreiddi,
með sorgarskikk | fékk súrt edik
fyrir svaladrykk
þá sárt hann þorstinn neyddi.5.
Því mundi ei hér | til hlífðar sér
herrann edikið líka
sem vín ágætt | gjöra vel sætt,
fyrst gat það bætt
hans guðdómsmaktin ríka?6.
Komin var tíð, | kraftaverk fríð
Kristur ei gjöra skyldi.
Hin stundin þá | fyrir hendi lá,
hryggð, kvöl og þrá
herrann vor líða vildi.7.
Kraftaverk hrein | kenndu þá grein
að Kristur Guðs sonur væri.
En kvölin hans | sýndi til sanns
að syndugs manns
sektir og gjöld hann bæri.8.
Guðs einkason | gjörðist vor þjón
þá græddi hann mein og kvíða.
En offurlamb best | hann orðinn sést
fyrir utan brest,
í því hann kvöl nam líða.9.
Af stríði því | sem stóð hann í,
styrkleiki mannsnáttúru,
þreytast mjög vann | því þyrsti hann, þáði vökvann
þó af ediki súru.10.
Í annan stað | merk, maður, það
og minnst þess hverju sinni,
að herrann Krist | hefur mest þyrst
af ást og lyst
eftir sáluhjálp þinni.11.
Ó maður, nú | þenk þar um þú,
þinn hugur blygðast skyldi.
Guð þyrstir hér | að hjálpa þér
en hjarta þitt er
óþyrst eftir hans mildi.12.
Heyr þú, sál mín, | talar til þín
tryggðabrúðguminn góði:
Þyrstur ég er | í hryggðum hér,
svo hjálpi ég þér
úr hættu kvalanna flóði.13.
Ber honum síst, | þess bið ég víst,
beiskan drykk hræsnisanda.
Orðin hans hrein | á alla grein
fyrir utan mein
óbrjáluð láttu standa.14.
Upp á orð þín | svarar sál mín,
sorgin þó málið heftir:
Sjálf þyrsti ég nú, | þýði Jesú,
og það veist þú,
þinni miskunnsemd eftir.15.
Ekki er hjá mér | það þyrstum þér
þori ég nú fram að bjóða,
nema fá tár, | trú veik, þó klár,
sem til þín stár.
Tak það og virð til góða.16.
Lof, dýrð sé þér, | lausn fékkstu mér
og lést þig svo miklu kosta.
Hjartað á ný | huggast af því
að ég er frí
frá eilífum kvalaþorsta.Amen
Kirkjukór:
Krossferli að fylgja þínum
fýsir mig, Jesú kær,
væg þú veikleika mínum
þó verði ég álengdar fjær.
Þá trú og þol vill þrotna,
þrengir að neyðin vönd,
reis þú við reyrinn brotna
og rétt mér þína hönd.
Lestur 6: (Mynd – Faðirinn og sonurinn eða faðir og sonur á krossi og andi í Edenborg)
43. sálmur
Það sjötta orð Kristí á krossinum
Með lag: Allfagurt ljós
1.
Eftir að þetta allt var skeð
edikið Jesús smakka réð,
þrótt og lífskrafta þverra fann.
Það er fullkomnað, sagði hann.2.
Orð þíns herra með ást og trú
athuga skyldir, sál mín, þú.
Ef þeirra grundvöll sannan sér,
sæta huggun þau gefa þér.3.
Fyrst skaltu vita að Guð út gaf
greinilegt lögmál himnum af.
Hann vill að skuli heimi í
hver maður lifa eftir því.4.
Algjört réttlæti ljóst og leynt,
líkama, sál og geðið hreint,
syndalaus orð og atvik með
af oss lögmálið heimta réð.5.
Hugurinn vor og hjartað sé
í hreinni elsku rétt brennandi,
fyrir utan hræsni, bræði og bann
bæði við Guð og náungann.6.
Hver þetta gæti haldið rétt
honum var lífið fyrir sett.
En ef í einu út af brá,
eilíf fordæming við því lá.7.
Enginn maður frá Adam fyrst,
eftir þann tíma hann syndgaðist,
fullnægju gat því gjört til sanns.
Gengur það langt yfir eðli manns.8.
Óbærileg varð allra sekt.
Eftir því drottinn gekk svo frekt,
annaðhvort skyldi uppfyllt það
eða mannkynið fortapað.9.
Jesús eymd vora alla sá,
ofan kom til vor jörðu á,
hæðum himna upprunninn af,
undir lögmálið sig hann gaf.10.
Viljuglega í vorn stað gekk,
var sú framkvæmdin Guði þekk.
Föðurnum hlýðni fyrir oss galt,
fullkomnaði svo lögmál allt.11.
En svo að syndasektin skeð
sannlega yrði forlíkt með
og bölvan lögmálsins burtu máð,
beiska kvöl leið og dauðans háð.12.
Þá hann nú hafði allt uppfyllt,
sem oss var sjálfum að gjöra skylt,
og bæta öll vor brotin frí,
berlega vildi hann lýsa því.13.
Þess vegna herrann hrópa nam
hartnær á krossi stiginn fram,
að oss í voru andláti
öll hans verðskuldan huggun sé.14.
Svoddan aðgættu, sála mín,
sonur Guðs hrópar nú til þín
hvað þér til frelsis þéna kann.
Það er fullkomnað, segir hann.15.
Fullkomnað lögmál fyrir þig er,
fullkomnað gjald til lausnar þér,
fullkomnað allt hvað fyrir var spáð,
fullkomna skaltu eignast náð.16.
Herra Jesú, ég þakka þér,
þvílíka huggun gafstu mér.
Ófullkomleika allan minn
umbætti guðdómskraftur þinn.17.
Hjálpa þú mér svo hjartað mitt
hugsi jafnan um dæmið þitt
og haldist hér í heimi nú
við hreina samvisku og rétta trú.18.
Upp á þessi þín orðin traust
óhræddur dey ég kvíðalaust,
því sú frelsis fullkomnan þín
forlíkað hefur brotin mín.Amen
Kirkjukór: (Mynd – Píeta frá Palestínu eða Komið til mín Grenjaðarstað)
44. sálmur
Það sjöunda orðið Kristí
Með lag: Herra Guð í himnaríki.
1.
Hrópaði Jesús hátt í stað,
holdsmegn og kraftur dvínar:
Ég fel minn anda, frelsarinn kvað,
faðir í hendur þínar.2.
Þú, kristinn maður, þenk upp á
þíns herra beiskan dauða.
Að orðum hans líka einnig gá,
eru þau lækning nauða.3.
Jesús haldinn í hæstri kvöl,
hlaðinn með eymdir allar,
dapurt þá að kom dauðans böl
drottinn sinn föður kallar.4.
Herrann vill kenna þar með þér,
þín ef mannraunir freista,
góðlyndur faðir Guð þinn er,
gjörir þú honum að treysta.
Lestur 7:
5.
Fyrir Jesúm þú fullvel mátt
föður þinn drottin kalla.
En þó þig krossinn þvingi þrátt,
það mýkir hörmung alla.6.
Eins og faðirinn aumkar sig
yfir sitt barnið sjúka,
svo vill Guð einnig annast þig
og að þér í miskunn hjúkra.
7.
Einnig sýna þér orð hans klár
ódauðleik sálarinnar.
Þó kroppurinn verði kaldur nár,
krenkist ei lífið hennar.8.
Hvar hún finnur sinn hvíldarstað
herrann sýnir þér líka.
Hönd Guðs þíns föður heitir það.
Hugsa um ræðu slíka.9.
Viljir þú eftir endað líf
eigi þín sál þar heima,
undir hönd drottins hér þá blíf,
hans boðorð skaltu geyma.10.
Láttu Guðs hönd þig leiða hér,
lífsreglu halt þá bestu.
Blessuð hans orð sem boðast þér
í brjósti og hjarta festu.11.
Hrittu ei frá þér herrans hönd,
hún þó þig tyfta vildi,
legg heldur bæði líf og önd
ljúflega á drottins mildi.12.
Hér þegar mannleg hjálpin dvín,
holdið þó kveini og sýti,
upp á hönd drottins augun þín
ætíð með trúnni líti.13.
Að morgni og kvöldi minnst þess vel,
málsupptekt láttu þína:
Af hjarta ég þér á hendur fel,
herra Guð, sálu mína.14.
Svo máttu vera viss upp á,
vilji þér dauðinn granda,
sála þín mætir miskunn þá
millum Guðs föður handa.15.
Hún finnur ekkert hryggðarstríð,
hörmung né mæðu neina,
í friði skoðar ætíð blíð
ásjónu drottins hreina.16.
Eftirtekt mér það einnig jók
er ég þess gæta kunni,
andlátsbæn sína sjálfur tók
son Guðs af Davíðs munni.17.
Bæn þína aldrei byggðu fast
á brjóstvit náttúru þinnar,
í Guðs orði skal hún grundvallast,
það gefur styrk trúarinnar.18.
Vér vitum ei hvers biðja ber,
blindleikinn holds því veldur.
Orð Guðs sýnir þann sannleik þér,
sæll er sá, þar við heldur.
Kirkjukór:
19.
Vertu, Guð faðir, faðir minn,
í frelsarans Jesú nafni,
hönd þín leiði mig út og inn
svo allri synd ég hafni.20.
Höndin þín, drottinn, hlífi mér
þá heims ég aðstoð missi,
en nær sem þú mig hirtir hér,
hönd þína ég glaður kyssi.
21.
Dauðans stríð af þín heilög hönd
hjálpi mér vel að þreyja.
Meðtak þá, faðir, mína önd,
mun ég svo glaður deyja.22.
Minn Jesú, andlátsorðið þitt
í mínu hjarta ég geymi.
Sé það og líka síðast mitt
þá sofna ég burt úr heimi.Amen