Kraftaverkin, raunveruleikinn og lífið

glerarkirkja_inngangurRæða flutt í Glerárkirkju við kvöldmessu 6. september 2015, 14. sd. eftir þrenningarhátíð. Guðspjallið var um blinda manninn við Betesdalaugina úr 5. kafla Jóhannesarguðspalls, lexía Sálm. 103, 1-6 og pistill Gal. 2, 20. Í ræðunni bar ég saman frásagnir Jóhannesar um tvo blinda menn í 5. og 9. kafla. Kraftaverk er eitthvað sem böglast fyrir mörgum eins og mér trúi ég og eru hér nokkrar hugleiðingar um það.

Náð sé með yður og friður frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Kristi.

Það skiptir okkur máli að sjá. Ég efast um að við getum sett okkur fyllilega í spor þeirra sem eru blindir en lang flest okkar hafa farið í blindingsleiki og reynt stutta stund að sjónin er okkur mikilvæg. Ég hef velt því fyrir mér hvort líf án sjónar væri þess virði að lifa því enda óttast ég mest af öllu að missa sjónina. En það er líka andleg sjón sem skiptir máli, innsæi og viska. Lífið er harla lítils virði ef við týnum því öllu.

Jóhannes guðspjallamaður segir frá tveimur blindum mönnum sem Jesús gaf sjónina. Við heyrðum fyrri frásögu hans um manninn við Betestalaugina úr 5. kafla guðspjallsins. Þá eins og nú leita menn allra leiða til að verða heilir. Hann hafði engan til að bera sig í laugina sem hafði augljóslega lækningarmátt þegar engill Drottins hreyfði við vatninu. (Menn ferðast enn þann dag í dag langar leiðir að slíkum kraftaverkastöðum eins og t.d. til…) Hin frásagan er af blindfædda manninum í 9. kafla. Báðar frásagnirnar eiga sér stað á hvíldardegi. Það er broddur í frásögninni. Lækningin skipti trúarleiðtogana engu máli heldur hitt að þetta skyldi eiga sér stað á hvíldardegi sem var brot á lögmáli þeirra. Þeir höfðu troðið því upp á Guð að hann skyldi vera algjörlega bundinn af lögmáli þeirra, útskýringu þeirra á lögmáli Guðs.

En það er annað atriði sem er athyglisvert blindi maðurinn við Betestalaugina var jafn skilningssljór eftir kraftaverkið sem fyrir það. Hann lét trúarleiðtogana vita þegar hann komst að því að Jesús hefði unnið kraftaverkið að það hefði verið Jesús svo að þeir gætu ásakað hann fyrir hvíldardagsbrot. Hann hafði fengið sjónina en andlega sjón hafði hann ekki til að sjá hver Jesús var. Hinn sem var blindfæddur komst að því hver Jesús var. Leiðtogarnir leituðu til foreldra blinda mannsins sem foreldrarnir voru augljóslega hræddir við því þau vísuðu bara á son sinn, en játuðu að hann hafði verið blindur frá fæðingu. Það þótt ómögulegt að slíkt gerðist. En blindi maður vitnaði um kraftaverkið sem Jesús hafði unnið á honum. Jesús mætir honum svo öðru sinni og þá sér blindfæddi maðurinn Jesús með andlegri sjón, sér hann sem Guðs son. Því vill Jóhannes koma okkkur í skilning um með þessum tveimur frásögnum í guðspjalli sínu.

1.

Kraftaverk eða ekki. Verður kristinn maður að trúa á kraftaverk? Spurningin um kraftaverkin er beint gegn kristinn trú og hún gerð hjákátlega með vísindalegum röksemdafærslum að kraftaverk geta ekki átt sér stað í raunveruleikanum.

Þáttur um rokkstjörnuna, Nick Cave, vakti athygli mína í vikunni. Þátturinn bar nafnið: 20.000 dagar á jörðinni. Hann er augljóslega mikið söngvaskáld þó að ég þekki ekki mikið til hans. Þetta var öðru vísi þáttur. Aðeins bar Guð á góma. Nick Cave hafði þá venju að sækja kirkju á tímabili í lífi sínu og var þá í eiturlyfjarugli á sama tíma. Svo kynntist hann konunni sinni og hún sagði honum að hætta þessu rugli, þ.e.a.s. að sækja kirkju.

Það sem mér fannst athyglisvert var afstaða hans til Guðs. Honum fannst Guð vera einhvers staðar á bakvið í heimi ljóða sinna. En Guð átti ekki heima í raunveruleikanum.

Þetta er vandi í okkar menningarheimi, tel ég vera. Það er ekki lengur pláss fyrir kraftaverk í raunveruleika okkar en í ævintýrunum, söngvaljóðunum og kvikmyndunum, er kraftaverkin í fullu gildi og gefa tilveru okkar einhverja merkingu, en merkingin stenst ekki raunveruleikann. Það er að segja tilvera okkar þegar skoðuð með vísindalegum rökum er merkingarlaus. Hún er bara þarna og við hluti af henni. Þannig er hún gjörsamlega óþolandi og við verðum að gefa henni einhverja þýðingu með hugsun okkar og / eða hugmyndaflugi. Annars fer fyrir okkur eins og Leó Tolstoy að við hröpum út í tómið ef við höfum ekki einhvern bláþráð að halda okkur í, eitthvað sem við getum treyst á.

Það er kannski heldur aumt að þurfa þá að treysta á eitthvert kraftaverk. Ágætur íslenskur guðfræðingur lagði til að tala því frekar á þeim nótum að ég trúi ekki á kraftaverk heldur á Guð sem vinnur kraftaverk. Já, það er ekki alveg það sama, en dugar það

Á rétttrúnaðartímanum, tímabili Hallgríms Péturssonar, þá leystu menn málið þannig, að postularnir unnu kraftaverk í nafni Jesú Krists, þá var kristniboðstíminn, en hann var liðinn, það var runnin upp náðartíð, þar sem fagnaðarerindið var boðað um fyrirgefningu Guðs í Kristi veitt án verðskuldunnar. Um það þurfti að fræða og halda söfnuðunum í þeirri trú, svo kæmi betri tíð þegar Guð kæmi í fullum mætti í dýrð sinni.

Jú, þannig nálgast maður meginatriðin vissulega, samfélagið við Guð, en vandræðin með kraftaverkin eru ekki alveg leyst. Raunveruleikinn virðist vera heldur harður til að lifa við.

Í tvær vikur vorum við fjölskylda mín á gjörgæsludeild yfir föður mínum eftir að hann lenti í bílslysi. Ég bað, ég leitaði í kirkjuna, fékk sálusorgun og stuðning. Ég vissi ekki hvort ég ætti að biðja um að hann myndi rísa upp af dánarbeði sínu, hann var það illa skaddaður eftir slysið, yrði það eitthvert líf, auðvitað var sú ósk í hjarta mínu að hann myndi lifa. Mín mesta huggun var frásaga Jóhannesar um uppvakningu Lasarusar. Orð Jesú þar: „Þér munuð lifa þó að þér deyið… Ég er upprisan og lífið“. (Jóh. 11). Faðir minn dó og var jarðaður í Fossvogskirkjugarði. Það var raunveruleikinn sem við blasti og minnti mig á dauðleika minn.

Hvaða þýðingu hefur þá kraftaverkið?

2.

Frá mínum bæjardyrum séð gerðist kraftaverk þessa daga fyrir jólin þegar gamli guðsmaðurinn kom gangandi í gegnum snjóinn með Biblíu. Hann gifti pabba og mömmu á sínum tíma. Hann færði móður minni og fjölskyldunni Biblíu í sorgarhúsið og hafði skrifað fremst í hana: „Jesús er ljósið og lífið. Hann lifir og sigrar.“ Það var sami maðurinn sem trúði meira á Guð en kraftaverk og er líklega á sama máli og Jóhannes. Það að trúa á Guð sem vinnur kraftaverk er að vona þar sem engin von virðist vera til staðar í mannlegri tilveru. Skiptir það mig máli að trúa þannig. Já, það er lífsgrundvöllur minn, í gegnum erfiða reynslu og þakklæti fyrir lífið, sem ég hef tjáð í ljóðum mínum.

Ætli ég sé ekki eins og rokkarinn að ég trúi þrátt fyrir að tilveran mótmæli því af öllum kröftum að eitthvað annað sé til en dauði og djöfull í þessari tilveru. Ég stend þar með góðum hópi vitna sem hafa gengið þessa braut trúarinnar til enda, að það birtir upp um síðir, ljósið kemur, vonin verður ekki til skammar. En auðvitað get ég svo sem ekki fært neitt sterkari rök fyrir máli mínu en rokkarinn.

Mér fannst ég eiga samleið með rokkaranum í sammannlegri reynslu okkar þegar ég horfði á þáttinn um hann. Heimur ljóða okkar gefur tilveru okkar merkingu. Hvað er satt og rétt? Sannleikur mannlegrar tilveru er í samskiptum okkar, orðum og hugsunum. Hugsunin um Guð skapar eitthvert samræmi milli orðanna og veruleikans í von, trú og kærleika. Og þegar fram líða stundir ævinnar finnst manni það skipta meira máli en að geta sett fram heildarformúlu fyrir tilverunni allri. Hverju værum við svo sem bættir við það? Ef við náum nú að útskýra alla hluti? Myndi mannlífið batna? Við gætum kannski lagað eitthvað mannlegt líf, lengt líf einhverra, brauðfætt fleiri, en eru það ekki sögurnar, sem halda uppi mannlegri von og styrk gagnvart þrautunum mörgu í mannlegu lífi, gefur lífi okkar reisn og virðingu.

Svo stöndum við með þessa texta Jóhannesar, sem fela í sér vitnisburð um að blindir menn fái sýn. Guðspjallasálmurinn kennir okkur um andlega sjón og mikilvægi hennar. En þessir blindu menn vitna um kraftaverk og annar þeirra mætti Jesú augliti til auglitis. Ég sit uppi með hugsunina: Gerðist þetta svona í raun og veru? Hvers vegna gerist þetta ekki enn? Auðvitað gerist ýmislegt sem við getum ekki útskýrt? Tilveran er kannski ekki eins lögmálsbundin og við viljum vera láta. En það er glórulaust að neita raunveruleikanum eins og hann er. Það getur ekki verið ætlun Guðs sem er sannleikurinn en Guð er ekki eitthvert náttúrlögmál sem hann getur ekki vikið frá. Guð er ekki fastur í eigin lögmáli.

3.

Snúm okkur að raunveruleikanum. Nú er umræðan um flóttamenn sem streyma til Evrópu. Sá vandi er allt í einu orðin nærtækur, snertir Evrópubúa í raun og veru. Og við reiknum út, sveitafélögin reikna og telja aura sína, ríkið horfir á vandann. Það er engin skynsemi í því að hjálpa öðrum ef menn telja aurana sína en ef við viljum vera menn sem láta mannúðina vera sitt leiðarljós, Guð, sannleikann, lífið, þá gegnir öðru máli.

Ef þú sérð Jesú fyrir augum þér eins og sagt er frá honum í guðspjöllunum: Hvað er þá rétt að gera? Loka hjarta sínu eða opna það fyrir nýjum veruleika, mannúðinni – Guðs ríki, trú, von og kærleika. Áttu þessa andlegu sjón? Ef ekki þá skaltu biðja Jesú um að gefa þér hana. Líf þitt verður kannski annað. Þú gengur inn í ljóðrænan heim, þín eigin píslarsögu, má vera, en þú ert þá ekki í merkingarlausu tómi, eigingirni og dauða. Því að raunveruleikinn og dauðinn eiga samleið, en lífið á okkar jörð er háð mannúð okkar, von og trú á að lífið sigri.

Dýrð sé Guði, föður og syni og heilögum anda. Amen.

Sálmar:

Upphaf.
Forspil – Orgel
Velkomin – Inngangur
Upphafsbæn
Upphafssálmur nr. 29: Mikli Drottinn, dýrð sé þér
Miskunnarbæn
Dýrðarsöngur
Kollekta og ritningarlestur
Lofgjörðarvers nr. 11: Drottinn Guð
Postullega trúarjátningin lesin saman
Guðspjallssálmur nr. 406: Góði Jesús, læknir lýða
Prédikun
Eftir prédikun nr. 592: Nú hverfur sól í haf
Almenn kirkjubæn,
Altarisganga
Tónlist eða sálmur fyrir altarisgöngu nr. 589: Þú sem líf af lífi gefur
Blessun,
Lokasálmur nr. 594: Ó, vef mig vængjum þínum
Eftirspil

Eftir Guðmundur Guðmundsson

Héraðsprestur í Eyjafjarðar- og Þingeyjarprófastsdæmi

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

%d bloggurum líkar þetta: