Tíu boðorð á 21. öld

Ræða flutt á Ólafsfirði 18. sd. eftir þrenningarhátíð, 29. september 2013. Þematísk ræða um boðorðin tíu og kristilegt siðferði út frá frásögninni um ríka unglinginn í Mrk. 10. 17-27. Spurt er: Dugar að setja fram kröfu um heiðarleika? Getum við innleitt boðorðin tíu sem mælikvarða á almennilegt líf á heimilum, skólum og samfélagi?

Náð sé með yður og friður frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Kristi.

Krafa samtímans er heiðarleiki. Það var sá eiginleiki sem þjóðfundurinn 2009 setti í efsta sæti. Sá mælikvarði var settur á stjórnmálamenn, á bankakerfið og á samfélagið eftir hrunið. Við setjum dyggðir á oddinn, meir en áður, vegna þess að við höfum reynt að samfélagi okkar stenst ekki án siðferðis.

Það hefur líka átt sér stað í skólakerfinu. Ýmis góð og gagnleg spakmæli eru á veggjum, á göngum og í skólastofum. Nemendur setja sér reglur strax í leikskóla. Jafnvel eru sett upp umbunarkerfi svo kennarar hlaupa eftir börnunum með verðlaunamiða fyrir góða hegðun. Uppbyggingarstefnur eru kynntar, á skipulegan hátt er tekist á við einelti o. s. frv. Siðaspekin er kennd á göngunum og í frímínútum.

Hver er ástæðan önnur en sú að reynsla okkar af frjálsræði, í merkingunni regluleysi og hömluleysi, hefur leitt okkur í ógöngur? Við þurfum á góðu siðferði að halda til að samfélagið dafni eða jafnvel standist.

Ekki hefur kirkjan farið varhluta af spillingu og siðleysi í hrunadansinum, svo að það er engin trygging fyrir siðferðinu að menn þykist þjóna Guði í háum embættum og miklum embættisskrúða. Siðferði hefur aldrei verið bundið embættum heldur er persónulegir eiginleikar sem fást ekki nema með iðkun gæskunnar. Er hrunið ekki orðið að syndafalli þar sem ríki og kirkja liggja flöt í lágkúra ómenningar og siðleysis. Og hvað er þá til ráða? Dugar að setja fram kröfu um heiðarleika? Getum við innleitt boðorðin tíu sem mælikvarða á almennilegt líf á heimilum, skólum og samfélagi?

1.

Kirkjan hefur bent á gömlu gildin, mikilvægi þeirra, og margir hafa áhyggjur af að þessi gömlu boðorð séu gleymd og grafin. Lífsspeki boðorðanna er meira en góð leiðbeining í huga kristinna manna. Þau eru leiðbeiningar skaparans um lífið sem við erum sköpuð til.

Sumir líta svo á að það þurfi að endurnýja boðorðin. Það þarf að sníða þau að nútímanum vegna þess að það er í eðli sínu óþægileg hugsun fyrir nútímamanninn að beygja sig undir reglur sem Guð hefur sett. Boðorðin eins og þau eru finnst eflaust flestum of afdráttarlaus. Við teljum okkur á æðra menningarstígi þar sem ekki á við að segja: Þú skalt ekki…  Menning okkar er háþróaðri en svo að þurfi að tala við þroskaða menn á þann hátt. Þess í stað er komið eitt bann: “Eftir einn ei aki neinn”. Afgangurinn er mildar hvatningar um stundvísi, þolinmæði, umburðarlyndi, glaðværð, um að gera sitt besta, fara að leikreglum í leik og starfi, halda loforð sín, bera umhverfi sitt fyrir brjósti og alltaf, án undantekninga, að sturta niður eftir að hafa verið á klósettinu.

Aðrir telja boðorðin úreltar siðareglur sem hafa enga skírskotun til lífsins lengur. Menn geta ekki séð fyrir sér að boðorð handa hirðingjaþjóð geti átt við samfélag nútímans. Boðorðið um að ágirnast ekki þræl eða ambátt, uxa eða asna, er út úr korti.

Ágætur anglikanskur prédikari J. John sem ég hef kynnt mér andmælir þessu á eftirfarandi hátt:

Skiptu á tjöldunum og íbúðum og húsum, breytum hirðingjaþjóðflokki í starfsmenn í jakkafötum með bindi, eyðimörkinni í borgarstræti og þú sérð að mannlegt eðli er samt við sig. Auðvitað hefur eitthvað breyst. Í stað smellanna í talnagrindinni er komið tifið í nýjustu tölvunum, brakandi uxakerra er orðinn að háþróaðri þotu, en eldur er ennþá eldur, vatn er ennþá vatn og mannkynið er ennþá mannkyn. Bókmenntir fornaldar, biblíulegar og aðrar, sanna að varðandi siðferði hefur mannkynið ekkert breyst í 4000 ár. Við höfum sömu gallanna og forfeður okkar og við þurfum sömu reglur.
(J. John. Ten. Living the Ten Commandments in the 21st Century (2000):14)

2.

Ég er á sama máli. Og rökin eru þessi. Boðorðin standast sem algildar reglur fyrir alla á öllum tímum. Þau staðfesta það grundvallartraust sem gott samfélag byggir á hvort sem það er háþróað tæknilega, ríkt eða fátækt þróunarland. Þau eru grundvöllur að réttri breytni. Það er erfitt að halda því fram að það samfélag standist þar sem ekki er lengur til nein rétt breytni né neinn sannleikur í raun. Í skoðunarkönnunum fyrir rúmum áratug voru Íslendingar mjög svo sveigjanlegir varðandi öll gildi.

En það er einu sinni þannig að við lifum fyrir eitthvað sem við teljum mikilvægt. Það verðmætamat sem við höfum gefið okkur dæmir okkur vegna þess að við stöndumst ekki eigin kröfur. Tökum bara heiðarleikann sem dæmi. Það er auðvelt að krefja aðra um heiðarleika en stöndumst við sjálf þá kröfu. Þannig dæmir samviskan okkur. Það er vandinn við boðorðin að þau dæma okkur þegar þau skerpa samviskuna. Við viljum frekar laga boðorðin að okkur eða hafna þeim með öllu frekar en að horfast í augu við okkur sjálf.

3.

Guðspjall dagsins er talandi dæmi um þetta. “Ríki unglingurinn” eins og hann hefur verið nefndur kemur með tilvistarspurningu sína til Jesú: “Hvað á ég að gera?” til að öðlast það sem skiptir mestu máli “eilíft líf”. Jesús beinir með orðum sínum honum frá sjálfum sér, frá því sem hann vill framkvæma og að tilvistinni, spurningunni um gæskuna og umhyggjuna, hann vísar í raun á sjálfan sig og Guð. Það var eins og hann greindi vanda unga mannsins strax. Hann vildi gera einhver ósköp til að öðlast, en þannig eigum við ekki við Guð, það snýr á hinn veginn, það er Guð sem hefur gert allt fyrir okkur. En það er eins og heiðarleiki og ærleiki unga mannsins hafi hrifið Jesú svo að “hann horfir á hann með ástúð” þegar ungi maðurinn hélt því fram að hann hefði gætt boðorðanna allt frá æsku. Það er ákveðin viðurkenning í orðum Jesú, “eins er þér vant”.

Þá komum við að því sem er stærsti ásteitingasteinninn í kristinni trú, að Jesús er kjarni trúarinnar og allt sem hún hverfist um. “Far þú… sel allt”. Óþægilegt á að hlýða. Komið við aumann blett. Tekið á meinsemd unga mannsins. Kannski mína. Ungi maðurinn vildi ekki sleppa því sem hann vildi gera með heiðarleika sínum og ríkidæmi, vildi ekki verða alslaus beiningarmaður gagnvart Guði, þiggja allt úr hendi Jesú, láta leiðast af honum. Orðin sem fylgja eru ein dapurlegustu í Nýja testamentinu, sorg Guðs og kirkjunnar: “Hann varð dapur í bragði og fór burt hryggur”.

Viðbrögð lærisveinanna undirstrika þessa staðreynd Guðs ríkis að hvorki dugar heiðarleiki né gáfur þegar kemur að málefnum Guðs. Þeir urðu steini lostnir yfir orðum Jesú: “Auðveldara er úlfalda að fara í gegnum nálarauga en auðmanni að komast inn í Guðs ríki.” Andvarp þeirra og áhyggjur urðu augljósar: “Hver getur þá orðið hólpinn?” Og þá segir Jesú það berum orðum, sem ég er að benda hér á, “menn hafa engan möguleika á að verða hólpnir, sama hversu vandaðir og ákafir og duglegir og réttlátir þeir eru mannlega talað. Það gildir annar mælikvarði gagnvart Guði. Og þau boðorð var Jesús að leggja fyrir unga manninn þegar hann kallaði á hann að fylgja sér. Gagnvart Guði erum við öll þurfamenn. Við mænum til Guðs sem megnar allt. Það er trúin sem hjálpar og dugar.

4.

Boðorðin gefa okkur þetta innsæi og sérstaklega þegar þau berast af vörum Jesú. Þá öðlumst við innsæi um okkur sjálf og Guð, að boðorðin fjalla fyrst og fremst um Guð sjálfan.

Í kvöldtíðinni eða conpletorium hefur kirkjan íhugað í rökkrinu verk sín og játað syndir sína. Það voru til skriftir og skriftaspeglar sem fólk notaði til að prófa sjálft sig og breytni sína. Og boðorðin gegna þar lykilhlutverki vegna þess að þau draga upp fyrir okkur lífssviðin þrjú, umhverfið, mannfélagið og Guð.

Ef við tökum boðorðin fyrir í öfugri röð þá fjallar síðasta boðorðið um ágirnd: Þú skalt ekki girnast. Þá horfum við inn í hjartað, á hugsanir okkar og langanir. Það ætti ekki að þurfa segja mikið meira um ágirnd. Er það ekki hún sem er orsök fyrir hruninu að menn gáfu sig henni á vald og það sem verra var trúðu því að ágirndin myndi leiða þá til gæfu. Þá kemur boðorðið að bera ekki ljúgvitni. Það er boðorðið um orðin. Mörg eru orðin í nútíma samfélagi og mörg eru þau ósönn og villandi. Samskipti okkar eyðileggjast, mygla og rotna, ef ósannsögli verður venja okkar. Svikaviðskipti brjóta niður traustið í samfélaginu. Svo komum við að  boðorðinu um verkin: Þú skalt ekki stela. Brotið er gróft og augljóst en margslungin er þjófnaðurinn í samfélagi okkar. Andstæðan við þjófnað er heiðarleiki. Það kennir þetta boðorð og besta meðalið gegn því að stela  er örlæti, að gefa af sér, gefa með sér, deila því sem Guð hefur veitt manni af örlæti sínu. Þannig getum við haldið áfram. Svo halda boðorðin áfram og beina athygli okkar að samböndum okkar við maka og náunga okkar, um trúnað og svik. Svo beina þau athygli okkar inn á við, að kjarna lífsins, Guði. Guð birtist okkur í samviskunni. Það er mesti kjarkur sem maður getur sýnt að horfast í augu við sjálfan sig eða öllu heldur að skoða sig í ljósi Guðs. Það áræddi ekki ríki unglingurinn. En það dugar ekki einu sinni! Nema til að vekja okkur til lífsins, þeirrar alvöru, sem lærisveinarnir horfðust í augu við, hvað er það sem hjálpar okkur.

5.

Lífið er fólgið í öðru og meira en boðorðunum. Þá komum við að tvöfalda kærleiksboðorðinu: Elskaðu Guð og náunga þinn. Í guðspjalli Lúkasar er dæmisaga Jesú um miskunnsama Samverjann. Dæmisagan sú er kristin siðfræði í hnotskurn. Hún er lýsandi dæmi um kristið siðferði. Og við megum gjarnan hafa hana sem mælikvarða á raunveruleikann og kirkju og kristni, presta, djákna og organista, og okkur sjálf.

Kristur er Samverjinn sem kemur til hjálpar, fyrirmyndin og ljósið í myrkrinu.

Dæmisagan birtir okkur kærleika Guðs, svona er hann. Kirkjan ber ekki Kristi vitni nema hún sé eins og miskunnsami Samverjinn. Jesús endar nefnilega dæmissöguna með því að segja við fræðimanninn sem spurði hann: „Rétt segir þú miskunnsami Samverjinn reyndist náungi mannsins sem lenti í hendur ræningjunum“, og bætti svo við: “Far þú og ger hið sama!”

Kristin trú er ekki falleg orð eða hugmyndir heldur sannleikurinn um Guð, kærleikur hans, framkvæmdur í mannlegum samskiptum. Við erum vakinn upp úr draumaheimi og sett inn í veruleikann, þau samskipti sem við lifum í okkar raunverulega lífi. Guð segir við okkur: Elskaðu náunga þinn eins og Kristur gerði þar sem þú ert settur! Það felst í orðunum: “Kom síðan og fylg mér!” Guði er ekkert um megn, svo þú þiggur þá allt úr hans hendi, sem þarf til að umbreyta mannlegum skilyrðum og elska eins og Kristur gerði.

Dýrð sé Guði, föður og syni og heilögum anda. Amen

Published
Categorized as Ræður

Eftir Guðmundur Guðmundsson

Héraðsprestur í Eyjafjarðar- og Þingeyjarprófastsdæmi

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

%d bloggurum líkar þetta: