Ræðan er þematísk um fjölskylduna og hamingjuna, flutt í Grundarkirkja 16. sd. eftir þrenningarhátíð 2010. En á vel við einnig á þessu ári 2013 milli frásagnanna af Mörtu og Maríu í Lúk. 10 og uppvakningar bróður þeirra Lasarusar í Jóh. 11 þegar fylgt er B. textaröð. Í lok ræðunnar vísaði ég í altaristöfluna í Grundarkirkju sem er eftir danska listamanninn Anker Lund af upprisunni. Upprisan er von kristinna manna og kraftur og uppspretta kærleikans í raunveruleikanum, en í samskiptum við meðbræður og systur lifum við hamingjuna.
Náð sé með yður og friður frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Kristi.
Á heimili afa og ömmu var útsaumuð mynd sem tíðkaðist víða hér á landi og þið þekkið örugglega mörg hver svipaðar myndir. Það var mynd af torfbæ og skrautletrað með kross-saumi: „Drottinn blessi heimilið!“
Hamingjan var í andrúmsloftinu einhvern veginn. Þegar amma var á lífi var það stórkostleg upplifun að fara í kaffi til þeirra þó að það hafi verið yfir Hellisheiði að fara. Borðstofuborðið hlaðið af hnallþórum og stríðstertum en það var ekkert til kvað við í ömmu: „Gerið þið ykkur þetta smáræði að góðu!“ Súkkulaðitertan! En þegar amma var horfinn af sjónarsviðinu tók afi við. Það var ekki eins magnað en kandís, malt og brauð með hunangi færði hann okkur og niðursoðna ávexti með rjóma þegar mikið lá við. Allt þetta minnir mig á þetta hamingjusama blessaða heimili enn í dag. Ég fæ mér gjarnan hunangsbrauð í morgunmat til að fá þessa himnesku tilfinningu úr húsinu þeirra.
Ég held að í huga mér sé þetta ein af myndum himnaríkis á jörð. Ekki síst vegna þess að á unglingsárum mínum lenti ég í sálarangist þegar draumar mínir brustu út af óhappi sem ég lenti í. Þá flúði ég til afa og dvaldi hjá honum í viku, ógleymanleg vika. Systir mín leitaði líka þangað eftir skilnað með dóttur sína og fann þar griðarstað. Stundum höfum við systkinin rætt um þetta sérstaka góða andrúmsloft sem var á heimili hans. Hamingja, jú, hamingja var það.
Djúpt í okkur er hrópandi bæn eftir hamingju, í hjarta okkar. Lífsþráin er það sem bærir á sér innra með okkur. Hin hliðin á málinu er óttinn við ógæfuna, að hún hvolfist yfir okkur. Við grípum til misviturlegra og óskynsamlegra aðferða til að halda ógæfunni fjarri. Hengjum upp skeifu yfir dyrum, bönkum í tré 7, 9, 13. Margir voru þeir sem giftu sig á þeim degi á laugardaginn var. Svo eru það öll lukkudýrin þegar halda á til keppni á íþróttavellinum! Þessi ógæfufælni getur fengið á sig þrálátar myndir: Ekki, ekki, ekki stíga á strikið!
Samkoma okkar í kirkjunni er stór bæn um hamingjuna, bæn, um að Guð gefi okkur gæfu og gengi. Og það er gott að tjá þá ósk. En það eru víddir við hamingjuna óljósar sem ég vil gera að umtalsefni í dag, atriði, sem geta skipt sköpun að við verðum hamingjusöm eða hamingjusamari, hef ég trú á.
1.
Ein af þeim fyrirmyndum fjölskyldunnar sem við höfum er hin heilaga fjölskylda, María, Jósef og Jesú-barnið. Ótal málverk eru til af þeim. Helgimyndir eða jafnvel glansmyndir þvælist fyrir okkur í huganum. Kirkja og kristni hefur lagt áherslu á fjölskylduna sem kjarnaeiningu samfélagsins. En það er ekki óraunsæir draumórar um fullkomna fjölskyldu þar sem allt leikur í lyndi. Hamingjan er ekki fólgin í einhverju ákveðnu fyrirkomulagi heldur í lífinu, titrandi viðkvæmu, eins og það er, tengslum, sem eru gefandi.
Það er sagt frá systkinum í Betaníu sem voru góðir vinir Jesú og hann var heimilisvinur þeirra. Marta, María og Lasarus hétu þau. Já, ég er alltaf að segja sögur vegna þess að guðspjöllin eru söguperlur á bandi. En þær miðla okkur boðskap. Sambúð þeirra systkina var ekki minna virði en hin heilaga fjölskylda í augum Jesú. Hann kallaði þau m. a. systur og bræður, feður og mæður. Þegar ég les um þau minnir samfélag þeirra mig á heimilið hjá afa og ömmu. Enda var Marta dugleg að bera á borð fyrir gesti sína svo um munaði. Hamingja í fjölskyldu er ekki háð fjölskyldugerð.
2.
Biblíusögurnar gera ekki heldur lítið úr átökum í lífinu, glímum og spennu, þvert á móti eru fáar bækur eins raunsæjar á mannlegt líf, ferlega óþægilega raunsæjar sögur það, jafnvel þegar frásagnirnar eru hvað ævintýralegastar. Þær eru skrifaðar af djúpri mannþekkingu eins og guðspjallasaga dagsins um ekkjuna í Naín.
Við sjáum fyrir okkur tvær fylkingar. Líkfylgd á leið til greftrunar rétt fyrir utan borgarhliðin í Naín. Jesús kemur með lærisveinum sínum og fylgdarliði. Sorgin í orðunum er mikil: „einkason móður sinnar sem var ekkja“. Jesús er fullur samúðar, samkennd hans djúp, af orðinu að dæmi sem notað er, hann kemur til ekkjunnar með líkn, huggun og líf. Er ekki allt í lagi að leyfa sér að sjá undrið fyrir sér? Svo skynsöm getum við ekki verið. Sjáið fyrir ykkur undrunina í augum fólksins sem fylgdi syninum til grafar. Og hamingju ekkjunnar!
Ég hugsa sem svo að sagan er að segja okkur frá umhyggju Guðs fyrir þeim sem syrgja. Að það er von jafnvel við gröf ástvina. Við kristnir menn setjum krosstákn yfir leiði, sem er ekki tákn dauðans heldur lífsins. Við afneitum dauðanum og helgum okkur lífinu og voninni. Og þannig höldum við hamingjunni, þrátt fyrir átökin og glímur okkar við Guð og menn.
Faðir minn dó af völdum bílslyss. Eftir tveggja vikna legu á gjörgæslu meðvitundarlaus var útséð að hann myndi ekki ná sér. Þegar ég fékk fréttirnar af dauða hans þyrmdi yfir mig. Myrkur lagðist yfir sál mína og fylgdi mér lengi. Ég man að ég tók fram Biblíu og las frásögnina af uppvakningu Lasarusar, bróðir þeirra Mörtu og Maríu. Jesús sagði: “Ég er upprisan og lífið”. Auðvitað bað ég Guð að vekja föður minn upp frá dauðum, en það gerðist ekki. Aftur á móti varð þessi frásaga til þess að Jesús var með mér í myrkrinu og þegar tíminn kom stóð ég eitt sinn við gröf föður míns og ákvað að helga líf mitt mannúð eins og hann, læknirinn. Öldungur kom öslandi í gegnum snjóinn nokkrum dögum fyrir jól í sorgarhúsið okkar með Biblíu að gjöf. Biskup og mannvinur. Fremst í bókina hafði hann skrifað orð sem varð ljósglæta mín: “Ljósið skín í myrkrinu. Jesús lifir og sigrar.”
3.
Þá komum við að því atriði sem að mínu viti er það mikilvægasta í kristinni trú. Það er kærleikurinn. Í guðspjalli dagsins eru mörg augnablik, augu mætast, spurn, undrun, hamingja. Og þannig er það í lífinu. Við eigum sælustundir með ástvinum okkar, dýrmætar stundir, verst finnst manni að geta ekki haldið í þessar stundir, þær líða hjá. Grár hversdagsleikinn, vaninn og endurtekningin gerir okkur fjarræn, tilfinningar okkar kólna. Þá er gott og hollt að hugsa til Guðs. Hann er kærleikur. Í grunni tilveru okkar er ást og faðmur, hlýja og merking. Að lifa sem manneskja er að lifa þennan kærleika Guðs með ástvinum sínum og náunga sem verður á vegi manns.
Sú sælustund sem mér finnst bera hæst er þegar ég eignaðist mitt fyrst barn og hún endurtók sig aftur og aftur og aftur. Ég get ekki gert upp á milli þessara lífsstunda. Maður naut þess að vera viðstaddur, en ég verð að játa það að eftir fæðinguna var ég með verulegar harðsperrur í maganum. Ég hafði tekið þátt í fæðingunni af öllum kröftum, en það var nú lítið miðað við það sem konan mín gekk í gegnum. En allt það hverfur fyrir gleðinni þegar barnið var fætt og feginnleikanum þegar það orgaði í fyrsta skipti og hamingjunni þegar maður faðmar barnið sitt að sér. Svo horfir maður í augu barnsins síns, sér þetta krumpaða andlit eftir eina áhættusömust ferð lífsins, bundinn þessu kríli til lífstíðar, og það er eintóm hamingja. Á slíkum stundum horfist maður í augu við lífið, Guð, og segir takk. Þá sér maður best hvað lífið er, að njóta umhyggju og að annast það sem manni er gefið. Er þetta ekki dásamlegt líf?
4.
Hvernig verðum við hamingjusöm? Svarið er í einföldu orði. Jóhannes, yngsti lærisveinn Jesú, var borinn inn í söfnuðinn í Efesus þegar hann var orðinn öldungur. Þá sagði hann við söfnuðinn: „Elskið hvert annað!“ Oft missum við sjónar að þetta er aðalatriðið eða gerum kærleikann að einhverju tækniatriði, 7, 9, 13 bank eða að hamingjan sé í auðæfum og eignum eða á einhverjum sérstökum stöðum. Hamingjan er manna á milli í samskiptum okkar, þegar við reynum kærleiksríkt viðmót, styðjum hvert annað, tölum vel um hvert annað, færum til betri vegar, lagfærum, iðrumst og bætum fyrir það sem við höfum gert rangt. Hamingjan er ekki tæknilegs eðlis heldur er hún augliti til auglitis, snýst um tilgang lífs okkar. Ég þýddi þetta ljóð, prósaljóð, sem hnykkir á þessu:
Með peningum er hægt að kaupa lyf
en ekki heilsu.
Með peningum er hægt að kaupa hús
en ekki heimili.
Með peningum er hægt að kaupa sér félagsskap
en ekki vináttu.
Með peningum er hægt að kaupa sér skemmtun
en ekki hamingju.
Með peningum er hægt að kaupa sér mat
en ekki matarlyst.
Með peningum er hægt að kaupa sér rúm
en ekki svefn.
Með peningum er hægt að kaupa krossmark
en ekki frelsara.
5.
Biblíusögurnar eru samskiptasögur, leiðbeiningar í kærleika. Þær kalla okkur til athafna, til samstöðu, til samúðar, til að skapa mildara samfélag, heiðarlegra og ærlegra. Sagan um ekkjuna í Naín skuldbindur okkur hvert öðru, þegar sorgin vitjar okkar og marir yfir einhverju heimilinu í sveitinni, þá sláumst við í för með líkfylgdinni með vonina og huggunina, erum til staðar hvert fyrir annað. Kristin trú kennir að það er alltaf von, lífskrafturinn er slíkur, Guð er þannig. Það túlkar danski listamaðurinn Anker Lund í altaristöflunni sem blasir við okkur, mynd sem túlkar kærleika sem sigrar dauðann, trú og von.
Dýrð sér Guði, föður og syni og heilögum anda, svo sem var í upphaf er og verður um aldir alda. Amen.
Altaristafla með mynd af upprisu Krists eftir Anker Lund. Lögð kirkjunni til 1891 af kirkjueiganda Magnúsi Sigurðssyni, samkv. vísitasíu 1893. (Vísitasía biskups íslands í Eyjafjarðarprófastsdæmi, 19. – 25. febrúar og 1. – 12. Maí, 2004, s. 101)