Evangelisk – hugvekja

jesuspredikarHugvekja á hádegisstund í Akureyrarkirkju 22. ágúst 2013 um orðið evangelisk. Orð sem einkennir kirkjudeildina.

Fagnaðarerindið breytir öllum forsendum mannlegs lífs, vegna þess að það er erindi Guðs við okkur. Það er ein aðal persónu í því sambandi, Jesús Kristur. Um hann snýst fagnaðarerindið.

Náð sé með yður og friður frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Kristi.

Texti:

Öll veröldin fagni fyrir Drottni.
Þjónið Drottni með gleði,
komið fyrir auglit hans með fagnaðarsöng.
Játið að Drottinn er Guð,
hann hefur skapað oss og hans erum vér,
lýður hans og gæsluhjörð.
Gangið inn um hlið hans með þakkargjörð,
í forgarða hans með lofsöng.
Lofið hann, tignið nafn hans,
því að Drottinn er góður,
miskunn hans varir að eilífu
og trúfesti hans frá kyni til kyns. (Davíðssálmur 100)

Ég vil dvelja við eitt orð þessa andaktsstund. Kirkjudeild okkar er kölluð evangelisk. Það er ekkert aukaatriði heldur aðalatriði trúarinnar. Orðið er úr grísku en hefur orðið alþjóðlegt í kristninni. Við notum evangelistinn Matteus, Markús, Lúkas og Jóhannes en venjulegra eru þeir nefndir guðspjallamenn.

Í spádómsbók Jesaja 40. kafla er talað um fagnaðarboða:

Stíg upp á hátt fjall, Síon, fagnaðarboði.
hef upp raust þína kröftuglega, Jerúsalem, fagnaðarboði.
Hef upp raustina og óttast eigi,
seg borgunum í Júda:

Sjá, guð yðar kemur í mætti
og ríkir með máttugum armi.
Sjá, sigurlaun hans eru með honum
og fengur hans fer fyrir honum. (Jes. 40. 9-10).

Þetta er eitt af ljóðunum í þessari kröftugu bók. Fagnaðarboðin eru um sigur Guðs. Þeir sem upplifðu sigurboðin eftir síðari heimsstyrjöldina skildu vafalaust vel þessi orð, þetta voru friðarboð og því fagnaðarboð sem gengu manna á milli, orð, sem breyttu forsendum lífsins, lögðu nýjan og tryggan grundvöll í mannlegu samfélagi. Það er merking orðsins „evanggelizomenos“.

Evangelistinn er gamaldagsorð en þó var það notað um kirkjudeildina okkar en þýðingin er gjarnan fagnaðarerindið. Guðspjallamaðurinn Markús byrjar sitt guðspjall með þessari hugsun: “Upphaf fagnaðarerindisins um Jesú Krist, Guðs son… “ Svo vísar hann í þennan kafla hjá Jesaja.

Við höfum tekið í arf enska orðið “gospell” sem er þýtt guðspjall en ætti kannski frekar að vera þýtt gott spjall, góð ræða eða góður og gleðilegur boðskapur. Um það er boðskapur kirkjunnar, það sem hún boðar er gott og gleðilegt, eins og boðin um að friður sé kominn á eftir styrjöld.

Fagnaðarerindið breytir öllum forsendum mannlegs lífs, vegna þess að það er erindi Guðs við okkur. Það er ein aðal persónu í því sambandi, Jesús Kristur. Um hann snýst fagnaðarerindið.

Við viljum svo oft hrófla upp alls konar hlutum og hégóma verð ég að segja utan um trúna, en þegar dýpst er skoðað, snýst trúinn um Jesú einann. Því heldur guðspjallið fram. Og það er gott fyrir okkur að því sé þannig farið. Reyndar er það eina von okkar til að öðlast frið við Guð og menn.

Þegar við segjum að kirkjan okkar er evangelisk eigum við við að von okkar og trú er bundin við hann einan. Öll boðun kirkjunnar bendir á hann eins og Jóhannes skírari gerði. Sjáið hann, sjáið stjörnuna og ljósið, sem okkur er gefið, Guðs lamb, sem ber synd heimsins.

Við getum sett upp tvo póla frá manninum til Guðs. Traust okkar leitar að einhverju að binda sig við, við setjum það á annað hvort. Guðspjallið kennir okkur þá leið að treysta á orð og verk Jesú. Með því öðlumst við allt með honum sæluna og himnaríki, sem gjöf, af náð, vegna elsku Guðs. Ef við hlustum ekki á fagnaðarboðin, heyrum þau ekki, þá er traust okkar á mannlega þekkingu, lífsskoðun, hjáguð. En Guð laðar okkar til að treysta sér með því að senda okkur son sinn að öðrum kosti verður veröldin okkur guð. Um það snýst fagnaðarerindið, það er evangeliskt, boðskapur, sem skiptir máli.

Dýrð sé Guð föður og syni og heilögum anda.

Bænin sem lesin var í nútímastafsetningu minni eftir séra Jón Jónsson frá Möðrufelli:

Eilífi Guð, vor æðsti og besti faðir,
af öllu hjarta nafn þitt lofum glaðir.
Þökkum einnig þinnar gæsku dáðir
þúsundfaldar, sem oss veita náðir.
Liðinn dag og lífstundirnar allar
léstu þær oss sérhverjum tilfalla,
enginn af oss orkar þær að meta,
enginn heldur mun þær talið geta.
Mest er þó sú miskunn þín af öllum,
nær miðlaðir oss bót við synda göllum,
í þínum syni Jesú Kristi kæra,
sem kom á jörðu lífið oss að færa.
Með sínum dauða dró hann oss frá pínu
og dýrðleg kjör í ríki veitti þínu.
Börn þín nú en bræður hans vér heitum,
bænheyrir oss, nær vér til þín leitum.
Oss áminnir, eins og Faðir bestur,
með orði þínu, við þess heyrn og lestur:
Að vér skulum stunda’ að gjörast góðir
og ganga réttar trúarinnar slóðir.
Í dag vér höfum heyra fengið þetta,
hjálpaðu’ oss að bera’ ávöxtu rétta,
unn oss vaxa eins í trúnni’ að stríða,
vaka, biðja og þolinmóðir líða,
svo vér hjá þér loksins fáum lenda,
í lífi því, sem engan tekur enda,
hvar börn þín öll í blóma dýrðar gleðjast
af brunni þinnar vellystinga seðjast,
fyrir þinn son, Frelsarann Jesúm mæta,
Faðir, virstu að bænum vorum gæta.
Amen.  (Dagligar Bænir í Stefum í Nokkrir Vikudags Sálmar og Bænir eftir Jón Jónsson frá Möðrufelli, Akureyri, 1853. Bls. 57-8)

Published
Categorized as Ræður

Eftir Guðmundur Guðmundsson

Héraðsprestur í Eyjafjarðar- og Þingeyjarprófastsdæmi

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

%d bloggurum líkar þetta: