Gleðileg jól!
Dóttir mín fór einu sinni fyrir mörgum árum með leikskólanum að Möðruvöllum. Eitthvað hafði jólasagan orðið henni heldur raunveruleg. Því að hún spurði mömmu sína í tvígang að því hvort pabbi og mamma Jesú ætti heima á Möðruvöllum áður en hún fór. Möðruvellir og Betlehemsvellir hljóma svipað! Fjárhirðar út í haga?! Eitthvað þarf ég að vanda mig betur að segja jólasöguna heima hjá mér. Þó hafði hún skilið að Jesús hefur eitthvað með jólin að gera og nálægur er hann þó ekki svo að hann fæddist á Möðruvöllum.
Möðruvellir í stjörnubjartri nóttinni.
Okkar vandi og minn er frekar á hinn veginn að Guð sé svo fjarlægur. Þó að ljós sköpunarinnar blasi við manni eins og hér við Eyjafjörð þegar norðurljósin leika sér á stjörnubjörtum himninum og speglast í sléttum firðinum, fjallahringurinn snævi þakinn, sem gerist í góðviðri og frosthörkum. Himinljósin speglast í hafinu.
Ég átti fyrir mörgum árum slíka stund úti í náttúrunni eina vetrarnótt. Það var eins og uppljómun. Ég hugsaði um óravíddir himingeimsins og velti fyrir mér hvort bæn mín gæti náð til Guðs sem væri handan við stjörnurnar allar og himinblámann.
Hátt yfir stjörnuhimin,
Guðm. G.
hærra en augsýn nær,
djúpt inn í blámann bjarta
nær bæn til þín, Faðir kær.
En hvað var það sem gaf mér þá vissu að Guð væri þarna handan við allt sem við sjáum? Það var boðskapur jólanna. Ljós náttúrunnar hjálpar til í mannlegri tilveru, ljósin mörgu, sem lífið geymir, gleðja og styrkja, en ljós jólanna skín í myrkrinu.
Það er þessi stóra hugsun sem við eigum dálítið erfitt með en er kjarni og stjarna jólanna. Ætli við verðum ekki að snúa við og verða eins og börn til að ná þessu, að sá Guð, sem er að baki öllu er við sjáum og erum, kemur til okkar í litlu barni. Þetta er miklu róttækari hugsun en ég held að við náum að skilja enda boða jólin að hugsun sú er raunveruleiki. Meistari Lúther, siðbótarmaðurinn, kom þessari hugsun fyrir í barnasálmi sem hann samdi fyrir börnin sín. Sálmurinn heitir Af himnum ofan boðskap ber (nr. 85 í Sálmarbók 1991). Þar er þetta erindi í þýðingu Stefáns Thorarensen:
Og oss til merkis er það sagt:
Sb. 2022 nr. 48, 3. erindi
Í aumum reifum finnum lagt
það barn í jötu’, er hefur heim
í hendi sér og ljóssins geim.
Nú ætlar kórinn að halda áfram með ræðuna fyrir mig. Ég fann fallegt lag og eldgamlan texta þar sem þessi hugsun um Guð sem er okkur hulinn ráðgáta og leyndardómur að svo mörgu leyti birtist í barninu. María fæðir frelsarann og annast, um leið opnar Guð arma sína fyrir öllu mannkyni, hverjum manni, mér og þér.
Hlustaðu á textann sem hverfist um eitt orð ÁST, kærleika Guðs til mannanna.
(Hér má hlusta á lagið í fluttningi Margrétar Árnadóttur og Valmar Väljaots.
)
Kristur af föðurnum fæddur
frá eilífð er, dimmt var þar
djúpið tóma – dögun heimsins –
Drottinn lífsins ljósið var,
orð, sem skóp og allt upplýsti.
Öll sólkerfi’ í hendi bar
frá eilífð til eilífðar.Streyma geislar guðdómlegir
gegnum alla heima enn.
Óravídd og öreind geyma
undur lífs og leynd í senn,
ljúkast upp er lífsins Drottinn
litið fá dauðlegir menn
frá eilífð til eilífðar.Hann, sem var og verður alltaf,
vitjar heims, er barn við brjóst
móður sinnar, lítill lófi
leitar hennar, eftir ást.
Gjafari alls opnar arma,
öllum má það vera ljóst,
frá eilífð til eilífðar.Drottinn Jesús, dýrðar ljós Guðs
dögunar í heimi hér,
birtist ástúðlegur lífsins
Lausnari vor, mér og þér.
Barnið litla bar uppi’ heiminn.
Barnarétt hann gaf með sér
frá eilífð til eilífðar.Streyma enn um æðar heimsins
ást Guðs föður gegnum hann
sem að fæddist, barnið blessað,
birtir öllum sannleikann,
krafta lífsins, kærleiksgeisla,
Krist tilbiðjum, Guð og mann,
frá eilífð til eilífðar.Amen.
(Sjá á vefnum: Jólasálmur – Kristur af föðurnum fæddur)
Sálmurinn er í anda fyrsta jólasálmsins sem ég hef kallað svo. Guðspjall jóladags sem ég las fyrir altarinu er í rauninni sálmur um Krist:
Í upphafi var Orðið,
og Orðið var hjá Guði,
og Orðið var Guð.
Hann var í upphafi hjá Guði.…
Jh 1.1-2, 14.
Og Orðið varð hold,
hann bjó með oss,
og vér sáum dýrð hans,
dýrð, sem sonurinn eini á frá föðurnum,
fullur náðar og sannleika.
„Orðið varð hold… hann bjó með oss fullur náðar og sannleika“. Mér finnst það skemmtileg hugsun að Guð faðir sendir soninn sem vekur okkur til trúar fyrir heilagan anda. Það er að við tölum um þríeinan Guð vegna þess að það er ómögulegt að hugsa sér að kærleikurinn sé í einni persónu án annarrar. Guð er kærleikur. Kristur er frá upphafi fæddur af föðurnum áður en nokkuð var. Ef við hugsum þannig þá liggur það í hlutarins eðli að allt í óravíddunum en líka í kjarna efnisins á upphaf í kærleika og ást. Það hljóma kannski eins og stjarneðlisfræði í eyrum þínum en snýst um tilfinningu og lífið. Boðskapur jólanna er þessi að allt á upphaf sitt í kærleika en ekki vélrænum lögmálum þó að vissulega sé regla hluti af tilveru okkar, sköpun Guðs.
Barnið sem fæddist og var lagt í jötu (vegna þess að ekki var rúm fyrir það og foreldrana í gistihúsi) sýnir að Guð elskar. Guð skapaði allt af kærleika, þess vegna reynum við að skilja bæði himingeiminn og öreindirnar út frá því, að það er hugur þar á bakvið, hugur sem vill þér og mér ekkert nema gott. Þess vegna setti ég orðið ÁST, í miðju ljóðsins. Það er myndin af móðurinn með barnið sitt, það viðkvæmasta, í mannlegri tilveru, það sem kallar fram það besta hjá okkur.
Hann, sem var og verður alltaf,
vitjar heims, er barn við brjóst
móður sinnar, lítill lófi
leitar hennar, eftir ást.
Gjafari alls opnar arma,
öllum má það vera ljóst,
frá eilífð til eilífðar.
Þetta er ofar mannlegri hugsun, þess vegna eigum við erfitt með að trúa þessu. Það er of gott til að vera satt. Enda kom það ekki upp í huga nokkurs manns heldur er það verk Guðs, hugsun hans og framkvæmd. Guð hafði áform um það frá upphafi.
Barnið litla bar uppi’ heiminn.
Barnarétt hann gaf með sér
frá eilífð til eilífðar.
Það breytir öllu að vera elskað barn Guðs. Barnið í Betlehem segir þér það að Guði er svo annt um þig að hann sendi son sinn til þín að gera þig að barni sínu, að þér sé það ljóst og mátt treysta því. Þér er gefið að vera barn Guðs í sömu stöðu og sonurinn sem var fæddur frá eilífð og var í faðmi föður síns. Faðmur móðurinnar og skaut föðurins segir okkur að líf okkar snýst um kærleika en ekki vald né drottnun.
Dóttir mín, barn að aldri, ályktaði rétt, Jesús fæddist inn í þennan heim þó ekki á Möðruvöllum. Hann fæðist í mér og þér þegar við í raunveruleika okkar lifum Guðs ást, kærleikann, sem vex á milli okkar. Himinn og jörð mætast í barninu sem var lagt í jötu. Kærleikur Guðs streymir enn um æðar allar þegar við opnum okkur fyrir undrinu, lífinu, sem Guð gefur, ljósinu sem skín í myrkrinu. Þegar við á jólum tilbiðjum barnið, með fallegu jólasálmunum, blessum hvert annað með góðum jólaóskum, erum við að tengjast kærleikanum í sannleika. Annar raunveruleiki gefst okkur ekki en sá sem við lifum og þar er Guð kominn til okkar.
Hljóða nóttin, stjörnubjört, boðar okkur leyndardóm um lífið, Kristur Drottinn er frelsari heimsins sem er fæddur öllu fólki. Það eru ekki orðin tóm heldur raunveruleikinn, sköpun Guðs, hugurinn að baki tilvist okkar. Við erum frelsuð börn Guðs til að þjóna hvert öðru í kærleika en ekki í ótta.
Dýrð sé Guði föður og syni og heilögum anda.