
Nú má hlusta á annan þátt um Persónur píslarsögunnar: María móðir Drottins og íhugun orðsins. Það eru hjónin Fjalar Freyr Einarsson sem kynnir og Dögg Harðardóttir sem flytur vitnisburð Maríu. Íhugunin hefst með sálminum mínum Komu úr austri konungar þrír við lag John H. Hopkins. Það eru mæðgurnar Íris Andrésdóttir og Ragnhildur Ásgeirsdóttir sem syngja þennan jólasálm við gítarundirleik. Mæðginin María og Jesús fylgjast að frá fæðingu til krossins. Þar endar íhugunin undir krossinum með því að Fjalar Freyr les þýðingu mína á Stabat Mater.
2. þáttur
María, móðir Drottins
og íhugun orðisins
Hér má hlusta á þáttinn:
Það eru til ótal málverk af Maríu með Jesúbarnið. Madonnumyndir eru þau nefnd. Móðir með barni er sameiginleg reynsla allra manna. Þannig byrjar líf okkar allra. En þessi mynd er einstök og vekur undrun hjá trúuðum manni. María fékk það hlutverk og köllun að fæða frelsara heimsins. Allar aðrar fæðingar helgast af fæðingu frelsarans. Þess vegna eru madonnumyndirnar trúarlegar og draga upp einkenni kristinnar trúar. Sigurgjörn Einarsson, biskup, orðaði það svo í umfjöllun um bænina: „Kristin trú hefur fætt af sér og mótað þróttmeira, innilegra og persónulegra bænalíf en nokkur önnur trúarbrögð“. Sagan af Maríu móður Drottins er lýsandi dæmi um það.
Annar þátturinn um persónur píslasögunnar sem verður fluttur í dag er um vitnisburð Maríu í söfnuðinum í Jerúsalem. Ég hugsa mér hana segja sögu sína fyrir fall Jerúsalem árið 70 e. Kr. Ég gef mér að Lúkas læknir sem er höfundur þriðja guðspjallsins sé byrjaður að raða saman frásögunum. Hann segir frá þætti Maríu í fyrstu köflunum, forsögunni, eins og hún er nefnd. Leiðir þeirra Maríu hljóta því að hafa legið saman. María hefur lengi verið fyrirmynd um innileik trúarinnar. Samband þeirra Jesú hlýtur að hafa verið einstakt. Kirkjan hefur íhugað það í gegnum aldirnar. Sú íhugun birtist í kirkjulistinni, í myndlist, en einnig í sálmum og kirkjutónlist. Frá upphafi er María fyrirmynd kristinnar íhugunar eins og lesa má um hjá Lúkasi guðspjallamanni. Sömu hugsun má sjá hjá Jóhannesi sem setur Maríu í miðdepil píslarsögunnar, þar er María undir krossinum með Jóhannesi sem fyrirmynd trúarinnar og kirkjunnar með einstökum hætti. Upp frá því hafa söfnuður Drottins verið undir krossinum.
Áður en við heyrum vitnisburð Maríu móður Drottins eins og ég hugsa mér hann, þá vil ég flytja ykkur íhugun, sem var að nokkru leyti kveikjan að þessari framsetningu. Sálmurinn er við þekkt enskt jólalag eftir John E. Hopkins. Í sálminu set ég mig í spor Maríu, þegar vitringarnir komu og tilbáðu barnið hennar. Ég hef nefnt þennan sálm: „Maríuljóð frá Betlehem“. Það hlýtur að hafa verið merkileg upplifun fyrir Maríu að vera með Guð sinn í höndunum. Hún snerti Guð sinn, persónu í faðmi sínum, barnið sitt sem hún horfðist í augu við.
Maríuljóð frá Betlehem
Lag: John. H. Hopkins
Komu’ úr austri konungar þrír,
krupu fyrir barninu djúpt.
Undrun mín var mikil, vinir,
að mennirnir hylltu ljúft
barnið mitt og báru gjafir fram.
Blessuð var sú stund og góð.
Stjörnubjört var náðug nóttin,
nærstödd stóðum við þar hljóð.
Krupu hjá mér konungar þrír
Komst ég við og faðmaði hann,
soninn minn, þeim sýndi barnið,
ásjón þeirra lýsti, brann.
Leiðin hafði löng og ströng þeim reynst,
loksins sáu þeir ljós sitt,
eilíft ljós í augum barnsins,
elsku Guðs og hjarta mitt.
Kristi lutu konungar þrír,
komu þeir að tilbiðja hann,
sem að vísum vonarstjarnan
þeim vísaði á hann, þann
eina, sem að getur Guð vorn birt,
gæskuríkan frelsarann.
Jesús, geisla Guðs í heimi,
Guð þú sérð og sannan mann.
Guðm. G.
María segir sögurnar af Jesú í söfnuðinum
Heil og sæl. Mér er það heiður að mega ávarpa ykkur í söfnuðinum í dag. Ég hef svo oft sagt ykkur frá því sem Guð gerði fyrir mig. Enn á meðan ég lifi vil ég segja frá honum. Jesús minn, drengurinn minn, var stærsta gjöf lífsins. Guð valdi mig sem ekkert var í augum manna, fátæka stúlku úr afskekktri sveit. Guð fer aðra leiðir en við mennirnir ætlum. Þið getið rétt ímyndað ykkur að mér var brugðið þegar engillinn Gabríel boðaði mér að ég ætti að fæða frelsara heimsins. Ég komst við og hrædd varð ég en þannig er það þegar Guð nálgast mann. Það er eins og að ganga um óþekktan veg þar sem maður veit ekki hvað leynist bakvið hæðirnar. Eina sem hægt er að gera er að treysta á Guð. Þannig var það með mig og ég sagði við Guð: „Verði mér eftir orði þínu“.
Ég hef stundum hugsað um það hvort ég gerði upp á milli barnanna minna. Systkinum hans fannst þetta erfitt og stundum var öfundin nærri eins og er í systkinahópum. Jakob minn, skildi þetta ekki þá, ég hugleiddi það með sjálfri mér, en núna skilur þú, sonur minn, þó að við vissum ekki þá, hvert Guð var að leiða okkur, fjölskylduna mína. Það var sárt að ganga þessa leið sem Guð hafði valið okkur. En nú er söfnuðurinn stórfjölskylda okkar, ætt og vinir. Guði sé lof fyrir að eiga bræður og systur, feður og mæður, og börn í þessum hópi.
Hún geymdi orðið í hjarta sér og íhugaði
Ég er svo glöð eftir á þó að leiðin hafi verið mér erfið. Oft hef ég hugsað um það sem var að gerast. Guð gaf mér bendingar, einstaka orð hjá meðbræðrum og systrum, þannig að ég skildi það betur sem átti sér stað. Jósef, var mér stoð og stytta meðan hans naut við. Hann var vel að sér í Ritningunum og svo dreymdi hann drauma. Það var eins og Guð talaði við hann meðan hann var sofandi. Svo sagði hann mér frá draumum sínum og við fylgdum bendingunum, sem komu frá Guði. Jósef, maðurinn minn, var svo næmur á það sem var að gerast, bæði á himni og jörðu. Til dæmis þegar við flúðum til Egyptalands. Ekki höfðum við mikið milli handanna, gjafir vitringanna komu sér vel. Svo nutum við aðstoðar trúsystkina okkar þegar þangað kom í útlegðina. Jesús minn, var í útlegð fyrstu árin sín, í framandi landi. Og við gættum hans vel. Glöddumst yfir barninu okkar og Guðs, þegar hann var á brjósti, þegar hann tók fyrstu skrefin og talaði fyrstu orðin.
Það er skelfileg grimmd í heiminum. Ég þarf ekki að segja það við ykkur. Þið hafið reynt það á sjálfum ykkur að vera útskúfuð úr trúarsamfélaginu og reynt það að eiga mótstöðufólk sem gerir ykkur illt. Við flúðum undan grimmd Heródesar konungs sem varð óður þegar hann heyrði um nýfædda konunginn í Betlehem. Hann kúgaði sitt eigið fólk og píndi en að drepa börnin í Betlehem var skelfilegt. Ég fyllist alltaf sársauka og sorg þegar ég hugsa til þess. Mildin og gæskan á svo erfitt uppdráttar. Ég veit að Guð ætlar að reisa upp þá sem eru kúgaðir og lægja þessa ógnaröld með ríki sínu og réttlæti. Við skulum vænta komu hans í dýrðarríki sínu þegar allt verður gott og sársaukinn hverfur og tárin hætta að streyma. Jesús lýsti okkur sæl þegar við verðum fyrir ofsóknum fyrir réttlætis sakir, vegna nafn hans. Gömlu spádómarnir voru að rætast, tíminn var kominn, ógnaröflin vissu það og risu upp til að standa í vegi fyrir réttlæti Guðs. Og Guðs ríki virðist vera svo veikt en í veikleika þess er styrkur, vegna þess að Guð er hjá okkur í niðurlægingunni. Guð upphefur smælingjana. Það er undarlegt en satt þó erfitt sé að trúa því.
Vandi Maríu samkvæmt Matteusarguðspjalli
Það varð mér líka erfitt að útskýra fyrir Jósef að ég væri með barni. Hann var að hugsa eitthvað með sjálfum sér. Hann var að reyna að finna einhverja milda lausn vegna þess að honum þótti svo óskaplega vænt um mig. En svo breyttist allt einn morgun þegar hann vaknaði af draumum sínum. Þá hafði Guð talað til hans. Ég man að hann faðmaði mig svo feginn og glaður, horfði á mig í undrun og gleði, eins og væri ég einstök. Það var eins og hann hefði himinn höndum tekið. Við fundum að við vorum í hendi Guðs og hann myndi leiða okkar réttan veg, eins og segir í Davíðs sálmum. Við stóðum saman með þetta stórkostlega verkefni sem Guð hafði falið okkur, honum í draumi og mér með vitrun engilsins. Það gerði okkur líka erfitt ferðalagið bærilegra og í útlegðinni var það huggun okkar. Þá áttum við hvort annað að og barnið okkar óx og dafnaði.
Vinátta þeirra Lúkasar læknis – og skrif hans
Nú hefur Lúkas læknir tekið sér fyrir hendur að skrifa þessa sögu. Við höfum átt marga góða stund þar sem ég hef sagt honum frá öllu sem ég hef geymt í hjarta mínu öll þessi ár. Ég er alltaf að hugsa um þetta. Ekki eins og ég sé föst í fortíðinni og minningum, vegna þess að það sem bar við á þessum árum var miklu meira, það var Guð hjá okkur, Immanúel. Hann var í litla barninu mínu með undursamlegum hætti. Við Lúkas höfum oft glaðst við að rifja upp þessa frásagnir og hann er snillingur í að koma orðum að þessu. Það er mikil blessun fyrir söfnuðina að eiga mann eins og Lúkas. Papírus og blek er dýrt svo hann mótar orðin í huga sér með mér. Svo skrifar hann orð fyrir orð, vandlega íhugað og valið, í samfellda sögu.
Forsagan í Lúkasarguðspjalli
Ég má til að segja ykkur frá Elísabetu frænku minni. Hún var orðin háöldruð eins og Sara þegar hún átti von á sér. Lengi höfðu þau Sakarías beðið eftir barni. Svo blessaði Guð þau með Jóhannesi sem kallaður var skírari. Hann valdi sér það hlutskipti að vera í eyðimörkinni og prédika og skíra fólk í ánni Jórdan, í hlýðni við köllunina sem hann fékk frá fyrstu tíð.
Við Elísabet áttum samleið og hún hjálpaði mér enda vantaði ekki illu tungurnar sem töluðu um skömm mína. Ég dvaldi hjá henni um tíma meðan ég gekk með Jesú og hún með Jóhannes. Þegar við komum saman tók barnið í kviði hennar kipp og Elísbet sagði: „Hvaðan kemur mér þetta að móðir Drottins míns kemur til mín?“ Við áttum mörg góð samtöl um hlutskipti okkar og að vonir okkar og fólksins væru að rætast. Guð var að vitja okkar með sérstökum hætti. Við lofuðum Guð og þökkuðum. Lúkas hefur í guðspjalli sínu lofsöng Sakaríasar og svo er sálmurinn minn Önd mín miklar Drottinn. Þetta voru blessaðar gleðistundir þá þrjá mánuði sem ég var hjá henni.
Lofsöngur Maríu
Og María sagði:
Önd mín miklar Drottin
og andi minn gleðst í Guði, frelsara mínum.
Því að hann hefur litið til ambáttar sinnar
í smæð hennar,
héðan af munu allar kynslóðir mig
sæla segja.
Því að mikla hluti hefur Hinn voldugi
við mig gert
og heilagt er nafn hans.
Miskunn hans við þá er óttast hann
varir frá kyni til kyns.
Máttarverk hefur hann unnið
með armi sínum
og drembilátum í hug og hjarta
hefur hann tvístrað.
Valdhöfum hefur hann steypt af stóli
og upp hafið smælingja,
hungraða hefur hann fyllt gæðum
en látið ríka tómhenta frá sér fara.
Hann hefur minnst miskunnar sinnar
og tekið að sér Ísrael, þjón sinn,
eins og hann hét feðrum vorum,
Abraham og niðjum hans, eilíflega.
Lúkas hefur sagt svo vel frá því þegar engillinn vitraðist mér. Eins og ég sagði ykkur áðan þá varð ég hrædd og vissi að frá upphafi yrði ævi mín helguð þessu að vera móðir Drottins en það felur svo margt í sér. Að fela sig í hendur Guðs, að láta leiðast af honum, segja við hann: „Verði mér eftir orði þínu!“ Það hefur verið líf mitt upp frá því.
Það er svo mikil speki í fallegu frásögn Lúkasar um fæðingu Jesú. Ég fæ aldrei nóg af því að lesa söguna aftur og aftur. Fyrir mér var þetta fæðing frumburðarins. Það var vont að komast hvergi inn en Guði sé lof fyrir gistihúseigandann sem leyfði okkur að vera í gripahúsinu, hellinum úti í haga, þar var þó skjól. Lúkas nær að segja þessa sögu mína á stórkostlegan hátt. Við tilbiðjum Krist sem son Guðs, okkar nýja Davíð konung, sem kemur með ríki Guðs til okkar fátækra og kúgaðra. Lúkas ber hann saman við keisarann sem gaf út tilskipun um að skrásetja alla heimsbyggðina og var ástæðan fyrir ferð okkar til Betlehem. Hann er listamaður sem með fáum dráttum dregur upp mynd sem segir alla söguna. Þetta var að gerast, frelsar heimsins var að fæðast. Ég skil það varla ennþá hvað bar við þarna í Betlehem, Jesús minn fæddist og frelsari heimsins.
Átta dögum eftir fæðinguna fórum við til að láta umskera Jesú samkvæmt lögmálinu. Við vorum á ferðinni. Við fórum upp til Jerúsalem í Musterið til að færa Guði barnið okkar og þakka honum lífið nýja. Í musterinu voru tvö gamalmenni sem við höfðum heyrt um. Þau biðu eftir komu Drottins og töluðu um það við fólkið. Þetta var mikið bænafólk, voru meira og minna í musterinu. Það var gott að vera nálægt þeim. Anna Fanúelsdóttir hét konan og gamli maðurinn hét Símeon. Hann tók Jesú í faðm sér og söng lofsöng. Þetta var einstök stund, ógleymanleg. Hann lofaði Guð fyrir að hann fengi að sjá hjálpræði sitt og nú gæti hann dáið í friði. Að halda á barninu mínu var honum allt, saddur lífdag og glaður var hann þá. Nú er hann sofnaður og hún. Þá rann upp fyrir mér að Jesús var ekki aðeins minn heldur allra. Símeon spáði líka um það að það yrði mér sárt, sverð myndi nísta mig. Mér brá við þau orð. Það voru orð sem hjálpuðu mér síðar á lífsleiðinni.
Við fluttum til Galíleu eftir að Heródes konungar féll frá, settumst að í bænum Nasaret. Þar lærði Jesús smíðar af Jósef föður sínum. Marga unaðsstund áttum við saman. Jesús óx af visku og náð hjá Guði og mönnum. Hann gekk í synagoguskólann með drengjunum og hugur hans var frá fyrstu tíð við guðlega hluti. Þegar ég hugsa til baka var einstakt að fá að vera nálægt honum. Hann var barnið mitt. Svo eignuðumst við Jósef fleiri börn, syni og dætur. Það var líf og fjör hjá okkur eins og gengur. Þau áttu ágæta æsku í Nasaret og umhverfið við Genesaretvatnið var leiksvæði þeirra. En þetta allt er varla í frásögur færandi.
Við fórum eftir lögmáli Móse og helgisiðunum. Við kenndum börnunum okkar að elska og óttast Guð. Jesús var í synagoguskólanum og þegar hann var tólf ára fór hann með okkur í helgigöngu til Jerúsalem á páskahátíðinni. Þá vorum við mynt á köllun hans. Atvikið sem átti sér stað í Musterinu og það er mér minnistætt eins og það hefði gerst í gær. Foreldrar gleyma því ekki ef þau týna barninu sínu en það var það sem gerðist. Allt fór vel fram og við vorum samferða frændfólki frá Galíleu. Ég hafði gaman af því að fylgjast með Jesú þegar við nálguðumst borgina helgu. Hann fylltist lotningu. Svo tókum við þátt í helgihaldinu. Páskalambinu var slátrað og við tókum þátt í páskamáltíðinni í Jerúsalem. Orð Símeons voru mér svo sem ekki í huga þá en þau komu mér í hug þegar við fórum af stað heim á leið. Það var lagt af stað en Jesús var ekki með okkur en við ætluðum að hann væri með samferðafólki okkar. Við fórum strax að gá að honum en þegar við uppgötvuðum að hann var ekki með göngufólkinu varð okkur brugðið. Jesús minn var týndur. Þið getið rétt ímyndað ykkur hvernig mér var innanbrjósts. Við snérum við og leituðum þar sem við höfðum verið. Í örvæntingu okkar fórum við upp í Musterið og viti menn þar var hann. Hann var á meðal lærimeistara Ísraels og spurði þá og ræddi við þá. Þeir voru undrandi yfir þekkingu hans og við ekki síður. Í örvæntingu minni sagði ég við hann: „Barn, hví gerðir þú okkur þetta? Við faðir þinn höfum leitað þín harmþrungin?“ En þá sagði hann við okkur: „Vissuð þið ekki að mér ber að vera í húsi föður míns?“. Þá skildi ég að Jesús minn var ekki aðeins barnið mitt heldur allra. Oft hef ég hugsað um þetta litla atvik og eftir á sé ég að hann var að undirbúa sig undir það sem beið hans. Ég fékk sting í hjartað en um leið eftir á að hyggja þá grunaði mig að þetta væri aðeins upphaf að öðru meira.
Skírnin og upphafið að starfi Jesú
Þeir frændurnir Jóhannes skírari og Jesús áttu margt sameiginlegt þegar þeir urðu eldri. Jóhannes fór út í eyðimörkina og fór að prédika. Fólkið kom til hans að hlusta á hann og tók iðrunarskírn. Þetta varð mikil hreyfing. Bæði almúginn og lærðir menn fóru út í eyðimörkina til hans. Svo einn daginn var Jesús í hópnum. Hann bað Jóhannes að skíra sig. Jóhannes taldi víst að hann þyrfti þess meira með að Jesús skírði hann en að hann skírði Jesú en lét það eftir honum. Þá varð tákn á himni og Jesús heyrði rödd sem sagði: „Þú ert minn elskaði sonur, á þér hef ég velþóknun“. Upp frá því vissi ég að leið hans lá frá mér, þegar hann byrjaði að prédika. Hann hafði reynst mér vel en nú fann ég sársaukann að hann var að ganga þá leið sem Guð hafði valið honum. Ég var ein með börnin en þau voru orðin nokkuð uppkomin flest svo auðvitað var eftirsjá hjá mér en ég varð að sleppa honum. Hann hafði reynst mér góður drengur og meira en það. Hann kom alltaf til mín þegar þannig stóð á með lærisveinahópinn sem fylgdi honum og hann kenndi. Ég var stolt af honum. Svo heyrði ég frásagnirnar. Við vorum svo sem ekki óttalaus, sérstaklega eftir að Jóhannes skírari var hálfshöggvin fyrir engar sakir til að geðjast hjákonu Heródesar Antípasar og dóttur hennar.
Mér og systkinum hans sárnaði þegar við komum einhverju sinni að tala um fyrir honum. Það var mikil mannþröng í kringum hann. Þá benti hann á fólkið og sagði að það væri systkina hans og feður og mæður, þau sem hlustuðu á hann. Ég skildi þetta ekki þá en nú er mér ljóst að hann var að ganga til þjónustu við æðri vilja. Hann var að þjóna söfnuði trúaðra og meira en það heiminum öllum eins og Símeon hafði sagt í Musterinu.
Brauðkaupið í Kana og bænin
Svo átti ég til að ganga kannski aðeins of langt en ég treysti á Jesú í smáu og stóru. Jóhannes minn, sem hefur verið mér sem sonur um margra ára skeið, var að kvænast gullfallegri konu. Þau voru í Kana í Galíleu. Okkur var boðið í brúðkaupið. Hann er skyldur okkur og svo er hann yngsti lærisveinninn í hópnum. Svo þarna var ég með Jesú og lærisveinum hans. Þetta var dýrlegt brúðkaup og veislan góð. Í gleðskapnum gerðist það svo að vínið þraut. Það þótti mjög miður að veita ekki vel í veislum og þykir enn. Ég sá hvernig brúhjónin ungu voru miður sín í vandræðum sínum og foreldrarnir ekki síður. Kannski var ég að þrýsta aðeins á son minn að gera eitthvað. Eitthvað kom það illa við hann. Hann sagði við mig „kona“ eins og hann þekkti ekki mömmu sína og væri að segja mér að hætta að suða í sér. Ég var svo sem ekkert að suða í honum. Ég sagði honum bara að vínið væri þrotið. Ég lagði málið í hans hendur. Síðan hefur mér skilist að það sé að biðja í hans nafni, eins og við biðjum til Guðs föður á himnum. Þá var tíminn kominn. Hann bað yfirþjóninn að fylla sex steinker sem þarna voru með vatni. Svo að bera það fram fyrir veislustjórann. Og hann drakk vatnið sem vín var orðið og sagði: „Allir menn bera fyrst fram góða vínið og síðan hið lakara er menn gerast ölvaðir. Þú hefur geymt góða vínið þar til nú.“ Þetta var fyrsta táknið sem hann gerði og hann gerði það fyrir mín orð.
Jóhannes hefur oft sagt þessa sögu í söfnuðunum og notað hana sem dæmi um það að biðja í Jesú nafni. Mér er svo sem heiður af því en ég var nú eiginlega bara að segja Jesú frá vandræðum frændfólksins, ég fann svo til með þeim, en það er víst að biðja að koma með bænaefnin til Jesú. Og þó að hann sé ekki á meðal okkar lengur þá tala ég oft við hann í bæninni, eins og áður og hann kenndi okkur að gera.
Píslargangan – konurnar sem fylgdu Jesú
Ég fylgdist með honum og það var gleði í húsinu mínu þegar hann kom við og dvaldi hjá mér og fjölskyldunni. En þegar starfsárin liðu fór ég að finna að það var eitthvað ógnarlegt yfirvofandi. Jesús fór að hafa orð á því að hann ætti að fara upp til Jerúsalem og líða margt af hendi fræðimannanna og faríseanna og rísa upp á þriðja degi. Auðvitað lagðist þetta á sál mína líka. Þjáning hans varð þjáning mín. Ég ákallaði Guð að forða honum frá háskanum en það var eins og hann yrði að ganga þessa þjáningarleið til enda. Ljóðin um hinn líðandi þjón kom oft til mín og angursálmarnir lifðu með mér þessar vikur og mánuði.
Þá var komið að því fann ég. Páskarnir voru að ganga í garð. Lærisveinarnir voru að undirbúa ferðina upp til Jerúsalem og ég fann að eitthvað var í aðsigi. Ég bjó mig til ferðarinnar með þeim og gekk frá öllum málum heima við. Ég gat ekki annað. Ég varð að fylgja honum. Og það var enginn mótstaða af hans hálfu. Ég hafði sagt honum frá orðum Símeons í Musterinu.
Við komum við í Betaníu hjá systkinunum þar. Þau voru mikið vinafólk Jesú og lærisveinanna. Það var þá sem Jesús reisti Lasarus upp frá dauðum og gaf hann aftur Mörtu og Maríu. Þar með magnaðist andastaðan upp gegn honum. Við vissum að hann var í lífshættu. Mér var hugsað til Jóhannesar frænda hans og hvernig hefði farið fyrir honum. Við fylgdum Jesú út í opinn dauðann án þess að reyna að stöðva hann. Það var óhjákvæmilegt, þannig lá leiðin einhvern veginn. Guðs hjálpræði. Við vorum öll skilningssljó en hann vissi meira. Hann hafði talað um að vera upp hafinn. María í Betaníu smurði hann til dauðans stuttu áður. Hún hafði keypt dýr smyrsl í alabastursbuðk og hellti þeim yfir höfuð hans. Það var undarleg stund. Þá spáði hann fyrir örlög sín að hún hefði smurt hann til greftrunardags síns.
Undir krossinum
Fyrr en varði stóð ég undir krossinum hans. Ég hafði fylgt honum með konunum og Jóhannes frændi, lærisveinninn ungi var með okkur. Aðrir voru farnir, horfnir á braut. Það var komin upplausn í fylgdarlið hans. Við gátum verið óhult í mannþrönginni sem hrópaði og kallaði ókvæðisorð yfir glæpamönnunum sem leiddir voru út til krossfestingar. Við vorum aðstandendur. Orð Símeons urðu mín, ég varð þau, níst af sársauka, að horfa upp á þjáningu og pínu sonar míns. Líkami hans var eitt flakandi sár, þyrnarnir í háðslegri kórónu stungust inn í höfuðið. Blóði drifið var andlit hans, bak og brjóst. Niðurlægingin var algjör. Ég grét í angist.
Við heyrðum orð hans og andvörp, fylgdumst með þegar líf hans þvarr, en áður en yfir lauk gerðist þetta atvik, sem hefur skipt mig svo miklu. Hann leit til okkar Jóhannesar þar sem við stóðum undir krossinum. Hann sagði við mig: „Kona, nú er hann sonur þinn“. Og við hann sagði hann: „Nú er hún móðir þín“. Í allri þessari þjáningu elskaði hann mig, hugsaði til mín, gerði þetta allt mín vegna, fyrir mig. Ég skil aðeins lítið af því sem þarna gerðist og bar við. En það veit ég að hann gerði það allt vegna þess að hann elskar mig og alla menn. Hann gerði þetta fyrir okkur.
Íhugun kirkjunnar undir krossinum
Undir krossinum endar frásögn Maríu í söfnuðinum. Jóhannes skrifaði sína útgáfu af píslarsögunni þar sem þetta atvik er í miðdepli sögunnar til að segja okkur eins og hann orðaði í litlu Biblíunni: „Svo elskaði Guð að hann gaf son sinn eingetinn til þess að hver sem á hann trúir glatist ekki heldur hafi eilíft líf“. (Jóh. 3, 16). Svo elskaði Guð Maríu, móður sína og söfnuðinn, sem hlustar á orðið og heyrir og sér að allt þetta gerði hann fyrir mig og þig. Því er kirkjan hans undir krossinum eins og María og íhugar þar orðið.
Í fornum sálmi er þessi íhugun orðuð svo vel og hefur verið sunginn öldum saman í dymbilviku, vikunni fyrir páska. Sálmurinn er svona í minni þýðingu:
Stabat mater dolorosa
Lag: Stabat Mater e. Giovanni Nanini
María, Guðs móðir blíða,
mikla þjáning hlaut að líða,
lamb Guðs syndir lýðsins bar.
Undir krossi´ í kvöl og tárum
kvíðin stóð hún; hjartasárum
sverðið nísti sálu þar.
Hún sá soninn sinn húðflengdan;
sárt á höndum þar upp hengdan;
krýndan þyrnikó’rónu níðs.
Blóðið draup svo ótt úr undum
er hann píndist löngum stundum;
dó á meðal dauðlegs lýðs.
Er að finna svo hart hjarta
hrært ei sé við myrkrið svarta
Lausnarinn oss leysti frá,
höggin mörgu, sár og stríðið,
skelfing dauðans, háð og níðið,
er hann kvaldist krossi á?
Hann vor vegna varð að líða,
vorar syndir tók og kvíða;
hlýðinn bar hann böl og kross.
Fól hann sig í föðurhendur
fús hann gaf sitt líf; nú stendur
föðurskautið opið oss.
Ó, minn Jesús, ástar lindin,
á ég þig, þá víkur syndin,
má burt sekt og sefa harm.
Kom með mildi, kveiktu bjarta
kærleikselda mér í hjarta;
gef mér helgan, hreinan barm.
Sekt mín - kvöl þín. Kraminn varstu,
kross og þjáning mína barstu.
Heilt mér gef þitt hjartalag.
Kenn mér ljúft minn kross að bera,
kvöl þína lát líkn mér vera,
hlýðinn fram á hinsta dag.
Lát mig iðrast lasta minna,
leyndardóma krossins finna:
Fús þú þjáðist fyrir mig.
Við þinn kross ég vil æ standa,
von og kærleik að mér anda,
eiga trú gegn angist, þig.
Undir krossi á ég lífið,
ást þín sigrar dauðans kífið,
eilífðin þar er mér vís.
Faðir, þegar feigðin stendur
fel ég mig í þínar hendur;
veit mér von um Paradís.
Þýð. Guðm. G.