Undrun og þakklæti – jólaræða

130nativi

Ræða flutt í Laufási á öðrum degi jóla. Kórinn söng í upphafi sálm nr. 88: Himins opnast hlið. Eftir sálmaskáldið frá Laufási Björn Halldórsson. Tvær tilfinningar voru dregnar fram undrun og þakklæti í ræðunni, trúarlegar tilfinningar. 

 

Gleðileg jól!
Ég mátti til að lesa allt jólaguðspjallið, oft er endað með dýrðarsöng englanna. Á hverju ári rifjum við upp og minnust þeirra viðburða sem áttu sér stað við fæðingu frelsarans. Svo stóran sess hefur þessi fæðing að tímatal kristinna manna er miðað við hana. Frásagan er mögnuð enda heimildamaðurinn María móðir Drottins sem Lúkas læknir hefur þekkt vel.

Við skulum vera á tilfinningalegum nótum þessi jól. Það eru tvær tilfinningar sem ég ætla að draga fram í sögunni. Þær eru fleiri. Tilfinningaríkur texti enda ekki annað hægt þegar talað er um fæðingu. Þessar tvær eru trúarlegar. Það er fyrst undrun og svo þakklæti. Lúkas endar frásöguna á að segja frá því að allir sem heyrðu það sem hirðarnir sögðu um ungbarnið nýfædda undruðust. Þakklætið er svo þannig að einhverjum verður maður að þakka velgerðirnar við sig. Þannig er jólaguðspjall Lúkasar. Það sprettur fram af þessum tveimur djúpu, ég vil segja, trúarlegu tilfinningum.

1. Undrun

Það er svo gott að undrast lífið. Hefur þú ekki undrast litla hönd á nýfæddu barni? Fundið hvað lífið er dásamlegt þegar þú horfist í augu við barnið þitt eða þau sem þú elskar og elska þig? María lifði vafalaust slíka stund þrátt fyrir aðstæður sínar. En undrun hennar verður mikil þegar hirðarnir koma og segja frá öllu sem gerðist út á Betlehemsvöllunum þar sem þeir voru að gæta hjarðar sinnar. Björn Halldórsson, sálmaskáldið í Laufási, lýsir því í jólasálminum sínum með undrun: „Himins opnast hlið, heilagt engla lið“.

Ég sé hann fyrir mér ganga út eina vetrarnótt og horfa á norðurljósin leika sér á stjörnubjörtum himninum yfir Eyjafirði. Þú hlýtur að hafa undrast þessa dásamlegu sköpun sem umlykur okkur hér í sveit? Ljós sköpunarinnar hefur minnt hann á dýrðina á jólanótt, „ljós í lofti glæðast, það ljós Guðs dýrðar er“. Handan við norðurljós, stjörnur og himinblámann dimma er ljós sem birtist. Ógnin og óttinn, uggur og angist víkur þegar við hugleiðum betur boðskap englanna: „Óttist ekki þér“. Stundum lifum við stundir þegar allt er bjart og gott. En þær renna svo auðveldlega úr greipum okkar enda eru tilfinningar eins og fljót sem brýst áfram, óstjórnlega. Jólaboðskapurinn snertir það dýpsta í okkar eins og það hæsta í sköpun Guðs, það sem er handan sköpunarinnar, Guð sjálfan. Því boðskapur jólanna talar til hjartans, sem þráir að finna frið, finna Guð, lífið sem varir. Þú veist það eins vel og ég að hjarta þitt leitar að öryggi og trausti.

Við menn byggjum upp hugmyndakerfi, velferðarkerfi, nútímatækni, heimsveldi, knúðir áfram af þrá, sem fær á sig stundum furðulegustu myndir. Treystum við öllu því? Margt af því er gott en sumt er varasamt og enn annað stór hættulegt okkur sjálfum, eins og hernaðarógn nútímans, valdagræðgi stórvelda og ágirnd öll. Myrkrið er líka í jólaguðspjallinu í keisaranum sem kemur heimsveldinu á hreyfingu en það verður til þess að Jósef og María fara til Betlehem. Borgin sú fær þessa tvöföldu merkingu á þessum jólum eins og svo oft áður. Ljós og myrkur takast á í sögu okkar mannkynsins.

Undrun jólanætur hefur þennan dimma bakgrunn. Þrátt fyrir allt myrkur þessa heims, ógnir og ótta, birtist okkur um nótt ljós lífsins. Hirðarnir undrast ljós næturhiminsins þegar himnarnir opnast. Við fáum að skyggnast inn í himininn eitt augnablik, sjá ljósið eilífa. Orð engilsins er mikið gleðiefni. Og hvað er gleðiefnið? Að frelsari er fæddur. Það er fæddur annar höfðingi en keisarinn sem fer fram með allt öðrum hætti, ekki með valdi og ógn, heldur með friði og gleði. Skilur þú hvað er verið að segja þér? Þú horfir til himins og undrast sköpunina en veistu að baki öllu því er hjarta sem slær, ást sem leitar þín, auga sem sér þig? Í grunni tilveru okkar er kærleikur.

2. Þakklæti

Hvernig get ég og þú vitað það? Hvernig getum við verið viss um það að norðurljósin eru ekki bara raf- og segulsvið, stjörnurnar óteljandi sólir, himinbláminn galtómur, við ákvörðuð af genamengi kynslóðanna, ástin heilaboð ein. Það gerist þegar þú fylgir hirðunum til Betlehem og hlustar á orð þeirra um það sem þeir sáu. Þeir undrast með öllum og Maríu móður frelsarans þegar þau sjá barnið í jötunni sem er frelsari heimsins.
Trúarbrögðin geyma leiðsögn um leiðir til Guðs en hér er meira á ferðinni. Í barninu í jötunni er Guð kominn til okkar. Þegar hirðarnir hylltu barnið og María horfist í augu við hjarta sitt horfðust þau í augu við Guð sjálfan. Þegar Jesús gekk um og gerði gott og talaði orðin dýrmætu talaði Guð til mannkynsins. Barnsleg trú hugsar þú kannski og ég stundum. En gæti verið að okkur er vísað til barnsins til að sjá undrið mesta, fegurðina æðstu og lífið sjálft?

Það er til málverk frá 1500 eftir málarann Botticelli. Hann hafði áður málað gleðilegan hringdans þegar hann tekur sér fyrir hendur að mála Fæðingarundrið. Hann grípur til þess ráðs að sleppa sér út í frjálslega fantasíu til að tjá gleðina mestu. Englarnir á himnum stíga gleðilegan hringdans. Barnið breiðir út faðminn móti móður sinni sem krýpur og tilbiður barnið. Allir menn krjúpa, vitringarnir og hirðarnir. Englarnir eru allt um kring. Þeir lúta að mönnunum, benda þeim á barnið, hvísla í eyra þeirra boðskapnum. Fremst á myndinni faðma englarnir mennina og hughreysta. Hann málar 20 engla, sýnist mér, til að tjá gleðina.

130nativi
Málverk eftir Botticelli, Fæðingarundrið frá 1500

Ég hef samið nokkur erindi til að tjá undrun mína og þakklæti yfir þessari mynd. Fyrsta erindið er svona:

Dansandi englar í upphæðum,
undrið hið mesta,
barnið í jötu sem brosir við móður.
Vitringar, hirðar og heimurinn
hylla hið besta
barn sem er fætt, hann er frelsarinn góður.

Botticelli tekst að túlka að barnið í jötunni er einstakt sem eitt er vert að vera tilbeðið. Jesús er uppspretta ljóssins og lífsins og þannig tilbiður María barnið sitt. Við getum treyst Jesú vegna þess að hann er sonur Guðs sem kemur til okkar. Og af því sprettur hin tilfinningin, þakklætið, sem er eins og yfirtónn, sem hljómar með jólaguðspjallinu öllu. Ég átti engan þátt í því að Jesús kom, María var valin til að fæða frelsarann, himininn opnaðist á Betlehemsvöllum áður en þjóð okkar kom til Íslands. Áður en nokkuð var til orðið, ekki ein stjarna á himni, ekkert norðurljós, ekkert, nema Guð og sonur hans og sköpunarandinn, þá var ákveðið að tilveran ætti barnið í jötunni að upphafi, sem hún stefndi til og frá, að allt sem er sé sprottið af ást Guðs til manna. Það var allt gert fyrir mig og þig, þess vegna höfum við fyrir svo mikið að þakka. Þetta er ekki skynsamleg ræða, enda ætla ég mér ekki að útleggja þetta á náttúrvísindalega hátt, heldur tala mál hjartans, tilfinninganna. Okkar eina andsvar við undrinu mesta er takk, þökk sér þér Guð, eða eins og Björn Halldórsson segir í sínum jólasálmi: „Þökk sé Guði gjörð“.

Dýrð sé Guði föður og syni og heilögum anda.

Published
Categorized as Ræður

Eftir Guðmundur Guðmundsson

Héraðsprestur í Eyjafjarðar- og Þingeyjarprófastsdæmi

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

%d bloggurum líkar þetta: