Jólasálmur

130nativi

Drottinn Kristur kominn er – þannig byrjar eftirfarandi jólasálmur. Hann var lengi í smíðum hjá mér og lauk ég við hann 2014. Oft hef ég notað vísuorð úr honum í ræðum: Móðurfaðmur Guðs fær gætt, Guð og heimur mætast. Nú hef ég lokið við lítið lag sem ég raulaði oft við sálminn og vil deila með ykkur lesendum mínum. Þá flutti ég hugvekju á aðventunni á útvarpsstöðinni Lindinni út frá sálminum sem fylgir hér með sem undirbúning fyrir jólin um kristna tilbeiðslu.

Jólasálmur

Með sínu lagi:

Drottinn Kristur kominn er,
klukkur slá til tíða.
María í skauti sér
Son Guðs ber hinn fríða.
Oss til heilla heldur sú
hlýðin Drottins leiðir.
Frelsarann hún fæðir trú,
faðm út barnið breiðir.

Guð er barn í fátækt fætt,
fyrirheitin rætast.
Móðurfaðmur Guðs fær gætt,
Guð og heimur mætast.
Vex á þyrnirunna rós,
roðnar jurtin smáða.
Lífsins gáta gerist ljós;
Guð upp reisir þjáða.

Önd vor mikli Drottins dáð,
dýrðleg stjarna ljómar,
ást Guðs birtist, eilíft ráð,
englasöngur hljómar:
„Dýrð sé Guði í upphæðum,
og með mönnum friður.“
Drottinn hár af himninum
hingað stígur niður.

Koma að jötu konungar,
Kristi lúta vilja.
Hirðar Guð sinn hylla þar,
heit Guðs engla skilja.
Allir dýrka Drottinn nú,
dýrðar hátíð halda.
Krist vorn Drottinn tignar trú
tíðargjörð allra alda.

Guðm. G.

 

Aðventu og jólahugvekja út frá sálminum, flutt á útvarpsstöðinni Lindinni í desember 2022:

Nótur á Pdf-formi:

Published
Categorized as Sálmar

Eftir Guðmundur Guðmundsson

Héraðsprestur í Eyjafjarðar- og Þingeyjarprófastsdæmi

Færðu inn athugasemd