
frá 1894
Guðsþjónusta í Húsavíkurkirkju 5. sunnudag í sjövikna föstu sem var 13. mars 2005. Fyrsta textaröð (A): 1. Sam. 2. 1-10, Rm 8. 38-39, Lúk. 1. 46-56.
Bæn:
Eilífi Guð, þú sem kallar í þína þjónustu karla og konur
og framkvæmir með þeim verk þitt á jörðu.
Við biðjum þig:
Opna þú eyru okkar og hjörtu,
að við heyrum þegar þú kallar
og fylgjum honum sem þú sendir,
Jesú Kristi, sem er bróðir okkar og Drottinn,
og lifir og ríkir með þér og heilögum Anda
frá eilífð til eilífðar.
Náð sé með yður og friður frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Kristi.
1.
Inngangur: Það kemur upp í hug minn mynd af tveimur konum, Maríu móður Jesú og Elíasbetu frænku hennar, eftir málarann Maurice Denis þegar ég les guðspjall Boðunardags Maríu. Það er svo mikil gleði í atvikinu þegar þær frænkur hittast, Elísabet, sem lengi hefur vonast eftir að eignast barn og verður ófrísk í elli sinni, og María líklega mjög ung er boðað af engli að Guð hafi valið hana til að fæða frelsara heimsins og hún segir: “verði mér eftir orðum þínum”. Svo hittast þær frænkur og barnið í kviði Elísabetar tekur viðbragð í lífi hennar. Og Elísabet er frá sér af gleði þegar hún segir:
… hrópaði hárri röddu: Blessuð ert þú meðal kvenna og blessaður ávöxtur lífs þíns. Hvaðan kemur mér þetta, að móðir Drottins míns kemur til mín? Þegar kveðja þín hljómaði í eyrum mér, tók barnið viðbragð af gleði í lífi mínu. Sæl er hún, sem trúði því, að rætast mundi það, sem sagt var við hana frá Drottni. (Lúk 1:42-45)

frá 1894
Og gleði Maríu flæðir fram í lofsöng sem kenndur er við hana, lofsöngur Maríu, sem hefur verið sunginn í gegnum aldirnar og mörg eru þau tónverkin sem eru við þennan texta Magnificat: „Önd mín miklar Drottinn…“ Gleðin var mikil, óumræðileg. Það er gott að bera gleðifréttir. Ég heyrði einu sinni sögu af föður sem var að með konu sinni á fæðingardeild. Hann átti að hringja í nokkur númer eftir að barnið var fætt. Hann byrjaði á að hringja í tengdamóður sína. Svo hélt hann áfram eftir að hafa aðeins litið á barnið. Þá voru allir búnir að fá fréttina. Gleði yfir nýfæddu barni. En Magnificat felur alla þessa gleði í sér og meira til, „hvað kemur til að móðir Drottins kemur til mín“.
Þessi gleði er fest í ljóð, hebreskan sálm, sem við heyrðum. Svo níu mánuðum fyrir jól er þessi atburðir rifjaðir upp í kirkjunni. Og lendir á föstunni, þegar við minnumst píslargöngu frelsarans. Hver móðir þekkir þá þjáningu að fæða barn inn í þennan heim og Jesús líkir hjálpræðisverki sínu við fæðingu, eftir erfiðar hríðar og fæðingu, þjáningu um stund, hverfur það allt fyrir gleðinni sem hið nýja líf hefur í för með sér. Kona verður að móður og heimur verður að dvalarstað Guðs. Barnið sem fæddist var sonur Guðs sem frelsaði heiminn. Það var gleði kvennanna sem hittust og glöddust saman yfir því undri sem getnaður og fæðing barns er hvað þá Guðs sonar sem helgar hvert líf sem fæðist í heiminn svo fyrr og síðar.
2.
Og barnið var sonur Maríu og Guðs. Ekki ætla ég mér að fara neitt út í að útskýra það. Það er eins og ljóð sem verður ekki skýrt án þess að tapa eitthvað af krafti sínum. Fyrir stuttu var V-dagurinn og þar lögð áhersla á baráttu kvenna fyrir réttindum sínum og virðingu fyrir því kvenlega í lífinu. (Hér syndga ég í því að nefna ekki hlutina sínu rétta nafni en engu að síður). Það er ljóst út frá líffræðinni að Y-litningurinn er til grundvallar, hið kvenlega, og X-litningurinn er viðbót, hið karllæga, við erum sem sagt allar konur í grunninn. Ég veit að þessi ræða mín er ekki vinsæl í eyrum karla. En það verður bara að vera svo.
Eitt sem konurnar í þessari baráttu hafa tekið upp er að berjast gegn vopnaeign almennings og telja að það komi verst niður á konum og börnum. Vopnin eru tákn um vald en hið kvenlega felur í sér mýkt og mildi. Og það hefur alla tíð verið eiginleikar sem hafa verið tileinkaðir Maríu móður Drottins. Og Jesús tók svo sannarlega upp þá baráttuaðferð að breyta heiminum með mildina og miskunnsemina eina að leiðarljósi. Hann tefldi lífinu gegn valdinu, hervaldinu, kúgunarvaldinu og grimmdinni, og hafði sigur.
3.
Hið kvenlega eða öllu heldur móðurlega, það sem gefur lífið í mannheimi, gefur af sjálfri sér, fórnar sjálfri sér lífsins vegna. Móðurástin teflir eigin lífi í tvísýnu til þess að fæða af sér líf, þó að við á Vesturlöndum lifum ekki lengur við þau kjör nema sjaldan. Það var sú leið sem frelsarinn gekk til að fæða nýjan heim og nýja jörð. Þjáning hans hafði þann tilgang að fæða nýtt af sér eins og hver móðir gerir, hans fórn birti okkur móðurást Guðs með okkur öll. Sýna okkur svo að ekki verður undan því vikist að í grunni tilveru okkar er ást og kærleikur, þó að oft birtist ástin í mynd þjáningar og böls. En fórnandi kærleikur, mildin og miskunnin, hefur í för með sér lífgjöf.
4.
Á föstunni íhugum við píslargöngu Jesú. Í erindinu hér á eftir ætla ég að sýna nokkur listaverk sem túlka píslargöngu Jesú og sýna hvernig Hallgrímur Pétursson túlkar þessa atburði í Passíusálmunum, dregur lærdóm af því og hugleiðir þá, sér til hjálpar. Eitt af hinum klassísku minnum píslarsögunnar er María móðir Drottins, þar sem hún er undir krossinum. Hin mikla gleði þeirra vinkvennanna Maríu og Elísabetar er þar orðin að djúpum sársauka, bænakalli móður sem er að missa sinn elskulegan son, en jafnvel þar er von vegna þess að Sonur Guðs er á krossinum, í því myrkri skín ljósið hans, ljós heimsins, okkur öllum. Sumir listamenn sýna örvæntingu hennar meðan aðrir sýna stillta sorg hennar og harm, sem vísar í það sem er að fæðast. Ég festi þessar hugleiðingar í nokkur vísiorð fyrir nokkrum árum:
MARÍA, MÓÐIR JESÚ
Lúk.1,38.
María, móðir Jesú,
mildilega játar
Guðs son að bera belti undir
Himinsól fæðir hún
í heim sem að bjátar
allt til að rata um rökkurstundir.Ljósmóðir lífsins á
sinn lausnara bendir
gleðst yfir Guði frelsara sínum.
Krýpur við krossins tré
bænarkall sendir:
„Verði mér eftir orðum þínum.“Kristur er upprisinn,
af kærleika sprottinn,
ljósgeisli himins heiminum sínum.
Segðu með Maríu
við máttugan Drottin:
„Verði mér eftir orðum þínum“.