Móðir Guðs á jörð

Jólaræða flutt 1998 í Grímsey og Nesi í Aðaldal og 2002 í Glerárkirkju. Kveikjan að henni var madonnumyndirnar mörgu sem málaðar hafa verið og frásaga Lúkasar sem ber þess merki að hann hafi rætt við Maríu. Stef úr einum af mínum jólasálmum er þemað: Móðurfaðmur Guðs fær gætt, Guð og heimur mætast. Guðspjallið sem lagt var út frá var Lúk. 2, 1-20. En sálmarnir sem sungnir voru Sb. nr. 78: Í dag er glatt, nr. 81: Guðs kristni í heimi og nr. 82: Heims um ból. (Er að vinna með ræðusafn mitt svo það kunna að birtast ræður frá ýmsum tíma á næstunni).

Móðir Guðs á jörð

1. 

Gleðileg jól!

Þau eru ekki mörg orðin um fæðingu Jesú í jólaguðspjallinu en mögnuð eru þau: „Fæddi hún þá son sinn frumgetinn, vafði hann reifum og lagði hann í jötu, af því að eigi var rúm handa þeim í gistihúsi.“ Þau lýsa móðurást sem umvefur barnið sitt og veitir því líf af sínu lífi. Þannig erum við öll orðin til, sprottinn af mannlegri ást eða á ég að segja guðlegri. Ef við höfum ekki notið föður og móður í uppvexti okkar þá hafa einhverjir aðrir veitt okkur ástúð í þeirra stað svo mikilvægur er okkur kærleikurinn til lífs og vaxtar. Af ósegjanlegu þakklæti minnist ég móðurástarinnar sem ég naut.

En hér er um meira að ræða en móðurást. María umvefur barnið sitt ástúð sem er því lífgjöf við ógnandi aðstæður. Við finnum þessar titrandi tilfinningar, sem örlagastundir vekja, hvert augnablik verður afgerandi og dýrmætt. Myndin af Maríu með Mannssoninn í faðmi sér er trúarleg. Hún tjáir okkur sannindi um Guð, sem kemur til okkar í þeim mesta veikleika sem hugsast getur í mannlegri tilveru. Guð kemur inn í samband móður og barns, Guð og heimur mætast. María er Guðs móðir á jörð, barnið hennar er Guð kominn til okkar. Ótal eru þau málverk og myndverk sem túlka þessi sannindi, táknmyndina um Guð meðal kristinna manna.

Maddonumynd
Ein af mörgum madonnumyndum – Jesús er ljósgjafinn, miðdepill, og samband móður og barns

 

Skyldi þessi frásögn Lúkasar geyma okkur sannindin um Guð? Sjáum við fyrir þessi orð Guð eins og hann er í rauninni? Frásagan er ævintýri líkust og barnið grípur hana með hrifningu en við sem þykjumst greindari og þroskaðri, lífsreyndari, efumst að sannleikurinn geti verið svona einfaldur. Þeim raunveruleika sem lýst er þekkjum við, ekkert er eins raunverulegt og fæðing barns. Og frá því er greint í fáeinum orðum. Við ættum á þessum degi að vísa þessum efa okkar frá og leyfa okkur að hugsa eins og barnið og heillast af þessari frásögn, stutta stund að minnsta kosti.

Jesúbarnið birtir okkur Guð eins og hann raunverulega er, það er jólaboðskapurinn sem huggar og styrkir, fyllir gleði, lífsgleði, slíkri sem sigrar allar hindranir og dauðann að lokum. Stór orð, en okkur er óhætt að vænta mikilla hluta af Guði sem skapaði alheim og Guði sem kemur í barni til okkar. Það eru miklar andstæður í jólaboðskapnum eins og í páskaboðskapnum. Jólaguðspjallið teflir saman ljósi og myrkri eins og páskatextarnir lífi og dauða. Getur verið að ljós lífsins felist í þessari mynd af Maríu með barnið?

2. 

Ef þessu er farið eins og ég hef sagt að Jesús birtir okkur Guð hlýtur samband Maríu og Jesú að hafa verið afar sérstakt. Hún með soninn sinn og Guð sinn við móðurbarminn. Sem faðir veit ég vel að manni finnst barnið sitt vera guðdómlegt. En í tilfelli Maríu verð ég að viðurkenna að það var meira en það vegna þess að hún hafði Guð sinn í höndum sér sem barnið sitt.

Og Jesú-barnið óx og dafnaði hjá Guði og mönnum segir Lúkas. Hann varð Meistari lærisveina sinna, hann varð konungur konunganna, sem sendi þá til að vitna um sig og líkna og þjóna heiminum, fyrirgefa og sætta, boða Guðs ríki.

Það er ekki ólíklegt að Lúkas endurómi hugsanir Jesú og kenningu hans um komu sína í heiminn. Nokkuð sem þau mæðginin hafi rætt sín á milli á góðum stundum.

Jesús tekur einu sinni dæmi af fæðingu til að útskýra burtför sína úr heiminum. Það kemur nokkuð á óvart finnst manni í okkar samhengi. En þar er hann að hugga lærisveina sína og hughreysta þá. Kona gengur í gegnum þjáningu þegar hún fæðir barn eins varð Kristur að ganga í gegnum þjáningu til að ávinna okkur líf. Fögnuðurinn verði því meiri þegar barnið er fætt og sigurinn unninn á öllu því illa. Leifur Breiðfjörð hefur túlkað þessi sannindi í steinda glugganum á vesturvegg Glerárkirkju með því að stilla saman þyrnikórónunni og ljósinu. Hér blasa við okkur guðleg rök um þjáningu og dauða sem við munum aldrei skilja til fulls svo langt sem mitt vit nær. Þjáning og dauði Krists varð okkur ástæða gleði, vegna þess að hjálpræðisverk hans kemur því til leiðar að við fáum fyrir trúna stöðu Guðs sonar gagnvart Guði föður. „Við erum orðin systkin hans (Jesú)“, eins og segir í einum af jólasálmi okkar. En þessa þýðingu fær hjálpræðisverkið aðeins vegna þess að Jesús var „útgenginn frá föðurnum og kominn í heiminn“, eins og Jesús segir um fæðingu sína í guðspjalli Jóhannesar.

Þegar gengið er í gegnum þá reynslu að eignast barn veltir maður því fyrir sér hvaðan það komi. Hvaðan kom sál þess? En með Jesús var það augljóst, vegna þess að hann er Guð, þá er hann frá eilífð. Hann tekur mannlega mynd, gerist maður í raun og veru, er mannlegt hold og blóð. Í einum elsta sálmi kristninnar sem við höfum varðveittan í Nýja testamentinu er sungið um fortilveru Jesú að hann var í Guðs mynd, var í líkingu Guðs, fæddist, hann kom fram sem maður, þjáðist og leið, lægði sjálfan sig og var hlýðinn allt til dauða, já, dauða á krossi. Fyrir því er honum gefið nafnið sem hverju nafni er æðra, nafnið Jesús Kristur, frelsarinn frá Guði, Guð bjargar. Og eins og sálmarnir okkar miklar sálmurinn forni Krist, þar er hann tilbeðinn, Jesús Kristur er Drottinn.

Lúkas er alls ekki að segja okkur jólaævintýri. Hann greinir frá því að hann hafi safnað saman frásögn af þeim atburðum sem áttu sér stað á meðal þeirra til að fella saman í samfellda frásögn. Meðal annars bendir allt til þess að hann hafi leitað fanga hjá Maríu Guðs móður. Þannig vill hann ná eyrum okkur og segir frá annars vegar með raunsæi og hins vegar með boðskapinn í huga. Það er óvíst að María hafi ferðast þessa nótt sem hún fæddi son sinn frumgetin, því er ekki haldið fram. Eflaust voru þau um tíma í Betlehem. Kann að vera að þau María og Jósef hafi forðast illar tungur í Nasaret og skrásetningin hafi gefið þeim ástæðu til að dvelja um tíma í Betlehem. Þannig staðfestir Lúkas frásögn sína, dregur upp raunverulegar aðstæður þeirra Maríu og Jósefs. Í Betlehem fæðist svo konungurinn í ættborg sinni við frumstæð skilyrði vegna þess að eigi var rúm handa þeim í gistihúsinu. Þannig er frá upphafi frásagnarinnar gefið til kynna að hverju stefni, þyrnikrýningu, en með því rennur ljósið eilífa upp.

Þannig heyrum við jólaguðspjallið enduróma af kenningu Jesú um komu sína og hlutverk að veita okkur þekkingu á Guði eins og hann er.

3. 

Þær eru ótal madonnu-myndirnar sem túlka Maríu með Jesú-barnið, myndir, sem túlka þessa sýn, trúarsýn á Guði, af hinum milda og ástúðlega Guði. Það reynist okkur jafnan erfiðasta trúarglíman að trúa því að Guð sé okkur góður, að Guð sé okkar himneski faðir, sem vill okkur ekkert nema það sem gott er. Það liggur mikill þungi í orðunum: „Það var eigi rúm handa þeim“ eða „hans eigin menn tóku ekki við honum“. Það er svo að heimurinn segir við mig og þig: „Þannig er Guð ekki! Láttu þér ekki detta í hug að Guði sé umhugað um þig, þú ómerkilega sandkorn, ryk og reykur einn ertu.“ Þá rödd þekkir þú vafalaust og nefndu hana sínu rétta nafni, sú rödd er myrkrið í heiminum. En ljósið er komið í heiminn.

Hvað segir myndin af Maríu Guðs móður með barnið í faðmi sér?

Guð hefur komið á sambandi milli sín og mannkynsins. Guð hefur vitjað þín til að fullvissa þig um hver hann er, Guð sem elskar þig óendanlega mikið. Guð sem kemur til þín í veikleika barnsins til að vekja andsvar þitt, kalla þig til lífsins með sér, lífsins og ljóssins, sem lýsir upp tilveru þína, þannig að þú skilur, að það sem á sér stað er ekki gegn þér, heldur verður að þjóna þér til góðs. Að það er ekkert í þessari tilveru okkar sem getur skilið okkur frá Guði vegna þess að hann hefur frumkvæðið og ekkert megnar að sigra hann.

Ef þessu væri ekki svo farið þá væri jólaguðspjallið aðeins mynd af móðurást. Vissulega er móðurástin það fegursta í mannheimi en hún er ekki trúarleg mynd. Sannindin sem blasa við okkur í guðspjallinu er að: „Móðurfaðmur Guðs fær gætt, Guð og heimur mætast.“

Með því að Guð mætir okkur með þessum hætti í varnarlausu barni erum við leidd út í trúarglímu lífs okkar. Það ertir hrokann í okkur að þurfa að þiggja hjálp Guðs til að lifa. Setja traust sitt á Guð sem kemur, hann er ekki hið góða í mér, heldur algjörlega fyrir utan mig. Hann kallar mig til lífs sem hefur annan möndul en sjálfan mig, líf sem snýst um Guð og vilja hans, hinn góða, fullkomna vilja, sem er okkur oft framandi. Okkur er gefin fyrirmynd í barninu sem fæddist á jólum, við eigum að verða eins og barnið, láta leiðast í auðmýkt af Guði og hans góða vilja, til þess, sem okkur er ætlað, láta leiðast af meistaranum og konungi konunganna.

4. 

Nú vonast ég til að hafa leitt þér fyrir sjónir að kristin trú stendur fyrir takmarkalausa lífsgleði og bjartsýni. Það er boðskapur jólanna sem hljómar þannig, boðskapur, sem vekur lofgjörð og þökk til Guðs og hefur ómað um aldir. Kjarni hans er þessi, að við eigum Jesú fyrir bróður og Guð fyrir föður, sem vill okkur allt hið besta. Út frá því göngum við til móts við hvaðeina sem kann að mæta okkur. Ef við áttuðum okkur á þessum boðskap fyllilega myndum við springa af fögnuði eins og Lúther kemst að orði: „Ef ég gæti trúað þessu þá myndi hjarta mitt springa af fögnuði og ég stæði á haus af gleði.“ (SÁE: 445).

Mynd jólanna af Maríu með Guðs son í faðmi sér felur þetta í sér. Þegar við föðmum að okkur barnið, trúarlega talað, eins og María gerði í raun og veru, faðmar Guð faðir okkur að sér í alvöru, við erum hans um eilífð, ekkert getur skilið okkur frá honum.

Í þeirri trú sigrum við myrkur heimsins. Þess vegna er ekki það myrkur til, ekki í okkur sjálfum, né í heiminum, sem getur tekið Guð frá okkur, vegna þess að hann er kominn inn í mannlegt myrkur okkar, til að láta ljós sitt skína um eilífð. Við sigrum ekki í okkar mætti heldur í nafni hans. Kristur sagði: „Ég hef sigrað heiminn“. Hann segir við þig á jólum: „Ég er með þér, þú ert minn.“

Gleðstu því og fagna. Gleðileg jól!

Eftir Guðmundur Guðmundsson

Héraðsprestur í Eyjafjarðar- og Þingeyjarprófastsdæmi

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

%d bloggurum líkar þetta: