Það bar til um þessar mundir – jólaræða

olafsfjadarkirkja_inniRæðan var flutt við aftansöngur í Ólafsfjarðarkirkju fyrst og svo Glerárkirkju 2000. Það er jólaguðspjallið í Lúk. 2. 1-14 sem lagt var út frá. Sögusvið frásagnarinnar voru leidd saman er mynda þá spennu sem hún hefur að geyma, höfðingjar heimsins og barnið í jötunni, hirðarnir og himneskur söngur, leiðir okkur að raunveruleika lífsins sem bar við.

Bæn fyrir prédikun:

Eilífi, ódauðlegi, almáttugi Guð.
Þú fæddist sem mannsbarn,
yfirgafst hásæti þitt og tign
og hvílir nú í móðurfaðmi á jörðu.
Þú varðst jarðneskur eins og við,
að við gætum orðið himnesk sem þú.
Þegar auglit þitt snertir okkur
og orð þitt leysir okkur,
þá verðum við eins og þú. Amen. (Úr bænabókinni)

Gleðileg jól! – „Það bar til um þessar mundir“, þannig hefst jólasagan og þessi orð vekja hjá okkur hugrenningar, jólin öll, svo rótgróin eru þau í málinu. Orðatiltækið gefur til kynna undirtón jólasögunnar. Fjórum sinnum er sagt að eitthvað einstakt er að eiga sér stað: „Það bar til… þar, kom sá tími, … í sömu svipan… að sjá það, sem gjörst hefur“. Síðan hefur þessi atburður markað sögu okkar í tvö þúsund ár.

Okkur er sagt meira en það að sól taki að rísa hærra á lofti um þetta leiti eins og öll undanfarin ár. Okkur er fluttur það erindi frá Guði með þessari nær ævintýralegu sögu að lífið allt og „öll heimsbyggðin“ tekur nýja stefnu, frá ófriði til friðar, frá mannlegum hroka til dýrðar Guðs. Tilveran öll tekur stefnu á það hlutverk sem Guð gaf henni í upphafi sköpunar hennar með þessu atviki í Betlehem sem ekkert sýndist vera í samanburði við atburði veraldarsögunnar um þessar mundir.

Um hver jól hljóma þessi orð í eyrum okkar, áleitin og nærgöngul, en eiga við vanann að etja. Það er ekki fyrr en jólasagan snertir við æviferil okkar með einhverjum hætti að hún lýkst upp fyrir okkur, leyndardómar hennar birtast okkur, eins og gleðisöngur engla af himni. En hvaða hjálp er í þessari sögu þegar sorgin knýr dyra, þegar ástvinur hefur verið kvaddur rétt fyrir jólin og sæti autt við hátíðarborðið? Hvernig er hægt að flytja gleðilegan boðskap í sorgarhúsi eða boða frið þar sem óttinn leggur sína lamandi hönd yfir allt og alla? Það lítur ekki út fyrir að hafa orðið nein breyting eftir að „það bar til um þessar mundir“. En ef betur er að gætt er okkur boðað í myrkrinu miðju að Guð er nálægur, að Guð huggar þann sem syrgir, styrkir þann sem skjögrar, fæðir hungraða. Og boðskapurinn snýr að okkur þar sem við erum í okkar raunverulegu aðstæðum, hér og nú, ég þekki ekki þínar, en þú veist hverjar þær eru, þú þekkir einn og Guð þinn, þangað kemur nú Guð þinn og fæðist þér sem lítið barn. Hvernig getur það hjálp þér og mér?

I.

Stundum er það sagt að það megi sjá Guðs fingur í sögunni. Við ætlum helst að Guð sé að blessa okkur með velferð og framgangi. Dýpst í sál okkar viljum við helst af öllu sjá Guð leiða okkur við hönd sér eins og börn í sunnudagaskóla sem rétta upp litlar hendur sínar og syngja: „Leiddu mína litlu hendi“. Með árunum reynir á þá trú ef við glötum henni ekki með öllu. Í jólasögunni er okkur sagt að Guð leiðir veraldarsöguna.

Jólasagan með sínum ævintýralega blæ kennir okkur að lesa söguna með öðrum augum. Athygli okkar er beint frá því stóra og mikla að því smá og lítilvæga að okkur finnst. Mestu valdamenn þess tíma stóðu í því að skrásetja heimsbyggðina. Kannski er helsta hliðstæða í skrásetningu Kínverja nútildags, það er mikið manntal, en til að tryggja yfirráðin og skattheimtuna. Þetta mikla fyrirtæki á dögum Ágústus keisara á gullöld Róamveldis varð til þess að Jósef og María fóru af stað í sína afdrifaríku ferð til Betlehem.

Það er skemmtilegur samanburður í þessum vel völdu orðum. Boð kom frá keisaranum um að skrásetja alla heimsbyggðina. Við komum í einn afkyma rómverska heimsveldisins, Sýrlands. Allir eru á faraldsfæti til sinnar heimaborgar. Og þá eru tveir fátæklingar á leið til Betlehem, og athygli okkar er vakinn á þungaðri konu og manni hennar af kyni og ætt Davíðs á ferð til lítillar borgar sem var nefnd ættborg Davíðs. Þar hafði hjarðsveinninn Davíð einu sinni verið smurður til konungs yfir Ísraels, sístur bræðra sinna að mati föður síns en fremstur í augum Guðs, valinn og gerður að mesta konungi í sögu Ísraels. Sögumaðurinn er að segja okkur að meta rétt, það er barnið sem konan ber undir belti sem breytir veraldarsögunni, barnið sem hefur alla heimsbyggðina í hendi sér, barnið, sem ræður veröld allri, það gefur henni nýja stefnu, það sem við síst ætluðum. „Það bar til um þessar mundir“.

II.

Þegar þau voru í Betlehem „kom sá tími, er hún skyldi verða léttari“. Í fáeinum orðum er sagt frá fæðingu barnsins, það var frumburður. Ef til vill var engin hjá Maríu þegar hún fæddi, sjálf vefur hún barnið reifum. Engan stað annan á barnið en í jötu. Fyrsti tignarstaður Jesú-barnsins, eða hvað? Fjárhúsið blasir við okkur í huganum vegna þess að sagan hefur verið sögð þannig í jólaræðum og sálmum eða helli þar sem er nú fæðingarkirkjan í Betlehem. Kannski var þetta á torginu fyrir framan gistihúsið þar sem líklegast hefur verið jata til að fóðra skepnur.

Jólasagan gerist á tveimur sögusviðum. Þessu hversdagslega, fæðing barns. Á hverri sekúndu fæðist mannsbarn, nýt líf inn í þennan heim, eins konar stjarna sem ef til vill mun skína óvenju skært og er að minnsta kosti algjörlega ný, ný manneskja. Mörg eða flest erum við flöktandi logi sem skín um stund, stjörnur sem prýða næturhimininn en hverfa svo í húmið. Sum marka sér sögu í minningunni. Barnið sem fæddist á jólanóttinni fyrstu var ósköp venjulegt barn og aðstæður þess eins og margra mannsbarna er. Hitt sögusviðið er úti í haga þar sem hirðar gættu hjarðar sinnar þessa sömu nótt. Þar birtist okkur mikilfenglegra sögusvið við fyrstu sýn. Þar birtist engill hirðunum. Með auðugri hebreskri frásagnargleði er okkur sagt frá nærveru Guðs sem er augljós vegna þess að þegar Guð birtist í dýrð sinni vekur það ótta hjá mannlegum verum. Engillinn er sendiboði Guðs, birtir okkur Guð. Boðskapurinn er gleðilegur fyrir þessa fátæklinga í haganum. Þeim er boðað að konungur sé fæddur. Þannig var tilkynnt með svipuðum orðum frá æðstu stöðum þegar keisari fæddist en hér er það engill sem flytur gleðiboðinn um fæðingu frelsara: „Kristur Drottinn, í borg Davíðs!“ Þeir eru hvattir til að fara að leita barnsins reifað og lagt í jötu í Betlehem.

Jólasagan er að segja okkur að þessi tvö sögusvið snertast, Guð og heimur mætast, í barninu í Betlehem, svo að saga þín, þitt flöktandi ljós og stjarna, skín ekki aðeins litla stund í veröldinni. Hvert vesælt barn í fátækt, þrælabörnin öll, lífið, sem ekkert virðist vera, er dýrmætt í augum Guðs. Það óttalegasta sem orðið getur er að vera skilinn eftir einn, gleymast, en Guð gleymir engum. Og það er köllun hvers kristins manns að vera fyrir aðra, vera þessi saga, sem segir við meðbræður og systur, þú ert dýrmæt.

Óttist ekki segir Guð við okkur þegar við stöndum frammi fyrir himnesku sögusviði lífsins. Það blasir hér við okkur. Okkur er sagt að það sé til. Það er ekki aðeins fæðing, líf og dauði. Lífið fær hér æðra mið með komu frelsarans, viðmið, sem er frá æðstu stöðum. Og þau eru bundin við þetta litla barn sem fæddist í Betlehem. Getur verið að það sigrist á grundvallarótta okkar, sem er í sjálfum sér ekki að hverfa af hinu raunverulega sögusviði, heldur hitt að týnast, verða ekkert, merkigalaust skot út í myrkrið, án upphafs og án markmiðs?

III.

„Í sömu svipan“ urður hirðarnir vitni að nýjung í hæstu hæðum. Leyndardómur sem verið hafði hulinn frá örofi alda birtist nú og var boðaður af englunum sem lofuðu Guð og sögðu: „Dýrð sé Guði í upphæðum, og friður á jörðu með mönnum, sem hann hefur velþóknun á.“

Við sjáum í einni sjónhending inn í himininn, Guð gengur fram og tilkynnir ráðstöfun sína, ráð til hjálpar mönnum, að senda son sinn til jarðar. Og englar himinsins fagna yfir því, þeir sjá dýrð Guðs í því sem Guð framkvæmir, og fagna yfir því sem gerist á jörðu, að þar gefst mönnum friður og sátt við Guð og manna á milli fyrir boðskap mannsbarnsins sem fæddist á jólum. Það er upphaf dýrðarsöngsins og lofgjörðar jólasálmanna.

Við leyfum okkur líklega fæst að hugsa á þessum nótum að eitthvað þvílíkt geti átt sér stað á himnum, eitthvað það, sem hefur grundvallarbreytingar í för með sér á stöðu okkar í tilverunni, áður en við vissum nokkuð um það, er það opinberað og tilkynnt á himni fyrir englum. En gefum okkur það að hér sé meira en ævintýraleg frásaga af englum, að hér opnist okkur leyndardómur um Guð, að hann sendi son sinn, sem fæðist sem barn í fátækt. Ef það hefur þessa þýðingu á himni þá ætti það ekki að vera síður á jörðu.

IV.

Sögusvið jólasögunnar mætast í síðast hluta hennar. Hirðarnir fara til að sjá „það, sem gjörst hefur“ og „Drottinn hafði kunngert þeim“. Þessi síðasti hluti jólasögunnar kemur þér eflaust á óvart. Guð sagði hirðunum ekki að stara til himins og virða fyrir sér dýrð himnanna heldur vísar þeim út á torg í Betlehem að leita að barni sem hafði verið lagt í jötu. Allt í einu verður þessi himneska saga um engla raunveruleikinn sjálfur í nokkuð kaldranalegri mynd og þar er ungbarn, konungur konunganna. Það eru hirðar sem flytja þann boðskap Jósef og Maríu vegna þess að þeir finna barnið þeirra í jötu í Betlehem.

Það er í þessu barni sem við finnum Guð. Við getum farið til Betlehem í huganum eins og við höfum gert með því að íhuga jólasöguna en við finnum aðeins tóma jötu eins og á páskum finnum við aðeins tóma gröf. En Jesú kemur til okkar upprisinn, með sigur yfir dauða og ljós í myrkri, sem skín inn í myrkustu skot tilveru okkar. Þannig kemur hann til þín í dag í þurfandi barni, á hátíð barnanna.

Öldungur kom með Biblíu í sorgarhús rétt fyrir jól, hafði skrifað fremst í hana: „Ljósið skín í myrkrinu. Jesús lifir og sigrar.“ Mér lærðist af þessu að í grunni tilveru okkar er faðmur, ást, en ekki innantóm, þegar ég horfðist í augu við lífið eins og það er. Og hann kom, það breytti öllu. Og þú ferð héðan ef þú hefur opnað þig fyrir himninum til þess að opna þig, faðma að þér börnin þín, dýrmætustu gjöf lífsins, ástvini þína, ljósin þín, skoða og horfa, gleðjast eins og barn yfir jólaljósunum sem minna okkur á himneska ljósið að ofan. Það er í þessum nánustu tengslum sem við finnum Guð, í ástinni og kærleikanum, sem faðmar að sér. Það er jólaboðskapurinn sem er ofar þessari veröld okkar og stendur stöðugur eins og himininn.

Dýrð sé Guði föður og syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi, er og verður um aldir alda. Amen.

Published
Categorized as Ræður

Eftir Guðmundur Guðmundsson

Héraðsprestur í Eyjafjarðar- og Þingeyjarprófastsdæmi

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

%d bloggurum líkar þetta: