Skínandi andlit

IMG_4645Ræða flutt í Ólafsfjarðarkirkju á síðasta sunnudegi eftir þrettánda 2. ferbrúar 2020. Textinn var ummyndunin á fjallinu, uppáhaldstexti í uppáhaldsguðspjalli, Mt. 17.1-9. Efnið: En ég tel að ef við göngum út frá skynseminni einni þá skynjum við aðeins tilveru okkar að hluta. Við skynjum hana í raun bæði með huga og hjarta. Í daglegri bæn og iðju fær líf okkar nýju vídd, himneska, vitund um það að Guð er með okkur í dagsins önn. Þó fjarlægur sé, er hann nálægur, eins og fjöllin.

Náð sé með ykkur og friður frá Guði föður og Drottni Jesú Kristi.

1.

Vinur minn sagði mér frá merkilegri reynslu sem hann ásamt félögum sínum öðlaðist á fjalli. Þau voru í fjallgöngu og lentu í þoku en sólin braust í gegn. Þá blasti við þeim ljósundur þar sem myndaðist regnbogahringur fyrir framan þau og skuggamyndir af þeim sjálfum í skýinu sem þau gengu á móti. Þau urðu öll agndofa af undrun og áttu þessa reynslu sameiginlega.
    Sjálfur á ég margháttaða reynslu á fjöllum. Við hjónin gerðum námsferð að margra mánaðar brúðkaupsferð, þáttur í henni var hálfs mánaðar ganga um Jötunheima í Noregi. Aldrei höfum við verið eins vel á okkur komin eins og eftir þá ferð. Einn daginn gengum við upp á Fannarokinn en þar uppi er veðurathugunarstöð sem stendur hvað hæst. Frændur okkar gerðu mikið úr því eins og í Jötunheimum gengum við yfir stærsta jökul í Evrópu. Það brast á stormur á leiðinni upp fjallið. Og hann ágerðist þegar hærra dró. Ég var farinn að litast um eftir stað að tjalda á því heimilið okkar bárum við á bakinu eins og snigillinn. En það var bara bert grjótið að sjá í gegnum slagviðrisrigninguna. Áfram héldum við, hæð eftir hæð. Ég var orðinn óttasleginn yfir því að hafa lagt á fjallið með elskuna mína, í brjósti mér var bæn um hjálp. Öðru hvoru sýndist mér kofi birtast í kófinu en margoft var það blekking. En loks náðum við toppnum og veðurathugunarstöðin birtist og sæluhúsið. Mikið var okkur fagnað og ilmurinn af kjötkássunni var dásamlegur.
    Í guðspjallinu er talað um fjall, hátt fjall, sem Jesús og lærisveinarnir Pétur, Jabob og Jóhannes fara upp á. Fjöll og trúarbrögð eiga saman. Futji í Japan er tákn þjóðtrúarinnar þar. Kiliminjaro á landamærum Tansaníu og Kenýa er bústaður guðanna og dæmigert fyrir afríkanska andatrú. Þannig mætti lengi telja. Snæfellsnesjökull okkar á sínar öflugu töfra eins og allir vita. Fjöll og trú eiga saman. Það er ekki aðeins frumstætt heldur frumlægt í trúarbrögðum.
    Fjöll og Guð eiga það sameiginlegt að vera nálæg í fjarlægð sinni. Það held ég að sé leyndardómur fjallanna sem töfrar bæði trúmenn og fjallgöngumenn.
    Það er engin tilviljun að við höfum fjallræðuna í Matteusar guðspjalli. Matteus gerir mikið úr því að Jesús var til fjalla, freistingarfrásagan, fjallræðan, brauðundrið, ummyndunin eiga sér stað á fjöllunum. Matteus sér Jesú fyrir sér sem nýjan Móse sem skín af návist Guðs þegar hann kom ofan af Sínaí fjallinu eins skein ásjóna Jesú eins og sól á fjallinu. Síðasta ferð Jesú var heitið „upp til Jerúsalem“ sem er reist á hæð. Í dag er þar deigla trúarbragða sem kraumar nokkuð í. Fyrir utan borgina á hæð sem kallast Golgata, hausaskeljahæð, þar var hann krossfestur. Þegar hann var upprisinn stefndi Jesú lærisveinum sínum til Galíleu, „til fjallsins“. Þar segir hann það berum orðum sem skiptir okkur öllu máli eins og leyndardómur fjallanna tjá óljóst, nálægð í fjarlægð sinni: „Ég er með ykkur alla daga allt til enda veraldar“. Jesús einn er geisli sólarinnar sem til okkar skín frá sólinni eilífu, upplýsir okkur um Guð. Það er merking þessarar fornu frásögu um ummyndunina á fjallinu sem við grípum aðeins í bæn.

2.

Auðvitað má skýra ljósundrið sem vinur minn reyndi á fjallinu á skynsamlegan hátt. Það gat vinur minn gert og taldi að álfasögur gætu átt uppruna sinn af sýn af þessu tagi. Skynsemin sneiðir okkur tilfinningunni af veruleikanum í heild, hún er í eðli sínu takmarkandi. Ef við göngum aðeins út frá skynseminni missum við af merkingu tilverunnar. Því hefur verið haldið fram að heili okkar sé svo flókið fyrirbæri að það skýri tilfinningasemi okkar en í raun erum við bara efni og rafboð, þannig er ályktað að alheimurinn er merkingalaus. Það vill svo undarlega til að við höfum bara vitund um veruleikann vegna stóra heilans. En ég tel að ef við göngum út frá skynseminni einni þá skynjum við aðeins tilveru okkar að hluta. Við skynjum hana í raun bæði með huga og hjarta. 

Í daglegri bæn og iðju fær líf okkar nýju vídd, himneska, vitund um það að Guð er með okkur í dagsins önn. Þó fjarlægur sé, er hann nálægur, eins og fjöllin.

Kristin trú hafnar engan veginn skynseminni heldur gerir kröfu um að við notum hana til að ná tökum á tilveru okkar. Öll þekking sem leiðir til góðs er af Guði gefin. En ætli við verðum ekki líka að hugsa sem svo að öll þekking sem misnotuð er sé líka guðleg en við mannkynið verðum líklega að taka ábyrgð á misnotkun hennar, því verður ekki klínt á Guð, þó að mannvonska vilji gjarnan afsaka sig með því. Fannarokinn er mikið fjall sem ég vildi gjarnan sigra, kannski af sýndarmennsku gagnvart minni ágætu konu. En ef við hefðum ekki komist á leiðarenda hefði ég borið ábyrgðina. Er ekki svo? Ég hefði svo sem getað öskrað á storminn í örvinglan minni en það hefði ekki breytt neinu.
    Trúarbrögðin, menningin og sagan hafa að geyma reynslu kynslóðanna, visku, sem við höfum lært af forfeðrum og mæðrum. Það má kannski segja að spekin sé í merg og beinum okkar, ja, þeirra sem eru ekki heimskir. Þau eru heimsk sem hafa ekki lært að fylgja speki kynslóðanna. Því miður hefur vísindaleg þekking sem beitir aðeins skynseminni skorið í burtu viskuna að ýmsu leyti sem fólgin er í fornum sögnum eins og þessari um ummyndunina á fjallinu. Skynsemin segir að slíkt getur ekki átt sér stað og afskrifar svona hindurvitni eins hverja aðra álfasögu.

Hver er merking frásögunnar af ummynduninni á fjallinu? Ég tel það hjálplegt að skoða hana sem bókmenntir meira en lýsingu á fjallgöngu. Það er verið að segja miklu meira en að Jesús hafi valið þrjá lærisveina sína til að fara með sér í fjallgöngu á eitthvert þekkt fjall í Ísrael. Jesús vildi hafa lærisveina sína með sér þegar hann var að glíma við Guð og menn í bæn sinni þegar stórkostleg verkefni voru framundan. Áður en að þessu kom hafði Jesús sagt við lærsveina sína að hann ætti að fara til Jerúsalem að líða og vera líflátinn en rísa upp á þriðja degi.
    Fyrst ummyndast Jesús í sína himnesku mynd og er á tali við Móses og Elía. Hann skín sem sólin og klæði hans eru björt sem ljós með þessum helstu persónum Gamla testamentisins. Þeir eiga tal saman sem lærisveinarnir verða vitni að. Móses kom með boðorðin tíu ofan af fjallinu á sínum tíma og Elía spámaður tókst á við spámenn hjáguðsins Baal á Karmel fjalli. Lærisveinar tóku þátt í bænalífi Jesú og áttuðu sig á því mikla uppgjöri sem var að eiga sér stað, þó síðar væri, eftir að Jesús var upprisinn. Algjörlega nýir hlutir voru að gerast með komu Jesú. Hann var uppfylling lögmálsins og spámannanna. Það þýddi að hann kom í stað þess sem áður var ekki til að eyða því heldur uppfylla.

Pétur vildi gera þeim hverju og einum tjald þarna á fjallinu. Líklega hefur honum þótt gott að vera þarna á þröskuldi himnaríkis með aðalpersónum hjálpræðissögunnar. Það verður að lesa Biblíuna eins og meistaraverki í bókmenntum, frásagnagleðin er slík, um leið og verið er að segja merkilega hluti, sem skipta máli.
    Þá skyggir yfir ský. Kannski upplifðu þeir ógnina við nálægð Guðs sem er ekki ólíklegt. Við mannfólkið fáum gjarnan þá tilfinningu gagnvart Guði, annars vegar heilluð af undrum hans og hins vegar yfirþyrmandi ótti við vald hans og tign. Þannig er þessi frásaga lýsing á bænalífi Drottins og lærisveinanna. Guð er ekki sléttur og felldur að okkar hugmyndum um góðvild né heldur er hann upphafsstærð í skynsamlegri rökleiðslu, eitthvað óþekkt X, sem við af forvitni okkar þurfum að ráða í. Guð er Guð, skapari og endurlausnari.
    Guðsopinberunin er að Guð beinir athygli okkar að Jesú einum. Hann er verður tilbeiðslu okkar. Við eigum að hlýða á hann, hlusta á hann.

Bænin er þetta nána samfélag við Guð sem Jesús kenndi okkur í Fjallræðunni. Við megum og eigum að ákalla Guð í neyð okkar: Faðir vor. Í freistingafrásögunni sýnir Jesús okkur fordæmi við eigum að tilbiðja og þjóna Drottni einum. Og í Fjallræðunni kennir hann okkur að við eigum að treysta forsjón Guðs, enn frekar en hann annast fugla himins og liljur vallarins, vill hann okkur allt það besta. Ummyndunin dregur svo upp mynd af þessu nána bænasamfélagi þegar Drottinn gekk til þeirra úr skýinu, snart þá og sagði: „Rísið upp og óttist ekki“. En er þeir hófu upp augu sín í bæn getum við bætt við, sáu þeir engan nema Jesú einan.
    Það er ein altaristafla á Íslandi sem kemur í huga minn þegar ég les þessi orð. Það er freskan í Hallgrímskirkju á Hvalfjarðarströnd. Hún sýnir mynd af Jesú þar sem hann stendur á kletti. Þegar betur er að gáð er hann ljós sem lýsir upp alla myndina í miðju hennar. Út í einu horni situr Hallgrímur undir steini og hlustar og ljósgeislinn nær fram í pennaoddinn sem hann skrifar með. Höfum það í huga núna þegar lestur Passíusálmanna hefst næstkomandi sunnudag. Fyrir framan Jesú krjúpa tvær dökkar verur eins og lærisveinarnir í ummyndunarfrásögunni köstuðu sér til jarðar, huldu ásjónur sínar af ótta. Jesús réttir fram hendur sínar. Og þessar sömu mannverur rísa upp í ljósi hans. Þær horfast í augu við Jesú einan.

Þegar við biðjum yfir þessum orðum tengjumst við Guði eins og lærisveinarnir gerðu á fjallinu eða fjöllunum. Merking frásögunnar verður ljós þegar við þorum að biðja með þeim. Þá reynum við að Drottinn kemur enn til okkar úr skýinu, himininn verður allt í einu nálægur, eins og fjöllin eru nálægð í fjarlægð sinni, hann snertir okkur og segir: „Rísið upp og óttist ekki, vegna þess að ég er með ykkur, hjá ykkur, alltaf.“ Það er fagnaðarefni.

3.

Hvernig tileinkum við okkur þessi orð? Það er í bæn að við tökum þau til okkar, biðjum góðan Guð að líta til okkar í velþóknun sinni, taka í hönd okkar og leiða okkur áfram vegin, fyrirgefa okkur þegar okkur hefur orðið á, hjálpa okkur að fylgja honum í orðum og breytni, forða okkur frá því að ætla að réttlæta okkur sjálf fyrir Guði og mönnum. Allt þetta biðjum við um í Jesú nafni. Við treystum á hann en ekki að við séum verðug þess að Guð hlusti á okkur. Í daglegri bæn og iðju fær líf okkar nýju vídd, himneska, vitund um það að Guð er með okkur í dagsins önn. Þá verður sýn lærisveinanna okkar. Við sjáum Jesú einan fyrir augum okkar.

4.

      Á síðasta misseri samdi ég þennan sálm sem er í þessum sama bænaranda og ræða mín í dag:

Guð faðir lof og þökk sé þér
sem þínar gjafir veitir mér.
Það allt sem þarf ég þigg ég frá
þér, þinnar náðar njóta má.
Þú lætur himna ljóstið þitt
svo lýsa yfir húsið mitt
að unum við glaðvær öll við sitt.

En þegar skýin skyggja á
það skin sem bjart þér stafar frá,
þá bið ég soninn þinn með þrá
mig þvílíku´myrkri frelsi frá.
Ég ástúð sé í augum hans
sem alla þjáning syndarans
bar ljúfur á krossi’ í líking manns.

Með börnum þínum biðja vil
að betur leyndardóminn skil,
að þjáning Drottins vísar veg
til visku ljós að sjái ég.
Það ljós Guðs anda ljáðu mér
að lifi ég þér eins og ber
og andlit mitt skíni skært af þér.


    Dýrð sé Guði föður og syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi, er og verður um aldir alda. Amen.

Eftir Guðmundur Guðmundsson

Héraðsprestur í Eyjafjarðar- og Þingeyjarprófastsdæmi

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

%d bloggurum líkar þetta: