Góði Guð, nú er ég týndur í hugsunum mínum.
Hvernig getur hugmynd mín um þig orðið þú?
Ég vil tilbiðja þig einan
en ég hef aðeins hugsun mína um þig.
Hvernig er komið fyrir mér
ef fell ég fram og tilbið eigin hugmynd?
Get ég látið hugsun mína fara út í veður og vind
en samt ert þú eftir hjá mér?
Guð, þú segist vera
og ég er verðandi,
skuggi af þér,
skapaður í þinni mynd.
Orðin mín um þig
eru aðeins tákn um raunveruleika þinn.
Orðin þín um sjálfan þig,
þú sjálfur Kristur,
ert mér allt,
sú hugmynd, hugsun, tákn,
vísar mér út fyrir hugsun mína
og til þín.
Ég er þinn og þú ert Guð minn,
segir þú, því treysti ég.
Þess vegna tilbið ég þig
skapara himins og jarðar,
en ekki hugsun mína um þig,
því að þú ert.
Þú hefur skapað hugsun mína
án þess að vera hún,
þú hefur gefið mér Jónasartáknið,
til þess að ég mætti sjá þig
eins og þú í rauninni ert.
Hugmyndir eru skrýtin fyrirbæri,
endurómur af hugsun þinni,
án þess að vera þú.
Þær eru skemmtilegar
– ég botna svo lítið í þér,
alvitri Guð. Amen.