Ræða á konudegi: Lífsferill – ævisaga

Teikning af rósum, tákn kærleikans
Teikning af rósum, tákn kærleikans
Rósir hafa alltaf heillað mig, blýhantsteikning

Ræða á sd. í föstuinngangi fyrst flutt í Grundarkirkju í Eyjafjarðarsveit 2011 og ári síðar í Tjarnarkirkju í Svarfaðardal 19. febrúar 2012 nokkuð breytt. Lagt út frá B-textaröð, Lk. 18. 31-34:

“Jesús tók þá tólf til sín og sagði við þá: „Nú förum við upp til Jerúsalem og mun allt það koma fram sem spámennirnir hafa skrifað um Mannssoninn. Hann verður framseldur heiðingjum. Þeir munu hæða hann, misþyrma honum og hrækja á hann. Þeir munu húðstrýkja hann og lífláta en á þriðja degi mun hann upp rísa.“ En þeir skildu ekkert af þessu, orð þessi voru þeim hulin og þeir skynjuðu ekki það sem sagt var.”

Náð sé með yður og friður frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Kristi.

Prédikun á konudegi. Ætti ég að flytja Minni kvenna? Það er eintóm ánægja að mæra konur. Öll eigum við konum líf okkar að þakka. Uppeldið eflaust mörg hver að miklu leyti. Ástúð og innileiki sem maður hefur notið er að rúmum helmingi sprottinn frá konum. Það eru engar ýkjur.

Ég í faðmi móður minnar sumarið 1957
Ég í faðmi móður minnar sumarið 1957

Ég lagði ekki í það að gera eins og einn kollegi minn, kvenprestur, gerði á konudaginn. Hún færði öllum konunum í messunni rós. Ef til vill hefðu karlarnir í kirkjunni ekki verið neitt ánægðir með það að ég færi að afhenda konunum þeirra rósir. Enda á ég fullt í fangi með að gera konu mína ánægða. Ég er sammála Leo Tolstoy og Kristi um það að ein kona er fullkomlega nægilegt verkefni fyrir einn karl. Guð skapaði okkur karl og konu, til að eiga þetta nána samneyti, tvær persónur, sem fléttast saman með árunum, verða einn maður, ef gæfan fylgir manni þá dýpkar sambandið, innileikinn og næmnin vex og svo allt hitt. Mikið skelfing hlýtur Guð að hafa skemmt sér við sköpunarverkið eins og við eigum að gera.

Jæja, ekki meira um það í bili. Textar þessa sunnudags, sem er sunnudagur í föstuinngangi, eru ekki valdir með tilliti til konudagsins. Þetta er alveg skelfilegur dissónans, mishljómur að takast á við þá á þessum degi. Upphaf píslargöngunnar og konudagurinn! Reyndar skrifaði ég einhverju sinni vísu þar sem ég var að hugleiða afleiðingar jafnréttisbaráttunnar og örlög manns að stand við uppvaskið, en maður féll fyrir konu, sem reyndist vera kvenréttindakona. Æ, já, og sumir karlar komast upp með það að geyma konuna sína á bakvið eldavélina.

Jæja, kannski ég ætti að fara snúa mér að guðfræðinni.

Ein erfiðasta guðfræðilega spurning sem ég hef fengist við síðastliðið ár kom til mín í fermingartíma hér í sveitinni.  Ég skipti fermingarhópnum í fyrra í stúlkur og drengi. Dálítið forneskjulegt fyrirkomuleg en reyndist ágætlega. Kona var að þrífa stofuna í eitt skiptið í því að við vorum að byrja tímann. Þá spurði ein stúlkan: Hvers vegna var Jesús ekki kona? Ræstitæknirinn leit til mín þar sem ég stóð í ráðaleysi mínu og sagði með glotti sýndist mér: “Gangi þér vel”. Og lokaði dyrunum. Þar stóð ég með ráðgátu sem ég hafði ekki hugmynd um hvernig ég ætti að svara.

Í hugann flaug það sem sumum finnst að Jesús var enginn almennilegur karlmaður, en ég sagði það ekki þá. Benti bara á kvenlegar og karlmannlegar hliðar, að guði er líkt við móður, að Jesús gaf okkur forsendur fyrir jafnréttisbaráttu, jafnri stöðu allra. Eitthvað komum við inn á það að langt er í land varðandi jöfn laun fyrir sömu vinnu en ég hvatti þær fyrir áhrif konu minnar til að berjast fyrir jafnrétti og að Jesús og Guð vilji það, eins og kemur fram í orðinu.

Hið kvenlega í Guði? Dugar það. Af orðum Jesú að dæma er Guð ofar eða handan við kyn, enda er hann skaparinn. En kynlaus Guð virðist manni lítið áhugverður, vegna þess að við hugsum í kynjum. En kannski þurfum við að brjótast út úr þeim ramma. Okkar vandi er ef ég skil rétt að innileikinn fylgir svo mjög kyni í staðalmyndum okkar af fólki að kynlaus Guð hefur tilhneigingu í huga okkar að verða hátt upp hafinn, fjarlægur, kaldur, ískaldur, ef ekki rétt steindauður.  Við föllum svo auðveldlega í villu og hjáguðadýrkun nútímans þar sem regluverkið verður alsráðandi, skipan og skikkan, það sem skiptir öllu máli. (Staður konunnar er á bakvið eldavélina). Það eru til margar skrípamyndir af kristinni trú í þessum anda. Jesús kennir okkur allt annað. Hann dregur fram hlýleikann, lífið, ólguna, innileikann. Hann kennir okkur að þekkja persónulegan Guð, sem lætur sért annt um manninn. Hvort er það karllegt eða kvenlegt? Ég er hreint ekki viss. Er spurningin ekki frekar hvort er mannlegt og hvort andstætt mannlegu lífi? Hvort er gott og hvort er illt?

Guð er hlýleikinn í tilverunni, það sem gefur lífi okkar merkingu, þ. e. náin persónuleg tengsl. Guðleg vídd tilverunnar hefur með persónu að gera. Ég hef hugsað sem svo að við höfum fjórar víddir, breidd, hæð og dýpt, og svo höfum við tímann sem fjórðu víddina. En fimmta víddin er persóna og þar er Guð sem persónan sem gerir okkur að persónum með sér, í sambandi við sig, í ég – þú samband við nálægan Guð.

Það er til bréf eftir Martein Lúther sem hann skrifar rakaranum sínum. Hann hét Pétur og bað Lúther að leiðbeina sér um bæn. Ég hef verið að skoða þetta bréf síðustu vikurnar. Þar sjáum við inn í hjarta biðjandi manns. Lúther leggur áhersla á að Jesús kenndi okkur orð og aðferð við að biðja og vísar þá í Faðir vorið. Við gleymum svo fljótt þessu ávarpi Faðir sem vísar í náið samband við Guð. Föður eða móður samband, innileika, sem var óþekktur, en Jesús gefur okkur að eiga samband við Guð með sér. Og Lúther gerir þetta að meginatriði í leiðbeiningum sínum um bænina.

Þegar við sláumst í för með Jesú kennir hann okkur þetta. Það er afar persónulegt að lifa með honum, mín saga – hans saga, minn lífsferill – hans lífsferill, verður ein samofin heild. Guð lætur sér annt um, tekur þátt í mannlegu lífi. Hann gengur gegn ópersónulegu kerfi, kuldalegum reglum sem okkur er talið trú um að við verðum að fylgja. Mannfélaginu hættir til að verða samansvarið félag þeirra sem þykjast hafa valdið í sínum höndum og þeir vilja engu sleppa. Afleiðingin verður kúgun frekar en að þeir vilji sleppa og leyfa lífinu að þroskast og dafna.

Jesús leggur upp ný gildi með lífsferli sínum sem endar með ósköpum að því er virðist. Það gæti verið vissara að forða sér eins langt og maður kemst ef maður heyrir í honum því að ef maður tekur hann á orðinu fer líklega fyrir manni eins og honum. Kaldur sá sem sagði krossferli að fylgja þínum, en það var enginn byltingaleiðtogi heldur Hallgrímur Pétursson. Stundum er sagt að konur hafa annað sjónarmið á þjáningunni en karlar vegna þess að þær ganga í gegnum það að fæða börn inn í þennan heim. Þær eru eins og Guð að fæða af sér nýtt líf. Uppeldi barna fylgir oft sársauki, líftaugin milli foreldra og barna er sterk og oft átakanleg, lífsferill okkar mótast af börnunum okkar. Er það ekki?

Kærleikurinn er hvorki kvenlegur né karllægur hann er í samskiptum. Og þannig er samband Guðs við mannkynið, hann elskar mennina, hvern einstakling. Kærleiki hans gerir okkur að persónum með vægi og gildi, vegna þess að við erum börnin hans. Ein af þeim stóru hugsunum um Guð sem við höfum í Biblíunni er að Guð er að fæða nýjan heim. Við erum ekki einhverjar „ekki-persónur“ (l. non-persona), heldur manneskjur, persónur, börn Guðs.

Allt eru þetta samskiptaorð. Kærleikurinn á að móta samskipti okkar á milli. Nánasta samband milli karls og konu, byggir á þessum kærleika, virðingu, sannleika, trausti og heiðarleika. Þannig verðum við meiri manneskjur. Og Jesús fer fram á að þannig séum við, ekki reynum að vera, heldur séum, tölum og breytum í samræmi við það, þó að það leiði okkur út í eigin píslagöngu.

Því hefur verið haldið fram að þessi undirlægjuháttur, þjónustulund, kvenlega auðmýkt, sé aumingjaskapur, en því er þveröfugt farið, það er í þessu að lífsferill okkar fullkomnast, við náum að verða það sem við eigum að vera, manneskjur sem elska, eins og Guð elskar okkur.

Verum þess vegna góð hvert við annað. Og að lokum þessi hvatning frá Páli postula, karlar þið eigið að elska konur ykkar eins og Kristur elskaði söfnuðinn, fórna lífi ykkar fyrir þær. Eru það ekki ágætis lokaorð í Minni kvenna á konudaginn á sunnudegi í föstuinngangi.

Dýrð sé Guð föður og syni og heilögum anda.

Sálmar við guðsþjónustuna: Inngöngusálmur – 286: Kirkjan er oss kristnum móðir. Lofgjörðarvers – 131: Krossferli að fylgja þínum. Guðspjallssálmur 122: Það er svo oft? Kórvers – Fósturlandsins Freyja. Tónlist eftir prédikun – kórlag. Lokasálmur 367: Eigi stjörnum ofar.

Eftir Guðmundur Guðmundsson

Héraðsprestur í Eyjafjarðar- og Þingeyjarprófastsdæmi

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

%d bloggurum líkar þetta: