Sálmurinn eða andlega vísan er hugleiðing um daggardropa sem fellur á að morgni og lífið endurspeglað í þeirri mögnuðu mynd en óverulegu. Lífið með Guði er undrun og þakklæti sem ég tjáði með þessum vísuorðum. Fyrirmynd textans er eftir Oddmund Haugen við lag Gunstein Draugedal. Laufey G. Geirlaugsdóttir syngur lagið í geisladiskinum Lofsöngur til þín, sem kom út 2005.

Daggardropinn
Ég er aðeins dropi sem drýpur á lauf,
er döggin um nótt fellur á.
Ég lifi einn morgunn í lítilli rauf,
svo líð ég að brún og fell frá.
Þú skapar mig til þess að skína um stund,
er skuggarnir hörfa á braut,
og sólin í dögginni glampar um grund,
þá gleðst ég við þitt náðarskaut.
Þú ert mér svo góður og Guð minn ég veit
að gjafirnar koma frá þér.
Allt skín, síðan heimurinn lausnarann leit,
hann lífgjafinn eilífi er.
Ég er aðeins dropi, sem fellur í fold,
en fagnandi þakka ég þér
og fel mig í hendur, sem mótuðu í mold,
þá mannsmynd, sem alltaf ég ber.
Guðm. G.
Guðmundur @ 12.07 3/8/06