Sumir vita að ég held mikið upp á málverkið Undur fæðingarinnar eftir Boticelli frá um 1500. Ég hef verið að vinna að seríu út frá Davíðssálmum með smá snúningi eða uppfærslu. Fyrsta myndin, út frá Davíðssálmi 103, er með dansandi englum Boticelli á himnum en þeir eru af öllum kynþáttum og þjóðum hjá mér. Við lifum tíma heimskristni annað en á tímum Boticelli. Boðskapurinn er gleðilegur svo að englarnir stíga fjörugan hringdans. (Á eftir að mála vængina). Á þaki fjárhússins eða hellisins situr heilög þrenning, minni frá íkon Rublev. Þríeinn Guð á erindi við mannkynið allt. Þá er í forgrunni kvenprestur sem lofar Drottin með upplyftum höndum. Öll erum við fullgild sem börn Guðs. Yfirskriftin á grísku hjá Boticelli verður hjá mér á íslensku: Dýrð sé Guði í upphæðum og friður á jörðu og velþóknun yfir mönnum. Gleðiboðskapurinn er hvíslaður í eyra af englum á jörðinni. Það er vitnisburðurinn sem á við alla hér og nú: Ég boða ykkur mikil gleðitíðindi. Ykkur er frelsari fæddur! Sjón er sögu ríkari.
