Kross og ást á guðlausum tímum

akk_5jesuskirdurMessa í Akureyrarkirkju á sunnudegi í föstuinngangi 2016. Guðspjall var um skírn Jesú í Jórdan, Mt. 3.13-17. Kór Akureyrakirkju söng nýja sálma úr bókinni Sálmar 2013 eftir Aðalstein Ásberg Sigurðsson og sr. Sigurð Pálsson. Sálmana valdi ég í anda tímans og kirkjuársins. Við lifum á þeim tímum eins og Davíðssálmarnir tjá sig um svo það er ekkert nýtt: „Heimskinginn segir: Enginn Guð!“ Sálmavalið lét ég endurspegla þær tilfinningar sem við tjáum í bænalífi okkar. Lofgjörð Sb. 22 eftir Sigurbjörn Einarsson, speki og íhugun orðsins Sb. 251 eftir Valdimar Briem, angurljóð og trúnaðartraust Sb. 905 eftir Aðalstein og angur og bæn Sb. 924 eftir Sigurð, svo fyrirbænasálm Sb. 509 eftir Matthías Jochumsson sem var sunginn milli beiðnanna og svo trúarjátningarsálm Hallgríms Pétussonar Sb. 131: Krossferli að fylgja þínum. Kórinn flutti svo sálminn við orgelleik Eyþórs Ingi Jónssonar magnað útgönguspil sem fylgdi kirkjugestum inn í föstuna.

Ræða: Kross og ást á guðlausum tímum

Náð sé með ykkur og friður frá Guði föður okkar og Drottni Jesú Kristi.

1. Inngangur

akk_5jesuskirdurGuðspjall dagsins er hér í fimmta kórglugganum í kirkjunni. Það er af skírn Jesú í ánni Jordan. Jóhannesi skírara fannst það ekki rétt að Jesús tæki iðrunarskírn en fyrir þrábeiðni Jesú skírði Jóhannes hann til að fullnægja öllu réttlæti. Þar með hófst píslarganga Krists og við fylgjum honum nú á sunnudegi í föstuinngangi.

Hvað þýðir það að Jesús skírðist iðrunarskírn? Það merkir að hann tekur sér stöðu með mönnum, tók á sig manns mynd, varð einn af okkur, til að bindast mannkyni öllu á öllum tímum. Guð er með börnum sínum alltaf, stöðugt, til eilífðar.

Skiptir það einhverju máli? Heimurinn er hvort eð er einhvern veginn á skjön og skakk við það sem við teljum gott og rétt. Ef maður leyfir sér að vera raunsær þá virðist það ekki breyta miklu að reikna með Guði í þessari heimsmynd okkar. Og guðleysingjarnir hafa hátt um það að guðstrúin rugli fólk í ríminu: Enginn Guð segja þeir og þeim farnast bara vel. Vísindatrúin heldur því fram að heimurinn sé að þenjast út eftir frumsprengjuna sem varð í tóminu dimma og djúpa. Hvar er þá Guð?

Þegar ég horfi á þessa helgimynd spyr ég mig: Hversu lengi ætlar þú Guð að vera í felum? Hvers vegna hylur þú andlit þitt, þó að prestarnir blessa okkur seint og snemma, biðja og boða að ásjóna Guðs lýsi yfir okkur?

1. Ljósið að ofan

Það er sunnudagur í föstuinngangi og sagan hefst með skírn Jesú í Jórdan.

Ég hef setið hér í kirkjunni  í daufri birtu af steindu gluggunum og hugleitt þýðingu þeirra. Ég held að andinn hafi snert við mér eða var það engill? Getur saga af manni breytt gangi tilverunnar? Einn af okkur. Þvílík hetja hlýtur hann þá að vera. Samt er honum lýst sem þjáningarinnar manni. Menn huldu ásjónu sína vegna þess að hann var slíkur harmkvæla maður. Helgimyndin þessi ber það ekki með sér og þó en síðustu gluggarnir í kirkjuskipinu hér sunnan megin bera þess vitni. Maður þjáningarinnar! Sorg og harmur, krossdauði og myrkur.

Á föstu er gott að íhuga krossferil Krists en við mér blasti önnur mynd og ljúfari þegar ég í rökkrinu virti helgimyndina fyrir mér:

Hlið himinsins opnast hérna
í heilögum kirkjukór
þar ljósið að ofan litar glugga,
ég sé inn í himinn háan
á helgri bænastund,
Guð snertir mig, barnið sitt að hugga.

Guð nálægur er sem forðum
er Frelsarinn skírður var
sem faðir og sonur og friðar andi.
Hans blessaða auglit lýsir,
hann lyftir oss upp til sín
í skaut sitt úr dauðans skugga landi.

Guðm. G.

Getur verið að Hallgrímur Pétursson hafði rétt fyrir sér þegar hann sá í gegnum sár Jesú himininn opinn? Getur verið að sýn mín standist síðan ég sat hér í kvöldrökkrinu? Getur verið að rök þeirra sem eru á móti kristinni trú séu ekki eins haldgóð og þeir vilja vera láta?

2. Valdið og vísindin

Í dag er búið að snúa öllu við. Við menn stöndum með sigurpálmann í höndunum. Dýrðin er fólksins! Fyrst voru einveldis konungarnir settir frá völdum. Svo Guð þeirra sem þeir höfðu stuðst við þar sem menn lögðu til hliðar veldissprota og veraldarepli með krossi. Nú er það ekki lengur drottinn allsherjar sem ræður ferðinni heldur samfélagið með lýðræðiskjörnum fulltrúum. Nútímasamfélagið treystir ekki lengur á leiðsögn Guðs heldur á vísindalega þekkingu að sagt er. En er það ekki svo að þeir valdagráðugu sækjast eftir völdum eins og áður fyrr? Það hefur ekki orðið nein breyting á. Ef menn komast til valda þá freistast þeir til að misnota það. Það skiptir engu hvort menn flagga krossi eða stjörnum eða litaborðum á dýrðarferð sinni til valda. Eigum við að nefna bankastjóra eða þingmenn og ráðherra sem misnota aðstöðu sína? Eða eigum við að líta í eigin barm? Það á maður að gera á föstunni, líta í eigin barm, skoða sig í sálarspeglinum. Hver er ég? Horfast í augu við sjálfan sig undanbragðalaust. Horfast í augu við Guð og reyna að sjá hvort auglit hans lýsi við manni.

Kannski er það útúrdúr að rifja upp erindi sem ég hlustaði á á TED. Þar eru mörg áhugaverð erindi flutt. Eitt var um takmörk eðlisfræðinnar. Eru vísindamenn komir að mörkum þess sem vitað verður, spurði fyrirlesarinn. Ég verð að játa að ég fylgdi honum ekki alveg enda er ég bara guðfræðingur og enginn eðlisfræðingur. Samt kannaðist ég við spurningarnar frá því í heimspekilegu forspjallsvísindum, fílunni. Frumspekin er spennandi! Spurningin sem hann glímdi við var þessi: Hvers vegna er eitthvað frekar en ekki neitt? Hann talaði um eitthvað orkusvið sem hann nefndi einhverju flóknu nafni og það væri forsenda þessa að eitthvað væri frekar en ekki neitt. (Mér datt í hug orkan í Star Wars myndunum.) Ef það hyrfi þá værum við ekki framar né nokkur alheimur. Þarna fór mig að sundla og svima. Það þarf feiknar mikil tæki til að halda áfram rannsóknum eins og hraðagervilin í Sviss til að kanna þessi óramörk sem okkur eru sett. Kannski að Kínverjarnir hafi möguleika að halda rannsóknum áfram á þessu sviði.

Hvert hefur valdið leitt okkur og vísindaleg þekking? Eitthvað áfram eða aftur á bak? Hverju breytir það í raun að við getum lifað aðeins lengur. Sheakspeare varð 52 ára, Lúther náði svipuðum aldri, Jesús rúmlega þrítugur. Þeir áorkuðu miklu á stuttri ævi. Snýst lífið um það að koma einhverju í verk eða verða frægur eða ná völdum. Kannski þurfum við að venja okkur á auðmýkt þegar við skoðum söguna og þekkingarleit okkar.

Valdið var þarna líka á dögum Jesú. Hann var enginn valdamaður heldur tók hann stöðu með fólkinu. Í sannleika sagt held ég að hann kunni því frekar illa að vera skjól valdagírugra ofbeldismanna sama hvað öldin heitir, hvort sem það er nú á tímum eða á fyrri tíð. Ég held að það verður hin mesta skemmtun að sjá ofbeldis fantanna dregna fyrir hinn æðsta dóm. Æ, þetta hefði ég kannski ekki átt að segja! Þarna kom ég upp um mig hvernig ég hugsa, en við erum að skoða okkur í sálarspeglinum. Svona er ég. Hvernig ert þú?

3. Sálmar og bænalífið

Í Glerárkirkju á miðvikudagskvöldum stend ég fyrir fræðslu- og umræðukvöldum í febrúar um íhugun, bæn og föstu. Það er í tilefni föstutímans sem hefst í næstu viku. Passíusálmalesturinn er byrjaður fyrir nokkru. Hvað er að fasta? Matarfasta er hluti af því. Hvernig væri að neita sér um eitthvað og gefa fátækum það sem sparast. Nú er komið í gang verkefni í samstarfi við Hjálparstarf kirkjunnar Að gefa voninni vængi. Það eru söfnunarbaukar einn fyrir sjálfan sig til að spara fyrir einhverju og annar fyrir aðra sem eru þurfandi. Góð hugmynd það. Endilega fáið ykkur baukana. Ég á við söfnunarbaukanna ekki hina baukana á Norðlensku. Það mætti sleppa þeim á föstunni t.d. Hvernig væri að lesa Passíusálmana? Eða hlusta á þá á RÚV eða taka sér stund á hverju degi og biðja til Guðs þó að það væri ekki nema Faðir vor og svo eitthvert eigið andvarp frá eigin brjósti.

Síðasta miðvikudag fjallaði ég um Sálma og bænalíf. Það er ofarlega í huga mér. Kirkjan þarf að hasla sér völl að nýju á því sviði sem allir eru að gera það, á svið ræktunar og iðkunnar. Stundum fær maður það á tilfinninguna að kirkjan sé orðin svo andleg að hún er eintóm gufa. Jesús Meistari okkar var eitthvað allt annað eins og saga hans sannar. Hann stóð með fólki, tók þátt í trúarleit þeirra og iðkun. Svo leiðbeindi hann og hjálpaði. Kannski óttumst við þessa sögu svo skelfilega vegna þess að hún getur leitt okkur út í okkar eigin píslarsögu. Það fór ekki vel fyrir Martein Lúther siðbótarmanninum sem var hundeltur og ekki fór vel fyrir nafna hans Matein Lúther King mannréttindafrömuðinum eða Gutima Tumsa í Eþíópíu í baráttu sinni fyrir stöðu kirkjunnar í ríki kommúnismans, hann var líka drepinn. Er hún ekki skelfileg þessi tilvera að þeir sem koma auga að það sem er rétt og gott og taka upp baráttu fyrir því þeir eru drepnir? Hvað endurspeglar það? Hvað sérð þú í sálarspeglinum þá? Allt voru þetta bænarinnar menn sem leituðu Guðs en spurðu spurninga, leituðu sannleikans, þess sem réttara reynist.

4. Ljósið í glímu nútímans við Guð

Í dag höfum við sungið sálma sem beina huga okkur til Guðs og tjá trúartilfinningarnar mörgu sem bærast í brjósti þeirra sem taka þátt í þessari göngu sem trúin er, trúartraust, angur, iðrun, angist, þakklæti og undrun yfir lífinu. Það er ganga með Guði í bæn.  Á þeirri göngu spretta fram ótal tilfinningar bæði bjartar en líka þungar og erfiðar. Bænalífið er ríkt af tilfinningum.

Fyrir prédikun sungum / hlustuðum við á sálm eftir Aðalstein Ásberg Sigurðsson. Ég hlustaði á ótrúlega marga söngva eftir hann með börnunum mínum og hafði gaman af. Lífsreynslan kennir biðjandi manni að þekkja Guð. Í sálmum okkar hefur þú við höndina leiðbeiningar um að biðja. Það er lífstjáning, lífsmark kirkju og kristni í landinu, reynsla fólks, sem hefur gengið í gegnum sorgir, þjáningar og erfiðleika, en haldið í trúna, vegna þess að Guð snertir líf fólks í alvöru. Sálmarnir geyma slíkan reynslu, speglun í augum Guðs, tilfinningalegt litróf, að það er góð og traust leiðbeining fyrir mann.

Trúarglíman og erfiði og þungu tilfinningarnar er nauðsynlegt að tjá. Guð þolir alveg að við tölum við hann, þess vegna með tveimur hrútshornum, tjáum það sem býr okkur í hjarta. Það er enginn hætt á því að orkusviðið tilverunnar hverfi þó að við ávörpum Guð og kveinum aðeins í honum.

Þetta er svo sannarleg dæmi um glímu nútímans við Guð:

1. Það sækir að mér uggur og syrtir að í bráð.
Ég sé þig ekki lengur, hvar er þín mikla náð?
Ég geng um grýtta vegi
og glata minni trú,
í köldum kynjaheimi:
Hvar ertu, Guð minn, nú?

2. Ég treysti ekki lengur að takir þú við mér
og traðka því á öllu sem mönnum heilagt er.
Í gleymsku get ég horfið
en gleði skortir mig.
Hvað ertu, Guð, að gera?
Ég gleymdi´ að spyrja þig. 

3. En mitt í dagsins amstri ég mæti þér og finn
að mögulega varstu hér alltaf, Drottinn minn.
Í hjarta mínu heyri
ég hljóma orðin þín.
Með tregafullum tóni
þú talar enn til mín. 

4. Þú lýsir mér í dimmu og læknar hverja sorg.
Mig leiðir fram um vegu og ert mín trausta borg.
Mér undur lífsins færir
þá ást sem best ég skil.
Svo ef ég opna augun
þá ertu, Guð minn, til. 

Á eftir syngur svo kórinn angurljóð eftir sr. Sigurð Pálsson sem endurspeglar sorg hans eftir dótturmissir. Þú átt líka þitt ljóð og sálm í hjarta þínu. Bænin er þessi djúpa mannlega tilfinning: „Lausnari minn. Guð, sefaðu svíðandi hjarta, að sjái ég ljósið þitt barta, og gef mér þinn græðandi frið“. Sálmarnir hjálpa okkur að tjá þær tilfinningar sem við berum í brjósti til Guðs og heimsins. Það eru söngvarnir á göngunni sem styrkja okkur í trú.

5. Krossferill Krists og okkar

Það er sunnudagur í föstuinngangi og kirkjan tekur stefnuna á krossinn á Golgata. Við syngjum með Hallgrími Péturssyni: „Krossferli að fylgja þínum mér fýsir Jesú minn“. Amen.

Almenn kirkjubæn

Við syngja nú fyrirbænasálm Matthíasar Jochumssonar milli bænanna í almennu kirkjubæninni sem er nr. 509 í sálmabókinni. Það er kvöldbæn en það er allt í lagi að halla aftur augum og hvíla í trúartrausti hjá Guði. Biðjum saman með bænaversi Matthíasar:

Þú, Guð míns lífs, ég loka augum mínum
í líknarmildum föðurörmum þínum
og hvíli sætt, þó hverfi sólin bjarta,
ég halla mér að þínu föðurhjarta.

Ljóssins faðir lát okkur finna öryggi hjá þér. Kom til allra sem óttast dagana og framtíðina með ljós þitt og líf. Þú ert hirðirinn góði, Guð allrar miskunnar, faðirinn himneski sem þekkir börnin þín. Vertu með öllum sem ábyrgðarstörfum gegna. Gefðu þeim visku frá þér að land okkar og þjóð gangi á gæfuvegi. Fyrir Drottinn vorn Jesú Krist.

Æ, tak nú, Drottinn, föður og móður mína
í mildiríka náðarverndan þína,
og ættlið mitt og ættjörð virstu geyma
og engu þínu minnsta barni gleyma.

Guð kærleikans vak yfir fjölskyldum, börnum og ungmennum okkar að þau njóti ástar og umhyggju. Lát þau sem bera ábyrgð á uppeldi vera leidd af kærleika þínum. Vak yfir landi okkar sem þú hefur gefið og bjargræði okkar. Lát okkur fara vel með það og nýta okkur til heilla að komandi kynslóðir fái notið þess sem við. Fyrir Drottinn vorn Jesú Krist.

Ó, sólarfaðir, signdu nú hvert auga,
en sér í lagi þau, sem tárin lauga,
og sýndu miskunn öllu því, sem andar,
en einkum því, sem böl og voði grandar.

Ver hjá þeim sem eru á flotta frá stríði og ofsóknum, varðveit alla sem þjást og líða. Stöðva styrjaldir og ofbeldi að við megum bera þér vitni og gæsku þinni. Vertu með sjúkum og þeim sem lækna og líkna. Styrk þau í þjónustunni. Við minnumst þeirra sem sorgir þjaka og þeirra sem sofnaðir eru. Láttu ljósið eilífa lýsa þeim. Sendu okkur að líkna og þjóna eins og þú gerðir. Fyrir Drottinn vorn Jesú Krist.

Þín líknarásján lýsi dimmum heimi,
þitt ljósið blessað gef í nótt mig dreymi.
Í Jesú nafni vil ég væran sofa
og vakna snemma þína dýrð að lofa.

Eftir Guðmundur Guðmundsson

Héraðsprestur í Eyjafjarðar- og Þingeyjarprófastsdæmi

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

%d bloggurum líkar þetta: