Tíminn og eilífðin

Ræða flutt í Glerárkirkju við aftansöng á gamlársdag 2013. Textana má lesa hér. Guðspjallið er úr Lúk. 13.6-9. Tíminn og eilífðin er gjarnan íhuguð um áramót.

1. Inngangur:

Um áramót íhugum við gjarnarn tímann og eilífiðina.

Við erum tímans börn, bundin við tíma og rúm, settar skorður, sem við yfirstígum ekki, nema með hugarflugi okkar. Margar eru fantasíurnar sem lyfta okkur út fyrir rammann, en jafnharðan mætir okkur harður og kaldur raunveruleikinn.

Við horfumst í augu við hann um áramót. Ryfjum upp umliðið ár, það, sem á dagana hefur drifið. Sjáum á örskotsstund liðna atburði, sem oftar eru, ógnir, stríð, hörmungar, en auðvitað ljósgampar inn á milli. Ef fréttapistlunum er trúandi. Við erum eins og smáblóm í straumi aldanna með titrandi tár. Nagandi kvíði spyr og spyr: Hversu lengi getur mannleg tilvera okkar staðist? (Stórborgir okkar mergsjúga náttúruna.)

Heimsmynd Babýlóníumanna var þannig að þeir álitu tilveru manna vera eins og loftbólu í frumhafinu, vötnin undir, ógn tilveru okkar, jörðin, fjótandi skurn á reginhafi. Hvelfingin yfir okkur, átti að halda flóðgáttum himinsins lokuðum, en stundum opnuðust þær með flóðum og hörmungum. Við reynum að öfl yfir og undir okkur, allt í kring eru ógnarleg. Hugmyndir sem endurspeglast í sköpunarsögum Biblíunnar. Og reyndar í mörgum bíómyndum samtímans. Ógnin er aðsteðjandi, óttinn ekki  langt undan. Eflaust lýsir sú heimsmynd betur þessum örþunna lofthjúpi sem við lifum í mannkyn allt og þeim ógnaröflum sem yfir okkur vofir, en vélræn heimsmynd tæknihyggjunnar og sjálfsbirgingsháttarins, sem er enn ein fantasían um að við höfum þessa tilveru í okkar höndum og ráðum yfir henni, eins og hverri annarri vél.

2. Hversu lengi – en eitt ár?

Við erum minnt á eina af dæmisögunum í guðspjalli Lúkasar um áramót. Um víngrarðsmanninn og húsbónda hans. Garðyrkjumaðurinn vill reyna allt hann getur til að láta fíkjutréð bera ávöxt. Grafa að því og bera að áburð, láta það standa enn eitt árið.

Hversdagssagan úr landbúnaðinum verður að tilvistarsögu heimsins, minnir okkur á fyrirbæn Drottins fyrir heiminum öllum, umhyggju hans og ræktarsemi. Allt vill hann gera að heimur okkar standi.

Er það þá ekki ein fantasían í viðbót, að það sé hugur að baki tilveru okkar, sem vill okkur vel, þrátt fyrir allt og allt? Stöndum við ekki við vegginn, kaldan og harðan, tímans múr, sem ekkert hleypir í gegnum sig. Mörkin eru föst, reginhaf skilur að strendur lífs og dauða, engin kemst yfir mörkin, eins og segir í annarri dæmisögu Jesú í guðspjalli Lúkasar um Lasarus sem sat við dyr ríka mannsins. Samviskan nagar að við hefðum getað gert betur eða hefðum átt að láta eitthvað ógert eða ekkert að gert þegar það átti við að bregðast við. Verður okkur launuð gæskan eða er þetta allt tilgangslaust með öllu, loftbólan springur fyrir rest, hvort eð er.

Mannleg tilvist er ráðgáta, skilyrðin slík, við tímans múr, í ramma tíma og rúms, í straumi aldanna, eins og tappi á floti, að í hjarta okkar vakir spurningin um tilgang og trú. Auðvitað má svala sér á ýmsum nautnum lífsins um stund. En ráðgátan fer ekki.

Spurningin er og verður þessi: Kanntu að lesa miskunn Guðs og umhyggju í lífi þínu og tilverunnar? Það þarf að núllstilla okkur eða stilla okkur miðað við grunntón tilverunnar. Að öðrum kosti lifum við í fáránlegri tilveru og kristin trú ber ábyrgð á þeirri túlkun tilverunnar að nokkru leyti, vegna þess að hún gengur að mörkunum, lætur það ekki næga að gráta við tímans múr, eða lætur það ekki næga að láta sig hafa þjáninguna, lætur það ekki næga að sitja föst í hringrás, vegna þess að kristin trú vill meira, þar með leiðir hún okkur út á ystu nöf, rétt eins og frelsarinn stóð á þakbrún musterisins með djöfullega ögrun.

Íhugun kristinnar trúar er þessi: Miskunn Guðs og umhyggja birtist. Valdimar Briem var miklu meira skáld en hann vildi vera láta og samtími hans og guðfræðingur góður. Í Biblíusálmum sínum gengur hann inn í trúarlíf persóna Bibíusagnanna sem er sprottinn af djúpri samúð og guðstrú. Sá andi er í áramótasálminum sem við syngjum ár eftir ár: Nú árið er liðið í aldanna skaut Þar talar hann ljóst um þetta:

En hvers er að minnast og hvað er það þá,
sem helst skal í minningu geyma?
Nú allt er á fljúgandi ferð liðið hjá,
það flestallt er horfið í gleymskunnar sjá.
En miskunnsemd Guðs má ei gleyma.

Hún birtist og reynist sem blessunarlind
á blíðunnar sólfagra degi,
hún birtist sem lækning við böli og synd,
hún birtist þó skærast sem frelsarans mynd,
er lýsir oss lífsins á vegi.

Frelsarans mynd – birtir miskunn Guðs. Guð er handan við sköpun sína, hann er ekki bundinn tíma og rúmi, hann er ekki rammlega múraður inn í takmörk tímans, heldur lifir í eilífinni, frá eilífð til eilífðar, syngjum og segjum við í messugjörðinni í kirkjunni, ár eftir ár, öld eftir öld: „Fyrir þér er einn dagur sem þúsund ár…“ Hann birtisti í Kristi eins og guðspjöllin segja frá honum, í dæmisögum Lúkasar, nær geisli Guðs til okkar.

Hann kemur inn í loftbólu okkar og sköpun sína til að birta okkur annan grundvöll en öflin sem umlykja okkur og við höfum ekki tök á nema að mjög litlu leyti. Guð er sá sem öllu ræður en ekki öfl náttúrunnar, himingeimsins og mannlífsins. Hann er sá lífsins grundvöllur sem varir frá eilífð til eilífðar.

Ég hef skýrt það fyrir sjálfum mér með því að tala um fimmtu víddina, hina guðlegu vídd tilveru okkar. Við erum bundin í tíma og rúmi, út yfir það fáum við ekki stígið, þó að við reynum að þeytast um alla geima, náum við ekki að lifa við önnur skilyrði, þó að við gætum komist út í tímaleysi og tóm himingeimsins. Hæð, dýpt og breidd, þær þrjár víddir, eru okkar tilvera. En Guð er engin veginn háður þeim skilyrðum. Tíminn er okkar takmörk, háð jörðinni okkar, ferð hennar um himingeim í kringum sól í vetrarbraut meðal vetrarbrauta. Það er fjórða víddin. Guð er skapari þess alls og ofar mannlegum huga og merkilegt að við skulum ætla okkur að ná að hugsa eina hugsun af viti um Guð skaparann. Það vill til að við höfum geisla hans í huga okkar. Undrun ein lifir í sál minni þegar ég hugsa á þessum brautum.

En þá kem ég til sjálfs mín þegar ég hugsa um Jesú sem birtir Guð eins og hann er. Þá sé ég að hann ber umhyggju fyrir mér mannsbarni í himingeimi, börnum sínum á blá hnettinum, loftbólunni í reginhafinu, festi trú mína við hann, að hann leggur tilverunni grundvöll, með því að birtast mér sem pesóna, sem elskar. Það er fimmta víddin, hin guðlega, persónulega, Guð birtist mér sem persónu, sem getur átt samskipti við mig í bæn. Þannig kemur hann til mín.

Hátt yfir stjörnuhimin
hærra en augsýn nær,
djúpt inn í blámann bjarta
nær bæn til þín, Faðir kær.

Leit ég í ástaraugum
ómælisdjúpið það
sem að mér áður sýndist
í stjörnuvídd er ég bað.

3. Niðurstaða

Þess vegna álykta ég með Páli í pistli dagsins sem svo: Það er ekkert sem getur gert mig viðskila við kærleika Guðs. Og þannig megum við öllu hugsa hans vegna því að við erum börn eilífðarinnar fyrir hann, Drottinn okkar og frelsara:

Hver mun gera okkur viðskila við kærleika Krists? Mun þjáning geta það eða þrenging, ofsókn, hungur eða nekt, háski eða sverð? …
Nei, í öllu þessu vinnum við fyllsta sigur í krafti hans sem elskaði okkur. Því að ég er þess fullviss að hvorki dauði né líf, englar né tignir, hvorki hið yfirstandandi né hið ókomna, hvorki kraftar, hæð né dýpt né nokkuð annað skapað muni geta gert okkur viðskila við kærleika Guðs sem birtist í Kristi Jesú, Drottni vorum.

Dýrð sé Guði föður og syni og heilögum anda, svo sem var í upphafi, er og verður um aldir alda. Amen.

Takið postulegri blessun: Náðin Drottins vors Jesú Krists, kærleiki Guðs og samfélags heilags anda, sé og veri með oss öllum. Í Jesú nafni. Amen.

Published
Categorized as Ræður

Eftir Guðmundur Guðmundsson

Héraðsprestur í Eyjafjarðar- og Þingeyjarprófastsdæmi

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

%d bloggurum líkar þetta: