Upprisan í myndlist

Ræða sem átti að flytja í Akureyrarkirkju 7. apríl 2024.

Náð sé með ykkur og friður frá Guði föður okkar og Drottni Jesú Kristi.

Guðspjall Mark. 16.9-14 – 1. sunnudag eftir páska.

Þegar Jesús var upp risinn árla hinn fyrsta dag vikunnar birtist hann fyrst Maríu Magdalenu en út af henni hafði hann rekið sjö illa anda. Hún fór og kunngjörði þetta þeim er með honum höfðu verið og hörmuðu nú og grétu. 
Þá er þeir heyrðu að Jesús væri lifandi og hún hefði séð hann trúðu þeir ekki. 
Eftir þetta birtist Jesús í annarri mynd tveimur þeirra þar sem þeir voru á göngu á leið út í sveit. Þeir sneru við og kunngjörðu hinum en þeir trúðu þeim ekki heldur. Seinna birtist Jesús
þeim ellefu þegar þeir sátu til borðs og ávítaði þá fyrir vantrú þeirra og þverúð hjartans, að þeir hefðu ekki trúað þeim er sáu hann upp risinn. 

Getur tvö þúsund ára frásögn af upprisu manns frá dauðum eftir hrottalega krossfestingu haft einhverja þýðingu fyrir okkur á 21. öld? Hvernig má það vera?

1. Skynsemi

    Dálítið hættuleg spurning og hugsanir sem hafa haft meiri áhrif á menningu okkar en virðist í fyrstu. Talað hefur verið um óhugnanlega gjá milli okkar og fyrri tíma. Það hefur stuðlað að því að fólk hefur flúið inn í innri veruleika sinn til að láta sér líða vel og í mörgu misst tengingu við raunveruleikann eins og hann er. Sagan sé liðin og kemur aldrei aftur ekki frekar en árið í fyrra. 

    Engu að síður erum við hluti af mannkyni sem má líkja við fljót, lífsfljótið, sem streymir fram. Skynsemin hefur verið sett í öndvegi í vestrænni menningu og ekki ætla ég að fara að tala gegn gagnsemi þess. En það er ekki sama hvernig við beitum þessari góðu gjöf Guðs sem gefur okkur, að við teljum, nokkuð fram yfir dýrin. Við getum ályktað, greint og borið saman, þannig má sjá eitt og annað fyrir en ekki allt. Í íslenskum textum frá 19. öldinni kemur fyrir orðatiltækið „allt flýtur“ eða „af því  flýtur“, sem er þýðing á orðinu „gar“ á grísku, sem við þýðum „því“ eða „af því að“. Merkilegra en þetta er nú rökhugsun okkar, þetta litla orð, en þvílíkt afl og kraftur er ekki í hugsun. 

    Nú hafa menn beitt hugsun sinni á þessar frásagnir Nt og afskrifað þær sem óskynsamlegar. Menn rísa ekki upp frá dauðum eða það er ekki hluti af reynsluheimi okkar. Þess vegna álykta margir að þessar frásagnir eins og allar goðsagnir og mýtur eiga ekki heima í vísindalegu samfélagi okkar sem byggir á vísindalegri þekkingu. Í þeim hamförum sem skekið hafa landið okkar hefur verið talað á þessum nótum. Byggt hefur verið á þekkingu okkar bestu vísindamanna bæði varðandi Covid og eldgosin á Suðurnesjum. 

    2. Trúarhefð

    Stundum kvarta ég við Guð að setja mig í þessa stöðu að þurfa að útskýra upprisufrásagnirnar eins og guðspjall dagsins. Ég vil teljast skynsamur, rökfastur og helst dálítið vitur. En þið verðið að dæma um hvernig mér tekst til.

    Getur verið að goðsagnir, mýtur og trúarlegar frásagnir hafi að geyma einhverja visku. Í það minnsta hefur þessum frásögnum sem við lásum verið miðlað í tvö þúsund ár af kristinni kirkju. Og meir en það þær hafa verið tjáðar í ótal listaverkum, stórkostlegar byggingar hafa verið reistar til að geyma þessar frásagnir. Svo er þessi skari af prestum endalaust að segja þessar sögur. Er þetta bara vitleysa eða hafa þessar sögur einhverja þýðingu?

    Hugvísindamenn og textafræðingar hafa komist að því að þessi texti, guðspjall dagsins, sé viðbót við Markúsarguðspjall vegna þess að hana vantar í sum handrit, þ.e.a.s. ef það reynist rétt þá endar frásaga Markúsar með versinu: „Þær fóru út og flýðu frá gröfinni því ótti og ofboð var yfir þær komið. Þær sögðu engum frá neinu því þær voru hræddar“ (Mark 16.8). Það þykir nokkuð nútímalegur endir þar sem fólk er skilið eftir með spurningu og ráðgátu. Hin guðspjöllin eru svo með þessar frásagnir sem sagt er frá um Maríu Magdalenu úti við göfinni, konan, sem fyrst mætti Jesú upprisnum, Emmausförunum tveimur sem Jesús gekk með á veginum en þeir þekktu hann ekki fyrr en hann braut brauðið, og svo postularnir sem „trúðu ekki“ og Jesús ávítaði þá fyrir það þó að hann stæði fyrir fram þá. Þetta voru „þau sem sáu hann upprisinn”. Þetta er öfug virðingarröð miðað við það sem tíðkaðist, konurnar fyrst, svo lærisveinarnir og loks postularnir tólf.

    Við höfum sem sagt vitnisburð fólks um að Jesús reis upp frá dauðum og það er kirkjunni svo mikils virði að hún hefur haldið þessu fram í tvö þúsund ár. Haukur heitinn Ágústsson, prestur og kennari, hélt því fram að messan væri sú leiksýning sem hefði gengið lengst. Geri aðrir betur, sýningin hefur verið á fjölunum í nær tvö þúsund ár með metaðsókn á hverjum sunnudegi. Þar er persóna Jesú aðalpersónan sem er tilbeðin, orð hans eru rifjuð upp, sagt frá verkum hans, krossdauða og upprisu. 

    Horfið hér í kringum ykkur. Hér er sagan sögð í gluggum kirkjunnar. Hér er mynd af Jesú þar sem hann flytur fjallræðuna, kallar lærisveina sína til fylgdar við sig, píslarsagan, upprisan og uppstigningin.

    3. Reynsla

    Ég í visku minni skal ég viðurkenna að þetta er allt merkingarlítið þar til við nálgumst þessar sögur í bæn og íhugun. Guð er okkur leyndardómur vegna þess að hann er handan við tilveru okkar eða stendur ofar henni, sem skapari og endurlausnari. Ef við höfum bara veröldina er líklega réttasta ályktunin að ef Guð er til þá er hann ranglátur. (Þannig ályktaði Lúther í bókinni Um ánauð viljans). Mér finnst það mjög skiljanlegt að fólk sem hafnar öllum æðri veruleika endar þarna eða með slagorðinu, „Guð er dauður“. 

    Bæn er að nálgast Guð með alla neyð sína og úræðaleysi. Meir að segja þessar ályktanir þegar við stöndum frammi fyrir hörmungum á landsvísu og í heiminum, og einnig í persónulegu lífi okkar, þegar á móti blæs, þá áræðir biðjandi fólk að koma með það allt til Guðs. 

    Þá förum við að heyra þessar frásagnir á nýjan hátt. Þá mætir Guð okkur í Jesú Kristi eins og hann mætti Maríu Magdalenu, lærisveinunum og postulunum. Guði er svo annt um sköpun sína að hann yfirgefur hana ekki, hann elskar börnin sín svo mikið að hann í skírninni og sakramentinu gefst þeim, til að vera með þeim alltaf. Trúfesti Guðs er ofar okkar skilningi. Jesús hefur gengið í okkar dauða til að vera með okkur þar og gefa okkur von með sér þegar hann reis upp frá dauðum. 

    Eins og þið heyrið er ég bæði skynsamur að ég tel og trúaður á upprisuna Jesú Krists frá dauðum vegna þess að það er hluti af tilveru minni. Ég set allt mitt traust á Guð og nota svo allt sem hann hefur gefið mér honum til dýrðar, eða reyni það.

    4. Opinberun

    Trúin er ekki aðeins innri reynsla heldur beinist að Guði. Þýðing frásagnanna er sú að Guð hefur samband við okkur öll og hvert og eitt. Lífið er þetta allt sem hann hefur gefið okkur til þess að undrast og þakka. Ég tel að skynsamleg orð tjá ekki best undur lífsins sem upprisan er. Þar er listin betur til þess fallinn, tónlist og textar, eins og við höfum sungið í dag, en einnig myndlist, sem felur oft í sér táknræna merkingu.

    Málverk Maurice Denis, sem var kristinn málari, „Snertu mig ekki“, túlkar á táknrænan hátt, að upprisan er miklu meira en að maður reis upp frá dauðum. Ég var ekki nógu snöggur að láta útbúa fyrir mig nógu stóra mynd svo þið gætuð séð verkið. Svo ég tók mér fyrir hendur að mála það með vatnslitum og bleki í snarhasti með smá breytingum. Einhvern tímann verður þetta olíumálverk og stærra vonandi. Þetta er uppkast sem Denis gerði að steindum glugga, sem aldrei var gerður svo vel sem ég veit.

    Fyrst er það litadýrðin og línurnar í verkinu, sem túlka tilbeiðslu Maríu og kvennanna, þær sjást ekki á þessari eftirmynd nema rétt í eina þeirra fjögurra. Jesús er upprisinn í ljósi sem skín. Maríu krýpur í bæn. Það eru tengsl milli þeirra sem er aðalatriði trúarinnar að við megum vera börn Guðs, lærisveinar Drottins, fylgja honum, lifa eins og hann. Ljósið skín í gegnum okkar og breytir okkur til batnaðar, vonandi, um það skulum við biðja. Ég bætti við bláa hnettinum okkar í staðin fyrir blómabeð og lét lífsins tré spretta upp af jörðinni. Fyrirbæn okkar ætti að vera bæn um að hún megi blómgast með okkur. Ég mátti til með að gera myndina litríka nýkominn úr túlípanagarðinum í Hollandi. Öll gróskan og ávextirnir tákna það líf sem sprettur af þessum undarlegu frásögnum og hefur gert í gegnum aldirnar.

    Dýrð sé Guð föður og syni og heilögum anda, svo sem var í upphafi er enn og verða mun um aldir alda. Amen.

    Guðmundur Guðmundsson's avatar

    Eftir Guðmundur Guðmundsson

    Héraðsprestur í Eyjafjarðar- og Þingeyjarprófastsdæmi

    Færðu inn athugasemd