Guð má sjá víðar en maður heldur

Hugvekja á Lindinni 8. des 2025 (3)

Þegar heiðingjar, sem þekkja ekki lögmál Móse, gera það eftir eðlisboði sem lögmál Guðs býður, þá eru þeir sjálfum sér lögmál þótt þeir hafi ekki neitt lögmál. Þeir sýna að krafa lögmálsins er skráð í hjörtum þeirra með því að samviska þeirra ber þessu vitni og hugrenningar þeirra sem ýmist ásaka þá eða afsaka. Þetta verður á þeim degi er Guð dæmir hið dulda hjá mönnunum samkvæmt fagnaðarerindi mínu sem ég hef þegið af Jesú Kristi.” (Rómverjabréfið‬ ‭2‬:‭14‬-‭16‬)

Um daginn ræddi ég um að Guð væri í náttúrunni og að hann fæddist sem barn í Jesú. Í kristninni er talað um að Guð opinberi sig, birtist, stundum hugsa ég það þannig að tjald sé dregið frá, til dæmis eins og í leikhúsi eða bara að morgni dagsins þegar gardínurnar eru dregnar frá glugga og ljósið streymir inn. Getur það verið að kristið fólk hafi fengið einkarétt á opinberun Guðs? Eða gæti það verið að Guð birtir sig annars staðar t.d. í öðrum trúarbrögðum eða öðrum menningarheimum en okkar?

Nú, ef Guð birtist í náttúrunni, hvers vegna ekki í ólíkum menningarheimum eða öðrum trúarbrögðum en kristni? Það væri hrokafullt að ætla sig einan hafa höndlað sannleikann um Guð og hafa hann óskiptann og allann. Og ef Guð er ofar okkar hugsun þá er varla á valdi nokkurs manns að geta orðað Guð. Það hef ég talað um áður. Ég er farinn að hallast að því að hver einasta manneskja hefur tengsl við Guð með einhverjum hætti þar sem Guð er skapari okkar allra, þ.e.a.s. það er trúarjátning mín og í játning kirkjunnar stendur það. Ég get náttúrulega ekki farið að gera lítið úr trú og lífsskoðunum annarra með því að setja sjálfan mig á háann hest og fyrirlíta sannfæringu annarra. 

Aftur á móti þarf ég ekki að gefa eftir mína trú þó að aðrir hugsi og trúi öðru vísi en ég. Það væri að reyna að standa í lausu lofti, því eigin lífsgrundvöll er ekki ráðlegt að kasta frá sér. Auðvitað geta áherslur breyst með árunum og reynslu, jafnvel orðið kúvending, svo ég grípi til siglingamáls, ný stefna tekinn fram á við. Það þýðir ekki að maður hoppi frá borði og yfirgefi skútuna sína. Við erum nefnilega fullgildar manneskjur í samfélagi með öðrum. 

Það hefur hjálpað mér að gera mér grein fyrir því að Guð er Guð, og ég er ég, og aðrir eru ekki ég né gáfulegt fyrir mig að ætla að innræta öðrum mína lífsstefnu út í ystu æsar. Samfélag mitt við Guð er meðal annars spegill þar sem samviskan tengir mig Guði þegar hún er upplýst í Guðs orði en líka af visku aldanna og þekkingu nútímans um allt mögulegt og gáfulegt og mis gáfulegt. Kannski er til samviskulaust fólk og illmenni. Samt held ég að jafnvel það fólk hafi samvisku sem tengist Guði, því Guð talar til flestra innra með þeim í samviskunni. Það er ekki alltaf blíðlega sem Guð talar í samviskunni.

Orðið sam-viska er merkilegt. Viskan sem við eigum sameiginlega. Stundum hugsum við þetta eins og apparat innra með okkur eða við gætum kannski líkt henni við “app” sem leiðbeinir okkur í lífinu um það sem er gott og rétt. Þó held ég að það sé gagnlegra að líta frekar á samviskuna sem afrakstur samskipti innan samfélaga. Það reynir á samviskuna í samskiptum fólks og sú viska hefur verið mótuð í orð, sögur, frásagnir, boðorð, spekiorð o.s.frv. Í einu orði sagt í visku kynslóðanna og trúarhefðanna. Sú viska er ekki einkamál kristins fólks heldur er sam-viska. 

Auðvitað má segja að opinberunin í Jesú Kristi sé einstök en það sama má segja um Múhameð og Búddha svo við tökum einhver dæmi. Fylgjendur þeirra trúarhefða myndu vafalaust halda því fram og benda okkur á kjarnan í sinni trú og lífsskoðun. Fólk veit yfirleitt á hvað það trúir þ.e.a.s. á hvað það setur traust sitt í lífinu. Ég verð að láta Guð um að sjá í gegnum allan þann aragrúa af trúarafstöðu og lífsskoðunum sem eru á ferðinni meðal manna. Ég hef ekki vit til þess.

Eins og ég sagði áðan þá er ég ekkert á því að sleppa mínum lífsgrundvelli. Þegar ég fer að skoða það betur þá er lífsgrundvöllur minn ekki sannleikur sem mótaður er í orð. Mér er það ómögulegt að tjá hann fullkomlega. Það geri mér stundum erfitt fyrir því að rökræðan ein er ekki vænleg til árangurs til að hafa áhrifa á aðra eins og aðrir vilja hafa áhrif á mig. Það er yfir höfuð ekki meginatriði að hafa áhrif samkvæmt Kristi. Kristniboð snýst ekki um það heldur að vera öðrum kærleikur Guðs. Kristin trú er nefnilega persónur. Meir að segja þrjár persónur, faðir og sonur og heilagur andi eins og ég hef rætt um. Þegar Jesús fæðist sem barn er hann Guð kominn til okkar til þess að tengjast mannkyni öllu, hverjum einasta manna, vegna þess að hann lýsir því yfir að allir séu Guðs börn, elskuð, orðin til fyrir elsku, mótuð af elsku og með hæfileika til að elska og vera elskuð, með það mark og mið að elska. Það nægir að lesa tvöfalda kærleiksboðorðið til að átta sig á þessu og staðsetningu þess í guðspjallinu. Þá verður orðræðan öðru vísi. Þá má alveg hlusta á visku annarra trúarbragða og lífsskoðanna til þess að skoða hvernig sambandið við Guð tengist þeirri visku, samvisku manna. 

Svo nefnir Jesú með þetta í huga að ég tel að við mætum honum í minnstu bræðrum okkar og systrum. Við elskum ekki til þess að fá fólk til að slást í hópinn með okkur heldur elskum við aðra vegna þess að til þess erum við. Við erum ekki í fótboltaleik til að skora sem flest mörk heldur eigum við elska náunga okkar vegna Krists, vera öðrum kærleiki Krists. Trúin snýst meira um samskipti, kærleika, en orð. Þá förum við að sjá visku trúarbragða og lífsskoðanir annarra með nýjum hætti. Guð getur alveg verið þar á undan okkur og það liggur reyndar í augum uppi finnst mér. 

Við eigum ekki aðeins að tala um kærleika Krists heldur að vera öðrum kærleiki Guðs föður með hjálp sonarins og heilags anda. Amen.

Guðmundur Guðmundsson's avatar

Eftir Guðmundur Guðmundsson

Héraðsprestur í Eyjafjarðar- og Þingeyjarprófastsdæmi

Færðu inn athugasemd