Sálmurinn: Hátt yfir stjörnu himin

Sálmurinn minn Hátt yfir stjörnu himin hefur nú fengið endanlega útsetningu af laginu. Åshild Watne gerði lagið við textann minn á níunda áratugnum þegar við sungum saman í kór í Lille-Borg kirkjunni í Osló undir stjórn Jørn Fevang, organista og kórstjóra. Ég leitaði til hennar nú í haust að ganga frá útsetningu og árangurinn varð þessi gullfallega útsetning á laginu. Åshild Watne er nú dósent við tónlistarháskólan í Osló og hlaut alþjóðleg tónlistaverðlaun í samkeppni um sálma í tengslum við siðbótarhátína 2017. Það væri mér mikil ánægja ef einhverjir organistar og kórstjórar vildu nota það við helgihald.

Hátt yfir stjörnu himin,
hærra en augsýn nær,
djúpt inn í blámann bjarta,
nær bæn til þín, Faðir kær.
Leit ég í ástaraugum
ómælisdjúpið það,
sem að mér áður sýndist
í stjörnuvídd, er ég bað.

Jesús á okkar jörðu
jafningi manna er,
samt er hann öllum æðri
af englunum hæstu ber.
Leyndustu dóma lífsins
leit ég í augum hans,
ómælisdjúpið opnast
í ásjónu þessa manns.

Bænin er tal við bróður,
blessaðan Jesúm Krist.
Faðirinn börn sín blessar,
þau biðja af hjartans list.
Hátt yfir stjörnu himin,
hærra en augsýn nær,
djúpt inn í blámann bjarta,
nær bæn til þín, Faðir kær.

Tilefnið að sálminum var frásögn Evsebiusar á fyrstu öldum kristninnar af því hvaða áhrif það hefði haft á fólk að horfast í augu við Jesú. Frásagnirnar virðast hafa lifað lengi. Í guðspjöllunum er sögnin að sjá gegnum gangandi. Íhugun sálmsins er um það að trúin snýst um persónuleg samskipti við æðri veruleika, ljós, Guð, sem er nærri. Kaþólski kvennaguðfræðingurinn La Cugna gerir það að meginstefi kristinnar trúar. Föður (eða móður eða foreldri) hugtakið kemur á undan guðshugtakinu.

Guðmundur Guðmundsson's avatar

Eftir Guðmundur Guðmundsson

Héraðsprestur í Eyjafjarðar- og Þingeyjarprófastsdæmi

Færðu inn athugasemd