“Er hægt að vera kristinn og samtímis að vera nútímamaður? Hvernig í ósköpunum?”
Johannes Hoekendijk í The Church Inside Out. 81.
Nú gæti ég dottið í þá freistni að fara að útskýra hvað það er að vera kristinn. Það er búið að því í tvö þúsund ár eða svo. Samt held ég að svarið sé ekki komið fram. Þess vegna verðum við að byrja á hinum endanum: Hvað er að vera nútímamaður? Mér hefur alltaf fundist hugtakið skrýtið vegna þess að það hefur alltaf verið til nútímamaður, Sókrates, Aristoteles, Aquinas, Dostojevski, Kirkegaard, Camus. “Avant gard” á ensku tjáir það ágætlega, vera í takt við tímann, frumlegur, uppfinningarsamur o.s.frv. Svo eru farið að tala um að persónur sem eru ofvirkar og með athyglisbresti að þær séu oft á tíðum þau sem finna upp á nýungum. Ég finn mig þar. “Nútímamaðurinn” var í tísku um aldamótin 1900 og er það enn. Engu að síðu skulum við skoða hugtakið aðeins betur.
Við eigum aðeins líðandi stund. Svo eigum við margar spurningar? Lífið er sjálft okkur leyndardómur sem við ráðum í með spurningum og tilraunum til svara. Síðasta svarið er nútímalegast en alltaf vaknar nýjar spurningar með nýjum aðstæðum. Þess vegna er spennandi að lifa nema þegar tilveran reynist okkur einum of yfirþyrmandi sem gerist alltaf öðru hvoru, (t.d. á stríðstímum). Þá verða spurningarnar brennandi og ögrandi, fullar af þjáningu, ef ekki myrkri. Einhvern tímann las ég í ritskýringu Nýja testamenntisins um lokakafla Markúsarguðspjalls að það væri nútímalegur texti. Talið er að bætt hafi verið við guðspjallið síðar svo guðspjallamaðurinn, ef við aðhyllumst þá skoðu, endar það með því að segja frá konunum sem fóru frá tómri gröf Jesú á páskadagsmorgni með “ótta og mikill gleði” (Mark 16). Ef við höllumst að slíkri skilgreiningu þá er nútímamaðurinn með spurningar en fá svör í “ótta og mikilli gleði”.
Er ég nútímamaður? Ég hef eytt ævi minni í að segja gamla sögu, boða fagnaðarerindið um Jesúm Krist, sem ég kalla Drottinn og frelsara. Og ég get gengið enn lengra aftur á bak og metið arfinn frá Móses og boðorðin tíu. Þau eru varla nútímaleg og þó. Fyrsta boðorðið er miklu róttækara en margan grunar. Hugsunin um Guð einan. Þá á ég ekki við eingyðistrú heldur traustið á Guði einum sem er meira en skilgreining á almáttugum, algóðum og alvitrum Guði. Það eru vitrænar lýsingar á því sem er ekki hægt að lýsa enda liggur ályktunin í loftinu og spurningin: Hvernig getur algóður Guð gert svona vonda sköpun og ógeðfellt mannkyn, fólk sem drepur hvert annað? En fyrst þetta, Guð einn. “Drottinn segir… : Ég er Drottinn Guð þinn, þú skalt ekki aðra Guði hafa” (5. Mós). Það gleymist oft að á undan boðorðunum kemur: “Ég er Drottinn Guð þinn, sem leiddi þig út af Egyptalandi”. Guð Jesú Krists er ekki guð heimspekinganna heldur Guð sem gerir eitthvað, meðal annars skapar veröld og við þekkjum enga aðra veröld nema við eigum draum um eitthvað betra. Guð deilir þeim draumi með okkur. Guð á hlut í þeim draumi um eitthvað betra. Það er sem sagt freslun frá ríkjandi ástandi. Það er þó nútímalegt.
Ég rekst aftur og aftur á þessa hugsun hjá hugsandi guðfræðingum eins og Thomas Keating og Johannes Hoekendijk sem vakti máls með þessari spurningu sem ég er að glíma við. Það er hugsunin um frelsi, að Guð vilji frelsa eða jafnvel að Guð sé að frelsa, því hefur hann lofað. Þannig að Guð einn er í framtíðinni en okkur mætir ekki tóm og myrkur þegar fram líða stundir. Það er von í kristnum skilningi og við vitum hvað er betra af einhverjum undarlegum ástæðum þó að við deilum náttúrulega um það. Þó svarið sé á reiki þá er persóna á bakvið tilveruna sem vill eitthvað, vill okkur vel. Þess vegna held ég að Hoekendijk endi þennan kafla þar sem spurninguna er að finna með þessum orðum:
Perhaps you are beginning to wonder what all this means. May I therefore suggest that we listen in conclusion to a simple word of Pascal: “The true wellbeing of the church: when she cannot count on anything anymore but God’s promise.”
Mér er sem sagt óhætt að vera bæði nútímamaður og kristinn vegna þess að ég vil frelsi ekki bara með því að vera óánægður með allt og alla heldur vegna þess að ég vil velferð fyrir alla og leggja mitt af mörkum.
Thomas Keating orðar þessa hugsun í bæn í minni þýðingu:
Von er ekki að vænta að hlutirnir batni í framtíðinni. Það er ekki dyggð guðfræði vonarinnar. Guðfræði vonarinnar byggist á Guði einum sem er óendanlega miskunnsamur og óendanlega kraftmikill núna. Þetta er formúlan til að dýptka og efla dyggðina sem fólgin er í guðfræði vonarinnar með takmakalausu trausti til Guðs. Láttu það gerast sem á sér stað og taktu því sem heldur áfram að gerast. Taktu á móti öllu sem er. Gangtu inn í augnablikið sem á sér stað með innihaldi þess… Guðlegur kraftur er á fleygi ferð framhjá okkur hverja einustu millisekúndu tímans. Af hverju ekki að teygja sig eftir honum með því stöðugt að snúa aftur, sleppa takinu og treysta á Guð?