Hvernig birtist Guð í mannlegu lífi?
Nú er það þannig að fólk sér ekki Guð eins og við sjáum hvert annað í mannheimum. Samt er það svo að sumir fullyrða að Guð hafi birst þeim. Nóg að nefna Múhameð og Jesú. Þeir voru nefndir spámenn, ekki í merkingunni að geta sagt fyrir óorðna hluti, heldur hitt að þeir töldu sig hafa boðskap frá Guði. Þá eru margir minni spámenn sem flytja okkur boðskap um allt mögulegt og ómögulegt bæði frá fyrri tíð og í nútímanum. Það eru margir álitsgjafarnir á samfélagsmiðlunum. En ekki getur það verið boðskapur frá Guði?
Við getum svo sem ekki útilokað það. Guð er ekki háður ákvörðunum okkar eða skoðunum. Það væri að gera lítið úr Guði. Guð er frjáls í sjálfum sér, annars væri Guð ekki Guð, heldur hugdetta manna. Við eigum því miður ekki nógu stóra hugmynd um Guð sem passar utan um Guð. Við getum hugsað það besta og bætt við Guð er betri. Við getum ryfjað upp mesta kærleika sem við höfum notið í mannheimi og bætt við Guð elskar heitar og innilega. Samt höfum við ekki náð gæsku Guðs né kærleika hans nema að litlu leyti.
Ég tel það vera þannig að allt gott er frá Guði. Þegar við njótum lífsins með öðrum er Guð að veita okkur dýrmæta reynslu. Þegar við horfumst í augu við þau sam elska okkur sér Guð okkur og við njótum nærveru Guðs. Guð er nær en sólargeislin sem skín á okkur. Guð er nær en barnið sem við föðmum að okkur. Guð er nær en okkar eigin hjartsláttur.
Stundum hef ég leikið mér við þá hugsun að skipta út orðinu Guð, vegna þess að við höfum oft svo skrýtnar hugmyndir um Guð, sem hindra okkur í að nálgast Guð og tengjast Guði. Hugsaðu um það sem skapar traust og öryggi í lífi þínu. Þar held ég að þú ert að nálgast merkinguna í orðinu Guð. Eða hugsaðu um kærleikan sem umvefur þig í mannlegu félagi en líka í gæludýrinu þínu eða þegar þú gengur út í náttúrunni, sköpun Guðs, eða þegar þú borðar góðan mat af gnægtarborði eða færð eitthvað sem seður hungur þitt. Þá er Guð að elska þig og láta þig finna fyrir sér.
Jesús notaði oft orðið hjarta. Við myndum kannski nota orðið tilfinningar í staðinn. Kærleikur er tilfinning, einn af ávöxtum andans, segir í Nýjatestamentinu. Traust er annað tengslaorð, sem ég hef kallað svo. Guð merkir tengsl við það innsta og innilegasta í lífi okkar, traust og kærleika. Því miður hættir flestum til að venjast lífinu og hætt að taka eftir þessu sem skiptir mestu máli til að njóta, þá á ég við að LIFA, með höfuðstöfum.
Haldið þið að Guð sem er kærleikur, sem er öryggið og traustið í lífinu, vilji að við missum af LÍFINU, sem Guð hefur gefið okkur. Guð er persónulegur á þennan hátt um leið og hann er hátt upp hafinn yfir mannlega tilveru hrærist hann í lífinu.
Þá komum við að því skrýtnasta af öllu. Guð gerðist maður í Jesú Kristi. Guð kom inn í mannlegt líf sem einn og ein af okkur. Hefur þú áttað þig á hvað það þýðir? Guð sem er svo hátt upp hafinn og mikill þannig að við getum eiginilega ekki gert okkur almennilega grein fyrir hvað Guð er kemur sem maður og birtist mönnum. Þau horfðust í augu við hann, snertu hann, borðuðu með honum, hlustu á hann og sá allt það góða sem hann gerði fólki. Þannig hefur Guð tengst okkur á innilegasta og mest óhugsandi hátt. Enda gat engum dott þetta undir í hug að Guðs skyldi birtast í mannheimi á þennan hátt. Fæddist sem ómálga barn, lifði með okkur, dó og reis upp, til þess að tengast hverju og einu okkar frá eilífð til eilífðar. Amen.