Guð sem leyndardómur

Hlusta á hugvekjuna:

Hugvekja flutt á Lindinn 12. ágúst 2025

Getum við vitað eitthvað endanlega um Guð eða guðdóma? 

Það væri svo miklu þægilegra ef Guð væri skilgreindur með 21 setningu eða svo. En það er með Guð eins og svo margt annað í tilveru okkar að endanleg skilgreining virðist ekki vera fáanleg. Þar nálgumst við kannski skilgreiningu á Guði. Guð er ekki höndlanlegur. Guð er leyndardómur. Mörgum finnst það óþolandi. Kirkjusagan hefur að geyma margar trúarjátningar þar sem fólk hefur tekið sér slíkt vald að skilgreina Guð næstum niður í minnstu frumeindir, eins og Guð væri rétt einn hluti af veruleika okkar. Auðvitað er Guð það en samt eitthvað annað — eitthvað allt annað en efni og form. Slíkar tilraunir eru sprottnar að hluta af slíkri óþreyju. 

Lífið eins og það blasir við okkur er meira að segja ráðgáta. Reyndar dásamlegur leyndardómur sem heillar marga. Til dæmis þegar við horfumst í augu við nýfæddan einstakling. Eða þegar einhver náttúru undur blasa við okkur eins og sólmyrkvi eða eldgos. Það er eins með lífið og Guð að það duga engar skilgreiningar aðeins að LIFA, VERA OG NJÓTA. 

Máluð æting og þrykk, bátar við Mombasa

Mín reynsla er að fólk hefur frekar öfgafulla afstöðu gagnvart Guði. Annað hvort hafi Guð allt vald á himni og jörðu eða þá að Guð sé alls ekki til. Svo eru allskonar millitónar í skoðunum fólks. Þá er gagnlegt að hugsa Guð sem leyndardóm. Guð ER einfaldlega og það er holl nálgun að mínu viti. Ég get ekki höndlað Guð né skilgreint. Má vera að Guð hafi eitthvað með mig að gera. Þannig nálgast ég Guð vegna þess að ég set traust mitt á Guð, t.d. að Guð heyri bænir mínar og sé mér nálægur allar stundir. Ef ég hugsa sem svo að ég geti rúmað Guð í huga mínum þá er ég varla að lengur að fást við Guð heldur aðeins mínar hugmyndir um Guð. Það er alls ekki það sama. 

Nú væri það freistandi að slengja fram enn einni skilgreiningunni á Guði, þ.e.a.s. minni. En þá fell ég í sömu gryfju og ég er gagnrýna aðra fyrir. Samt verð ég að viðurkenna að eitthvað er hægt að segja um Guð, annars væri það merkingarlaust að tala um Guð. Get ég látið mér nægja að tal mitt og annarra um Guð sé aðeins að nálga veruleika sem er ekki endanlega höndlanlegur en samt hægt að orða. Það á kannski við margt annað í lífinu eins og ástvin. Ég get sagt eitthvað fallegt um hann eða við hann án þess að ætla að orð mín skilgreini hann nákvæmlega þannig að viðkomandi verði orð mín. Það væri að leggja álög á ástvinin sem er ekki fallegt eða ein mynd ofríkis eða ofbeldis. 

Ég hef mikið hugleitt þrenningarlærdóminn að Guð faðir sendi soninn og heilagan anda til heimsins. Það er kannski ágætt dæmi um Guð sem leyndardóm. Nú hafa guðfræðingar skrifað mikið um þessa kenningu og deilt um hana gegnum tíðina og sitt sýnist hverjum. Sumir hafa líka skrifað margra binda trúarfræði út frá þessari kenningu. Sú skopsaga varð til að Guð hafi beðið í ofvæni að einn þessara guðfræðinga kláraði verkið svo Guð gæti vitað hvað hann ætti að hugsa um sjálfan sig. 

Hugsunin um þríeinan Guð má rekja aftur til Nýja testamentisins. Við höfum signinguna til að minna okkur á þennan leyndardóm um Guð. En hann snýst ekki aðeins um orð heldur veru Guðs að svona er Guð. Ekki svo að þetta hafi með kyn að gera heldur tengsl. Faðir og sonur gæti alveg eins verið móðir og dóttir. Svo svífur heilagur andi allt um kring. Orðin tengja okkur við þríeinan Guð, okkur er boðið inn í þetta samfélag, til að vera með. Og það er kærleikur sem streymir frá Guði milli persóna guðdómsins og við megum njóta til að deila. Kærleikur er meira en orð en birtist líka í orðum og nær til okkar og snertir okkur djúpt. Við lifum af kærleika, erum umvafinn kærleika, njótum kærleika, vegna þess að hann er bæði orð og verk, og raunveruleiki. 

Þannig vil ég líta á trúarjátningar sem orð sem tengja okkur við æðri mátt, Guð eða ljós.

Published
Categorized as Skrif
Guðmundur Guðmundsson's avatar

Eftir Guðmundur Guðmundsson

Héraðsprestur í Eyjafjarðar- og Þingeyjarprófastsdæmi

Færðu inn athugasemd