Hér er þýðing mín á inngangi að morgunbæn úr Common Book of Prayer með litamerkingum sem mig langar til að útskýra. Ég tel þetta vera dæmi um kröftuga bæn:
Við erum saman komin, fjölskylda Guðs,
frammi fyrir himneskum föður okkar
til að (1) lofa hann og (4) þakka,
heyra og tileinka okkur heilagt orð hans,
bera fram fyrir hann
(3) neyð heimsins,
(2) biðja um
fyrirgefningu hans á syndum okkar,
og leita náðar hans,
að við fyrir son hans Jesú Krist
megum taka þátt í þjónustu hans í heiminum.
Kröftug bæn réttláts manns megnar mikið” (Jak. 5, 16).
Bæn og tilbeiðsla tel ég vera forsendu lifandi kirkju. Orð D. Bonehoffer styðja það um að bæn og rétt breytni séu meginatriði kristinnar trúar.
Þessi hvatningarorð í upphafi bænastundar þýddi ég og aðlagað úr Common Book of Prayer. Það er bænabók ensku biskupakirkjunnar eða anglikönsku kirkjunnar. Hún er ágætt dæmi um kraftmikla bæn. Hún er það ekki í sjálfu sér, kraftur bænarinnar er ekki spurning um hávaða biðjandans eða röksemdafærslur, heldur er krafturinn Guðs.

Aftur á móti eru í henni ákveðin grundvallaratriði sem Matteus guðspjallamaður kennir um tilbeiðslu og tilfinningar sem er að finna í fyrstu bænabók kristinna manna, Davíðssálmum. Á bænastund sá ég allt í einu þetta samhengi. Ég hef gaman af litum svo ég hef greint atriðin í sundur með mismunandi litum.
”Við erum saman komin, fjölskylda Guðs”
Guð safnar kirkjunni saman. Kirkjan er samfélag um Guð eins og Jesús kenndi okkur að þekkja hann (Matt. 18). Þegar ég horfi yfir svið kristninnar botna ég ekki í því að svona ólíkt fólk með jafnvel andstæðar lífsskoðanir og sem lifir við gjörólíka menningu geti safnast saman um sama fagnaðarerindi. En eftir hugleiðingar þau ár sem ég hef starfað í kirkjunni hef ég komst að þeirri niðurstöðu að það er munur á trú og gildismati. Trúin er trúartraust til Guðs og snýr að hjarta hvers einstaklings, enda á hvert einasta mannsbarn sitt einstaka samband við Guð. Kærleikurinn fer í raun eftir menningu og lífsskoðun fólks. Þess vegna hefur kærleikurinn svo ólíkar birtingamyndir. Eflaust finnst einhverjum þessi skýring ófullnægjandi á mannlegri tilverun. En fjölbreytileikinn blasir við og ég klóra mér á bak við eyrað, botna ekki í þessu að hann geti verið svona fjölskrúðugur. Ég verð í auðmýkt að láta Guði eftir að útskýra fjölbreytileikann. Næsta atriði getur reyndar hjálpað okkur til að skilja samfélag kristninnar í fjölbreytileika veraldarinnar sem er og verður okkur ráðgáta.
”frammi fyrir himneskum föður okkar”
Samfélagið er frammi fyrir Guði himneskum föður okkar. Því miður er íslenska ekki eins og finnska. Finnska þekkir ekki kyn svo það er ágætt að hugsa eins og Finni. Við erum ekki að tala um kyn heldur foreldri, þess vegna bæði móður og föður. Lífið frammi fyrir Guði er í tilbeiðslu. Fjallræðuna tel ég fjalla um tilbeiðslu. Í henni miðri er Faðir vor, bæn Drottins. (Matt. 5-7). Einstakt samband hverrar manneskju við Guð er innra samtal hennar við Guð sinn og sjálfan sig. Það er bæn í dýpsta eðli sínu hvort sem það sé í kyrrlátri nærveru eða brennandi ákalli í neyð. Í hjarta hverrar manneskju er forsenda fyrir samfélagi við Guð. Guð er um leið skapara lífsins sem dafnar aðeins þar sem kærleikurinn fær að dafna og vaxa. Guð hefur gefið okkur leiðbeiningar um að lifa saman í orði sínu og það er næsta atriði.
“heyra og tileinka okkur heilagt orð hans”
Guð hefur talað, ekki aðeins með orðum, heldur með því að vera nálægur í syni sínum, Jesú Kristi. Guð gerðist manneskja eins og við, undir sömu kjörum, en hefur með því sprengt þann þrönga ramma sem líf okkar er innan. Sumar biblíuútgáfur hafa orð Jesú og ræður með rauðu letri. Þegar svoleiðis útgáfur eru skoðaðar sér maður að stór hluti guðspjallanna eru orð Drottins. Dæmisagan um sáðmanninn og ræðan í framhaldi af henni slær inn taktinn um orð Guðs (Matt. 13). En það sem meira er eru að verk hans staðfesta orð hans, sem sagt guðspjallið birtir okkur Guð eins og hann er í raun. Það er vitnisburðurinn sem kirkjunni er trúað fyrir.
”fyrir son hans Jesú Krist”
Kirkjan vitnar ekki um sjálfa sig að hún sé frábær og fólk sem tilheyri henni sé betra en annað fólk, því hún er veik og breisk, eins og heimurinn allur, en hún vitnar um frelsara sinn sem hefur komið til hjálpar, tekið sér fullkomna stöðu með mannkyni öllu. Með þann boðskap er kirkjan send til heimsins (Matt. 10). Það er ekki vinsælt hlutverk að halda þessu fram en fagnaðarerindi fyrir þeim sem taka við því. Vitnisburðurinn er ljós í heiminn komið. Í gegnum bresti kirkjunnar trúum við því sem fylgjum Drottni að ljósgeislar Guðs nái að skína en ekki aðeins í kirkjunni heldur alls staðar þar sem kærleikurinn fær að sigra.
”megum taka þátt í þjónustu hans í heiminum”
Í Matteusarguðspjalli heyra vitnisburðurinn og þjónustan saman. Orð án verka virka ekki (Matt. 22-25). Það dugir ekki fyrir kirkjuna að brosa framan í heiminn og vera með fagurgala ef hún gengur ekki inn í þá þjónustu sem Jesús kallar hana til á hverjum tíma, kærleiksþjónustu og fórn í jákvæðri merkingu, sem er að standa með þeim sem eru á jaðri samfélagsins, hlusta og heyra rödd þeirra. Ef kirkjan fylgir þannig Drottni sínum verður bros hennar sannfærandi og þá verða orð hennar og verk til að lyfta fólki upp úr neyð og erfiðleikum. Þá komum við að tilfinningahliðinni, ekki í merkingunni unaður, heldur í merkingunni heilbrigt bataferli í mannlegum samskiptum.
Bæn og tilbeiðsla þarf að einkenna kirkjuna.
Við komum saman til að “(1) lofa Guð og (2) þakka”. W. Bruggerman talar um ferli trúarinnar frá undrun og lofgjörð til dýpri reynslu af Guði sem leiðir okkur til þakklætis. Davíðssálmar verða torskildir þangað til við sjáum þetta ferli í þeim og reyndar á það við Biblíuna alla. Trúartilfinningarnar eru að undrast sköpun Guðs og allt sem við okkur blasir annars vegar og hins vegar að eftir að hafa mætt erfiðleikum að þakka, angri og jafnvel angist eða staðið með þeim jaðarsettu og ef til vill fengið bátt fyrir eða jafnvel orðið að gjalda fyrir það að berjast fyrir réttlæti. Eða lent í því að þakka fyrir náð Guðs fyrir litlu sigrana eða jafnvel ósigra en hafa notið návista Guðs í gegnum erfiða reynslu. Þá vitum við hvað þakklæti er.
Kristin trú er nefnilega ekki flótt frá raunveruleikanum heldur tenging við raunveruleikann eins og hann er. Kirkjan er kölluð til að bera fram fyrir Guð (3) neyð heimsins. Besta skilgreiningin á bæn að mínu mati er að bæn sé að ákalla Guð í allri neyð. Svo að við kristið fólk höfum nóg að gera með öll bænaefnin sem blasa við okkur en að biðja þýðir ekki að loka sig af í myrkrakompu með alla neyð heimsins á herðum sér heldur biðjum við í trú á upprisinn Drottinn. Þannig komum við fram fyrir Guð með alla neyð. Við höldum nefnilega áfram frá bæninni til heimsins. Næsta skref er að (2) “biðja um fyrirgefningu hans á syndum okkar, og leita náðar hans”. Það er í hugsunum, orðum og gerðum, vegna vanrækslu, veikleika og eigin vonda ásetningi, eins og segir í syndajátningu seinna í Common Book of Prayer. Þannig hefur Kristur kennt okkur að vera ærleg við okkur sjálf til þess að við séum heiðarleg við samferðafólk okkar. Þannig getum við í kirkjunni orðið öðrum ljós og styrkur með því að vera raunveruleikatengd í bæn og réttri breytni. Þannig verður bænin kraftmikil og vekur von um að lífið sigri.