Hugsun og veruleiki

Ég rakst á þetta ljóð í fórum mínum og var að hugsa stíft. Það hitti í mark, merkilegt að rekast á gamlar eigin hugsanir og þær hjálpa manni að höndla tilveruna eða öllu heldur að sleppa því að höndla tilveruna og leyfa sér það að vera höndlaður. Það skiptir kannski meira máli þegar á reynir. Hér er ljóðið: Hugsun og veruleiki. Kannski er það „post-moderniskt“ eða afríkanskt, veit það ekki og það er allt í lagi. Myndin er gamalt olíumálverk af Sunnu frænku minni sem mér fannst passa vel við ljóðið.

Hugsun og veruleiki,
hvernig tengist hugsun mín
raunveruleika tilverunnar?

Ég geri mér hugmynd um hlutina,
ég bý mér til hugsun um hugmyndirnar,
svo tengi ég saman með rökum
og tel mig hafa höndlað
raunveruleikann.
En er það svo?

Svarar hugsun mín til veruleikans
eða er ég alltaf að reyna
án þess að geta náð
að tengjast,
finna sannleikann.

Samt lifi ég raunveruleikann,
er hluti af honum,
án þess að höndla hann með hugsun minni.

Guð, það nægir mér,
að þú ert,
raunveruleikinn er sköpun þín,
hugsun mín brot af viti þínu,
sem þú hefur lagt
í listaverk þitt,
mig sem hugsa og sköpun þína.

Guðmundur Guðmundsson's avatar

Eftir Guðmundur Guðmundsson

Héraðsprestur í Eyjafjarðar- og Þingeyjarprófastsdæmi

Færðu inn athugasemd