Ræða við messu í Glerárkirkju 21. febrúar 2016 sem var 2. sunnudagur í föstu. Guðspjallatextinn var Mt. 15.21-28 um Kanversku konuna en ég dvaldi aðallega við Lexíuna úr Gt. 1Mós 32.24-30. Sá texti fer hér á eftir:
Jakob varð síðan einn eftir og maður nokkur glímdi við hann uns dagur rann. Þegar honum varð ljóst að hann gæti ekki sigrað Jakob sló hann á mjöðm hans svo að hann gekk úr augnakörlunum er þeir glímdu. „Slepptu mér,“ sagði maðurinn, „því að dagur rennur.“ „Ég sleppi þér ekki nema þú blessir mig,“ svaraði Jakob. „Hvað heitir þú?“ spurði maðurinn. „Jakob,“ svaraði hann. Þá mælti hann: „Ekki skaltu lengur heita Jakob heldur Ísrael því að þú hefur glímt við Guð og menn og unnið sigur.“ Jakob sagði við hann: „Segðu mér nafn þitt.“ Hann svaraði: „Hvers vegna spyrðu mig nafns?“ Og hann blessaði hann þar. Jakob nefndi staðinn Peníel, „því að ég hef,“ sagði hann, „séð Guð augliti til auglitis og þó haldið lífi.“
Þetta er einn dularfyllsti og magnaðisti texti Gamla testamentisins að mínu viti og mátti ég til að glíma við hann í þessari ræðu. Þá setti ég saman almenna kirkjubæn þar sem sungin var sálmur eftir Matthías Jochumsson, einn af hans merkilegur bænasálmum. Bænarinnar maður var hann.
Ræða
Náð sé með yður og friður frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Kristi.
1.
Stundum glími ég við son minn. Hann æfir júdó svo ég á fullt í fangi með hann. Þú hefur ábyggilega glímt einhvern tíman, ef ekki slegist, kannski í alvöru upp á líf og dauða að þér fannst.
Í dag lesum við um glímu Jakobs. Það er dularfullur texti og ekki auðskilinn. Samt skiljum við hann með hjartanu, vegna þess að öll eigum við í glímu. Lífið reynist öllum glíma á einhverju tímaskeiði. Þannig er það!
Biblían er ótrúlega raunsæ þó að hún segi frá því sem okkur finnst stundum ævintýralegt. Jakobsglíman er hluti af átakasögu bræðra. Þeir voru synir Ísaks Jakob og Esaú en þeir tókust á og Jakob hafði með svikum náð betri stöðu í fjölskyldunni og þegar Jakobsglíman á sér stað er Esaú að nálgast ána þar sem glíman átti sér stað. Glíman stendur alla nóttina uns dagsbrún rís.
Hvað segir það okkur? Þetta er innri glíma Jakobs við Guð vegna þess sem hann hefur gert. Það er glími hans við óttan, samvisku sína og ógæfuna sem blasir við honum. Bróðir hans er að ná fram hefndum og fer með liði á móti honum. Er það eitthvað sem þú óttast? Hræðist þú það að líf þitt snúist í ógæfu og óhamingja verði hlutskipti þitt? Getur verið að þú hafir gert eitthvað sem þú telur víst að leiði þig á ógæfuspor?
Þú átt eins og ég og Jakob í glímu við Guð. Það er ekki lítill þáttur í því að vera manneskja, lífsglíman. Margir reyna að forðast að horfast þannig í augu við lífið. Auðvitað erum við mismundandi. Sumir virðast komast í gegnum lífið svo slétt og fellt en aðrir eru í stöðugri glímu. En það er þroskandi að takast á við lífið og við ættum ekki að forðast það heldur að gangast við því að stundum er lífið átakanlegt ef ekki háskalegt.
Afþreyingarmenning, skjámenning og sóðamenning nútímasamfélagsins lætur allt verða svo slétt og fellt að það virðist ekkert vera að. Svo lendum við í glímu og þá erum við allt í einu ein, öðru vísi og jafnvel litin hornauga, vegna þess að við erum ekki eins og hinir. En það er blekking. Við erum að blekkja okkur sjálf, þekkjum hvorki okkur né hina, ef við höldum að lífið sé eins og amerísk bíómynd eða seríur.
Taktu glímuna við Guð! Það er áskorun sem leiðir þig að kjarna lífsins, því sem skiptir máli. Hún gefur þér þekkingu á Guði og sjálfum þér um leið og heiminum. Með þeirri þekkingu sem glíman gefur þér verður þú kannski betri manneskja, líkari því sem Guð vill. Hver veit?
2.
Það er föstutími. Litur kirkjuársins er fjólublár til að minna okkur á að Jesús gekk inn í lífsglímu mannkynsins og um leið með fólki og dó á krossi fyrir það.
Jakob hafði betur eða hvað? Hver var það sem vann glímuna við ána? Jakob heimtaði að Guð blessaði hann og Guð blessaði hann. En Jakob vildi ná fullnaðarsigri með því að fá nafn þess sem barðist við hann um nóttina en það fékk hann ekki. Hann gerði sér bara grein fyrir því að lífsglíma hans var glíma hans við Guð. Hann sagði „því að ég hef séð Guð augliti til auglitis og þó lífi haldið“. Hann er meiddur eftir átökin en reynslan er honum meira virði og hann nær sáttum við bróður sinn daginn eftir.
Við viljum síður horfast í augu við alvöru lífsins. Óvinsældir kirkjunnar er að einhverju leiti vegna þess að hún er svo alvarleg. Þannig á það að vera. Einhver verður að segja sannleikann. Jesús sagði okkur sannleikann um okkur sjálf og meira en það hann er okkur sannleikurinn um Guð. Glíma þín og tímans er við Guð. Jafnvel guðleysingin er að takast á við Guð þó að hann neiti því að hann sé til. Það breytir ekki grundvelli tilveru okkar sem er Guð.
Um það snýst glíman að Guð blessi okkur, lýsi okkur sæl. Mér finnst það merkilegt að í fyrstu ræðu Jesú þá lýsir hann okkur sæl: „Sælir eru fátækir í anda, því að þeirra er himnaríki“ (Mt. 5.5). Glíman fer fram í bæn. Nútíminn hefur gleymt hvað það er. Ástæðan er að guðsleysisöldin hefur troðið þeirri þekkingu inn hjá okkur að það er ekkert nema heimurinn. Guð er ekki til ef ekki dauður. Það öskra menn upp í himininn og halda að hann hverfi með því.
Menn vilja ekki eiga góðan Guð fyrir himneskan föður vegna þess að hann getur þá gert kröfu til okkar. Menn vilja verða frjálsir og engum bundnir, glápa á sinn skjá, skemmta sér, njóta og hrifsa til sín. Þá er betra að eiga upphaf í frumsprengingu og þá getur maður sprengt alla ramma og farið sínu fram í samræmi við eðli tilverunnar. Er ekki einhverjar siðferðilegar forsendur gefnar með þeirri hugsun? Þarna er glíma nútímans við sjálfa sig.
En guðleysinginn biður eins og þau sem trúa: Guð hjálpi mér! Ekki með þeim orðum kannski en hjartað er hjálparþurfi, týnt og óttast að glatast. Það er lífsglíman sem engin kemst undan. Það er sama hvað maður hleypur langt eða reynir að fela sig. Guð spyr alltaf: Hvar ertu barnið mitt?
Í þessari fyrstu ræðu sinni kennir Jesús okkur að biðja. Hann kennir okkur Faðir vorið. Aftur og aftur talar hann um himneskan föður. Guð er hvorki karl- né kvenkyns. Það er okkar veruleiki. Hann er foreldrið, hann kannast við okkur börnin sín, þekkir okkur, vill okkur vel, ekkert nema það besta. Það kennir Jesús og segir okkur. Þegar við erum að reyna að ráðskast með Guð, jafnvel í bænum okkur, þá kennir hann okkur að hann vill okkur vel. Hvaða foreldri gæfi barni sínu stein ef bæði það um brauð? Guð þekkir hvert hár á höfði þér.
Hvers vegna var Jesús að segja það? Jú, til þess að þú myndir trúa í lífsglímu þinni að handan við heiminn er Guð sem elskar. Þegar við játum að Guð skapaði himinn og jörð, þá erum við að játa því að handan við allt er Guð sem við getum ávarpað og sem talar til okkar í sköpuninni, í veruleika okkar, vill okkur vel. Það er kærleikur í grunni tilveru okkar en ekki tóm. Þess vegna megum við tala til hans. Þú þarft ekki skjá til þess annan en þitt eigið hjarta, ekki pumpuna, heldur innst í þér er tenging við Guð. Þess vegna kennir Jesús þér að biðja til Guðs að leiða þig ekki í aðstæður sem þú ræður ekki við, frelsa þig og alla menn frá illu.
3.
Það er sigur að ganga á þeim vegi.
Tvö dæmi vil ég nefna um lífsglímu. Við sungum áðan sálm Matthíasar Jochumssonar eða þýðingu hans: „Við freistingum gæt þín og falli þig ver“ (Sb. 124). Hann hafði lært það af móður sinn að treysta á Guð. Líf hans var í háskanum. Missti tvær elskulegar konur í dauðann og sálufélaga. Barðist heilshugar fyrir frelsi þjóðarinnar. Þjónaði fátæku fólki eins og þegar hann fór að hugga ekkjuna með barnaskarann. Elskulegur eiginmaður fallinn frá, fyrirvinnan, allt á vonarvöl hjá þeirri fjölskyldu. Hann stóð fyrir söfnunum fyrir fátæka og sveltandi í þeim hörmungum sem gekk yfir landið. Þá orti hann „Volaða land“ og fékk bágt fyrir en hann orti líka „Íslands þúsund ár“. Í þessum sálmi ljómar í gegn trúartraust þess manns sem hefur glímt við Guð og haft sigur, þ.e.a.s. Guð hefur reist hann við, horfst í augu við hann, gert hann að manni:
Gakk öruggur rakleitt
mót ástríðuher,
en ætið haf Jesú
í verki með þér.
Hitt dæmið er konan í guðspjalli dagsins. Jesús var á ferð um Sýrland, kannski ekki alveg svo norðarlega, en í áttina í byggðum Týrusar og Sídonar. Þá kom kona sem var ekki gyðingur og hrópaði á hjálp, bað hann að hjálpa sér, því að dóttir hennar var veik. Hún fór með miskunnarbænina: „Miskunna þú mér, Drottinn“. Þá bæn biður kirkjan í hverri messu. Við hrópum á hjálp með þessari konu. Hún kannaðist við að Jess var gyðingur en hún hafði fest traust sitt á hann, „sonur Davíðs“, sagði hún. Þetta er einn af þessum erfiðu textum í Biblíunni og sérstaklega á konudegi. Það er eins og Jesú hafni bæn hennar og lærisveinar hans vilja vísa henni burtu. En hún bað því ákafar og veiddi Jesú í orðum, snilld, myndum við segja: „En hundarnir fá brauðmolana af borði húsbændanna“. Mikið leggst hún lágt! Við skiljum ekki! Hvers vegna er farið svona með fólk í neyð þeirra? En Jesús hjálpaði henni. Og meir en það þessi heiðna kona fær hæstu einkunn hjá Jesú „mikil er trú þín“. Lærisveinar hans fengu oft lægri einkunn „þér trúlitlir“.
Hvað segir þetta okkur? Trúir þú því að í grunni tilveru okkar er Guð sem elskar? Reyndu ekki að skjóta þér undan lífsglímu okkar tíma heldur „gakk öruggur móti ástríðuher“ til að hjálpa í trú og kærleika eins og Drottinn þinn. Guð hjálpi okkur, blessi okkur, að okkur farnist vel.
Dýrð sé Guði föður og syni og heilögum anda, svo sem var í upphafi er enn og verða mun um aldir alda. Amen.
Almenn kirkjubæn
Við syngja nú fyrirbænasálm Matthíasar Jochumssonar milli bænanna í almennu kirkjubæninni sem er nr. 509 í sálmabókinni. Biðjum saman með bænaversi Matthíasar:
Þú, Guð míns lífs, ég loka augum mínum
í líknarmildum föðurörmum þínum
og hvíli sætt, þó hverfi sólin bjarta,
ég halla mér að þínu föðurhjarta.
Ljóssins faðir lát okkur finna öryggi hjá þér. Kom til allra sem óttast dagana og framtíðina með ljós þitt og líf. Þú ert hirðirinn góði, Guð allrar miskunnar, faðirinn himneski sem þekkir börnin þín. Vertu með öllum sem ábyrgðarstörfum gegna. Gefðu þeim visku frá þér að land okkar og þjóð gangi á gæfuvegi. Fyrir Drottinn vorn Jesú Krist.
Æ, tak nú, Drottinn, föður og móður mína
í mildiríka náðarverndan þína,
og ættlið mitt og ættjörð virstu geyma
og engu þínu minnsta barni gleyma.
Guð kærleikans vak yfir fjölskyldum, börnum og ungmennum okkar að þau njóti ástar og umhyggju. Lát þau sem bera ábyrgð á uppeldi vera leidd af kærleika þínum. Vak yfir landi okkar sem þú hefur gefið og bjargræði okkar. Lát okkur fara vel með það og nýta okkur til heilla að komandi kynslóðir fái notið þess sem við. Fyrir Drottinn vorn Jesú Krist.
Ó, sólarfaðir, signdu nú hvert auga,
en sér í lagi þau, sem tárin lauga,
og sýndu miskunn öllu því, sem andar,
en einkum því, sem böl og voði grandar.
Ver hjá þeim sem eru á flotta frá stríði og ofsóknum, varðveit alla sem þjást og líða. Stöðva styrjaldir og ofbeldi að við megum bera þér vitni og gæsku þinni. Vertu með sjúkum og þeim sem lækna og líkna. Styrk þau í þjónustunni. Við minnumst þeirra sem sorgir þjaka og þeirra sem sofnaðir eru. Láttu ljósið eilífa lýsa þeim. Sendu okkur að líkna og þjóna eins og þú gerðir. Fyrir Drottinn vorn Jesú Krist.
Þín líknarásján lýsi dimmum heimi,
þitt ljósið blessað gef í nótt mig dreymi.
Í Jesú nafni vil ég væran sofa
og vakna snemma þína dýrð að lofa.
Játum synir okkar og lifum í sátt og friði við alla menn.
Altarissakramenti.