Tímamót

glerarkirkja_tunglskinRæða flutt á nýjársdag 1996 út frá texta dagsins Lk. 2.21. Þar er borið saman mismunandi hugsun um tímann sem hringrás eða framrás. Að kristnum skilningi er mark og mið tímans Jesús, nafnið hans helgar framrás tímans til Guðs ríkisins. Það breytir miklu.

Inngangur

Það eru tímamót. Eitt ár mætir öðru. Við teljum árin sem líða. Það hefur ekki alltaf verið þannig. Í eina tíð voru árin miðuð við ríkjandi konunga og keisara eins og við þekkjum úr jólaguðspjallinu: „… um þessar mundir … kom boð frá Ágústus keisara … þá er Kýreníus var landstjóri á Sýrlandi“ o.s.frv. Tíminn var miðaður við þá sem ríktu á hverjum stað. Sumir halda því fram að tímarnir endurtaka sig. Við erum undirorpin eilífri endurtekningu. Hringrásin heldur áfram, sólin gengur sinn hring, árin koma og fara. Sú hugsun liggur í eðli lífsins eins og það blasir við mannlegum augum. Við fæðumst, ævi styttist með hverjum degi sem líður, börnin fæðast, foreldrar hverfa af sjónarsviðinu, svo kemur að burtfarardeginum mínum og þínum. Við hverfum eins og árið sem líður í aldanna skaut og þau koma aldrei aftur. En mannkynið heldur áfram. Afkomendur halda áfram lífsgöngunni. Þau halda áfram að telja árin og setja þau í einhverjar skorður. Við þessa ráðgátu lifum við.

Þó er um hver áramót í kirkjunni rétt úr hringnum. Hringrásin er teygð milli eilífðar og eilífðar svo út úr því kemur bein lína. Tímatal kristinna manna er miðað við persónu því að eitt augnablik í sögu heimsins var Guð hér. Jesús hét sú persóna sem tímatal okkar miðar við. Með því er sagt að sagan fyrir hans tíma stefndi til hans og árin eftir hans tíma ganga út frá honum, ár bætist við ár, þar sem hann gengur með okkur, er hér, Guð okkar, eilíft ljós. Hans tíma leið ekki, honum lauk aldrei, því að með honum varð augnablikið eilíft, augnablikið og ævin sem þú lifir með Guði þínum. Nafnið hans, Jesús, merkir frelsari. Hann frelsar okkur undan eilífri hringrás, gefur lífi okkar nýja stefnu. Við kristnir menn höfum með því að láta tímatal okkar miðast við hann gefið til kynna að nú er hans tími, hann er Drottinn Guð okkar, sem allt stefnir til. Það er minna mál að talnaspekingarnir töldu skakkt sem falið var verkið, hugsunin stenst, að tíminn er bein lína, frá eilífð til eilífðar, sem snýst um eina persónu, Jesú. Það er hugleiðingarefni okkar um þessi áramót hvernig það má vera.

Útlegging

Andstæð skoðun er okkur í blóð borin eins og ég nefndi. Okkur er miklu tamara að hugsa lífið sem hringrás en línu. Frumstæð eða frumlæg trúarbrögð hafa ekki langt tímaskyn, líðandi stund er mikilvægust og næstu þrjár kynslóðir á undan. Árin falla í gleymsku þar sem ekkert er skráð, þó geymast frásagnir, nýrri og eldri. Þær eru tímalausar. Í þannig menningarheimi muna menn illa fæðingarárið sitt, enda skiptir það ekki svo miklu máli. Þeir tilheyra ákveðinni fjölskyldu, ætt og þjóðflokki. Í Afríku er til yndislegt orðatiltæki: „Tíminn stendur í stað á meðan maður situr“. Þessar frumstæðu skoðanir eru okkur miklu rótgrónari en við höldum. Sögurnar af forfeðrum okkar og mæðrum, blandast hetjusögum fornaldar með mátulegum skammti af kímni, fólkið sem farið er á undan okkur lifir í minningunni, í nöfnunum, sem koma aftur og aftur. Þjóð fljótsins, hindúar, hafa hringrásina til grundvallar í sinni hugsun. Menn fæðast aftur og aftur eftir breytni sinni í fyrra lífi. Þeim eru það fjötrar sem erfitt reynist að komast undan. Hjól tímans veltur áfram. Búdda, hinn upplýsti, kenndi mönnum leið til að komast úr þessum viðjum endurtekningarinnar, með því að íhuga. Frelsunin að hans mati var að losna úr fjötrum langana og girnda, þá losnaði maður úr endurtekningunni, sameinaðist alheimssálinni, slokknaði sjálfur eins og kerti.

Það verður að teljast rétt að lífskjör okkar eru að mörgu leyti háð endurtekningunni. Sú hugsun er að finna hjá Prédikaranum í Biblíunni þegar hann segir: „Það sem hefir verið, það mun verða, og það sem gjörst hefir, það mun gjörast, og ekkert er nýtt undir sólinni“ (1.9). Prédikarinn sýnist mér vera einn þeirra manna sem hafa reynt að ráða í lífsgátuna. „Öllu er afmörkuð stund“, segir hann, „og sérhver hlutur undir himninum hefir sinn tíma. Að fæðast hefir sinn tíma og að deyja hefir sinn tíma“ (3.1-2). Í þeim hugleiðingum kemst hann að niðurstöðu: „Allt hefur (Guð) gert hagfellt á sínum tíma, jafnvel eilífðina hefir hann lagt í brjóst þeirra, aðeins fær maðurinn ekki skilið það verk, sem Guð gjörir, frá upphafi til enda“. Hann kemst að þeirri niðurstöðu að lífið allt er aumasti hégómi. Það eina sem vit er í er að gleðjast yfir því smáa: „Indælt er ljósið, og ljúft er fyrir augun að horfa á sólina“ (11.7). Það er þó ekki þar með sagt að menn eigi að láta eins og fífl og fara með lífið sitt eins og vél. Prédikarinn með öðrum höfundum í Biblíunni rýfur vítahringinn, leiðir okkur fram fyrir Guð, það er viskan að óttast hann. Orð sem eiga vel við um áramót: „Gleð þig, ungi maður, í æsku þinni, og lát liggja vel á þér unglingsár þín, og breyt eins og hjartað leiðir þig og eins og augun girnast, en vit, að fyrir allt þetta leiðir Guð þig fyrir dóm“. Hér er engin leiðindapúki að tala sem hefur yndi af að eyðileggja gleðina. Nei, hann hvetur til glaðværðar, ánægju og gleði yfir því sem Guð hefur gefið. Bendir á með listrænu myndmál að ellin kemur óhjákvæmilega, þegar sjónin daprast – „sólin myrkvast og ljósið og tunglið og stjörnurnar“, tönnum fækkar – „kvarnstúlkurnar hafast ekki að, af því að þær eru orðnar fáar“, lífið endar – „silfurþráðurinn slitnar og gullskálin brotnar og skjólan mölvast við  lindina og hjólin brotna við brunninn og moldin hverfur aftur til jarðarinnar, þar sem hún áður var, og andinn til Guðs, sem gaf hann.“ (11,9-12.8). Það er viska Guðs að lifa þessa afmörkuðu stund okkar, gleðjast frekar en gremjast, njóta í stað þess að misbrúka, allt frammi fyrir Guði. Það er eilífðarvíddin sem hann ætlar okkur að lifa í.

Hin eilífa hringrás fær ekki staðist eftir vilja Guðs. Guð hefur í Kristi sett tilverunni nýtt mark og mið eða réttara sagt birt okkur hugsjón sína með veröldina. Í dæmalaust hversdagslegri frásögn segir Jesú dæmisögu um mann sem átti fíkjutré gróðursett í víngarði sínum. Hann fann enga ávexti á trénu. Þá segir hann við garðyrkjumanninn sinn: „Í þrjú ár hef ég nú komið og leitað ávaxtar á fíkjutré þessu og ekki fundið. Högg það upp. Hví á það að spilla jörðinni?“ Garðyrkjumaðurinn mælti með því að láta tréð standa enn eitt ár: „Herra, lát það standa enn þetta ár, þar til ég hef grafið um það og borið að áburð. Má vera það beri ávöxt síðan. Annars skaltu höggva það upp“. (Lk. 13.6-9). Þetta er texti gamlársdags. Þar settur okkur til íhugunar á tímamótum. Garðyrkjumaðurinn táknar Jesú sjálfan. Hann biður veröld okkar vægðar, hún stendur hans vegna, ef verða vildi að hún bæri Guði ávöxt. Kristur segir margt um það að tíminn hefur sín endalok, ekki aðeins í lífi hvers manns, heldur veröldin á sér mark og mið að bera Guði ávöxt. Tilveran er ekki klukka sem gengur hring eftir hring heldur líf í hendi Guðs sem á sér upphaf og endi.

Það sem ég á við er að Guð sjálfur gengur inn í sögu okkar, gerir hana að sinni, lifir með okkur um stund til að sýna okkur hjarta sitt í varnarlausu barni, í Meistara sem játaðist því að vera konungur konunganna, en átti þó ekkert, nema kyrtilinn sem hann stóð í. Orð hans og breytni sýna okkur Guð. Hringrás tímans er rofin, eilífðin er stíginn niður, sá tími sem við lifum á sér eilífðarvídd, á sér upphaf og endi, tímanleg erum við, eigum þó eilíft líf í Guði. Guð kemur til okkar sem persóna, Jesús Kristur, tími okkar og líf miðast þar með við hann, er í honum.

Það er erfitt að útskýra leyndardóm Guðs eins og víða er komið orðum að í bréfum postulanna. En það er lofgjörðarefni alstaðar. Jesús merkir frelsari. Er það einhver frelsun að losna úr eilífri hringrás? Mér er nær að spyrja hvort það sé hjálp í því að vera bjargað úr hringiðu? Það að við eigum að standa skil á lífi okkar á efsta degi gerir okkur ábyrg. Það er einkenni kristindómsins. Við erum frammi fyrir augliti Guðs, undan því verður ekki litið, ekki eina stund. Það er sú reisn sem Guð gefur hverju mannsbarni. Um leið gefur hann okkur allt með sér. Við þurfum þess ekki með lengur að keppa eftir velþóknun hans. Hann hefur velþóknun á okkur vegna Krists. Guð lítur til okkar eins og værum við hans einasta barn. Í trú á Jesú Krist eigum við barnaréttin, megum kallast Guðs börn. Það er hugsun Guðs, ákvörðun hans með líf okkur, það ráð, sem tími okkar snýst um. Þá sleppir tíminn sínu örlagavaldi sem við getum engu haggað. Þá hættir tíminn að vera ógnarfljótið sem dregur okkur að feigðarósum, vegna þess að tími Jesú er runninn upp. Hann ræður tímanum í eilífð sinni. Það er ekkert hér í heimi sem getur gert okkur viðskila við kærleika Guðs, ekkert er til sem getur staðið milli Guðs og þín lengur. Í trúnni eigum við lífið eilífa. Við stígum út úr tímans rás þegar við göngum Guði á hönd, treystum honum fyrir lífi okkar, felum okkur honum, sem gefur eilíft líf.

Tvö dæmi vil ég taka til að styðja þessa skoðun. Við eigum sálmaskáld sem var mjög frumstæður eða réttara sagt frumlægur í trúarafstöðu sinni. Matthías Jochumsson stóð eins og prédikarinn með líf sitt frammi fyrir Guði sem opna und, tjáði Guði og mönnum sínar dýpstu tilfinningar í þeim sporum. Í nýjárssálminum Hvað boðar nýárs blessuð sól? eins og svo víða annars staðar íhugar hann hringrás lífsins, andstæðurnar óskiljanlegu, líf og dauða: „hið minnsta happ, hið mesta fár, hið mikla djúp, hið litla tár“. Það er í ljósi Guðs að hann sér nýjárssólina sem bjarma af Guðs ríki sem kemur þar sem ekki er tár, sorg né dauði. Hann sér persónuna sem lýsir af dýrð Guðs, sér „Guðs son (sem) forðum gekk um kring“. Hann ályktar út frá því:

Ó, sjá þú Drottins björtu braut,
þú barn, sem kvíðir vetrar þraut.
Í sannleik, hvar sem sólin skín
er sjálfur Guð að leita þín.

Því hræðst þú ei, þótt hér sé kalt
og heimsins yndi stutt og valt
og allt þitt ráð sem hverfult hjól,
í hendi Guðs er jörð og sól.

Þetta er sú trú sem hefur skilið tímamót sögunnar. Sagan er ekki lengur hringrás, endurtekning, örlagavald, höfundur sögunnar er stíginn fram á sviðið, talar, sýnir sig, svo ekki verður um villst að handan við mannkynssöguna okkar, er kærleiksríkur Guð, sem elskar þrátt fyrir allt og allt.

Hitt dæmið sem ég vil taka er að keisararnir í Róm óttuðust kristindóminn vegna þess að þeim fannst hann gera vesalingum samfélagsins allt of hátt undir höfði. Þrælahaldinu var stefnt í uppnám. Hin kalda skynsemi segir okkur að samfélag sem byggir á sjónarmiðum kristindómsins fær ekki staðist fjárhagslega, félagslega og menningarlega. Gott og vel. Gerumst fátæk, en varðveitum kristindóminn, kærleikann, umhyggjuna fyrir meðbróður og -systur. Þá blasir við okkur ásjóna Guðs yfir komandi ári, samfélag okkar ber honum vitni, sem er höfundur lífsins.

Guð rífur eilífa hringrás tímans með komu sinni í Jesú Kristi til þess að líf okkar fái sitt eiginlega mark og mið, líf með Guði, það eru hin stóru tímamót mannkynssögunnar sem við minnum okkur á um hver áramót sem líða. Hvert ár leggst við þá stund er nýi tíminn rann upp, tíminn sem miðast við nafnið Jesú.

Heimfærsla

Það er ekkert nafn æðra en nafnið Jesús. Í því nafni sjáum við Guð sem frelsar. Það er ekki frelsi sem menn eiga heldur er þeim gefið. Það varir við frammi fyrir Guði hverja stund en er horfið um leið og menn ætla að misbeita því sjálfum sér til hagsbóta og framdráttar. Þú átt frelsið í trú á Jesú Krist. Í þeirri trú lýsir nýjárssólin yfir þér. Trú er að leggja sig, líf og hvaðeina í hendur Guðs, lifa þar og hrærast. Þá mega hjólin snúast sem þau vilja, hringrásin halda áfram, fljótið fellur að ósum, en úr þeirri hendi má ekkert hrífa trúaðan mann. Það er bæn í Jesú nafni. Þá verður hvert augnablik eilífðarstund eins og ég orða í þessum lífsglaða sálmi:

Hver dagur er dýrmæt gjöf
sem Drottinn gefur þér
með fjölda tækifæra.
Já, alltaf er náð hans ný
og nærvera hans er
sem morgunsólin skæra.

Hver stund verður stórkostleg
sem starfar þú fyrir hann
í sköpun hans af hjarta,
því gleði þín snýst um Guð
sem gæsku verkið vann
og bjó þér framtíð bjarta.

Niðurlag

Göngum til móts við nýtt ár í Jesú nafni til heilla fyrir samfélag okkar. Dýrð sé Guði, föður og syni og heilögum anda, svo sem var í upphafi, er og verður um aldir alda. Amen.

Published
Categorized as Ræður

Eftir Guðmundur Guðmundsson

Héraðsprestur í Eyjafjarðar- og Þingeyjarprófastsdæmi

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

%d bloggurum líkar þetta: